Mál nr. 50/2014
Mál nr. 50/2014
Fimmtudaginn 8. september 2016
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 28. apríl 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. maí 2014 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi 16. september 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. október 2014.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 24. október 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 9. maí 2014 og voru þær sendar umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 19. maí 2014. Frekari athugasemdir bárust ekki.
I. Málsatvik
Kærendur eru fædd X og X. Þau eru í hjúskap og eiga uppkomin börn. Þau búa í eigin fasteign að C ásamt uppkominni dóttur og fjölskyldu hennar. Fasteignin er X fermetrar að stærð. Kærendur eiga einnig 40% eignarhluta í sumarbústað að D. Kærandi A er [...] með eigin atvinnurekstur. Kærandi B hefur verið metin til 75% örorku og fær örorkulífeyri frá Tryggingastofnun.
Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 29. apríl 2014, eru 60.031.629 krónur.
Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til kaupa á fasteign haustið 2007 og erfiðleika við að selja fyrri fasteign.
Kærendur lögðu fram umsókn sína um greiðsluaðlögun 27. ágúst 2013, en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. maí 2014 var umsókninni hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur óska þess að umsókn þeirra verði endurskoðuð eða að kannað verði hvort önnur úrræði séu til staðar hjá umboðsmanni skuldara. Skilja verður þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærendur kveða ástæðu synjunar hafa verið skattaskuldir fyrirtækis annars þeirra. Þau hafi sótt um greiðsluaðlögun 27. ágúst 2013, en þá hafi kærendur ekki séð fyrir að fyrirtækið gæti ekki greitt skuldirnar. Fyrirtækið hafi svo orðið gjaldþrota.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.
Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæði d-liðar hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir, sem refsing liggi við, girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.
Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá hafi kærandi A verið skráður stjórnarmaður, framkvæmdarstjóri og prókúruhafi félagsins E. Félagið var úrskurðað gjaldþrota X.
Samkvæmt yfirliti frá Tollstjóra hafi félagið E ekki staðið skil á eftirfarandi opinberum gjöldum í krónum:
Opinber gjöld* | Fjárhæð |
Virðisaukaskattur | 4.716.499 |
Staðgreiðsla, launagreiðandi | 1.681.542 |
Staðgreiðsla, launagreiðandi ** | 287.280 |
Samtals: | 6.685.321 |
*Miðað við yfirlit Tollstjóra frá 6. desember 2013, til skuldanna stofnaðist á árunum 2010-2013.
**Skuld byggir á áætlun.
Höfuðstóll skulda félagsins, sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu í skilningi 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda vegna vangoldins virðisaukaskatts og staðgreiðslu launa, nemi alls 6.398.041 krónu auk vaxta, álags, annars kostnaðar og áætlaðra skattskulda. Gætu þessi brot varðað kæranda refsingu stöðu hans vegna sem forsvarsmanns E sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.
Kærendum hafi verið sent bréf 11. apríl 2014 þar sem fram hafi komið að fjárhæðir skattskulda vegna framangreinds félags teljist út af fyrir sig verulega háar og verði að teljast verulegar með hliðsjón af fjárhag kærenda. Hafi kærendum verið tilkynnt með bréfinu að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun yrði að óbreyttu synjað á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. vegna áðurgreindra skattskulda.
Þrátt fyrir mat kærenda á stöðu E þegar þau sóttu um greiðsluaðlögun verði ekki framhjá því litið að umrætt fyrirtæki, sem kærandi A sé í forsvari fyrir, sé í miklum vanskilum með opinber gjöld. Að framangreindu virtu hafi það verið mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að veita umsækjendum heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d-liðar.
Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu, sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans, með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu.
Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Meðal þeirra atriða er d-liður 2. mgr. 6. gr. lge., sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, en umboðsmaður skuldara synjaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þess ákvæðis.
Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í ákvörðun sinni og varða d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eru neðangreindar vörsluskattskuldir E sem kærandi A var í forsvari fyrir, vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu launagreiðanda í krónum:
Upphafleg fjárhæð | Fjárhæð í janúar 2014 | |
E | ||
Virðisaukaskattur 2010 | 1.530.000 | 2 .449.079 |
Virðisaukaskattur 2011 | 1.291.145 | 1.881.764 |
Virðisaukaskattur 2012 | 1.026.877 | 1.323.523 |
Virðisaukaskattur 2013 | 868.477 | 1.024.489 |
Staðgreiðsla launagreiðanda 2011 | 790.277 | 1.129.048 |
Staðgreiðsla launagreiðanda 2012 | 1.183.612 | 1.534.964 |
Staðgreiðsla launagreiðanda 2013 | 22.456 | 26.280 |
Samtals | 6.712.112 | 9.369.156 |
Fyrir liggur samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá að á þeim tíma er hér skiptir máli var kærandi A framkvæmdastjóri, stjórnarmaður og prókúruhafi E. Hvíldi því á honum sú skylda fyrirsvarsmanns félags, sem tilgreind er í 1. og 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, að því er varðar fjárreiður og eignir félags. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Fyrirsvarsmaður félags skal einnig hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.
Eins og sjá má af framangreindu ber fyrirsvarsmönnum lögaðila að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda A sem fyrirvarsmann E.
Að því er varðar ofangreindar vörsluskattskuldir verður að líta til þess að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem leitt geta til refsingar girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Samkvæmt gögnum málsins er höfuðstóll vörsluskattskulda E alls 6.809.436 krónur og nemur heildarskuldin alls 9.369.156 krónum með vöxtum. Með því að láta hjá líða að skila vörsluskattsköttum hefur kærandi A bakað sér skuldbindingu með refsiverðri háttsemi í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt og 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.
Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kærenda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt skattframtali 2014 er eignastaða kærenda neikvæð um 12.481.072 krónur. Nettó launatekjur kærenda samkvæmt skattframtali 2014 að viðbættum vaxtabótum samkvæmt skattframtali 2013 nema alls 463.377 krónum á mánuði að meðaltali árið 2013. Skuld sem kærandi A hefur stofnað til með framangreindri háttsemi nemur 9.369.156 krónum með vöxtum eða 15,7% af heildarskuldum kærenda samkvæmt framangreindu. Þetta er skuld sem telja verður allháa, en hún fellur ekki undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi Ahefur stofnað til þessarar skuldar með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.
Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Í ofangreindu dómsmáli var skuldin vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Kærunefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili, enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir.
Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að teljast verulegar miðað við fjárhag kærenda þannig að ekki sé hæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir