Mál nr. 43/2014
Mál nr. 43/2014
Fimmtudaginn 13. október 2016
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.
Þann 16. apríl 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 11. apríl 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 14. maí 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 13. júní 2014.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 27. júní 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 24. september 2014. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 25. september 2014 og óskað eftir afstöðu embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 29. janúar 2015. Var hún send kæranda með bréfi 12. febrúar 2015 og honum aftur boðið að gera athugasemdir. Framhaldsgreinargerð kæranda barst með bréfi 30. nóvember 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.
I. Málsatvik
Kærandi er fæddur X. Hann býr ásamt eiginkonu sinni í eigin íbúð að B, sem er X fermetrar að stærð. Kærandi er skráður eigandi 50% eignarinnar á móti eiginkonu sinni.
Kærandi hefur stundað nám í [...] en er jafnframt með eigin atvinnurekstur.
Heildarskuldir kæranda eru 71.867.770 krónur samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara frá 18. desember 2012. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2010.
Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til fasteignakaupa árið 2012, hækkunar á afborgunum lána og tekjulækkunar.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. desember 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum hans.
Með bréfi til umboðsmanns skuldara 5. desember 2013 tilkynnti umsjónarmaður að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Því væri ekki annar möguleiki fyrir hendi en að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt lge.
Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að áhvílandi veðkröfur á fasteign kæranda að B séu 61.614.530 krónur, fasteignamat eignarinnar fyrir árið 2013 sé 42.600.000 króna en virði sambærilegra eigna sé varlega áætlað um 50.000.000 króna. Þá nemi mánaðarlegar afborganir af áhvílandi lánum 331.971 krónu á mánuði. Kærandi eigi 148.238 krónur á mánuði aflögu til að greiða af skuldbindingum sínum að teknu tilliti til kostnaðar vegna framfærslu. Umsjónarmaður taldi nauðsynlegt að selja fasteign kæranda, enda gæti hann ekki greitt af áhvílandi lánum innan matsverðs fasteignarinnar, auk þess sem umsjónarmaður teldi eignina óhóflega í skilningi lge. Í bréfinu kemur einnig fram að kærandi hafi lýst því yfir við umsjónarmann að hann væri ekki reiðubúinn til að taka ákvörðun um að selja fasteignina vegna óvissu um endurútreikning áhvílandi veðlána. Umsjónarmaður taldi ekki rétt að fresta ákvörðun um áframhald máls vegna þessa og lagði því til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. og 5. mgr. 13. lge.
Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 12. mars 2014 þar sem honum var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan viku og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans. Kærandi svaraði bréfi umboðsmanns skuldara 18. mars 2014.
Með ákvörðun 2. apríl 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda niður með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild hans til greiðsluaðlögunar verði ógilt.
Kærandi kveðst hafa átt í miklum samskiptum við kröfuhafa til að finna lausn á skuldamálum sínum. Stærsti kröfuhafinn, Arion banki, hafi svarað seint og illa svo að erfitt hafi verið að gera sér grein fyrir stöðu mála. Kröfur bankans hafi undantekningarlaust verið langt umfram það sem réttmætt sé í eðlilegum viðskiptum og sé þá ekki litið til þess að lánveitandi hafi framið lögbrot við veitingu lánsins. Meðal lána sem tilgreind séu í lánayfirliti, sem bankinn hafi sent umboðsmanni skuldara, sé 15.000.000 króna lán sem bankinn telji kæranda skulda sér. Kæranda sé ókunnugt um þetta lán og hafi engar skýringar fengið á tilurð þess. Umboðsmaður skuldara hafi hlutast til um að lánin yrðu reiknuð upp á nýtt, en kærandi hafi talið nýjan útreikning rangan. Enn hafi ekki verið gerð leiðrétting á skuld kæranda, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess.
Kærandi telur að rökstuðningur í ákvörðun umboðsmanns skuldara sé vanreifaður og villandi að því leyti að ekki sé getið hvaða tekjur hafi legið til grundvallar greiðslumati eða hvernig útgjöld séu reiknuð. Þannig verði ekki ráðið af ákvörðuninni hvort greiðslumat hafi verið gert fyrir einstæðing eða hvort horft hafi verið til hjúskaparstöðu. Ekki sé fjallað um það í ákvörðun hvernig fjármagnskostnaður fasteignar hafi verið ákveðinn, þ.e. hvort miðað hafi verið við afborganir áhvílandi lána eða hvort byggt hafi verið á fjármagnskostnaði innan 100% verðmats eignar og þá hvaða verðmat það hafi verið. Þá sé í engu getið að hvaða leyti fasteignin teldist óhófleg, þ.e. hvort til grundvallar mati hafi legið stærð hennar, staðsetning eða raunvirði.
Í ákvörðunum stjórnvalda sem sæti rökstuðningi skuli vísað til þeirra réttarreglna sem ákvörðun byggist á. Að því marki sem ákvörðun sé matskennd skuli í rökstuðningi greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við matið, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá segi enn fremur í 2. mgr. sömu greinar að þar sem ástæða sé til skuli í rökstuðningi einnig rekja í stuttu máli upplýsingar um þau málsatvik sem hafi haft verulega þýðingu við úrlausn málsins. Ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 2. apríl 2014 geri hvorugt, heldur sé látið nægja að endurrita ákvæði 13. gr. lge. eftir orðanna hljóðan og staðhæfa að málsatvikum sé svo háttað sem í ákvæðinu greini.
Í samskiptum við umboðsmann skuldara hafi kærandi á öllum stigum gert athugasemdir við lýstar kröfur. Ekki sé að sjá að embættið hafi tekið athugasemdir kæranda alvarlega og sinnt rannsóknarskyldu sinni, eins kveðið sé á um í 10. gr. stjórnsýslulaga. Umboðsmanni skuldara hefði verið í lófa lagið að kalla eftir skilagrein vegna útgreiðslu láns og sannreyna hvernig verðmæti þess hafi verið ráðstafað. Sé staðhæfing kæranda rétt hafi borið að afgreiða kröfu Arion banka hf. sem umdeilda kröfu, sbr. 22. gr. lge. Kærandi hafi sjálfur reynt að afla skilagreinarinnar frá Arion banka hf. en án árangurs. Sjónarmið í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 234/2012 um að stjórnvaldi beri ekki að veita aðila stjórnsýslumáls sérfræðilega ráðgjöf eða sinna slíkri ráðgjöf fyrir hann, geti ekki orðið til að leysa umsjónarmann undan skyldum sem ákvæði lge. leggi á hann. Þeim sem leiti greiðsluaðlögunar sé heimilt eftir sem áður að hafa uppi mótmæli við einstaka kröfum, enda séu þau málefnaleg og rökum studd. Umsjónarmanni sé þá kleift að afgreiða tilteknar kröfur sem umdeildar og halda áfram umleitunum.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr., skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Í hinni kærðu ákvörðun vísar umboðsmaður skuldara til þess að umsjónarmaður hafi talið nauðsynlegt að selja fasteign kæranda þar sem kærandi hafi ekki getað greitt afborganir af henni, auk þess sem umsjónarmaður hafi metið eignina óhóflega.
Í andmælum kæranda, sem bárust í kjölfar bréfs umboðsmanns skuldara 12. mars 2014, komi fram að kærandi telji nauðsynlegt að rétt skuldastaða liggi fyrir áður en hann geti tekið afstöðu til sölu eignarinnar og að hann hafi aldrei haldið því fram að það kæmi ekki til greina að selja hana. Kærandi hafi mætt á fund með starfsmanni umboðsmanns skuldara 28. mars 2014 og beðið um frest til mánudagsins 31. mars til að taka afstöðu til þess hvort hann myndi samþykkja sölu á fasteigninni. Hringt hafi verið í kæranda 31. mars og hann þá beðið um frest til 1. apríl og sagst munu hafa samband við embættið morguninn eftir. Ekkert hafi heyrst frá kæranda síðan.
Umboðsmaður skuldara tekur undir þau rök umsjónarmanns að ekki sé tækt að mál kæranda bíði á meðan endanlegrar niðurstöðu frá Arion banka vegna gengistryggðs láns sé að vænta, auk þess sem niðurstaða endurútreiknings lánsins breyti engu um þá ákvörðun umsjónarmanns að selja skuli fasteign kæranda með vísan til þess að fasteignin teljist óhófleg.
Í framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að í tillögu umsjónarmanns frá 5. desember 2013 um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda hafi komið fram ítarlegur rökstuðningur fyrir því mati umsjónarmanns að fasteign kæranda skyldi seld. Mat umsjónarmanns hafi byggst á stöðu áhvílandi lána á fasteigninni, hverjar mánaðarlegar afborganir af þeim væru og hve mikið kærandi gæti greitt af þeim í hverjum mánuði. Þá hafi verið litið til andvirðis fasteignarinnar samkvæmt fasteignamati og sambærilegra eigna. Jafnframt komi fram í tillögu umsjónarmanns að eignin sé óhófleg og hafi þá bersýnilega verið átt við stærð hennar. Eignin sé X fermetrar og búi kærandi þar ásamt eiginkonu sinni.
Umboðsmaður skuldara tekur undir rökstuðning umsjónarmanns um að selja skuli fasteign kæranda, en bendir á að ákvörðun um söluna skuli tekin af hálfu umsjónarmanns en ekki embættisins. Þá hafi kæranda sérstaklega verið kynntur rökstuðningur umsjónarmanns með bréfi embættisins frá 12. mars 2014 þar sem atvik málsins hafi verið rakin ásamt því sem gögn hafi fylgt, þar á meðal fundargerðir, tölvupóstsamskipti og fleira sem hafi varpað frekara ljósi á forsendur málsins. Í fylgigögnum bréfsins hafi meðal annars legið fyrir fundargerð frá fundi 12. september 2013 sem kærandi hafði sérstaklega óskað eftir til að fá skýringar og forsendur fyrir mati umsjónarmanns á sölu fasteignarinnar.
Að mati embættisins hefði kæranda samkvæmt framangreindu ekki átt að geta dulist þær forsendur sem legið hafi að baki mati umsjónarmanns um nauðsyn þess að selja fasteignina. Kærandi hafi ekki samþykkt söluna og hafi því ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns í skilningi 5. mgr. 13. gr. lge. Því hafi umsjónarmaður lagt til að heimild kæranda til greiðsluaðlögunar yrði felld niður á grundvelli 5. mgr. 13. gr. lge.
Kærandi geri einnig athugasemdir við að umsjónarmaður og Embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni varðandi þær kröfur sem kærandi hafi gert athugasemdir við og telji óvissu ríkja um. Þessu hafni umboðsmaður skuldara og þyki af þessum sökum ástæða til að rekja stuttlega framvindu málsins um þetta atriði.
Fyrir tilstuðlan umsjónarmanns hafi farið fram sérstök athugun á lánum kæranda hjá Arion banka hf. með tilliti til endurútreikninga sérfræðings umboðsmanns skuldara í endurútreikningsmálum og hafi greiðsluaðlögunarmál kæranda verið sett í bið á meðan. Þann 27. nóvember 2013 hafi legið fyrir niðurstaða athugunar umboðsmanns skuldara á fyrrnefndum lánum kæranda hjá Arion banka hf. Ítarlega hafi verið farið yfir lán hans hjá bankanum og hafi sú athugun embættisins verið send kæranda.
Þá hafi mál kæranda einnig verið sett í vinnslu hjá ráðgjafa hjá umboðsmanni skuldara sem hafi kannað hvort mögulegt væri að semja við kröfuhafa um að koma lánum kæranda í skil og semja um greiðslur á kröfum sem féllu utan greiðsluaðlögunar með það að markmiði að leysa fjárhagsvanda hans án greiðsluaðlögunar. Þær umleitanir hafi ekki borið árangur.
Embættið telji því að fullyrðingar kæranda um að rannsóknarskyldu 10. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið fylgt séu tilhæfulausar.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Í 1. mgr. 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.
Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið þeirra aðgerða sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt, svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.
Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.
Í máli þessu hefur umsjónarmaður mælt fyrir um að selja skuli fasteign kæranda sem er skráður eigandi 50% eignarhluta fasteignarinnar að B á móti eiginkonu sinni. Ekkert liggur fyrir um afstöðu meðeiganda kæranda, eiginkonu hans, til sölu fasteignarinnar. Þar sem kærandi er aðeins eigandi hluta fasteignarinnar þarf meðeigandi hans, eðli málsins samkvæmt, að samþykkja sölu eignarinnar til að hún verði seld við greiðsluaðlögun. Ekki verður séð að einungis eignarhluti kæranda verði seldur, enda um óskipta fasteign að ræða. Þannig er atbeini eiginkonu kæranda nauðsynlegur til að eignin verði seld. Það kemur samkvæmt þessu fyrst til þess að meta viðhorf kæranda til fyrirhugaðrar sölu eignarinnar þegar meðeigandi hefur samþykkt söluna fyrir sitt leyti.
Að mati kærunefndarinnar eru við þessar aðstæður ekki fyrir hendi forsendur til þess að mæla fyrir um sölu nefndrar fasteignar, án þess að samþykki meðeiganda til sölunnar liggi fyrir. Fáist samþykki meðeiganda ekki kemur til kasta kröfuhafa að taka afstöðu til frumvarps kæranda til greiðsluaðlögunar með hliðsjón af atvikum málsins. Eins og málið liggur fyrir koma ákvæði 1. og 5. mgr. 13. gr. lge. því ekki til frekari skoðunar að svo stöddu.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda hafi verið felldar niður án þess að lagaskilyrði væru fyrir hendi. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir umboðsmann skuldara að taka málið til meðferðar að nýju.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er felld úr gildi og lagt fyrir embættið að taka mál kæranda fyrir að nýju.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Þórhildur Líndal