Mál nr. 36/2014
Mál nr. 36/2014
Fimmtudaginn 25. ágúst 2016
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 3. apríl 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 17. mars 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.
Með bréfi 8. apríl 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 16. maí 2014.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 23. maí 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 14. janúar 2015. Engar athugasemdir bárust.
I. Málsatvik
Kærendur eru fædd X og X. Þau búa ásamt X börnum, þar af X uppkomnu, í X fermetra eigin C.
Kærandi A er [...] en kærandi B starfar hjá D.
Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 41.614.916 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 og 2008.
Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína til bankahrunsins árið 2008.
Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 22. október 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 5. maí 2011 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 18. nóvember 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Þann 21. október 2013 hafi umsjónarmaður sent kærendum tölvupóst með fyrirspurn um hversu mikill sparnaður lægi fyrir. Kærendur hafi síðan verið inntir eftir því símleiðis hvers vegna þau hafi ekki lagt fyrir. Umsjónarmanni hafi 6. nóvember borist yfirlit yfir óvænta útgjaldaliði kærenda á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Útgjöldin hafi numið 805.673 krónum. Upplýsingarnar hafi ekki verið studdar gögnum, þrátt fyrir ítrekaða beiðni umsjónarmanns þar um. Þann 11. nóvember hafi umsjónarmaður sent kærendum tölvupóst þar sem komið hafi fram upplýsingar um þann sparnað sem liggja ætti fyrir samkvæmt útreikningi umsjónarmanns og kærendur inntir aftur eftir skýringum á vöntun á sparnaði. Skýringar hafi ekki borist. Því sé það mat umsjónarmanns að kærendur hafi brotið gegn skyldu sinni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar þá fjármuni sem voru umfram það sem þau þurftu til þess að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða í greiðsluskjólinu.
Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 5. febrúar 2014 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur framvísuðu skýringum sínum 14. febrúar 2014.
Með ákvörðun 17. mars 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- lið 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur fara þess á leit við kærunefndina að hún endurskoði synjun umboðsmanns skuldara. Skilja verður kæru kærenda þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærendur vísa til þess að skuldastaða þeirra hafi verið slæm þannig að þau hafi ekki séð sér fært að byrja að spara strax í upphafi. Þau geri athugasemdir við að fyrri umsjónarmaður hafi ekki lagt nægilega hart að þeim að leggja fyrir á tímabilinu. Þau séu lágtekjufólk og ekki megi mikið bregða út af til að allt fari úr skorðum. Þau telji jafnframt að sú fjárhæð sem þau hafi þurft að leggja til hliðar sé ekki raunhæf fyrir þau og að aukakostnaður, sem þau hafi þurft að borga, sýni fram á það. Í málatilbúnaði þeirra kemur fram að á tímabili greiðsluskjóls hafi tannlæknakostnaður verið umtalsverður, kostnaður vegna langveiks barns hafi verið mikill og sömuleiðis útgjöld vegna bifreiðar. Kærendur hafi ekki byrjað reglubundinn sparnað fyrr en töluvert hafi verið liðið á tímabil greiðsluskjóls og hafi lagt til hliðar 360.000 krónur. Þá benda kærendur á að í 12. gr. lge. sé ekki getið um hlutfall af launum eða annars konar viðmið sem hafa beri til hliðsjónar við sparnað.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Kærendur hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 22. október 2010 og hafi frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafist á þeim degi. Öllum, er sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar og nutu greiðsluskjóls, hafi verið send bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Umræddar upplýsingar hafi einnig verið að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Hafi kærendum því mátt vel vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.
Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 36 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. nóvember 2010 til 1. nóvember 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:
Launatekjur 1. nóvember 2010 til 1. nóvember 2013 að frádregnum skatti | 14.197.855 |
Barnabætur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla | 1.046.119 |
Samtals | 15.243.974 |
Mánaðarlegar meðaltekjur | 423.444 |
Framfærslukostnaður á mánuði | 344.435 |
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði | 79.009 |
Samtals greiðslugeta í 36 mánuði | 2.844.314 |
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almennan framfærslukostnað með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 423.444 krónur í meðaltekjur á mánuði á 36 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur nutu greiðsluskjóls.
Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið 344.435 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Sé miðað við nýjustu mögulegu framfærsluviðmið kærendum í hag miðað við hjón/sambúðarfólk með eitt barn. Á þessum grundvelli sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir 2.844.314 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 79.009 krónur á mánuði í 36 mánuði.
Ekki hafi verið gert ráð fyrir tekjum kærenda í formi umönnunarbóta á tímabilinu sem voru að fjárhæð 965.383 krónur. Þá hafi ekki verið reiknað með tekjum kæranda B í E á tímabilinu að fjárhæð 972.867 krónur.
Í bréfi kærenda hafi komið fram að þau hefðu borið enn frekari kostnað á tímabili frestunar greiðslna, sem ekki hefði verið gert ráð fyrir í útreikningum umsjónarmanns, auk þess sem þau hefðu nú lagt fyrir 360.000 krónur. Kærendur kveðast hafa greitt alls 701.870 krónur vegna viðgerða og viðhalds á bifreið, 92.665 krónur vegna tannlækninga, og 123.993 krónur vegna læknis- og lyfjakostnaðar. Auk þess hafi þau greitt alls 25.306 krónur vegna umönnunar barns, þ.e. vegna talþjálfunar og spjaldtölvu vegna talþjálfunar. Enn fremur hafi þau borið aukinn bensínkostnað vegna vinnu kæranda A sem sé X km frá heimili þeirra. Kærendur hafi einnig lagt fram kvittanir vegna greiðslu trygginga vegna bifreiða á tímabilinu, en slíkur kostnaður falli innan framfærsluviðmiða og verði því ekki tekið tillit til slíkra útgjalda umfram framfærsluviðmið. Kærendur segist hafa orðið fyrir óvæntum og nauðsynlegum útgjöldum, samtals að upphæð 1.295.834 krónur. Hafi þau lagt fram gögn máli sínu til stuðnings. Þá kveðist kærendur hafa átt nótulaus viðskipti vegna bílaviðgerða, samtals að upphæð 438.000 krónur á tímabilinu. Umboðsmaður skuldara telur lækniskostnað að upphæð 123.993 krónur falla innan framfærsluviðmiða en viðmiðin geri ráð fyrir að kærendur verji 15.051 krónu í læknis- og lyfjakostnað í mánuði hverjum, alls 526.785 krónur á tímabilinu. Þá verði að telja að kostnaði vegna talþjálfunar og spjaldtölvu hafi verið mætt að öllu leyti með þeim umönnunarbótum sem kærendur hafi fengið á tímabilinu. Verði því ekki tekið tillit til kostnaðar vegna umönnunar að upphæð 25.306 krónur. Sé tekið tillit til viðgerðarkostnaðar samkvæmt framlögðum gögnum, bensínkostnaðar vegna aksturs til og frá vinnu og tannlæknakostnaðar nemi útlagður nauðsynlegur kostnaður kærenda á tímabilinu alls 708.535 krónum. Kærendur hafi auk þess lagt 360.000 krónur til hliðar.
Skýringar kærenda samkvæmt framlögðum gögnum, auk sparnaðar, veiti aðeins upplýsingar um hluta þess fjár sem leggja hefði átt til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., eða því sem nemi 1.068.535 krónum. Embættið veki athygli á því að þrátt fyrir að tekið yrði tillit til allra kostnaðarliða sem kærendur hafi talið fram, alls 1.295.834 króna, yrði enn aðeins gerð grein fyrir 58% af heildarfjárhæð áætlaðs sparnaðar með þeim hætti.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins sé heimild kærenda til greiðsluaðlögunar felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum, skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Með bréfi til umboðsmanns skuldara 18. nóvember 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í bréfinu kemur fram að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 17. mars 2014.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið skylt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls. Kærendur telja framfærslukostnað sinn hafa verið hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir, vegna óvæntra útgjalda þeirra á tímabilinu.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010, hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara.
Umboðsmaður skuldara telur að kærendur hafi átt að leggja til hliðar 2.844.314 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram. Kærendur telja að framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara sé ekki í samræmi við raunverulegan framfærslukostnað. Þau kveðast hafa lagt fyrir 360.000 krónur. Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til þess að kærendur hafi aðeins veitt skýringar varðandi hluta þess fjár sem þeim hafi borið að leggja til hliðar á tímabili greiðsluskjóls.
Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, voru mánaðartekjur kærenda í krónum eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:
Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. desember 2010: Tveir mánuðir | |||
Nettótekjur kæranda B | 488.964 | ||
Nettó mánaðartekjur kæranda B að meðaltali | 244.482 | ||
Nettótekjur kærandaA | 293.000 | ||
Nettó mánaðartekjur kæranda Aað meðaltali | 146.500 | ||
Nettótekjur alls | 781.964 | ||
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 390.982 | ||
Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir | |||
Nettótekjur kæranda B | 2.044.469 | ||
Nettó mánaðartekjur kæranda B að meðaltali | 170.372 | ||
Nettótekjur kæranda A | 1.584.556 | ||
Nettó mánaðartekjur kæranda A að meðaltali | 132.046 | ||
Nettótekjur alls | 3.629.025 | ||
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 302.418 | ||
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir | |||
Nettótekjur kæranda B | 3.165.643 | ||
Nettó mánaðartekjur kæranda Bað meðaltali | 263.803 | ||
Nettótekjur kæranda A | 1.773.547 | ||
Nettó mánaðartekjur kæranda A að meðaltali | 147.795 | ||
Nettótekjur alls | 4.939.190 | ||
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 411.599 | ||
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir | |||
Nettótekjur kæranda B | 3.853.981 | ||
Nettó mánaðartekjur kæranda B að meðaltali | 321.165 | ||
Nettótekjur kærandaA | 2.003.705 | ||
Nettó mánaðartekjur kæranda A að meðaltali | 166.975 | ||
Nettótekjur alls | 5.857.686 | ||
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 488.140 | ||
Tímabilið 1. janúar 2014 til lok febrúar 2014: Tveir mánuðir | |||
Nettótekjur kæranda B | 517.186 | ||
Nettó mánaðartekjur kæranda B að meðaltali | 258.593 | ||
Nettótekjur kæranda A | 370.600 | ||
Nettó mánaðartekjur kæranda A að meðaltali | 185.300 | ||
Nettótekjur alls | 887.786 | ||
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 443.893 | ||
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 16.095.651 | ||
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli | 402.391 | ||
Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda, bætur og umönnunargreiðslur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. nóvember 2010 til lok febrúar 2014: 40 mánuðir | |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 16.095.651 |
Barnabætur, vaxtabætur og vaxtaniðurgreiðsla | 1.046.119 |
Tekjur kæranda A í E | 972.867 |
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli | 18.114.637 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 452.866 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns | 344.435 |
Greiðslugeta kærenda á mánuði | 108.431 |
Alls sparnaður í 40 mánuði í greiðsluskjóli x 108.431 | 4.337.240 |
Kærendur benda á að í 12. gr. lge. sé ekki getið um hlutfall af launum eða annars konar viðmið sem hafa beri til hliðsjónar við sparnað. Við mat á því hvaða fjárhæð kærendum bar að leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur en í lge. er ekki heimild til að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem umboðsmaður skuldara reiknar út. Í c-lið 2. mgr. 1. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 kemur fram að eitt af hlutverkum umboðsmannsins sé að veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar Alþingis frá 15. júní 2010 segir um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara, er síðar varð að lögum nr. 100/2010: „Nefndin ræddi ítarlega hlutverk umboðsmanns skuldara og telur mikilvægt að stofnuninni verði falið að útbúa lágmarksframfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega. Nauðsynlegt er að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar komi fram raunhæf tillaga að greiðslum þar sem gert er ráð fyrir framfærsluþörf einstaklingsins og fjölskyldu hans. Jafnframt er mikilvægt að samræmis sé gætt að þessu leyti.“ Samkvæmt þessu gerði nefndin þá breytingartillögu á fyrirliggjandi frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara að inn í 2. mgr. 1. gr. var bætt við staflið d þar sem fram kemur að eitt hlutverk Embættis umboðsmanns skuldara sé að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega. Í 12. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar, þar á meðal að leggja fyrir á tímabilinu það fé sem er umfram framfærslukostnað. Eins og kærendur benda á veitir þetta tiltekna ákvæði út af fyrir sig ekki nákvæmar leiðbeiningar um hvernig framfærslukostnaður skuli reiknaður. Hér verður að hafa í huga að þær aðstæður sem 12. gr. lge. varðar eru þær að skuldarinn hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa. Um er að ræða samninga sem að jafnaði fela í sér niðurfellingu krafna að samningstíma liðnum. Samningsferlið leggur þær skyldur á herðar skuldara að hann greiði svo mikið sem honum er unnt af kröfunum. Meðal annars í því skyni að gefa skuldara svigrúm til að leggja fyrir á meðan samningaumleitanir eru undirbúnar og yfirstandandi er lagt bann við því að kröfuhafar taki á móti greiðslum frá skuldara eða innheimti kröfur á hendur honum, sbr. 3. gr. lge. Til að það takist er ljóst að skuldari verður að stilla framfærslukostnaði sínum í hóf á þessu tímabili. Það er einnig mikilvægt að bæði skuldarar og kröfuhafar njóti jafnræðis að þessu leyti og því verður framfærslukostnaður skuldara að styðjast við fyrirfram ákveðið almennt viðmið. Í ljósi laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010, lögskýringargagna, lge. og þess sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að ekki er öðru viðmiði til að dreifa en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara.
Í málinu hafa kærendur lagt fram reikninga vegna talmeinafræðings, viðhalds og reksturs bifreiðar auk reikninga vegna læknis- og tannlæknakostnaðar, samtals að fjárhæð 762.709 krónur.
Kærendur hafa lagt fram kvittanir vegna viðhalds og reksturs bifreiðar sem er 559.321 krónu umfram það sem umboðsmaður skuldara gerði ráð fyrir í framfærsluviðmiði. Telja veður þann kostnað óvæntan í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og verður hann því dreginn frá reiknaðri fjárhæð sparnaðar kærenda. Þau hafa einnig lagt fram reikninga vegna læknis- og lyfjakostnaðar að fjárhæð 123.993 krónur og tannlæknakostnaðar að fjárhæð 92.665 krónur. Telja verður læknis- og lyfjakostnað falla innan framfærsluviðmiða umboðsmanns skuldara en viðmiðin gera ráð fyrir að kærendur verji 15.051 krónu í læknis- og lyfjakostnað í mánuði hverjum. Tannlæknakostnaðurinn er hins vegar óvæntur kostnaður í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem ekki er gert ráð fyrir honum í framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara. Verður hann því dreginn frá reiknaðri fjárhæð sparnaðar kærenda. Kostnaði vegna talmeinafræðings hefur verið mætt með umönnunargreiðslum.
Að þessu virtu hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 3.685.254 krónur á tímabili greiðsluskjóls (4.337.240 – 651.986) en þau hafa einungis lagt fyrir 360.000 krónur. Samkvæmt þessu hafa kærendur ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Í ljósi þess sem að framan greinir verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir