Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 96/2012

Mánudaginn 2. júní 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 23. maí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. maí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 8. júní 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 14. júní 2012. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 15. júní 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2012. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1945 og 1947. Þau eru gift og búa í 107,3 fermetra íbúð kæranda A að C götu nr. 71 í sveitarfélaginu D.

Kærendur eru bæði öryrkjar og fá greiddar örorkubætur. Mánaðarlegar bætur kæranda A eru 154.402 krónur og mánaðarlegar bætur kæranda B eru 211.632 krónur. Samkvæmt því hafa kærendur mánaðarlega 366.034 krónur til ráðstöfunar.

Kærendur kveðast hafa rekið fyrirtæki og verið í persónulegum ábyrgðum fyrir skuldum þess. Við gjaldþrot fyrirtækisins hafi þau lent í fjárhagserfiðleikum. Þá hafi kærendur bæði átt við veikindi að stríða og því séu einu tekjur þeirra örorkubætur. Kærandi B hafi orðið öryrki í kjölfar bílslyss á árinu 2002. Einnig hafi hann fallið af hesti árið 2008 og árið 2009 hafi hann greinst með Parkinson-sjúkdóminn. Kærandi A hafi fengið örorkubætur undanfarin ár og ljóst að hún muni ekki eiga afturkvæmt á vinnumarkað.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 18.737.091 króna og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Kærendur telja sjálf að skuldir þeirra nemi 1.095.584 krónum.

Ábyrgðarskuldbindingar kærenda eru 73.203.215 krónur samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara. Af málatilbúnaði kærenda má ráða að þau telji ábyrgðarskuldbindingar sínar 68.809.526 krónur.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 10. maí 2012 var umsókn þeirra hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun verði samþykkt.

Kærendur skilja ákvörðun umboðsmanns skuldara þannig að þau hafi stofnað til skulda með kaupum sínum á C götu nr.  71 í sveitarfélaginu D á þeim tíma sem þau hafi ekki náð að standa í skilum með aðrar skuldir sínar. Kærendur mótmæla því að þau uppfylli ekki öll skilyrði þess að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Stofnað hafi verið til kaupanna á C götu nr.  71 með þeim ráðum sem kærendum hafi verið tiltæk. Kærendur segja lán sem tekin hafi verið vegna kaupanna hafi upphaflega verið 21.500.000 krónur en nemi nú um 53.000.000 króna. Þau hafi vel átt að ráða við að greiða af þeim lánum við eðlilegar aðstæður en miðað við það hafi afborganir ekki verið hærri en markaðsleiga fasteignar eins og kærendur hafi þurft, eða um 80.000 krónur á mánuði framan af.

Skuldavandi kærenda á árunum 2004 og 2005 sé auðskýrður. Kærendur hafi stundað atvinnurekstur og verið í ábyrgðum vegna hans. Þau hafi átt von á tjónabótum og hafi þeim verið ráðstafað til greiðslu skulda þegar þær hafi borist.

Kærendur telja að allar skuldir á hendur þeim séu uppgreiddar, fyrndar eða niðurfelldar nema skuld við SP fjármögnun hf. að fjárhæð 1.095.584 krónur en bifreið þeirra sé veðsett fyrir skuldinni.

Mat kærenda er að gögn málsins sýni að þau hafi í engu farið ógætilega í fjármálum miðað við aðstæður sínar. Vanda þeirra megin rekja til hruns fjármálakerfisins og krónunnar, slysa og veikinda.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Allar skuldir kærenda séu í vanskilum, alls 18.737.091 króna. Þar af hafi kröfur að fjárhæð 17.353.162 krónur verið í vanskilum frá árunum 2004 og 2005. Kærendur séu í sjálfskuldarábyrgðum fyrir 73.203.215 krónum. Þar af séu tvær kröfur samtals að fjárhæð 52.958.412 krónur tryggðar með veði í fasteign kæranda A að C götu nr.  71. Hafi kærendur greint frá því að eignin hafi verið keypt í nafni X ehf. árið 2006 þar sem þau hafi ekki getað fengið lán í eigin nafni. Eigninni hafi verið afsalað til kæranda A í janúar 2010.

Embætti umboðsmanns skuldara hafi sent kærendum ábyrgðarbréf 25. janúar 2012 þar sem þeim hafi verið gerð grein fyrir því að í máli þeirra væru til staðar mögulegar synjunarástæður. Þau hafi verið beðin um skýringar á fyrrgreindum fasteignakaupum og vanskilum skulda allt frá árinu 2004. Í svarbréfi kærenda komi meðal annars fram að þau hafi talið sig þurfa að koma sér upp þaki yfir höfuðið áður en aldurinn færðist yfir þau. Á þeim tíma hafi eini kosturinn í stöðunni verið að gangast í nefndar sjálfskuldarábyrgðir.

Ráða megi af fyrirliggjandi gögnum að eignin hafi frá upphafi verið keypt með það í huga að um væri að ræða fasteign kærenda en ekki raunverulega eign félagsins sem hún hafi verið skráð á. Verði að telja að á þessum tíma hafi kærendur verið meðvituð um fjárhagsstöðu sína sem hafi þá verið verulega þröng. Af gögnum málsins megi því sjá að á þessum tíma hafi svigrúm kærenda til að takast á hendur frekari skuldbindingar verið orðið lítið sem ekkert. Þrátt fyrir að skuldir þeirra hafi þá þegar verið í vanskilum hafi kærendur tekist á hendur nýjar fjárskuldbindingar með nefndum fasteignakaupum. Fyrir liggi að áður en til fasteignakaupanna kom hafi kærendum ekki tekist að standa við fjárskuldbindingar sínar með tekjum sínum. Af skýringum kærenda verði ráðið að þau hafi persónulega átt að standa undir afborgunum vegna lánsins sem X ehf. hafi tekið á árinu 2006 og tryggt hafi verið með veði í C götu nr.  71 og sjálfskuldarábyrgð kærenda. Félagið hafi tekið annað lán með sömu tryggingum á árinu 2007 og hafi kærendur greint frá því að það hafi verið vegna vanskila og fjárhagserfiðleika.

Þá verði ekki hjá því komist að líta til þess að samkvæmt skattframtali fyrir tekjuárið 2005 hafi kærandi B fengið eingreiðslu örorkubóta að fjárhæð 10.752.389 krónur. Samkvæmt skattframtali fyrir tekjuárið 2006 hafi hann fengið eingreiðslu örorkubóta frá tryggingafélagi að fjárhæð 4.155.411 krónur. Hér sé um að ræða umtalsverðar fjárhæðir sem hefðu að einhverju leyti getað komið til greiðslu þeirra skulda sem fyrir liggi að kærendur hafi ekki staðið skil á. Megi því telja að kærendur hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim var framast unnt.

Að sögn kærenda nam fjárhæð nefndra örorkubóta 9.500.000 krónum eftir frádrátt skatts. Í stað þess að gera upp útistandandi skuldir og standa þar af leiðandi betur til framtíðar hafi kærendur lagt féð inn í X ehf. án þess að um lán til félagsins eða hækkun hlutafjár væri að ræða. Það hafi þau gert í þeim tilgangi að félagið gæti fjárfest í eignum og stofnað til frekari skuldbindinga en kærendur hafi ráðið yfir félaginu. Seinna hafi farið að halla undan fæti hjá félaginu og hafi sumar eignir þess verið seldar á nauðungarsölu. Á árinu 2008 hafi félagið afsalað eigninni að C götu nr.  71 til kæranda A án þess að nokkuð hafi runnið til félagsins á móti að því er virðist. Félagið hafi verið afskráð 15. nóvember 2010 á þeim grunni að það væri hætt störfum.

Umboðsmaður skuldara telji því að kærendur hafi stofnað til fjárskuldbindinga á sama tíma og þau hafi verið í vanskilum með aðrar skuldbindingar sínar. Fasteignakaup kærenda hafi aukið enn á fjárhagserfiðleika þeirra. Það hafi aftur gert möguleika annarra kröfuhafa á greiðslu krafna sinna enn minni og kærendur hafi safnað enn meiri vanskilum.

Þrátt fyrir að mikill hluti skulda kærenda sé vegna sjálfskuldarábyrgða á skuldum fyrirtækis verði ekki litið á þær á annan hátt en að um sé að ræða kröfur á kærendur persónulega enda felist í sjálfskuldarábyrgð ótakmörkuð yfirlýsing um að standa skil á skuldbindingum þriðja aðila.

Með vísan til þess sem gerð hefur verið grein fyrir er það mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi með fasteignakaupunum stofnað til skulda á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Jafnframt hafi þau á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við fjárskuldbindingar sínar eftir því sem þeim hafi framast verið unnt.

Af úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 18/2011 verði ráðið að miðað sé við hátterni og stöðu skuldara á þeim tíma er til skuldanna var stofnað. Því verði ekki séð að hækkun skuldbindinga vegna gengistryggingar og hugsanleg lækkun vegna endurútreiknings hafi áhrif á þennan þátt hins heildstæða mats samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. Ekki verði heldur séð að eftirfarandi fyrning eða niðurfelling krafna geti haft áhrif á þennan þátt málsins enda miðað við stöðu kærenda þegar til nýrra skuldbindinga var stofnað, einkum áranna 2006 og 2007.

Hafa verði í huga tilgang og framkvæmd greiðsluaðlögunarsamnings. Fjárhagsstaða kærenda einkennist af þungri byrði vegna sjálfskuldarábyrgða sem kærendur hafi gengist undir vegna einkahlutafélags sem þau hafi verið í fyrirsvari fyrir, auk ábyrgða vegna fyrri atvinnurekstrar. Þar að auki verði ráðið af skýringum kærenda að þau séu raunverulegir greiðendur láns sem bróðir kæranda A skuldar og er tryggt með veði í eign fyrrverandi eiginkonu hans. Telja verði útilokað að við greiðsluaðlögunarumleitanir myndi lánið verða fært yfir á nafn kærenda. Krafan myndi því áfram hvíla á skuldaranum; bróður kæranda A, og yrði kærendum óheimilt að greiða af láninu, enda myndi greiðsluaðlögunarsamningur fela í sér afborganir af skuldbindingum í nafni kærenda en ekki af skuldum annarra.

Kærendur hafi lengi átt í fjárhagserfiðleikum. Þrátt fyrir það hafi þau haldið áfram að stofna til skulda umfram greiðslugetu og eignastöðu. Kærendur hefðu á þessu tímabili getað stöðvað skuldasöfnun sína. Sérstaklega sé litið til þess að það hafi hlotið að vera ljóst að tekjur þeirra myndu fara lækkandi en ekki hækkandi líkt og nauðsynlegt hefði verið til að geta staðið undir þeim skuldbindingum sem þau hafi stofnað til. Verði því að telja að vandi kærenda verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem þau sjálf beri ábyrgð á með framgöngu sinni.

Hin kærða ákvörðun byggi á heildstæðu mati á atvikum máls.

Að öllu ofangreindu virtu er það niðurstaða umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar og að synja beri umsókn á grundvelli b- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun verði samþykkt. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7 gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr. en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kærenda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kærenda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og f-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Eins og fram er komið deila aðilar um fjárhæðir skulda kærenda. Umboðsmaður skuldara telur skuldir kærenda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
  Kreditkort 2004 Greiðslukort 624.695 2.538.179 2004
  Landsbankinn 2004 Skuldabréf og yfirdráttur 1.315.240 4.922.139 2004
  Kreditkort 2005 Greiðslukort 2.951.127 9.892.844 2005
  Ísleifur Jónasson 2008 Reikningar 126.000 234.139 2008
  Tígulsfélagið 2009 Reikningur 24.900 54.206 2009
  SP fjármögnun 2011 Bílasamningur 1.167.082 1.095.584 2011
    Alls 6.209.044 18.737.091  

Kærendur telja að eina skuld þeirra sé bílasamningur frá 2011 að fjárhæð 1.095.584 krónur þar sem aðrar skuldir séu fyrndar eða greiddar. Við meðferð málsins hafði umboðsmaður skuldara ekki undir höndum skuldaskjöl vegna annarra skulda en bílasamningsins. Við vinnslu málsins hjá kærunefndinni gat embætti umboðsmanns skuldara ekki útvegað þessi skjöl eða sýnt fram á að skuldirnar væru ógreiddar eða ófyrndar. Getur kærunefndin því ekki við annað miðað en að nefndur bílasamningur sé eina núverandi skuld kærenda.

Á hinn bóginn verður að skilja málatilbúnað kærenda þannig að þau hafi áður skuldað allar þær kröfur sem umboðsmaður tilgreinir, upphaflega að fjárhæð 6.209.044 krónur. Liggur þannig fyrir að kærendur hafa átt í fjárhagserfiðleikum að minnsta kosti frá árinu 2004.

Umboðsmaður skuldara telur ábyrgðarskuldbindingar kærenda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Skuldari Tegund Höfuðstóll Staða
       
2012
  LÍN 1990 E   Námslán   472.907
  LÍN  1990-1995 F   Námslán   7.327.114
  Ýmsir (innheimt hjá Motus)   Liggur ekki fyrir
  12.238.926
  Landsbankinn 1996 G   Skuldabréf   205.856
  Frjálsi fjárfestingarbankinn* 2006 X ehf.   Erlent lán 17.475.000 41.977.440
  Frjálsi fjárfestingarbankinn* 2007 X ehf.   Erlent lán 4.500.000 10.980.972
      Alls 21.975.000 73.203.215

*Kærendur segja þetta í raun skuld sem þau borgi af.

Málatilbúnaður kærenda verður ekki skilinn á annan hátt en þann að þau telji sig aðeins í ábyrgðum vegna ofangreindra skulda hjá LÍN og skulda við Frjálsa fjárfestingarbankann en fjárhæð þeirra skulda nemur 60.758.433 krónum. Við meðferð málsins hafði umboðsmaður skuldara ekki undir höndum skuldaskjöl vegna annarra ábyrgðarskulda en skulda við LÍN og Frjálsa fjárfestingarbankann. Við vinnslu málsins hjá kærunefndinni gat embættið ekki útvegað þau skjöl sem vantaði. Verður kærunefndin því að miða við að kærendur hafi einungis ábyrgst skuldir við LÍN og Frjálsa fjárfestingarbankann.

Á tímabilinu 2005 til 2010 voru ráðstöfunartekjur kærenda eftirfarandi samkvæmt skattframtölum í krónum:

  2005 2006 2007 2008 2009 2010
  Meðaltekjur á mán.* 1.307.886 370.139 388.654 406.622 373.653 367.927

* Ráðstöfunartekjur.

Að mati umboðsmanns skuldara hefðu þær örorkubætur sem kærandi B fékk árin 2005 og 2006 að einhverju leyti getað komið til greiðslu þeirra skulda sem fyrir liggi að kærendur hafi ekki staðið skil á. Telur embættið því að kærendur hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim var framast unnt. Á þetta sjónarmið umboðsmanns skuldara getur kærunefndin ekki fallist þar sem gögn málsins sýna ekki hvernig örorkubótunum var ráðstafað. Í málinu liggja fyrir upplýsingar um skuldastöðu kærenda í lok árs 2005 en ekki um skuldastöðu þeirra í lok árs 2004. Stærsti hluti örorkubótanna kom til greiðslu árið 2005. Það er því ekki útilokað að kærendur hafi nýtt þær til að greiða eitthvað af skuldum sínum á árinu 2005. Samkvæmt þessu telur kærunefndin að ákvæði f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eigi ekki við í málinu.

Þegar mat er lagt á það hvort ákvæði b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við ber að líta til greiðslugetu skuldara, eigna- og skuldastöðu á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinga var stofnað. Fyrir liggur að á árunum 2006 og 2007 er kærendur ábyrgðust lán X ehf. hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum samtals að fjárhæð 21.975.000 krónur, vegna kaupa á C götu nr.  71, voru tilteknar skuldbindingar þeirra frá árinu 2004 í vanskilum. Eignir þeirra voru engar. Verður ekki annað ráðið af upplýsingum kærenda en að þau hygðust sjálf greiða af lánunum. Í greinargerð kærenda til umboðsmanns skuldara 18. júlí 2011 kemur fram að þau hafi keypt íbúðina að C götu nr.  71 í febrúar 2006. Eignin hafi verið sett á nafn X ehf. þar sem kærendur hafi ekki getað fengið lán á sínum „kennitölum“. Vegna kaupanna á C götu hafi verið tekin tvö erlend lán, annað lánið að fjárhæð 17.475.000 krónur en hitt að fjárhæð 4.500.000 krónur eða alls 21.975.000 krónur. Seinna lánið hafi verið tekið vegna uppsafnaðra skulda.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í lagaákvæðinu eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Í framhaldinu eru í sjö liðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða er b-liður 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar meðal annars á grundvelli þess ákvæðis.

Þegar allt framaritað er virt telur kærunefndin að með skuldasöfnun sinni hafi kærendur stofnað til fjárhagsskuldbindinga á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A og B hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta