Mál nr. 26/2014
Mál nr. 26/2014
Fimmtudaginn 22. september 2016
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 12. mars 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 27. febrúar 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 18. mars 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. maí 2014.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 30. maí 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Kærandi ítrekaði fyrri málflutning með bréfi 12. júní 2014.
I. Málsatvik
Kærandi er fæddur X. Hann er búsettur að B en á fasteign að C þar sem fyrrverandi eiginkona kæranda og börn hans búa.
Kærandi starfar sem [...] og nema mánaðarlegar nettó tekjur hans 217.682 krónum.
Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 49.093.517 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2005, 2007 og 2008.
Að sögn kæranda má helst rekja fjárhagserfiðleika hans til atvinnuleysis, tekjulækkunar, skilnaðar, vankunnáttu í fjármálum og ábyrgðarskuldbindinga.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. mars 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum hans.
Með bréfi til umboðsmanns skuldara 24. september 2013 tilkynnti umsjónarmaður að hann legði til að felldar verði niður greiðsluaðlögunumleitanir kæranda og vísaði í því sambandi til 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
Í tilkynningu umsjónarmanns kemur fram kærandi sé þinglýstur eigandi að fasteigninni C. Fasteignamat eignarinnar árið 2013 hafi verið 30.650.000 krónur. Afborganir af fasteignaveðkröfum innan matsverðs hafi verið 180.000 krónur á mánuði og þannig töluvert hærri en greiðslugeta kæranda. Vegna takmarkaðrar greiðslugetu hafi það verið afstaða umsjónarmanns að selja þyrfti fasteign kæranda með hliðsjón af ákvæði 1. mgr. 13. gr. lge. Umsjónarmaður tilkynnti kæranda um afstöðu sína til sölu fasteignarinnar 12. september 2013. Þann 19. september 2013 tilkynnti kærandi umsjónarmanni að hann hefði ekki hug á að selja fasteign sína. Með vísan til málavaxta og atvika málsins taldi umsjónarmaður sig knúinn til að leggja til niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana á grundvelli 1. mgr., sbr. 5. mgr. 13. gr., og jafnframt 21. gr., sbr. 15. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 12. febrúar 2014 þar sem honum var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til að leita greiðsluaðlögunar. Svar kæranda til umboðsmanns skuldara barst með bréfi 19. febrúar 2014.
Með ákvörðun 27. febrúar 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans svo að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Fram kemur í kæru að haustið 2012 hafi kærandi skrifað undir greiðsluaðlögunarsamning hjá umsjónarmanni. Umsjónarmaður hafi tjáð kæranda að sá samningur hefði verið staðfestur en komið hafi í ljós að svo var ekki. Ári síðar hafi kærandi verið kallaður til að ganga frá greiðsluaðlögunarsamningi sem hafi verið á öðrum forsendum og að mati kæranda engan veginn ásættanlegur. Kærandi kveðst ekki hafa fengið upplýsingar frá umboðsmanni skuldara um að fyrri greiðsluaðlögunarsamningur hafði verið felldur niður. Umsjónarmaður hafi upplýst umboðsmann skuldara um að hann hefði tjáð kæranda að samningur, sem undirritaður hafi verið árið 2012, hefði verið felldur úr gildi. Kærandi kveðst ekki kannast við að umsjónarmaður hafi tilkynnt honum um það.
Kærandi kveðst afar ósáttur við að í ferlinu hafi ekki verið fenginn hlutlaus aðili til að reikna út þær kröfur sem kröfuhafar telji sig eiga á hendur honum.
Kærandi kveðst ekki hafa fengið tækifæri til að ganga inn í kaup á fasteigninni þegar kröfur fóru frá Glitni yfir til Íslandsbanka. Lánin hafi enn ekki verið þinglýst á nýjan kröfuhafa samkvæmt neytendalögum. Kærandi telur að rétt hafi verið að bíða með afgreiðslu málsins þar til eftir skuldaleiðréttingu stjórnvalda og að dómar féllu í málum varðandi verðtryggð lán.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr., skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Það sé samdóma mat umsjónarmanns og umboðsmanns skuldara að koma þurfi til sölu fasteignar kæranda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. Samkvæmt gögnum málsins sé greiðslugeta kæranda einungis 26.506 krónur á mánuði og því ljóst að ekki verði komist hjá sölu fasteignar í greiðsluaðlögunarferli. Kærandi hafi ekki samþykkt sölu fasteignar sinnar, þrátt fyrir ákvörðun umsjónarmanns þar um.
Kærandi hafi staðið í þeirri trú að greiðsluaðlögunarsamningur hefði komist á í máli hans. Þegar greiðsluaðlögunarsamningur kæranda lá fyrir í ágústmánuði 2012 hafi umboðsmaður skuldara verið í samningaviðræðum við lífeyrissjóði, en á þeim tíma hafi þeir hvorki talið sig bundna af 12. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði né hafi þeir viljað veita eftirgjöf á afmáðum kröfum af fasteign, en samkomulag um framangreint hefði verið gert við helstu fjármálafyrirtæki á Íslandi. Vinnsla þeirra mála, þar sem lífeyrissjóðir hafi verið kröfuhafar, hafi verið sett í bið enda hafi ekki legið fyrir að samkomulag næðist um eftirgjöf á kröfu viðkomandi lífeyrissjóðs og samningur því ekki til þess fallinn að veita úrlausn á skuldavanda kæranda. Í október 2012 hafi legið fyrir að ekki næðist samkomulag við lífeyrissjóðina og hafi þeim tilmælum verið beint til umsjónarmanna að bíða með umrædd mál. Undantekning hafi verið gerð í þeim tilvikum þar sem viðkomandi lífeyrissjóður hefði, með sérstakri yfirlýsingu, samþykkt að fallast á eftirgjöf krafna sem tækju stöðu samningskrafna í kjölfar afmáningar veðskulda af fasteign samkvæmt 12. gr. laga nr. 50/2009. Almenni lífeyrissjóðurinn hafi ekki viljað gefa út slíka yfirlýsingu og hafi því ekki komið til eftirgjafar á kröfu sjóðsins á hendur kæranda. Greiðsluaðlögunarsamningur kæranda hafi af þessum sökum ekki verið undirritaður af umboðsmanni skuldara. Umboðsmaður skuldara hafi leitast við að upplýsa kæranda um stöðu mála en 4. október 2012 hafi kærandi sjálfur haft samband við ráðgjafa hjá embættinu. Hann hafi verið upplýstur um að samningurinn hefði ekki verið staðfestur. Þar sem kæranda hafi hvorki borist staðfest afrit af samningnum frá umboðsmanni skuldara né greiðsluseðlar samkvæmt honum hefði honum mátt vera ljóst að samningur hefði ekki komist á.
Embættið hafi talið að ekki væri unnt tefja greiðsluaðlögunarumleitanir á meðan beðið væri eftir niðurstöðu stjórnvalda um almenn úrræði, til að mynda varðandi leiðréttingu verðtryggðra lána. Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi staðfest skilning embættisins hvað þetta varðar í úrskurðum í málum nr. 234/2012 og 230/2012.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunnar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Í máli þessu liggur fyrir frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun frá 20. júní 2012 sem kærandi og skipaður umsjónarmaður hafa undirritað. Samkvæmt 4. mgr, 17. gr. lge. telst frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun samþykkt þegar allir lánardrottnar sem málið snertir hafa samþykkt það. Samkvæmt skýringum umboðsmanns skuldara staðfesti embættið ekki samning kæranda þar sem Almenni lífeyrissjóðurinn hafði ekki fallist á að krafa sjóðsins, sem var utan matsverðs, félli undir greiðsluaðlögun kæranda. Verður samkvæmt því ekki talið að gildur greiðsluaðlögunarsamningur hafi komist á.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. Í 1. mgr. 16. gr. lge. segir að umsjónarmaður skuli eins fljótt og auðið sé eftir að kröfulýsingarfrestur sé liðinn gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Skuli frumvarpið samið í samráði við skuldara. Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má að mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar, nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi.
Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði er almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.
Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.
Í málinu liggur fyrir að greiðslugeta kæranda er um 26.506 krónur á mánuði. Í tilkynningu umsjónarmanns og í hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara er byggt á því að greiðslugeta sé 100.160 krónur að teknu tilliti til fjárframlags maka áður en greitt var af fasteignaveðlánum. Greiðsla þeirra innan matsverðs nam um 180.000 krónum á mánuði. Kærandi hafði því ekki greiðslugetu til að greiða af veðlánum innan matsverðs fasteignar, en verðmæti eignar var 29.000.000 krónur samkvæmt fasteignamati ársins 2012. Kærandi samþykkti ekki sölu fasteignar sinnar. Samkvæmt þessu lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge. Því felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda réttilega niður með vísan til sömu lagaákvæða.
Samkvæmt öllu framansögðu er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir