Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 38/2014

Mál nr. 38/2014

Fimmtudaginn 25. ágúst 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 21. apríl 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 26. mars 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 28. apríl 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. maí 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 30. maí 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 14. janúar 2015. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur X. Hann býr ásamt eiginkonu sinni og uppkomnum syni þeirra í X fermetra eigin húsnæði að B.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 37.190.069 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2011 og stafar stærstur hluti þeirra frá fasteignakaupum.

Kærandi rekur greiðsluerfiðleika sína til atvinnuleysis og veikinda.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 30. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. maí 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 21. nóvember 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Þar kom fram að umsjónarmaður hefði lokið við frumvarp að greiðsluaðlögunarsamningi og sent kröfuhöfum 25. júlí 2012. Andmæli hafi borist frá kröfuhöfum vegna þess að kærandi hafði ekki skilað tölvubúnaði og bifreið. Umsjónarmaður hafi óskað eftir upplýsingum um hvað kærandi hefði lagt fyrir af tekjum sínum í greiðsluskjólinu. Kærandi kvaðst lítið hafa getað lagt fyrir, en hann hefði greitt upp fasteignagjöld. Umsjónarmaður telji sig ekki getað aðstoðað kæranda frekar með greiðsluaðlögunarumleitanir, en kærandi svari ávallt seint og illa. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. skuli frumvarp samið í samráði við skuldara en engin leið sé að ljúka frumvarpinu þegar fullnægjandi upplýsingar liggi ekki fyrir. Þá hafi kærandi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekkert fyrir á meðan hann hafi verið í greiðsluskjóli.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 20. mars 2014 var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svar kæranda barst 24. mars 2014.

Með ákvörðun 26. mars 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu, en skilja verður málatilbúnað hans svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi vísar til þess að sú upphæð, sem umsjónarmaður telji að hann eigi að hafa lagt til hliðar í greiðsluskjóli, standist ekki. Tekjur hans séu ofáætlaðar því að hluti af launum hans séu dagpeningar vegna ferðalaga. Þá hafi fasteignagjöld og iðgjöld af tryggingum safnast upp. Hann hafi þurft að greiða 383.000 krónur í fasteignagjöld á meðan hann var í greiðsluskjóli. Einnig hafi hann orðið fyrir tjóni á tímabilinu og útlögðum kostnaði vegna þess. Hann hafi reynt að sinna viðhaldi á húsi sínu til að það héldi veðgildi. Kostnaður vegna veikinda hafi einnig verið mikill. Hann hafi skýrt umsjónarmanni frá því að hann hafi lagt 1.500.000 krónur til hliðar en sú upphæð sé nú komin í um 2.000.000 króna. Þá hafi tekjur hans aukist á undanförnum mánuðum og komi til með að gera það á næstunni.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærandi hafi sótt um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 30. júní 2011 og hafi frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafist á þeim degi. Öllum, er sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar og nutu greiðsluskjóls, hafi verið send bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Umræddar upplýsingar hafi einnig verið að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun sem honum hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Hafi kæranda því mátt vel vera ljóst að hann skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hann hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 32 mánuði en miðað sé við tímabilið frá júlí 2011 til febrúar 2014. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Tekjur 1. júlí 2011 til loka febrúar 2014 að frádregnum skatti 6.769.848
Vaxtabætur, sérstök vaxtaniðurgreiðsla og fjárframlag maka 1.746.948
Samtals 8.540.796
Mánaðarlegar meðaltekjur 266.900
Framfærslukostnaður á mánuði 132.612
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 134.288
Samtals greiðslugeta í 32 mánuði 4.297.216

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kæranda með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almennan framfærslukostnað með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að honum sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 266.900 krónur í meðaltekjur á mánuði á 32 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið um 132.612krónur á mánuði á meðan hann hafi notið greiðsluskjóls. Sé miðað við nýjustu mögulegu framfærsluviðmið kæranda í hag miðað við helmings framfærslukostnað hjóna. Á þessum grundvelli sé gengið út frá því að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir 4.297.216 krónur á fyrrnefndu tímabili, sé miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 134.288 krónur á mánuði í 32 mánuði.

Í bréfi kæranda hafi komið fram að honum hafi tekist að leggja til hliðar um 1.400.000 krónur á tímabili greiðsluskjóls en kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn til staðfestingar því. Þrátt fyrir að tekið yrði tillit til umrædds sparnaðar kæranda sé ljóst að sparnaðurinn nemi aðeins hluta af þeirri fjárhæð sem kæranda hefði alla jafna átt að vera kleift að leggja til hliðar. Eftir að hafa skoðað upplýsingar, sem hafi borist frá kæranda og gögn málsins, hafi umboðsmaður skuldara komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. alið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum, skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 21. nóvember 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í bréfinu kemur meðal annars fram að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 26. mars 2014.

Kærandi kveðst lítið hafa getað lagt fyrir þar sem hann hefði greitt upp fasteignagjöld og fleira. Jafnframt hafi hann orðið fyrir tjóni og útlögðum kostnaði vegna þess á tímabilinu.  

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010, hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hans var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi látið hjá líða að leggja fyrir fé í greiðsluskjóli og þar með brotið gegn skyldum sínum á þeim tíma. Telur umboðsmaður að kærandi hafi átt að leggja til hliðar 4.297.216 krónur frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögun var lögð fram. Kærandi kveðst hafa lagt til hliðar 1.500.000 krónur á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2011: Sex mánuðir
Nettótekjur  885.877
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 147.646
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur 2.594.669
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 216.222
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur 2.839.776
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 236.648
Tímabilið 1. janúar 2014 til 28. febrúar 2014: Tveir mánuðir
Nettótekjur 473.526
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 236.763
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 6.793.848
Nettó mánaðartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 211.557

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda án dagpeninga, vaxtabætur og vaxtaniðurgreiðslu, og fjárframlag frá maka var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. júlí 2011 til 28. febrúar 2014: 32 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 6.793.848
Vaxtabætur, sérstök vaxtaniðurgreiðsla og fjárframlag frá maka 1.746.948
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 8.540.796
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 266.900
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns* 132.612
Greiðslugeta  á mánuði 134.288
Alls sparnaður í 32 mánuði í greiðsluskjóli x 134.288 4.297.216

*Helmingur á móti maka.

Við mat á því hvaða fjárhæð kæranda bar að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur en í lge. er ekki heimild til að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem umboðsmaður skuldara reiknar út.

Samkvæmt ofangreindu hefði kærandi átt að getað lagt til hliðar 4.297.216 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Kærandi kveðst hafa lagt fyrir 1.500.000 krónur á tímabilinu en hann hefur þó ekki lagt fram nein gögn til staðfestingar því. Með vísan til framangreindra útreikninga er ekki unnt að fallast á með kæranda að hann hafi ekki getað lagt fjármuni til hliðar meðal annars vegna hárra fasteignagjalda, en tekið er tillit til greiðslu fasteignagjalda við útreikninga á útgjöldum kæranda á tímabili greiðsluskjóls. Þá hefur kærandi ekki lagt fram neina reikninga fyrir útlögðum kostnaði vegna tjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir og er því ekki unnt að taka tillit til þess við útreikning sparnaðar.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að þar sem kærandi hefur brugðist skyldum sínum samkvæmt framangreindu lagaákvæði hafi umboðsmanni skuldara borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta