Mál nr. 46/2014
Mál nr. 46/2014
Fimmtudaginn 13. október 2016
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.
Þann 16. apríl 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 3. apríl 2014 þar sem kærendum var synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.
Með bréfi 5. maí 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 1. júlí 2014.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 3. júlí 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.
I. Málsatvik
Kærendur eru fædd X og X. Þau eru í hjúskap og búa ásamt uppkominni dóttur í eigin fasteign, X fermetra [...] að C.
Kærandi A er með eigin atvinnurekstur, D og starfar auk þess sem [...] fyrir E, f.h. D. Kærandi B er [...] hjá F.
Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 18. mars 2014, eru 56.986.838 krónur.
Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til húsnæðiskaupa og erfiðleika í eigin atvinnurekstri.
Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 18. febrúar 2013, en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. apríl 2014 var umsókn þeirra hafnað á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur krefjast þess að úrskurði umboðsmanns skuldara verði snúið við. Skilja verður þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærendur gera athugasemdir við það að þau hafi ekki fengið að koma andmælum sínum á framfæri við vinnslu málsins hjá umboðsmanni skuldara, en þau hafi beðið um frest til þess án árangurs í kjölfar bréfs embættisins 18. mars 2014. Fjórum dögum eftir frestbeiðni kærenda og að undangenginni ítrekun þeirra með tölvupósti hafi þeim verið tilkynnt að ákvörðun um að hafna umsókn þeirra hefði verið tekin sama dag og þau óskuðu upphaflega eftir frestinum. Þau hafi því ekki komið andmælum sínum að áður en ákvörðun var tekin af hálfu embættisins. Kærendur kveða innihald bréfs embættisins hafa verið tyrfið og að 15 daga frestur hefði verið of skammur tími til að átta sig á efni bréfsins.
Kærendur telja þá fullyrðingu umboðsmanns skuldara að þau hafi verið ófær um að standa við skuldbindingar sínar fyrir árið 2009 ekki standast og að embættið hafi ekki kannað stöðu félags kærenda, D í árslok 2006 en þá hafi félagið skilað ríflegum hagnaði. Þá gera þau enn fremur athugasemdir við þá túlkun umboðsmanns skuldara að erfiðleika þeirra megi rekja til áhættu vegna fyrirtækjareksturs og að það sé því óhæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar. Kærendur kveða D hafa tekið 9.500.000 króna lán 17. mars 2005 hjá Landsbankanum hf. vegna hráefniskaupa, en lánið hafi einungis verið veitt gegn því að þau tækju á sig sjálfskuldaábyrgð og veittu veð í fasteign sinni til tryggingar endurgreiðslu þess. Þá hafi lánið verið uppgreitt í árslok 2006.
Kærendur hafi síðar á árinu 2005 tekið nýtt lán hjá bankanum til að greiða upp eldra lán sem og annað lán frá Íbúðalánasjóði. Kærendur kveða D hafa verið nánast skuldlaust á þessum tíma, auk þess sem þau hafi verið með öll lán í skilum persónulega. Síðan hafi höfuðstóll lána hækkað verulega í kjölfar efnahagshrunsins, en þau hafi reynt eftir fremsta megni að standa í skilum þrátt fyrir það og verið í reglulegu sambandi við viðskiptabanka sinn sem hafi brugðist við með því að hækka yfirdrátt þeirra og félagsins. Landsbankinn ehf. hafi þannig annað hvort metið það sem svo að þau væru fær um að standa við skuldbindingar sínar með hliðsjón af viðskiptasögu eða að starfsmenn bankans hafi sýnt af sér vítavert gáleysi með því að heimila þeim að hækka yfirdrátt.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana.
Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinga var stofnað. Af gögnum málsins megi ráða að verulegur hluti skulda kærenda stafi frá atvinnurekstri, en í almennum athugasemdum við frumvarp til laga um greiðsluaðlögun komi fram að það sé ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem eigi fyrst og fremst í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði.
Í málinu hafi þótt liggja fyrir að kærendur hefðu tekið fjárhagslega áhættu með því að gangast undir ábyrgðir vegna atvinnurekstrar fyrir félagið D á árunum 2005-2009 en félagið sé í eigu kærenda. Ábyrgðarskuldbindingar vegna þriðja aðila verði ekki lagðar að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara heimild til að leita greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Engu að síður þurfi sá sem gangist undir ábyrgðarskuldbindingar að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum, að hluta eða í heild, og verði því ávallt að meta áhættuna í hverju tilviki. Því til stuðnings vísi embættið í úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 19/2011.
Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafi kærendur gengist undir eftirfarandi ábyrgðarskuldbindingar í krónum vegna atvinnurekstrar á árunum 2003 til 2009:
Skuldari | Útgefið | Kröfuhafi | Tegund | Upphafleg fjárhæð |
D | 3.12.2003 | Landsbankinn | Sjálfskuldarábyrgð | 500.000 |
D | 17.3.2005 | Landsbankinn | Tryggingarbréf/allsherjarveð | 9.500.000 |
D | 20.5.2005 | Landsbankinn | Sjálfskuldarábyrgð | 3.000.000 |
D | 22.5.2009 | Landsbankinn | Tryggingarbréf/allsherjarveð | 10.000.000 |
Alls: 23.000.000 |
Samkvæmt skattframtali ársins 2006 hafi fjárhagur kærenda verið eftirfarandi í lok árs 2005 í krónum:
Framfærslutekjur alls á mánuði | 372.820 | |
Ráðstöfunartekjur á mánuði* | 69.694 | |
Eignir | 34.480.000 | |
Skuldir | 37.571.277 | |
Nettóeignastaða | -3.091.277 | |
* Miðað við framfærslukostnað samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara og öðrum uppgefnum kostnaði uppreiknað miðað við vísitölu neysluverðs 1. júlí 2005. | ||
Samkvæmt skattframtali ársins 2010 hafi fjárhagur kærenda verið eftirfarandi í lok árs 2009 í krónum:
Framfærslutekjur alls á mánuði | 606.974 | |
Ráðstöfunartekjur á mánuði* | 418.603 | |
Eignir | 41.747.098 | |
Skuldir | 51.339.231 | |
Nettóeignastaða | -9.592.133 | |
* Miðað við framfærslukostnað samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara og öðrum uppgefnum kostnaði uppreiknað miðað við vísitölu neysluverðs 1. júlí 2009. | ||
Við mat á því hvort kærendur teldust hafa tekið fjárhagslega áhættu með því að gangast undir framangreindar ábyrgðir hafi verið tekið mið af fjárhæðum ábyrgðarskuldbindinganna og möguleikum kærenda á því að standa skil á greiðslu þeirra, kæmi til þess að þær féllu á kærendur, á þeim tíma er þau gengust undir ábyrgðirnar. Eignastaða kærenda hafi verið neikvæð allt frá árinu 2005 en þau hefðu þá þegar veðsett fasteign sína og auk þess fengið lánsveð í annarri fasteign til tryggingar skuldum sínum. Þrátt fyrir persónulega skuldsetningu hefðu kærendur aukið við ábyrgðarskuldbindingar sínar um 10.000.000 króna árið 2009. Samtals hafi kærendur tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingar vegna D fyrir 30.558.196 krónur, sem upphaflega hafi staðið í 23.000.000 króna. Nemi uppreiknuð staða ábyrgðarskuldbindinga kærenda u.þ.b. 35% af heildarskuldbindingum þeirra. Af ársreikningum D fyrir rekstrarárin 2005 og 2009 megi lesa að rekstur félagsins hafi skilað tapi bæði árin sem nemi 8.072.000 krónum árið 2005 og 3.121.000 krónum árið 2009. Þá hafi tekjur félagsins og handbært fé lækkað verulega á milli áranna 2005 og 2009 samkvæmt ársreikningum félagsins og hafi árangurslaust fjárnám verið gert í búi D 4. desember 2013 og aftur 15. febrúar 2014.
Kærendum hafi verið tilkynnt með bréfi 18. mars 2014 að fyrirliggjandi gögn gæfu til kynna að þau hefðu stofnað til ábyrgðarskuldbindinga árin 2005 og 2009 þegar þau hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, kæmi til þess að þær féllu á þau. Kærendum hafi verið veittur 15 daga frestur til að tjá sig skriflega um málið en engin svör hafi borist.
Að öllu ofangreindu virtu hafi það verið mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. með skírskotun til greinargerðar laganna um að það sé ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eigi í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér úrræðið.
IV. Niðurstaða
Kærendur gera athugasemdir við það að þau hafi ekki fengið að koma andmælum sínum á framfæri við vinnslu málsins hjá umboðsmanni skuldara. Þau hafi beðið um frest til þess, en án árangurs í kjölfar bréfs embættisins 18. mars 2014 og hafi því ekki komið andmælum sínum að áður en ákvörðun var tekin af hálfu embættisins. Þá kveða kærendur innihald bréfs embættisins 18. mars 2014 hafa verið tyrfið og að 15 daga frestur hafi verið of skammur tími til að átta sig á efni bréfsins.
Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun í því er tekin. Í þessu er talinn felast réttur aðila til að koma að viðbótargögnum, upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli. Þessi réttur varðar einkum upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir mat á staðreyndum málsins eða sönnun um hverjar þær eru. Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 18. mars 2014 var þeim veitt færi á að tjá sig skriflega um efni málsins. Í bréfinu var meðal annars gerð grein fyrir b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. og útskýrt að hvaða leyti umboðsmaður skuldara teldi ákvæðið eiga við um fjárhag kærenda. Að mati kærunefndarinnar hafa kærendur með bréfi þessu fengið fullnægjandi tækifæri til að tjá sig um efni málsins á þann hátt sem gert er ráð fyrir í 13. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefndin telur samkvæmt þessu að andmælaréttur kærenda hafi verið virtur.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.
Samkvæmt b-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara var byggt á því að árið 2005 hafi mánaðarlegar meðaltekjur kærenda verið 372.820 krónur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar kærenda hafi greiðslugeta þeirra verið 69.694 krónur á mánuði. Ekki er fjallað um það í hinni kærðu ákvörðun hverjar mánaðarlegar afborganir af skuldbindingum kærenda voru á þessum tíma og engin gögn eru í málinu um það.
Samkvæmt upplýsingum í skattframtölum kærenda 2006, vegna tekna ársins 2005, voru tekjur þeirra eftirfarandi í krónum:
Nettólaunatekjur | 3.853.683 |
Aðrar tekjur* | 432.000 |
Meðaltekjur á mánuði | 357.140 |
* Nettóleigutekjur. Ekki er að finna frekari upplýsingar um aðrar tekjur árið 2005 í gögnum málsins.
Samkvæmt upplýsingum í skattframtali kærenda 2006, vegna tekna ársins 2005, voru eignir þeirra og skuldir eftirfarandi í krónum:
C | 33.480.000 |
Bifreiðir | 0 |
Bankainnstæður | 0 |
Hlutabréf og önnur verðbréf | 1.000.000 |
Eignir alls | 34.480.000 |
Veðskuldir | 29.914.522 |
Aðrar skuldir | 7.656.755 |
Skuldir alls | 37.571.277 |
Nettó eignastaða | -3.091.277 |
Samkvæmt gögnum málsins var nettó eignastaða kærenda í lok árs 2005 neikvæð um 3.091.277 krónur. Áhvílandi veðkröfur voru í lok árs 2005, samkvæmt skattframtali 2006, 29.914.522 krónur en verðmæti fasteignar kærenda að C var samkvæmt fasteignamati 33.480.000 krónur. Laust veðrými fasteignarinnar var því 3.565.478 krónur í lok árs 2005.
Ábyrgðarskuldbindingar kærenda samkvæmt gögnum frá Landsbankanum eru þessar í krónum:
Kröfuhafi | Útgefið | Tegund | Upphafleg fjárhæð | Fjárhæð | Skuldari |
Landsbanki hf. | 2005 | Tryggingarbréf | 9.500.000 | 8.411.409 | D |
Landsbanki hf. | 2005 | Sjálfskuldarábyrgð | 3.000.000 | 5.663.475 | D |
Landsbanki hf. | 2003 | Sjálfskuldarábyrgð | 500.000 | 0 | D |
Alls | 13.000.000 | 14.074.884 |
Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin þau atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge., sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, en umboðsmaður skuldara synjaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.
Í hinni kærðu ákvörðun er byggt á því að kærendur hafi stofnað til skuldbindinga með ámælisverðum hætti og tekið fjárhagslega áhættu með því að gangast undir ábyrgðarskuldbindingar fyrir félagið D annars vegar árið 2005 og hins vegar árið 2009. Um það er sérstaklega vísað til þess að 17. mars 2005 hafi kærendur tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna tryggingarbréfs E við Landsbankann að fjárhæð 9.500.000 króna sem og að kærandi A hafi gengist í ábyrgð vegna skuldabréfs D við Landsbankann 22. maí 2009 að fjárhæð 10.000.000 króna.
Samkvæmt gögnum málsins gaf D út tryggingarbréf nr. 0140-74-5386 til Landsbankans 17. mars 2005 að fjárhæð 9.500.000 krónur og veittu kærendur veð samkvæmt tryggingarbréfinu á 4. veðrétti í fasteign sinni að C. Samkvæmt tryggingarbréfinu, sem var allsherjarveð, voru allar skuldbindingar D við Landsbankann tryggðar með veði í fasteign kærenda. Gögn málsins benda til þess að á sama tíma hafi D tekið lán nr. X einnig að fjárhæð 9.500.000 krónur, en það kveða kærendur hafa verið til hráefniskaupa í þágu rekstrarins. Tryggingarbréfið hafi staðið til tryggingar því láni og kærendur kveða það hafa verið uppgreitt í lok ársins 2006. Ekkert er að finna í gögnum málsins sem styður þessa staðhæfingu kærenda.
Í gögnum málsins kemur einnig fram að D hafi gefið út skuldabréf nrX til Landsbankans 22. maí 2009 að fjárhæð 10.000.000 króna. Engin gögn liggja fyrir í málinu sem staðfesta að kærendur hafi gengist undir sjálfskuldarábyrgð vegna lánsins, en fyrir liggur að tryggingarbréfið 17. mars 2005 var gefið út til tryggingar öllum skuldum D hjá Landsbankanum hf. Til þess verður þó að líta að engin gögn liggja fyrir í málinu um stöðu tryggingarbréfsins á þeim tíma er ofangreint skuldabréf var gefið út.
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er miðað við að framfærslukostnaður kærenda hafi verið 303.126 krónur á mánuði árið 2005 en framfærslukostnaður árið 2009 er talinn vera 188.371 króna á mánuði samkvæmt sömu ákvörðun. Ekkert liggur fyrir í gögnum málsins sem getur skýrt það hvers vegna miðað er við mun hærri framfærslukostnað árið 2005 en árið 2009. Enn fremur vantar álagningarseðil skattframtals 2005 í málið og liggja því ekki fyrir upplýsingar um aðrar tekjur kærenda vegna bóta árið 2005.
Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvaldi er þess vegna nauðsynlegt að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga stjórnvaldi ber að afla um viðkomandi mál. Eins og mál þetta liggur fyrir var það einn meginþáttur í rannsókn umboðsmanns skuldara að afla viðhlítandi upplýsinga um fjárhag kærenda á tilteknu tímabili til að unnt væri að leggja mat á hvort þau uppfylltu skilyrði lge. til að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar.
Hvorki verður séð af gögnum málsins að umboðsmaður skuldara hafi aflað gagna um greiðslubyrði lána né um allar tekjur kærenda árið 2005. Þá verður ekki séð að aflað hafi verið yfirlits árið 2009 um stöðu þeirra skulda sem tryggingarbréfið tók til. Að auki er óljóst á hvaða forsendum umboðsmaður skuldara byggði áætlaðan framfærslukostnað kærenda árið 2005. Þannig liggur ekki fyrir hver áætluð greiðslugeta kærenda var þegar þau stofnuð til ábyrgðarskuldbindingar samkvæmt tryggingarbréfi að fjárhæð 9.500.000 krónur 17. mars 2005.
Að öllu ofangreindu virtu þykir fjárhagur kærenda á þeim tíma er hér skiptir máli vera of óljós til að hægt sé að leggja mat á hann með fullnægjandi hætti. Í ljósi þessa og atvika málsins að öðru leyti telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hefði verið rétt að afla viðeigandi upplýsinga og gagna til að unnt væri að leggja réttan grunn að málinu þegar ákvörðun var tekin í því.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður að telja að lögbundnu mati Embættis umboðsmanns skuldara á því hvort óhæfilegt væri samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. að veita kærendum heimild til að leita skuldaaðlögunar hafi verið áfátt þar sem nægilegra upplýsinga og gagna hafði ekki verið aflað áður en hin kærða ákvörðun var tekin, sbr. 2. mgr. 5. gr. lge. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og er lagt fyrir umboðsmann skuldara að taka málið til meðferðar að nýju.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er felld úr gildi og lagt fyrir umboðsmann skuldara að taka málið aftur til meðferðar.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Þórhildur Líndal