Mál nr. 111/2014
Mál nr. 111/2014
Fimmtudaginn 17. nóvember 2016
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.
Þann 18. nóvember 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 5. nóvember 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.
Með bréfi 21. nóvember 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 25. nóvember 2014.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 2. desember 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Andmæli kærenda bárust með bréfi 15. desember 2014.
Andmæli kærenda voru send umboðsmanni skuldara með bréfi 15. desember 2014 og óskað afstöðu til þeirra. Umboðsmaður skuldara tilkynnti með tölvubréfi 29. janúar 2015 að ekki væri tilefni til að bregðast við andmælum kærenda.
I. Málsatvik
Kærendur eru fædd 1933 og 1936. Þau eru gift og búa í eigin húsnæði að C.
Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 13. júlí 2011, eru 39.512.709 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2008 og 2009 vegna fasteignakaupa.
Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína til hækkandi afborgana lána og ábyrgðarskuldbindinga. Þá hafi þau ekki lengur möguleika á að afla sér frekari tekna sökum aldurs.
Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 25. nóvember 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. júlí 2011 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 26. september 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í bréfi umsjónarmanns greinir frá því að frumvarp til greiðsluaðlögunar hafi verið sent kröfuhöfum 20. ágúst 2014. Íslandsbanki hf. hafi mótmælt frumvarpinu og vísað til þess að kærendur hefðu verið í greiðsluskjóli í fjögur ár án þess að leggja nokkuð fyrir. Umsjónarmaður óskaði eftir skýringum kærenda en þær hafi ekki borist innan þess frests sem veittur hafi verið. Kærendur hafi ekkert lagt fyrir í þau fjögur ár sem þau hafi notið greiðsluskjóls og því brotið gegn a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 9. október 2014 var þeim kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Þá var kærendum jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur svöruðu ekki bréfi umboðsmanns.
Með ákvörðun 5. nóvember 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og að þau fái heimild til greiðsluaðlögunar að nýju.
Í kæru kemur fram að í byrjun nóvember [2014] hafi aðstandendur kærenda sent umboðmanni skuldara skýringar á því af hverju þau gátu ekki lagt fyrir á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana en þá hafi embættið þegar verið búið að taka ákvörðun í málinu. Fram kemur að kærendur séu ellilífeyrisþegar sem eigi við heilsubrest að stríða. Fjárhagsvandamál þeirra hafi lagst þungt á þau og hafi heilsu þeirra hrakað í kjölfarið. Kærendur kveðast vera heiðarlegt og skynsamlegt fólk sem óski þess að fá lausn á sínum málum.
Í bréfi aðstandenda kærenda til umboðsmanns skuldara 30. október 2014 kemur fram að kærendur séu orðin öldruð og eigi við veikindi að stríða. Þá er aðstæðum kærenda lýst og kemur meðal annars fram að sökum veikinda annars kæranda hafi framfærslukostnaður aukist mikið, þ.m.t. kostnaður vegna lyfja og læknisheimsókna, auk matar- og fatakostnaðar. Fram kemur að kærendur hafi reynt að leggja fyrir af launum sínum en vegna óvæntra aðstæðna hafi þau oft og iðulega þurft að ganga á þann sjóð.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.
Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara, sem fram komi í bréfi embættisins til kærenda 9. október 2014, hafi greiðsluskjól þeirra staðið yfir í 45 mánuði en í útreikningum umboðsmanns skuldara sé miðað við tímabilið frá desember 2010 til september 2014. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft 16.547.139 krónur í tekjur á tímabilinu. Miðað við 240.328 krónur í framfærslukostnað á mánuði hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 7.905.179 krónur á tímabilinu.
Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 367.714 krónur í meðaltekjur á mánuði á 45 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er þau nutu greiðsluskjóls.
Kærendur kveðast hafa staðið straum af auknum lyfjakostnaði á tímabilinu vegna veikinda, alls 55.000 krónur á mánuði, samtals að fjárhæð 2.475.000 krónur fyrir allt tímabilið. Kærendur hafi þó ekki lagt fram gögn sem sýni fram á þennan kostnað og skýringar þeirra veiti aðeins upplýsingar um hluta þess fjár sem leggja hefði átt til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. á tímabili greiðsluskjóls.
Umboðsmaður skuldara bendir á að öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun hafi verið aðgengilegar upplýsingar um skyldur þeirra í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. á heimasíðu umboðsmanns skuldara, www.ums.is. Að auki séu skyldur skuldara ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun 12. júlí 2011 sem bárust kærendum með ábyrgðarbréfi. Þeim hafi því mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau áttu aflögu í lok hvers mánaðar til að greiða af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.
Í greinargerð umboðmanns skuldara kemur fram að andmæli kærenda við fyrirhugaðri niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana hafi borist eftir að hin kærða ákvörðun var tekin. Andmæli kærenda hafi því ekki komið til efnislegrar skoðunar hjá embættinu. Umboðsmaður skuldara tekur fram að engin gögn hafi fylgt andmælunum, né hafi þar verið að finna tölulegar upplýsingar um útlagðan kostnað eða aukinn kostnað kærenda.
Í andmælum kærenda hafi komið fram að framfærslukostnaður þeirra hefði verið hærri en reiknað hafi verið með samkvæmt framfærsluviðmiðum embættisins, enda séu aðstæður kærenda og daglegt líf litað af veikindum þeirra og aldri. Sé litið til framkominna andmæla kærenda verði að telja að þau hefðu ekki leitt til annarrar niðurstöðu af hálfu umboðsmanns skuldara þar sem engin gögn hafi verið lögð fram í máli kærenda því til stuðnings eða tölulegar upplýsingar lagðar fram til skýringa. Sú fjárhæð, sem áætlað hafi verið af hálfu embættisins að kærendur hefðu átt að hafa getað lagt til hliðar á tímabilinu, hafi verið veruleg, eða alls 7.905.179 krónur en 5.430.179 krónur væri tekið tillit til aukins læknis- og lyfjakostnaðar, samkvæmt upplýsingum frá kærendum, sem þau hafi ekki stutt með gögnum.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra verði haldið áfram. Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda áfram. Þær falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Því kemur aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram verði kærunefndin við kröfum kærenda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Kröfu kærenda þess efnis að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram ber að túlka í samræmi við þetta og kemur sú krafa því ekki frekar til álita við úrlausn málsins.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem skyldur skuldara við greiðsluaðlögun eru tilgreindar.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Með bréfi til umboðsmanns skuldara 26. september 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í bréfinu kemur fram að þau hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í kjölfarið felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með hinni kærðu ákvörðun 5. nóvember 2014.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010, hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við um leið og umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 25. nóvember 2010 og umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn þeirra með ákvörðun 12. júlí 2011. Kærendum bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara.
Umboðsmaður skuldara telur að kærendur hafi átt að leggja til hliðar 7.905.179 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var samþykkt.
Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:
Tímabilið 1. desember 2010 til 31. desember 2010: Einn mánuður | ||
Nettótekjur A | 197.018 | |
Nettótekjur B | 147.919 | |
Nettótekjur alls | 344.937 | |
Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir | ||
Nettótekjur A | 2.453.826 | |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 204.486 | |
Nettótekjur B | 1.567.973 | |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 130.664 | |
Nettótekjur alls | 4.021.799 | |
Nettó mánaðartekjur að meðaltali | 335.150 | |
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir | ||
Nettótekjur A | 2.559.899 | |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 213.325 | |
Nettótekjur B | 1.623.194 | |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 135.266 | |
Nettótekjur alls | 4.183.093 | |
Nettó mánaðartekjur að meðaltali | 348.591 | |
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir | ||
Nettótekjur A | 2.682.246 | |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 223.521 | |
Nettótekjur B | 1.689.080 | |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 140.757 | |
Nettótekjur alls | 4.371.326 | |
Nettó mánaðartekjur að meðaltali | 364.277 | |
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. október 2014: Tíu mánuðir | ||
Nettótekjur A | 2.379.755 | |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 237.976 | |
Nettótekjur B | 1.443.783 | |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 144.378 | |
Nettótekjur alls | 3.823.538 | |
Nettó mánaðartekjur að meðaltali | 382.354 |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 16.744.693 |
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli | 356.270 |
Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og vaxtabætur var greiðslugeta þeirra þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. desember 2010 til 31. október 2014: 47 mánuðir | |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 16.744.693 |
Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla | 564.932 |
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli | 17.309.625 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 368.290 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns | 240.328 |
Greiðslugeta kærenda á mánuði | 127.962 |
Alls sparnaður í 47 mánuði í greiðsluskjóli x 127.962 | 6.014.209 |
Við mat á því hvaða fjárhæð kærendum beri að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna hefur staðið er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.
Kærendur kveðast hafa orðið að greiða hærri lyfjakostnað en ráðgert hafði verið og hafi hann numið 2.475.000 krónum á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Auk þess kveðast kærendur hafa þurft að leggja út fyrir ýmsum viðbótarkostnaði vegna veikinda en hafa ekki tilgreint fjárhæð þess kostnaðar. Kærendur hafa ekki lagt fram nein gögn sem sýna fram á framangreindan kostnað vegna lyfja, lækna eða annarra útgjalda, en þetta eru gögn sem þau verða að leggja fram svo að hægt sé að taka tillit til þeirra. Þar sem engin gögn liggja fyrir um ætlaðan viðbótarkostnað kærenda verður ekki tekið tillit til hans.
Að þessu virtu hafa kærendur átt að geta lagt fyrir 6.014.209 krónur á tímabili greiðsluskjóls en kærendur hafa ekki sýnt fram á að þau hafi lagt neinn sparnað til hliðar. Samkvæmt þessu vantar alla þá fjárhæð sem kærendur áttu að geta lagt til hliðar á tímabilinu.
Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Þórhildur Líndal