Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 81/2012

Mánudaginn 2. júní 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 30. apríl 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 12. mars 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 11. maí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 21. maí 2012. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 24. maí 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki frá kærendum.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1966 og 1967. Þau eru gift og búa ásamt tveimur uppkomnum sonum sínum í eigin húsnæði að C götu nr. 41 í sveitarfélaginu D. Um er að ræða 182 fermetra raðhús ásamt 43,6 fermetra bílskúr.

Kærandi A starfar í hlutastarfi við rekstur á eigin fyrirtæki, X ehf. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hennar eru 96.000 krónur. Kærandi B er akstursstjóri sendibíla hjá Y hf. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hans eru 277.977 krónur. Alls nema mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kærenda því 373.977 krónum.

Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til kaupa á núverandi íbúðarhúsnæði árið 2007 en kaupverðið var 63.000.000 króna. Fyrir hafi þau átt nánast skuldlausa fasteign sem þau hafi sett upp í nýju eignina og tekið að auki gengistryggt lán að fjárhæð 38.000.000 króna. Eftir bankahrunið 2008 hafi afborganir hækkað gríðarlega og þá hafi þau ekki getað staðið í skilum. Einnig hafi þau ásamt öðrum gengist í ábyrgðir fyrir fyrirtækin Z ehf. og Þ ehf. en kærandi A hafi verið einn eigenda félaganna og starfað hjá þeim í tvö ár. Eftir það hafi aðrir eigendur tekið við rekstrinum sem í kjölfarið hafi farið að ganga illa og verið hætt í júní 2010. Kærendur hafi verið í viðræðum við kröfuhafa vegna ábyrgðarskuldanna en þær viðræður hafi ekki skilað árangri.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru 63.874.701 króna og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2006 og 2007 í tengslum við kaup á sumarbústað og íbúðarhúsnæði.

Ábyrgðarskuldbindingar kærenda eru samkvæmt gögnum málsins 65.412.269 krónur og stafa þær frá árunum 2006 til 2009.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 18. apríl 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. mars 2012 var umsókn þeirra hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera engar kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað þeirra þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Í rökstuðningi fyrir kæru segir: „Gögn náðu ekki til okkar og voru endursend til umboðsmanns skuldara.“ Kærendur færa ekki fram aðrar skýringar á kæru sinni.

 

III Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Einnig líti umboðsmaður skuldara til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en samkvæmt því ákvæði sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Við mat á því hvort kærendur hafi verið fær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar geti umboðsmaður skuldara ekki tekið tillit til annarra upplýsinga um tekjur og eignir kærenda en þeirra sem getið sé á skattframtali eða þeirra sem gerð hafa verið skil á, meðal annars í samræmi við 1. mgr. 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003.

Ábyrgðarskuldbindingar kærenda frá árunum 2007 og 2008 voru þessar í krónum:

Kröfuhafi Ár Skuldari Tegund Höfuðstóll Staða
       

Landsbankinn 2007 Z ehf. Skuldabréf 9.100.000 12.428.764
Landsbankinn 2007 Þ ehf. Ábyrgðaryfirlýsing 7.900.000 10.019.654
Landsbankinn 2007 Þ ehf. Skuldabréf 6.800.000 10.384.150
Landsbankinn 2008 Þ ehf. Skuldabréf 8.000.000 13.272.519
Landsbankinn 2009 Z ehf. Ábyrgðaryfirlýsing 3.200.000 2.860.625
      Alls 35.000.000 48.965.712

Að auki hafi Þ ehf. gefið út tryggingarbréf til Landsbankans í september 2007 sem tryggt var með veði í fasteign kærenda. Fjárhæð bréfsins var 12.000.000 króna.

Við mat á því hvort beita skuli b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. verði að líta til samspils tekna kærenda og skuldasöfnunar á því tímabili sem stofnað sé til skulda en hér séu það einkum árin 2007 og 2008. Ef ljóst þyki að kærendur hafi ekki getað staðið við skuldir þegar til þeirra var stofnað sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt skattframtölum voru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur, eignir, skuldir og greiðslubyrði eftirfarandi árin 2007 og 2008 í krónum talið:

  2007 2008
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur 416.964 492.584
Eignir alls 68.670.000 76.790.892
Skuldir 67.015.280 103.904.095
Áætluð mánaðarleg greiðslugeta* 297.188 375.550
Áætluð mánaðarleg greiðslubyrði lána 301.500 519.500
Nýjar ábyrgðarskuldbindingar 23.800.000 8.000.000

* Tekið mið af framfærslukostnaði samkvæmt bráðabirgðaneysluviðmiði umboðsmanns skuldara og öðrum uppgefnum kostnaði uppreiknað miðað við vísitölu neysluverðs 1. júní 2007.

Verði ekki annað ráðið af þessu en að ráðstöfunartekjur og eignastaða kærenda hafi verið með þeim hætti að vegna eigin skuldasöfnunar hafi þau ekki haft svigrúm til að takast á hendur ofangreindar ábyrgðarskuldbindingar á árunum 2007 og 2008.

Um ákvarðanir umboðsmanns skuldara og kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, sem byggi á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge., megi vísa til úrskurða kærunefndarinnar í málum nr. 11/2011, 17/2011 og 23/2011.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. er það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar. Byggist sú ákvörðun á heildstæðu mati á aðstæðum kærenda miðað við fyrirliggjandi gögn.

Í umsókn kærenda um greiðsluaðlögun hafi heimili kærenda verið tiltekið á sama stað og lögheimili þeirra að C götu nr. 41. Við meðferð málsins hafi kærendum verið sent ábyrgðarbréf á lögheimilið í því skyni að vekja athygli þeirra á því að atvik væru uppi í málinu sem kynnu að leiða til synjunar á heimild til greiðsluaðlögunar og veita þeim tækifæri til að koma á framfæri nýjum upplýsingum eða gögnum. Bréfið hafi verið sent 7. febrúar 2012 en því hafi ekki verið veitt viðtaka þegar reynt hafi verið að afhenda það á lögheimilinu. Bréfið hafi heldur ekki verið sótt á póstafgreiðslu þrátt fyrir að tilkynning um að bréfið væri þar tiltækt hafi verið sent á lögheimili kærenda. Ítrekuð tilkynning hafi verið send á lögheimili kærenda 16. febrúar 2012. Bréfið hafi síðan verið endursent til umboðsmanns 14. mars 2012. Ákvörðun í málinu hafi verið tekin 12. mars 2012. Ábyrgðarbréf með ákvörðuninni hafi verið skráð hjá Íslandspósti daginn eftir og 14. mars hafi verið gerð tilraun til að afhenda bréfið á lögheimili kærenda. Bréfið hafi verið endursent til umboðsmanns skuldara 18. apríl 2012. Þannig hafi ekki verið unnt að birta kærendum ákvörðunina með þeim hætti sem almennt sé gert.

Embættinu hafi borist tölvupóstur frá kæranda A 26. apríl 2012 þar sem fram hafi komið að kærendur búi ekki lengur á lögheimili sínu en þau séu flutt að E götu nr. 25 í sveitarfélaginu G og þar sé engin póstþjónusta. Hafi þess verið óskað að þeim yrði sendur tölvupóstur eða hringt til þeirra þegar mál þeirra væri tilbúið til afgreiðslu. Daginn eftir, 27. apríl, hafi kærandi A komið á skrifstofu umboðsmanns skuldara þar sem henni hafi verið afhent bréfið sem sent hafi verið 7. febrúar og ákvörðun í málinu.

Gert sé ráð fyrir því að umsækjendur um greiðsluaðlögun taki þátt í gagnaöflun vegna umsóknar. Umboðsmaður skuldara noti tiltækar samskiptaleiðir til að afla upplýsinga hjá umsækjendum þar á meðal síma, tölvupóst og póstsendingar. Þegar sérstaklega sé brýnt að tryggja sönnun þess að umsækjendur hafi átt tækifæri til þess að leggja fram gögn eða upplýsingar sendi embættið bréf í ábyrgðarpósti til þeirra. Eins og endranær í stjórnsýslumálum beri aðilum máls að tryggja að fyrir liggi réttar upplýsingar um hvernig hægt sé að hafa samband við þá. Í umsókn kærenda frá 18. apríl 2011 hafi þau tilgreint heimili sitt að C götu nr.  41 í sveitarfélaginu D. Frá þeim tíma þangað til 26. apríl 2012 hafi ekkert bent til þess að svo væri ekki.

Hafa beri í huga að stjórnvaldsákvarðanir skulu teknar svo fljótt sem unnt sé, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar umboðsmaður leiti gagna eða upplýsinga hjá aðilum sé nauðsynlegt að þeir taki við þeim beiðnum hvort sem þær eru sendar með tölvupósti eða ábyrgðarpósti. Óljóst þyki af gögnum málsins hvenær kærendur eigi að hafa flutt frá C götu nr. 41, enda hafi engin gögn varðandi það verið lögð fram. Ýmis úrræði séu fyrir hendi til að tryggja að póstsendingar berist viðtakendum þrátt fyrir að þeir búi ekki lengur á sama stað. Það geti ekki eitt sér orðið til þess að ógilda hina kærðu ákvörðun að kærendur hafi ekki tekið við umræddu bréfi.

Kæra til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála hafi verið undirrituð 29. apríl 2012. Þar komi fram að heimili kærenda sé að C götu nr. 41. Ekki verði séð af þeim gögnum sem umboðsmanni skuldara hafi verið send í tengslum við kæruna að þar sé tilgreint annað heimili eða aðsetur kærenda.

Í þeim gögnum sem umboðsmaður hafi fengið vegna kærunnar hafi ekki komið fram neinar upplýsingar eða gögn sem bendi til þess að þær aðstæður sem hin kærða ákvörðun byggist á hafi verið með öðrum hætti en þar sé lýst.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Af gögnum málsins verður ráðið að skuldir kærenda séu eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Tegund Upphafleg Staða
    fjárhæð  
Landsbankinn Veðskuldabréf 13.000.000 14.960.665
Landsbankinn Erlent lán 38.000.000 48.142.178
Landsbankinn Yfirdráttur   620.579
Landsbankinn Greiðslukort   151.279
  Alls 51.000.000 63.874.701

Á því tímabili sem hér er til skoðunar voru ábyrgðarskuldbindingar kærenda og tekjur kærenda, eignir og skuldir samkvæmt skattframtölum þessar í krónum:

  2006 2007 2008 2009 2010
Meðaltekjur á mánuði (nettó) 233.899 302.085 494.584 453.544 434.598
Eignir alls 57.618.337 70.255.510 75.790.892 71.568.522 69.536.524
· C gata nr.  41   44.120.000 44.120.000 45.950.000 41.650.000
· E gata nr. 25 16.130.000 19.050.000 17.170.000 16.390.000 16.140.000
·F gata nr. 79 31.295.000        
· Bifreið R 1.727.620        
· Bifreið S 6.900.000        
· Bifreið T   5.000.000      
· Bifreið U     12.450.000    
· Bifreið NU 562       5.600.000 5.040.000
· Hlutir í félögum (nafnverð) 1.000.000 1.500.000 1.550.000 1.550.000 5.800.000
· Bankainnstæður o.fl. 565.717 585.510 500.892 2.078.522 906.524
Skuldir 29.502.532 67.015.280 103.904.095 101.478.803 101.167.711
Nettóeignastaða 28.115.805 3.240.230 -28.113.203 -29.910.281 -31.631.187
 




Höfuðstóll ábyrgðarskuldbindinga 5.200.000 35.800.000 43.800.000 47.899.262 47.899.262

Má af töflunni sjá að í lok árs 2006 var nettóeignastaða kærenda rúmar 28.000.000 króna en fór lækkandi upp frá því. Þannig varð eignastaða þeirra neikvæð um ríflega 28.000.000 króna á árinu 2008 og síðan neikvæð í vaxandi mæli upp frá því. Á sama tíma juku kærendur sjálfskuldarábyrgðir sínar úr 5.200.000 krónum árið 2006 upp í tæpar 48.000.000 króna árið 2009.

Ábyrgðarskuldbindingar kærenda eru þessar í krónum:

Kröfuhafi Ár Skuldari Tegund Höfuðstóll Staða
Landsbankinn 2006 X ehf. Ábyrgðaryfirlýsing 5.200.000 5.200.000
Landsbankinn 2007 Z ehf. Skuldabréf 9.100.000 12.428.764
Landsbankinn 2007 Þ ehf. Ábyrgðaryfirlýsing 7.900.000 10.019.654
Landsbankinn 2007 Þ ehf. Skuldabréf 6.800.000 10.384.150
Landsbankinn 2007 Þ ehf. Skuldabréf 6.800.000 10.384.150
Landsbankinn 2008 Þ ehf. Skuldabréf 8.000.000 13.272.519
Landsbankinn 2009 Z ehf. Ábyrgðaryfirlýsing 899.262 862.407
Landsbankinn 2009 Z ehf. Ábyrgðaryfirlýsing 3.200.000 2.860.625
      Alls 47.899.262 65.412.269

Að auki gaf Þ ehf. út tryggingarbréf til Landsbankans í september 2007 sem tryggt var með veði í fasteign kærenda. Fjárhæð bréfsins var 12.000.000 króna.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í lagaákvæðinu eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Í framhaldinu eru í sjö liðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara hafnaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þeirra ákvæða.

Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá einstaklingur sem gengst undir ábyrgðar­skuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.

Þær tölulegu upplýsingar sem gerð er grein fyrir hér að framan bera skýrt með sér að kærendur tókust á hendur ábyrgðarskuldbindingar langt umfram greiðslugetu á árunum 2007 til 2009. Eignastaða kærenda gaf þeim heldur ekki tilefni til að takast á hendur þessar skuldbindingar en árið 2007 var eignastaða þeirra aðeins jákvæð um rúmar 3.000.000 króna, þeirra eigin skuldir voru 67.000.000 króna og ábyrgðarskuldbindingar sem þau höfðu tekist á hendur í lok þess árs námu alls 35.800.000 krónum. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kærenda á sama tíma voru 302.085 krónur. Verður þannig vart séð að kærendur hafi bæði getað framfleytt sér og haldið eigin lánum í skilum hvað þá tekið á sig greiðslu ábyrgðarskuldbindinganna ef á reyndi.

Með vísan til þessa telur kærunefndin því að kærendur hafi stofnað til ábyrgðarskuldbindinga á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Að því er varðar c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. má vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2010 en þar skýrði rétturinn ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli voru 81% heildarskulda vegna ábyrgðaskuldbindinga sem fallið höfðu á skuldara og á sama tíma og þegar til skuldbindinganna var stofnað voru tekjur skuldara litlar sem engar. Hæstiréttur leit einnig til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat kærunefndarinnar að skuldbindingar þær sem kærendur ábyrgðust á árunum 2007 til 2009 hafi verið það miklar að líta verði svo á að þær hafi út af fyrir sig verið í ósamræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að ofan. Í máli þessu eru 39,2% skulda kærenda vegna sjálfskuldarábyrgða. Þegar hefur verið gerð grein fyrir tekjum og eignastöðu kærenda þegar til þessara ábyrgðarskuldbindinga var stofnað.

Þegar allt framaritað er virt telur kærunefndin að með skuldasöfnun sinni hafi kærendur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Þá verður einnig að líta til þess að allar ábyrgðarskuldbindingar kærenda eru skuldir vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnu­rekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að Aog B hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta