Mál nr. 32/2014
Mál nr. 32/2014
Fimmtudaginn 13. október 2016
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.
Þann 27. mars 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. febrúar 2014 þar sem umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar var synjað.
Með bréfi 31. mars 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 23. maí 2014.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 28. maí 2014 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með tölvupósti 3. júní 2014.
Með bréfi 5. júní 2014 voru viðbótarathugasemdir kæranda sendar umboðsmanni skuldara til kynningar og óskað eftir afstöðu embættisins. Með tölvupósti 6. júní 2014 tilkynnti umboðmaður skuldara að embættið myndi ekki aðhafast frekar í málinu.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi er fæddur X og býr einn í eigin húsnæði að B, sem er X fermetrar að stærð. Hann á X börn sem búa hjá honum X daga aðra hvora viku að staðaldri. Kærandi starfar sem [...] og tekjur hans eru launatekjur.
Heildarskuldir kæranda eru 27.366.589 krónur samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 13. febrúar 2014. Þar af eru 25.590.586 krónur veðkröfur. Kærandi stofnaði til helstu skulda árið 2006 vegna fasteignakaupa og rekur ástæður skuldasöfnunar til þeirra kaupa,
Samkvæmt gögnum málsins var kæranda og sambýliskonu hans veitt heimild til greiðsluaðlögunar 10. maí 2011. Í kjölfar sambúðarslita kæranda var honum einum veitt heimild til áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitana 24. janúar 2012. Heimild hans var felld úr gildi með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. janúar 2013 á grundvelli 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem kærandi hafði ekki lagt nóg fyrir á 20 mánaða tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.
Kærandi lagði fram nýja umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 14. ágúst 2013. Með bréfi umboðsmanns skuldara 31. janúar 2014 var kæranda tilkynnt að embættið teldi óhæfilegt að samþykkja umsókn hans um greiðsluaðlögun á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.) og honum boðið að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós. Í bréfinu kom fram að við mat á því hvort kæranda yrði heimilt að sækja um greiðsluaðlögun á nýjan leik samkvæmt nýrri umsókn bæri embættinu að líta til fyrrgreinds lagaákvæðis. Andmæli kæranda bárust með tölvupósti 3. febrúar 2014.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. febrúar 2014 var umsókn kæranda synjað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærandi gerir athugasemdir við málsmeðferð umboðsmanns skuldara vegna afgreiðslu umsóknar hans. Að hans mati sé rangt að líta einkum til 6. gr. lge., en þetta sé eina grein laganna sem heimili embættinu að synja fólki um greiðsluaðlögun. Ekkert í lögunum veiti embættinu heimild til að horfa til einnar lagagreinar umfram aðra. Þá átelur kærandi að reglugerð hafi ekki verið sett samkvæmt 34. gr. lge. og því vinni embættið eftir persónulegu mati hvers starfsmanns í hverju máli fyrir sig.
Kærandi gerir athugasemd við ummæli í ákvörðun þess efnis að hann hafi ekki lagt fyrir ríflega 2,4 milljónir króna á því 20 mánaða tímabili sem hann var í greiðsluskjóli. Kærandi kveður þá fjárhæð hafa verið rangt reiknaða þegar greiðsluaðlögunarumleitanir hans voru felldar niður 28. janúar 2013 og henni hafi verið mótmælt. Viðurkenning embættisins á röngum útreikningi hafi legið fyrir og honum lofað nýjum útreikningi sem aldrei hafi komið fram.
Kærandi hafnar því sem fram hafi komið í ákvörðun umboðsmanns skuldara um að hann hafi ekki gert neinn reka að því að greiða af áhvílandi skuldbindingum sínum, þrátt fyrir greiðslugetu frá því heimild hans til greiðsluaðlögunar var felld úr gildi í janúar 2013. Hið rétta sé að hann hafi ekki átt að greiða afborganir áhvílandi skuldbindinga á meðan útreikningar færu fram hjá Arion banka á greiðslugetu heldur hafi hann átt að leggja þá fjármuni til hliðar.
Kærandi átelur umboðsmann skuldara fyrir að hafa ekki tekið til athugunar ákvörðun Neytendastofu nr. 8/2014 þar sem stofnunin hafi komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt hefði verið að innheimta verðbætur af verðtryggðum neytendalánum. Kærandi telur að hið sama eigi við um lánveitendur hans. Auk þess hafi komið í ljós hjá Íbúðalánasjóði að villa hafi verið í útreikningum eftirstöðva og áföllnum vanskilum. Þá vísar kærandi til þess að útreikningar Íbúðalánasjóðs og annarra lánveitenda verðtryggðra lána á Íslandi hafi verið ólöglegur.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.
Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.
Kæranda hafi áður verið veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar en heimild hans hafi verið felld niður á grundvelli 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Sú ákvörðun hafi byggst á því að kærandi hafi ekki lagt fyrir 2.413.682 krónur, en þá fjárhæð hafi kærandi átt að geta lagt til hliðar að teknu tilliti til mánaðarlegrar meðalgreiðslugetu hans á því 20 mánaða tímabili sem greiðsluaðlögunarumleitanir hafi staðið yfir. Við útreikning þeirrar fjárhæðar hafði þegar verið tekið tillit til óvæntra útgjalda kæranda á tímabili greiðsluskjóls að fjárhæð 424.995 krónur og sparnaðar að fjárhæð 300.000 krónur.
Miðað við fyrirliggjandi gögn hafi kærandi átt aflögu 46.190 krónur á mánuði, að teknu tilliti til framfærslu og annars kostnaðar. Þrátt fyrir að kærandi hafi þannig verið fær um að greiða af áhvílandi skuldbindingum sínum að einhverju leyti verði ekki séð af gögnum málsins að kærandi hafi gert það frá því að greiðsluskjóli hans lauk við það að fyrri greiðsluaðlögunarumleitanir hans voru felldar niður 28. janúar 2013.
Í svari kæranda við bréfi umboðsmanns skuldara 3. febrúar 2014 hafi komið fram að strax eftir að greiðsluaðlögunarumleitanir hans voru felldar niður vegna fyrri umsóknar hans, hafi hann leitað til Arion banka. Þar hafi honum verið sett þau skilyrði fyrir afgreiðslu að hann ætti ekki að greiða af lánum sínum þann tíma er umsókn hans væri í ferli. Arion banki hafi unnið að málinu allt þar til í ágúst 2014, en þá hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að kærandi væri ekki með neinar skuldir við bankann þannig að ekkert hafi verið hægt að gera fyrir hann. Í framhaldinu hafi honum verið ráðlagt af hálfu Arion banka að reyna að sækja aftur um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara eða reyna að ná einhverjum samningum við lánardrottna.
Hvað sem samskiptum kæranda við Arion banka líði þá verði ekki hjá því litið að kærandi hafi ekki lagt til hliðar rúmlega 2.400.000 króna á því 20 mánaða tímabili sem fyrri greiðsluaðlögunarumleitanir hans stóðu yfir og honum var skylt að gera samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Frá þeim tíma, sem liðið hafi frá því að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður í janúar 2013, hafi hann ekki gert neinn reka að því að greiða af áhvílandi skuldbindingum sínum, þrátt fyrir að vera fær um það að einhverju leyti. Þá hafi kærandi ekki sinnt þeim áskorunum umboðsmanns skuldara að leggja fram gögn sem sýnt gætu fram á að hann hafi ekki látið hjá líða að standa við skuldbindingar sínar.
Samkvæmt þessu telur umboðsmaður skuldara að kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að standa í skilum eftir því sem honum var framast unnt, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Varðandi athugasemdir kæranda um að áætlaður sparnaður hafi ekki verið rétt reiknaður vísar umboðsmaður skuldara til þess er greini í ákvörðun um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana kæranda 28. janúar 2013, en þar kom fram að kærandi hafi lagt fram gögn um óvænt útgjöld sem umboðsmaður skuldara hafði ekki tekið tillit til. Að teknu tilliti til aukins rekstrarkostnaðar vegna bifreiðar, sparnaðar og framfærslukostnaðar kæranda hafi enn skort 1.760.751 krónu upp á sparnað hans.
Umboðsmaður skuldara fer því fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Kærandi krefst þess að hann haldi áfram í greiðsluskjóli þar til niðurstaða liggur fyrir hjá dómstólum um ólögmæti verðtryggðra lána. Auk þess kvartar hann yfir því að umboðsmaður skuldara hafi ekki tekið til neinnar athugunar stjórnvaldsákvörðun Neytendastofu um brot Íslandsbanka á upplýsingaskyldu við veitingu verðtryggðra lána.
Hlutverk greiðsluaðlögunar er samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Úrvinnsla greiðsluaðlögunarmáls fer eðli málsins samkvæmt fram miðað við stöðu skuldara á þeim tíma er hann sækir um greiðsluaðlögun. Eftir að sótt er um greiðsluaðlögun fer um málið samkvæmt ákvæðum lge. Kærunefndin telur að það sé hvorki hlutverk umboðsmanns skuldara né skipaðs umsjónarmanns samkvæmt lge. að hlutast til um að kanna lögmæti einstakra lána eða endurútreikning þeirra. Rannsóknarskyldu umboðsmanns skuldara ber að skýra með hliðsjón af þessu. Að því gættu verður ekki talið að ágalli hafi verið á málsmeðferðinni að þessu leyti af hálfu umboðsmanns skuldara.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.
Eins og fram er komið voru greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda felldar niður með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. janúar 2013. Kærandi sótti aftur um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 14. ágúst 2013 og var þeirri umsókn synjað með hinni kærðu ákvörðun 14. febrúar 2014. Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi látið hjá líða að greiða af skuldbindingum sínum eftir að greiðsluaðlögunarumleitanir voru felldar niður 28. janúar 2013 og að kærandi hafi ekki lagt fyrir fé eins og honum hafi borið að gera á meðan hann leitaði greiðsluaðlögunar á tímabilinu 10. maí 2011 til 28. janúar 2013.
Eins og fram hefur komið var það niðurstaða umboðsmanns skuldara í hinni kærðu ákvörðun að þar sem kærandi hafði ekki lagt fyrir fjármuni í samræmi við skyldur hans samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. í eldra máli hjá embættinu hefði kærandi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. Að mati kærunefndarinnar verður ekki fallist á að brot kæranda á skyldum hans samkvæmt 12. gr. lge. í eldra máli geti verið grundvöllur synjunar með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Verður því ekki fjallað frekar um þennan þátt í hinni kærðu ákvörðun.
Samkvæmt staðgreiðsluyfirliti kæranda voru nettótekjur hans á tímabilinu 1. febrúar 2013 til 31. desember 2013 eftirfarandi í krónum:
Nettótekjur | 4.890.247 |
Nettó mánaðartekjur að meðaltali | 444.568 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara* | 322.232 |
Greiðslugeta kæranda á mánuði | 122.336 |
* Útgjöld miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara í janúar 2014 og raunupplýsingar frá kæranda.
Samkvæmt gögnum málsins greiddi kærandi ekki af veðskuldum sem voru í vanskilum frá þeim tíma er greiðsluaðlögunarumleitanir hans voru felldar niður 28. janúar 2013 og þar til hann sótti aftur um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 14. ágúst 2013. Kærandi kveðst ekki hafa mátt greiða af skuldum sínum á þessum tíma heldur hafi hann átt að leggja þá fjármuni til hliðar samkvæmt skilmálum sem Arion banki hf. hafi sett honum þegar hann leitaði úrræða hjá þeim. Engin gögn liggja þó fyrir í málinu um þessar staðhæfingar kæranda. Úrlausn málsins verður ekki byggð á öðru en þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu. Ekki er því hægt að leggja til grundvallar skýringar kæranda sem ekki eru studdar viðhlítandi gögnum.
Að mati kærunefndarinnar verður að gera þá kröfu til einstaklinga, sem glíma við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta. Í málinu liggur fyrir að á þeim tíma er kærandi sótti um heimild til að leita greiðsluaðlögunar í ágúst 2013 átti hann að meðaltali um 122.336 krónur á mánuði aflögu eftir að hafa greitt framfærslukostnað. Engu að síður ráðstafaði hann ekki þeim fjármunum sem voru umfram framfærslukostnað til greiðslu veðskulda.
Í málinu hefur ekki þýðingu að reglugerðarheimild 34. gr. lge. hefur ekki verið nýtt, enda fer um málsmeðferð samkvæmt lge. og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.
Að þessu virtu er það mat kærunefndarinnar að þær aðstæður sem lýst er í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við í málinu og að þær komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð samkvæmt lge. þar sem kærandi hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem hann framast gat. Samkvæmt því skorti þar með lagaskilyrði til að veita kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar og skiptir ekki máli í því sambandi þótt hann kynni að uppfylla önnur skilyrði laganna eins og hann virðist sjálfur telja að jafnframt hafi þurft að horfa til við úrlausn málsins. Með vísan til þess bar að synja umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.
Í ljósi þess er að framan greinir er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synja umsókn A um greiðsluaðlögun er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Þórhildur Líndal