Mál nr. 119/2014
Mál nr. 119/2014
Fimmtudaginn 10. nóvember 2016
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.
Þann 11. desember 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 28. nóvember 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 15. desember 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 7. janúar 2015.
Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 14. janúar 2015 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 29. júní 2015. Engar athugasemdir bárust.
I. Málsatvik
Kærandi er fædd 1975 og er í sambúð. Hún býr í leiguhúsnæði að B ásamt sambýlismanni sínum og X börnum, en X barnanna eru uppkomin. Kærandi á fasteign að C sem hún leigir út. Eignin skiptist í tvær íbúðir, annars vegar 129 fermetra íbúð á neðri hæð hússins ásamt bílskúr og hins vegar 69 fermetra íbúð á efri hæð hússins. Auk leigutekna fær kærandi örorkulífeyri frá Tryggingastofnun og lífeyrisgreiðslur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða.
Heildarskuldir kæranda og maka hennar, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 2. maí 2012, eru 84.399.349 krónur en þau sóttu upphaflega um greiðsluaðlögun í sameiningu. Til helstu skulda var stofnað árin 2006 og 2007 vegna fasteignakaupa.
Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til veikinda, tekjulækkunar og hækkunar höfuðstóls lána í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. maí 2012 var kæranda og maka hennar veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum þeirra. Maki kæranda dró umsókn sína til baka 28. maí 2013.
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 15. ágúst 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem kærandi hefði hafnað því að selja fasteign sína sem varði niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 5. mgr. 13. gr. lge. Þá taldi umsjónarmaður kæranda ekki hafa sinnt samstarfi við umsjónarmann samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge., auk þess sem kærandi hefði ekki veitt upplýsingar sem nauðsynlegar væru til að vinna mál hennar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að samkvæmt gögnum málsins séu mánaðartekjur kæranda að meðaltali 377.607 krónur en mánaðarlegur framfærslukostnaður hennar sé áætlaður 416.844 krónur að meðtaldri húsaleigu sem nemi 157.500 krónum á mánuði. Kærandi hafi því ekkert aflögu í mánuði hverjum til að greiða af skuldbindingum sínum að teknu tilliti til framfærslukostnaðar, enda vanti hana 39.237 krónur á mánuði til að mæta kostnaði vegna framfærslu. Mánaðarlegar afborganir af kröfum, sem tryggðar eru með veði í fasteign kæranda og rúmist innan matsverðs hennar miðað við fasteignamat 2014, nemi alls 236.302 krónum. Umsjónarmaður hafi því ekki talið kæranda geta greitt afborganir af veðkröfum innan verðmats fasteignarinnar og því væri nauðsynlegt að selja hana. Þá hafi umsjónarmaður upplýst kæranda um að fasteign hennar gæti talist óhófleg með vísan til stærðar eignarinnar og þess að afborganir og rekstrarkostnaður hennar væri hár.
Kærandi hafi ekki fallist á sölu beggja íbúða hússins og talið sig geta greitt af annarri íbúðinni, þ.e. neðri hæð hússins þar sem maki hennar myndi taka þátt í greiðslu lána, auk þess sem uppkomin börn þeirra myndu borga heim. Mánaðarleg greiðslugeta hennar yrði því hærri en reiknað hafi verið með af hálfu umsjónarmanns. Þó hefði kærandi sett þau skilyrði að ekki yrði greitt meira af áhvílandi veðlánum en gert hefði verið ráð fyrir samkvæmt upphaflegri greiðsluáætlun með láninu. Umsjónarmaður hafi þá upplýst kæranda um að nauðsynlegt væri að gera ráðstafanir til að „loka á milli eignarhluta,“ ætti að gera ráð fyrir því að efri hæð hússins yrði seld en fram hefði komið í samskiptum við kæranda að það hefði ekki verið gert. Þá þyrfti auk þess að gera eignaskiptasamning vegna eignarinnar. Umsjónarmaður hafi einnig óskað eftir gögnum um tekjur maka kæranda og uppkominna barna þeirra. Aðeins hafi borist undirritaðar yfirlýsingar frá uppkomnum börnum kæranda um greiðslur til heimilisins, auk skattframtals 2014 vegna tekna maka 2013, sem þó hefði ekki sætt álagningu Ríkisskattstjóra.
Með vísan til þessa telji umsjónarmaður að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr., 1. mgr. 16. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 14. nóvember 2014 þar sem henni var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunar-umleitanir hennar. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi hafði samband með tölvupósti 20. nóvember 2014 og átti einnig samskipti við umboðsmann skuldara símleiðis þann sama dag.
Með ákvörðun 28. nóvember 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 16. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi kærir ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar og krefst þess að hún verði ógilt og henni heimilað að halda áfram að leita greiðsluaðlögunar.
Kærandi kveður tilgang laga um greiðsluaðlögun vera að gera einstaklingum kleift að gera samning við kröfuhafa og stuðla þannig að því að uppgjörsmál skuldara fari ekki eftir þvingaðri leið skuldaskilaréttarins. Þær heimildir, sem umsjónarmanni séu veittar með 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna, hljóti því að skoðast sem undantekningar-ákvæði þar sem umsjónarmanni sé almennt ætlað að reyna að koma á samningi á milli kröfuhafa og skuldara.
Kærandi mótmælir því mati umsjónarmanns að fasteign hennar sé óhófleg, auk þess sem kærandi hafi aldrei hafnað því að selja hana. Kærandi hafi aftur á móti viljað selja hluta eignarinnar en ekki liggi fyrir að umboðsmaður skuldara hafi kannað áhrif þess með tilliti til greiðslugetu hennar. Þannig sé ekki hægt að slá því föstu að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt 1. og 5. mgr. 13. gr. lge.
Kærandi mótmælir því einnig að hún hafi brotið gegn skyldum samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge., enda megi ekki ráða af hinni kærðu ákvörðun hvaða gagna hún hafi átt að afla sem teldust nauðsynleg að mati umboðsmanns skuldara.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara vísar til mats umsjónarmanns og telur að með hliðsjón af greiðslugetu kæranda þurfi að selja báðar íbúðir kæranda að C. Umboðsmaður skuldara telji einnig að fasteignin teljist óhófleg fyrir kæranda og fjölskyldu hennar þar sem hún sé 198 fermetrar að stærð. Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hún geti greitt af áhvílandi veðkröfum innan verðmats fasteignarinnar, hvort sem miðað væri við báðar íbúðirnar eða einungis neðri hæðina sem kærandi hafi lagt til að yrði ekki seld.
Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. sé eitt helsta markmið greiðsluaðlögunarsamninga að einstaklingum í verulegum fjárhagserfiðleikum sé gert kleift að koma jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu svo raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar í náinni framtíð. Eigi umsjónarmaður að geta gert drög að raunhæfu frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun, verði að leggja þær skyldur á skuldara að hann veiti liðsinni sitt sé þess þörf, enda skuli umsjónarmaður semja frumvarp í samráði við skuldara. Athafnaskylda skuldara sé að þessu leyti leidd af ákvæði 1. mgr. 16. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara kveður kæranda ekki hafa sinnt tilskildu samráði við umsjónarmann þar sem hún hefði lýst því yfir að hún myndi ekki gangast undir frekara greiðslumat vegna fasteignar sinnar, auk þess sem hún hefði ekki upplýst hvort hún myndi afla verðmats á fasteigninni, kæmi til sölu hennar. Þá hefði kærandi ekki aflað með fullnægjandi hætti þeirra gagna sem umsjónarmaður óskaði eftir vegna undirbúnings samnings um greiðsluaðlögun, auk þess sem hún hefði verið ófús til samstarfs við umsjónarmann á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.
Í samræmi við ákvæði 1. mgr. 16. gr. lge. og eðli málsins samkvæmt sé ekki mögulegt að halda áfram greiðsluaðlögunarumleitunum, standi vilji kæranda ekki til þess að halda áfram í úrræðinu.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 16. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að upplýsingar um tekjur maka kæranda hafi skipt höfuðmáli við vinnslu málsins en umsjónarmanni hafi borist skattframtal vegna tekna hans, sem ekki hafi sætt álagningu ríkisskattstjóra, og hafi engar frekari staðfestingar á tekjum hans borist.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Þess er krafist að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála felli úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar og veiti kæranda áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunar.
Felli umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að nefndin staðfesti eða felli ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi. Verði fallist á kröfu kæranda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi leiðir það sjálfkrafa til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda halda áfram. Skilja verður kröfugerð kæranda með tilliti til þessa.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 16. gr. lge.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. er kveðið á um að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr. Í 1. mgr. 16. gr. lge. segir að umsjónarmaður skuli eins fljótt og auðið sé, eftir að kröfulýsingarfrestur sé liðinn, gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Frumvarpið skuli samið í samráði við skuldara.
Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.
Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið þeirra aðgerða, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða því frá að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu teljist það ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem sá fyrrnefndi telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að hann verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.
Í athugasemdum með frumvarpi til lge. segir um 13. gr. að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.
Eins og áður hefur komið fram lagði umsjónarmaður til að fasteign kæranda að C yrði seld en kærandi féllst ekki á það. Fasteignin skiptist í tvær íbúðir, efri og neðri hæð, sem hafa sitt fastanúmerið hvor og óskaði kærandi eftir því að íbúð á efri hæð fasteignar hennar yrði seld en að hún fengi að halda eftir íbúð á neðri hæðinni. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hún hafi fjárhagslega burði til að greiða af áhvílandi veðkröfum innan verðmats fasteignar á neðri hæð hússins.
Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra, skattframtali 2014 og öðrum gögnum málsins var fjárhagur kæranda frá 1. janúar til 30. júlí 2014 eftirfarandi í krónum:
Nettó launatekjur á tímabilinu | 1.193.449 |
Barnabætur | 191.618 |
Barnalífeyrir | 365.134 |
Nettó tekjur alls á tímabilinu | 1.750.201 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali á tímabilinu | 250.029 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara* | 261.844 |
Greiðslugeta kæranda á mánuði | -11.815 |
* Miðað er við helming heildarfjárhæðar framfærsluviðmiða umboðsmanns skuldara fyrir hjón með X börn og X ungmenni í námi í maí 2014, auk upplýsinga um annan kostnað frá kæranda.
Greiðslugeta kæranda á fyrrgreindu tímabili var neikvæð um 11.815 krónur á mánuði miðað við framangreindar forsendur og því ljóst að kærandi hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til að greiða af veðkröfum sem eru innan matsverðs fasteignar á neðri hæð hússins, hvað þá af veðkröfum af báðum fasteignunum. Samkvæmt skattframtali 2014 var fasteignamat íbúðar kæranda á efri hæð hússins 17.650.000 krónur en samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði í janúar 2014 voru áhvílandi veðkröfur á eigninni þá alls 27.565.473 krónur. Kærandi hefði því ekki haft fjárhagslegan ágóða af því að selja eignina en hún vísar til þess ekki liggi fyrir að umboðsmaður skuldara hafi kannað áhrif þess að selja íbúðina með tilliti til greiðslugetu hennar. Kærunefndin telur því að áhrif þess að selja eingöngu íbúð á efri hæð hússins en halda íbúð á neðri hæð hafi verið metin með fullnægjandi hætti.
Miðað við ákvæði lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum sem þessum að selja þá eign sem veðsett er til að létta á greiðslubyrði skuldara vegna fasteignaveðkrafna.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að fella niður heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
Þá telur umboðsmaður skuldara að skort hafi á samstarfsvilja kæranda með vísan til 1. mgr. 16. gr. lge. og að hún hafi ekki aflað með fullnægjandi hætti þeirra gagna sem umsjónarmaður hafi óskað eftir svo hægt væri að gera raunhæft frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Þá hafi kærandi enn fremur verið ófús til samstarfs við umsjónarmann á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Þessu hafnar kærandi þar sem ekki komi fram í hinni kærðu ákvörðun hvaða gagna hún hafi átt að afla.
Í hinni kærðu ákvörðun er byggt á því að kærandi hafi tekið fram að hún muni ekki „gangast undir greiðslumat“ og hafi hún jafnframt ekki gefið upp afstöðu sína um það hvort hún myndi afla nýs verðmats á fasteign, kæmi til sölu hennar. Þá er byggt á því að kærandi hafi ekki aflað með fullnægjandi hætti þeirra gagna sem umsjónarmaður hafi óskað eftir svo að hægt væri að gera raunhæft frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Í hinni kærðu ákvörðun er ekki tilgreint hvaða gögnum umsjónarmaður hafi óskað eftir við meðferð málsins og kærandi ekki lagt fram. Þá kemur heldur ekki fram hvaða tilgangi það þjónaði í því skyni að gera raunhæft frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun að kærandi myndi „gangast undir greiðslumat“ eða gefa upp afstöðu sína varðandi nýtt verðmat, kæmi til sölu fasteignar.
Kærunefndin telur þannig ekki liggja fyrir að hvaða leyti kærandi sinnti ekki tilskildu samráði við umsjónarmann samkvæmt hinni kærðu ákvörðun og séu forsendur hennar því óljósar að því leyti. Ekki verður því fallist á niðurfellingu heimildar kæranda til greiðsluaðlögunar á grundvelli 1. mgr. 16. gr. lge.
Með vísan til framangreinds og 15. gr. lge., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge., ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Þórhildur Líndal