Mál nr. 42/2013
A og B
gegn
skipuðum umsjónarmanni C hrl.
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Þórhildur Líndal og Kristrún Heimisdóttir.
Þann 14. mars 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, C, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 22. febrúar 2013, þar sem umsjónarmaður mælir gegn því að greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og nauðasamningur komist á með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).
I. Málsatvik
Umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var samþykkt af umboðsmanni skuldara 15. ágúst 2012. Þann 5. nóvember 2012 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda. Áður hafði starfsmaður umboðsmanns skuldara sinnt hlutverki umsjónarmanns fram yfir lok kröfulýsingarfrests.
Frumvarp að greiðsluaðlögunarsamningi var sent kröfuhöfum 17. janúar 2013. Mótmæli bárust frá kröfuhöfum þar sem meðal annars voru gerðar athugasemdir við það að kærendur hefðu ekki lagt fyrir fjármuni í greiðsluskjóli og þau hafi greitt af bílasamningi meðan þau nutu greiðsluskjóls.
Þann 7. febrúar 2013 sendi umsjónarmaður kærendum upplýsingar í tölvupósti um mótmælin. Óskaði umsjónarmaður eftir viðbrögðum kærenda og gaf til þess frest til 9. febrúar 2013. Með tölvupósti umsjónarmanns til kærenda, dags. 21. febrúar 2013, upplýsti umsjónarmaðurinn að þar sem engin svör eða fyrirmæli hafi borist muni hún taka ákvörðun í málinu. Umsjónarmaður upplýsti kærendur jafnframt um að hún muni mæla gegn því að nauðasamningur komist á í formlegu bréfi til þeirra, fyrst engin afdráttarlaus svör hafi borist um að kærendur vilji fara aðra leið.
Umsjónarmaður tilkynnti kærendum með bréfi, dags. 22. febrúar 2013, ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningnum.
II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns
Í ákvörðun umsjónarmanns, dags. 22. febrúar 2013, kemur fram að hann hafi upplýst kærendur um valmöguleika þeirra eftir að frumvarpi til greiðsluaðlögunar var hafnað af kröfuhöfum. Í fyrsta lagi gætu þau reynt að ná fram greiðsluaðlögunarsamningi annars efnis en þegar hafði verið gert, í öðru lagi gætu þau reynt að ná fram nauðasamningi og greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og í þriðja lagi afturkallað umsókn um greiðsluaðlögun. Kærendum hafi einnig verið boðið að halda símafund með umsjónarmanni hvenær sem væri til að fara yfir mótmælin. Pósturinn hafi verið ítrekaður 11., 16. og 21. febrúar, án þess að svör hafi borist frá skuldurum um framhaldið, önnur en að þau ætluðu að leita til lögmanns og umsjónarmaður fengi svör strax eftir fund með honum, auk upplýsinga um almenna óánægju þeirra um þróun málsins. Fundur kærenda með lögmanni var 15. febrúar en engin svör hafi borist frá þeim í kjölfar hans.
Umsjónarmaður skuldara hafi ráðfært sig við embætti umboðsmanns skuldara um framgang málsins þar sem engin svör bárust frá kærendum. Þann 21. febrúar 2013 fékk umsjónarmaður þau svör frá umboðsmanni skuldara að eðlilegast væri að taka ákvörðun skv. 2. mgr. 18. gr. lge.
Fram kemur í ákvörðun umsjónarmanns að taka beri rökstudda afstöðu til þess hvort umsjónarmaður mæli með því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á, sbr. 1. mgr. 18. gr. lge. Í ljósi heildarmats á þeim þáttum sem fram komi í ákvæðinu sé það afstaða umsjónarmanns að mælt sé gegn því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á.
Við mat á því hvort mælt sé með að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á skuli umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort það hafi nokkuð komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar. Með tölvupósti 18. janúar 2013 hélt kærandinn A því fram að útborgaðar tekjur kærandans B væru u.þ.b. 290.000 krónur á mánuði en ekki 431.377 krónur eins og staðgreiðsluskrá gerði ráð fyrir og gengið hafi verið út frá við vinnslu frumvarpsins. Umsjónarmaður óskaði tafarlaust eftir frekari upplýsingum, enda allar forsendur útsends frumvarps brostnar miðað við fyrrnefndar tekjur. Kærendur hafi ekki brugðist við beiðni umsjónarmanns. Jafnframt sé ljóst að kröfuhafar hafi óskað eftir raunupplýsingum um tekjur A af starfi hennar sem dagforeldri, umfram reiknað endurgjald, en þær upplýsingar hafi umsjónarmaður ekki fengið þrátt fyrir að hafa óskað eftir þeim. Ljóst sé að þessi háttsemi gæti hafa varðað við einhverja liði 1. mgr. 6. gr. lge., svo sem skort á upplýsingagjöf.
Einnig skuli umsjónarmaður líta til þess við matið hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi teljast í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa. Mat umsjónarmanns sé að tillögur um niðurfellingu hafi ekki verið óeðlilega háar. Jafnvel þó hlutfall niðurfellingar hafi verið hátt sé ljóst að kröfur á hendur kærendum séu einnig mjög háar.
Þá skuli umsjónarmaður leggja mat á það hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum skv. 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings hafi greiðslugeta kærenda verið 222.350 krónur. Ljóst sé miðað við að greiðsluskjól hafi varað frá apríl 2011, að verulega vanti upp á að kærendur hafi lagt til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem hafi verið umfram það sem þau þurftu til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Að mati umsjónarmanns hafi skýringar kærenda á þessu ekki verið fullnægjandi, svo sem að þau hafi kosið að sjá fyrir eldri börnum sínum umfram framfærsluskyldu, auk þess sem þau hafi aðeins getað lagt fram reikninga fyrir litlum hluta af þeim útgjöldum sem þau hafi þurft að standa straum af. Aðrar skýringar kærenda haldi þó að mati umsjónarmanns, svo sem um lægri tekjur kærandans B á árinu 2011. Auk þess hafi kærendur stofnað til nýrra skulda, nánar tiltekið tryggingagjalds, sem nú munu vera í vanskilum. Að lokum sé ljóst að kærendur hafi ekki sagt upp leigusamningi um bifreið sína, heldur greitt af henni allan þann tíma er þau voru í greiðsluskjóli.
Umsjónarmaður skuli einnig leggja mat á hvort raunhæft sé að kærendur muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun. Umsjónarmaður dregur í efa að raunhæft sé að kærendur standi í skilum með greiðslur samkvæmt greiðsluaðlögunarsamningi, sér í lagi í ljósi þess hversu illa hafi gengið að leggja fyrir meðan greiðsluskjól hafi varað. Greiðslubyrði og rekstrarkostnaður fasteignar kærenda sé mjög hár og þau hafi ekki verið tilbúin til viðræðna um að fasteignin yrði seld, sbr. 13. gr. lge.
Þá beri umsjónarmanni að leggja mat á hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka. Umsjónarmaður bendir á að andstaða kröfuhafa hafi verið mikil og hafi þeir lagst gegn því að frumvarpið yrði samþykkt.
Með vísan til framangreinds mælir umsjónarmaður gegn því að greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og nauðasamningur komist á.
III. Sjónarmið kærenda
Í kæru kemur fram að kærendur hafi átt í miklum fjárhagserfiðleikum sem séu þeim nú nær viðráðanlegir. Rætur fjárhagserfiðleika megi rekja til fjárfestinga og tekjulækkunar. Eftir efnahagshrunið hafi aðstæður breyst þannig að tekjur lækkuðu mikið og skuldir jukust.
Kærendur gera athugasemd við ákvörðun umsjónarmanns, en þar hafi til dæmis verið vísað til þess að upplýsingar hafi ekki verið veittar um tekjur málsaðila. Kærendur árétta að leitað hafi verið til lögmanns og þess óskað að hann veitti þeim aðstoð í málinu. Lögmaður hafi haft samband við umsjónarmann og farið yfir málið í kjölfarið. Umsjónarmaður hafi hins vegar hvorki ítrekað við lögmann kærenda að umræddar upplýsingar hafi verið óljósar né gefið lögmanni færi á að koma þeim að. Sæti furðu að umsjónarmaður hafi ekki, líkt og honum beri að gera samkvæmt góðri stjórnsýslu, kallað eftir skýringum og upplýsingum frá lögmanni um leið og umsjónarmaður vissi að hann væri lögmaður kærenda.
Kærendur hafi komið á framfæri upplýsingum til umsjónarmanns og farið þess á leit við lögmann sinn að beita sér í því að koma á framfæri haldbærum skýringum vegna athugasemda umsjónarmanns. Ljóst sé umsjónarmaður hefði með réttu átt að ítreka við lögmann kærenda skoðun sína á atriðum sem gætu fellt umsókn kærenda svo hægt væri að gæta hagsmuna þeirra um leið og reynt væri að gera betri grein fyrir aðstæðum þeirra hjóna.
Fram kemur í kæru að taka verði tillit til þess að kærandi A reki gæslu fyrir börn á heimili sínu og hafi vegna þess þurft að standa undir ýmsum kostnaði. Skýri það til dæmis hvers vegna tekjur hennar hafi verið lágar og um leið að hluta aukin útgjöld kærenda. Samhliða því sé ekki hægt að gera lítið úr því að kærendur sjá fyrir börnum sínum meðan þau séu inni á heimili þeirra, enda sé það eitt og sér ekki ástæða til að hafna umsókn kærenda.
Ljóst sé af málavöxtum þessa máls að umsjónarmaður hafi ekki sinnt skyldu sinni og tekið ákvörðun í máli kærenda á forsendum sem ekki standast endurskoðun. Beri til dæmis að líta til þeirrar staðreyndar að ekki hafi verið haft samband við lögmann kærenda og óskað skýringa eins eigi að gera í slíkum tilvikum.
Í kærunni er sett fram tillaga um að ákvörðun um synjun greiðsluaðlögunar hjá kærendum verði dregin til baka og að þeim verði veitt greiðsluaðlögun á grundvelli laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla lge. ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram í öndverðu sem hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum skv. 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.
Kærendur hafa mótmælt málsmeðferð umsjónarmanns þar sem lögmanni þeirra hafi ekki verið gefið færi á að koma sjónarmiðum kærenda um tiltekin atriði á framfæri í málinu. Samkvæmt gögnum málsins var meðferð málsins með eftirfarandi hætti: Með tölvupósti, dags. 7. febrúar 2013, óskaði umsjónarmaður eftir afstöðu kærenda varðandi kostina sem hann taldi þá vera fyrir hendi í málinu. Gaf hann frest til 9. febrúar. Kærendur svöruðu ekki beiðni umsjónarmanns en leituðu aðstoðar lögmanns í málinu. Þann 14. febrúar óskaði lögmaður kærenda eftir því að umsjónarmaður sendi sér gögn málsins. Með tölvupósti sama dag svaraði umsjónarmaður lögmanni kærenda þar sem meðal annars kemur fram að beðið sé eftir viðbrögðum kærenda, en samkvæmt upplýsingum umsjónarmanns áttu kærendur fund með lögmanni sínum 15. febrúar. Afrit af póstinum var sent á kærendur. Þann 19. febrúar óskaði lögmaður kærenda eftir afriti af bréfum kröfuhafa sem umsjónarmanni hafði borist. Sama dag svarar umsjónarmaður tölvupósti lögmanns og vísar til tölvupósts sem sendur var lögmanni vikunni áður. Þann 21. febrúar sendir umsjónarmaður kærendum tölvupóst þar sem fram kemur að málið þoli ekki frekari bið og þar sem engin afdráttarlaus svör hafi borist um hvaða leið kærendur vilja fara með málið líti umsjónarmaður svo á að þau fari fram á nauðasamninga. Umsjónarmaður muni hins vegar ekki mæla með nauðasamningum. Að svo komnu tók umsjónarmaður ákvörðun í bréfi, dags. 22. febrúar 2013, um að mæla gegn nauðasamningi.
Í 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. gr. lge. kemur fram að áður en umsjónarmaður tekur afstöðu til þess hvort hann mæli með því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á, skuli hann gefa skuldurum kost á að endurskoða frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun í ljósi athugasemda sem lánardrottnar gerðu við það. Í málinu liggja fyrir samskipti umsjónarmanns við kærendur og lögmann þeirra, sbr. framangreint. Þegar litið er til þess sem að framan er rakið varðandi meðferð málsins hefur umsjónarmaður gætt andmælaréttar kærenda, sbr. 1. mgr. 18. gr. lge. Þá hefur kærendum verið gefinn kostur til að koma að sjónarmiðum sínum fyrir kærunefndinni en miðað við þær skýringar sem fram hafa komið á kærustigi málsins er jafnframt ljóst að þær skýringar hefðu engu breytt um niðurstöðu málsins hjá umsjónarmanni hvað þetta atriði varðar.
Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. lge. skal umsjónarmaður hefja nauðasamningsumleitanir til greiðsluaðlögunar og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna að undangengnum ákveðnum skilyrðum. Í fyrsta lagi að samningar við kröfuhafa hafi ekki tekist eftir ákvæðum IV. kafla lge. og í öðru lagi að skuldari hafi lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings í því skyni og eftir atvikum greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.
Samkvæmt gögnum málsins liggur ekki fyrir að kærendur hafi óskað þess við umsjónarmann að leitað verði nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Skilyrði 1. mgr. 18. gr. lge. eru því að mati kærunefndarinnar að þessu leyti ekki uppfyllt. Engu að síður hafnaði umsjónamaður því að nauðarsamningar eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna kæmist á við þessar aðstæður. Af gögnum málsins er ljóst að við vinnslu málsins hjá umsjónarmanni komu fram upplýsingar sem hann taldi koma í veg fyrir að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt lge. Telja verður að afstaða hans liggi þar með fyrir um það atriði. Undir slíkum kringumstæðum skal umsjónarmaður mæla með niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana við umboðsmann skuldara samkvæmt 15. gr. lge. Í lagagreininni segir að komi fram upplýsingar sem ætla má að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil skal umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið tekur afstöðu með rökstuddri ákvörðun.
Eins og þegar hefur komið fram hafa kærendur óskað eftir því að synjun greiðsluaðlögunar verði dregin til baka og að þeim verði veitt greiðsluaðlögun á grundvelli lge. Samkvæmt því sem að framan er rakið hefur umsjónarmaður tekið afstöðu til þess að ekki séu skilyrði fyrir því að greiðsluaðlögun sé heimil. Ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir er í höndum umboðsmanns skuldara samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Ber með vísan til þess að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til meðferðar umboðsmanns skuldara.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, C hrl., um að mæla gegn nauðasamningi A og B er felld úr gildi og málinu vísað til umboðsmanns skuldara til löglegrar meðferðar.
Sigríður Ingvarsdóttir
Þórhildur Líndal
Kristrún Heimisdóttir