Mál nr. 118/2014
Mál nr. 118/2014
Fimmtudaginn 10. nóvember 2016
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.
Þann 12. desember 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 28. nóvember 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.
Með bréfi 15. desember 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. janúar 2015.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 12. febrúar 2015 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engin svör bárust.
I. Málsatvik
Kærendur eru fædd 1963 og 1965. Þau eru gift og búa ásamt X börnum sínum í eigin húsnæði að C.
Kærandi A er [...] og starfar sem [...]. Kærandi B er [...] og starfar sem [...] hjá D.
Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 27. október 2014, eru 60.344.768 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2009 vegna kaupa á fasteign.
Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína til atvinnuleysis og tekjulækkunar.
Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 3. apríl 2014. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 21. maí 2014 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 14. október 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Að mati umsjónarmanns hafi kærendur átt að geta lagt til hliðar 1.443.631 krónu á tímabili greiðsluskjóls í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. en þau hafi aðeins sýnt fram á að hafa lagt fyrir 300.000 krónur. Engin gögn hafi borist frá kærendum um ástæður þess að þau hafi ekki lagt meira fyrir en raun bar vitni.
Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 27. október 2014 var þeim kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Þá var kærendum jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.
Með ákvörðun 28. nóvember 2014 felldi umboðsmaður skuldara í kjölfarið greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur óska þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði endurskoðuð og haldið verði áfram á þeirri braut sem byrjað var að feta. Skilja verður málatilbúnað þeirra svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærendur vísa til þess að þau hafi fyrir mistök upplýst umboðsmann skuldara um minni sparnað en hann taldi hæfilegt. Nú liggi fyrir sparnaður sem nemi 1.000.000 króna eða um 70% af tilskildum sparnaði. Þá hafi kærendur þurft að greiða ýmsan ófyrirséðan kostnað vegna skólagöngu [...] þeirra sem hafi numið 300.000 krónum. Tilskilinni fjárhæð sparnaðar væri því svo gott sem náð. Verði kallað eftir kvittunum vegna útgjalda þá liggi þær fyrir. Kærendur upplýsa enn fremur að tekjur þeirra hafi aukist.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara, sbr. bréf embættisins til kærenda 27. október 2014, hafi greiðsluskjól kærenda staðið yfir í rúmlega fjóra mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. júní 2014 til 1. október 2014. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:
Launatekjur 1. júní 2014 til 1. október 2014 að frádregnum skatti | 2.949.519 |
Barnabætur | 35.620 |
Samtals | 2.985.139 |
Mánaðarlegar meðaltekjur | 746.285 |
Framfærslukostnaður á mánuði | 389.328 |
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði | 356.957 |
Samtals greiðslugeta í fjóra mánuði | 1.427.827 |
Í ljósi þessa verði lagt til grundvallar að greiðslugeta kærenda hafi verið 356.957 krónur á mánuði á fjögurra mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur nutu greiðsluskjóls.
Kærendur hafi aðeins lagt um 21% af áætluðum heildarsparnaði til hliðar á tímabili fresturnar greiðslna eða alls um 300.000 krónur af þeim 1.427.827 krónum sem gert hafði verið ráð fyrir að þau gætu lagt fyrir. Af þeim sökum verði að telja að kærendur hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar þá fjármuni sem féllu til umfram framfærslukostnað á tímabili frestunar greiðslna.
Skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. séu ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda um greiðsluaðlögun. Þær upplýsingar hafi einnig verið á heimasíðu umboðsmanns skuldara, www.ums.is. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun 21. maí 2014 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Kærendum hafi því mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau áttu aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.
Kærendur hafi greint frá því í kæru að þau hafi lagt til hliðar 1.000.000 króna í greiðsluskjóli, auk þess að geta lagt fram kvittanir vegna óvæntra útgjalda á tímabilinu. Umboðsmaður skuldara vekur athygli á því að skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. hvíli á kærendum allt þar til frestun greiðslna ljúki. Þannig verði að gera ráð fyrir að kærendur hafi lagt fyrir í samræmi við getu sína í hverjum mánuði, auk þess sparnaðar sem þegar hafi verið gert ráð fyrir að þau legðu fyrir að fjárhæð 1.427.827 krónur að frádregnum óvæntum útgjöldum, eigi það við. Verði lögð fram gögn sem sýni fram á að kærendur hafi sparað í samræmi við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og lögð fram gögn um þann kostnað sem vitnað hafi verið til, muni umboðsmaður skuldara afturkalla ákvörðun sína og leggja að nýju mat á það hvort kærendur hafi staðið við framangreindar skyldur á tímabili frestunar greiðslna.
Verði ekki lögð fram gögn sem sýna fram á að kærendur hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem skyldur skuldara við greiðsluaðlögun eru tilgreindar.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Með bréfi til umboðsmanns skuldara 14. október 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í bréfinu kemur fram að kærendur hefðu brugðist skyldu sinni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í kjölfarið felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 28. nóvember 2014.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 3. apríl 2014 og umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn þeirra með ákvörðun 21. maí sama ár. Kærendum bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna um leið og umsókn þeirra var samþykkt og frestun greiðslna hófst.
Umboðsmaður skuldara telur að kærendur hafi átt að leggja til hliðar 1.427.827 krónur frá því að þau fengu samþykkta umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara kváðust kærendur hafa greitt ófyrirséðan kostnað að fjárhæð 300.000 krónur frá því að umsókn þeirra var samþykkt og frestun greiðslna hófst.
Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:
Tímabilið 1. júní 2014 til 31. október 2014: fimm mánuðir | |
Nettótekjur A | 1.895.338 |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 379.068 |
Nettótekjur B | 1.785.374 |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 357.075 |
Nettótekjur alls | 3.680.712 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 736.142 |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 3.680.712 |
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli | 736.142 |
Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og barnabætur, var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. júní 2014 til 31. október 2014: fimm mánuðir | |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 3.680.712 |
Barnabætur | 35.620 |
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli | 3.716.332 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 743.266 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns | 389.328 |
Greiðslugeta kærenda á mánuði | 353.938 |
Alls sparnaður í fimm mánuði í greiðsluskjóli x 353.938 | 1.769.692 |
Við mat á því hvaða fjárhæð kærendum beri að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna hefur staðið er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.
Kærendur kveðast hafa greitt óvænt útgjöld að fjárhæð 300.000 krónur, auk þess sem þau hafi lagt fyrir 1.000.000 króna á fyrrnefndu tímabili. Kærendur hafa ekki sýnt fram á hver hin óvæntu úgjöld voru með gögnum og verður því ekki tekið tillit til þeirra við útreikning á sparnaði kærenda í greiðsluskjóli. Þá hafa kærendur ekki sýnt fram á neinn sparnað með gögnum.
Að framangreindu virtu þykir ljóst að kærendur hafi átt að geta lagt fyrir 1.769.692 krónur á tímabili greiðsluskjóls en þau hafa ekki sýnt fram á að þau hafi lagt fé til hliðar. Kærendur hafa því ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Í ljósi alls þessa verður því að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. laganna. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Þórhildur Líndal