Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 47/2014

Mál nr. 47/2014

Fimmtudaginn 6. október 2015

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 23. apríl 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 8. apríl 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 7. maí 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 8. júlí 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 9. júlí 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 14. janúar 2015. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur X. Hann er rafmagnsverkfræðingur og starfar hjá B.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 118.287.979 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005-2007.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til fasteignakaupa og afleiðinga efnahagshrunsins árið 2008.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. maí 2011 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum hans.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 5. febrúar 2014 kom fram að kærandi hefði ekki lagt til hliðar nægilega fjármuni á því tímabili sem frestun greiðslna hafði staðið yfir eða allt frá 28. október 2010. Auk þess telji umsjónarmaður að nauðsynlegt sé að kveða á um sölu fasteignar í greiðsluaðlögunarsamningi þar sem kröfuhafar hafi ekki samþykkt frumvarp sem geri ráð fyrir að kærandi haldi fasteign. Auk þess hafi umsjónarmaður talið fasteign kæranda vera umfram þarfir kæranda og fjölskyldu hans.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 20. febrúar 2014 þar sem honum var kynnt að fram væru komnar upplýsingar sem gætu leitt til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir hans yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge). Kæranda var jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan viku og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunar. Engin svör bárust.

Með ákvörðun 4. apríl 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar. Skilja verður þetta svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Kærandi krefst þess einnig að greiðsluaðlögunarumleitunum hans verði haldið áfram.

Kærandi vísar til þess að hann telji sig hafa uppfyllt kröfur um sparnað á tímabili greiðsluskjóls. Jafnframt hafi hann reglulega skilað inn gögnum um útgjöld til umsjónarmanns og hafi því fullyrðing um skort á gögnum komið honum á óvart. Kærandi kveðst hafa lagt til hliðar 2.200.000 króna en ekki 1.100.000 króna líkt og fram komi í forsendum ákvörðunar umboðsmanns skuldara. Kærandi kveðst greiða eitt og hálft meðlag með barni sínu.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærandi hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 28. október 2010 og hafi frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafist á þeim degi. Öllum er sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar og nutu greiðsluskjóls hafi verið send bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Þær upplýsingar hafi einnig verið að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara www.ums.is. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun sem honum hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara.  Kæranda hafi því vel mátt vera ljóst að hann skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hann hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 39 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. nóvember 2010 til 31. janúar 2014. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. nóvember 2010 til 31. janúar 2014 að frádregnum skatti 16.172.477
Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 669.043
Samtals 16.841.520
Mánaðarlegar meðaltekjur 431.833
Framfærslukostnaður á mánuði 314.120
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 117.713
Samtals greiðslugeta í 39 mánuði 4.590.821

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji.  Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærandi kveðst hafa þurft að standa straum af auknum kostnaði á tímabilinu vegna viðhalds og reksturs bifreiðar, tannlæknaþjónustu, viðgerða á fasteign og endurnýjunar húsgagna, samtals að fjárhæð 345.000 krónur, auk þess að hafa styrkt son sinn fjárhagslega um 365.000 krónur. Engin gögn hafi verið lögð fram því til stuðnings og geti umboðsmaður skuldara þannig að óbreyttu ekki tekið tillit til framangreinds kostnaðar.

Umboðsmaður skuldara fellst á að 207.987 krónur dragist frá áætluðum sparnaði kæranda vegna aukins framfærslukostnaðar hans og að teknu tilliti til meðlagsgreiðslna og greiddrar húsaleigu í janúar 2012. Kærandi hafi lagt 1.100.000 króna til hliðar á tímabili greiðsluskjóls. Þannig hafi verið gerð grein fyrir alls 1.307.987 krónum af þeim 4.590.921 krónu sem reiknað sé með að kærandi hefði getað lagt til hliðar á tímabilinu.

Í greinargerð kæranda komi fram að hann hafi greitt eitt og hálft meðlag á tímabilinu en ekki eitt meðlag eins og greiðsluáætlun hans geri ráð fyrir. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við útreikninga embættisins að þessu leyti á meðan á meðferð málsins stóð.

Þegar stjórnvaldsákvarðanir séu teknar sé ekki fært að byggja á öðru en því sem liggi fyrir í málinu á þeim tíma sem ákvörðun sé tekin. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi kæranda gefist færi á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn í samræmi við skyldu stjórnvalds til að veita andmælarétt þegar stjórnvaldsákvarðanir séu teknar, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1993. Kærandi hafi lagt fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála upplýsingar sem ekki hafi legið fyrir í málinu þegar ákvörðun var tekin. Þar sem þær upplýsingar hafi ekki legið fyrir, er hin kærða ákvörðun var tekin, hafi þær því ekki áhrif á gildi hennar með afturvirkum hætti.

Sé engu að síður reiknað með því að kærandi hafi greitt hærra meðlag á tímabilinu breyti það ekki forsendum ákvörðunar embættisins um niðurfellingu heimildar kæranda til greiðsluaðlögunar. Sé hálfu meðlagi bætt við útgjöld kæranda á tímabilinu, samtals 615.039 krónum, standi enn eftir 2.667.795 krónur sem hann hefði átt að leggja til hliðar. Sé þar að auki reiknað með því að kærandi hafi lagt 2.200.000 króna fyrir í stað 1.100.000 króna, standi enn eftir 1.567.795 krónur sem reiknað sé með að hann hefði mátt leggja til hliðar að auki. Þá hafi kærandi heldur ekki lagt fram gögn sem sýni fram á að hann hafi sparað 2.200.000 króna á tímabili greiðsluskjóls eins og hann haldi fram.

Af þeim sökum verði því að telja að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt  a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar þá fjármuni sem féllu til umfram framfærslukostnað á tímabili frestunar greiðslna.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Kærandi hafi ekki samþykkt sölu fasteignar sinnar þrátt fyrir að umsjónarmaður hafi metið að slíkt væri nauðsynlegt í greiðsluaðlögunarferli, sbr. ofangreint lagaákvæði.

 Kærandi eigi 50% hlut í fasteigninni C sem sé X fermetra [...].  Verðmæti eignarinnar nemi 51.500.000 krónum samkvæmt verðmati fasteignasala frá 2013. Fasteignamat eignarinnar sé 50.800.000 krónur. Samkvæmt frumvarpsdrögum umsjónarmanns sé raunafborgun veðkrafna innan matsverðs alls 311.838 krónur á mánuði. Samkvæmt greiðsluáætlun fyrir febrúar 2014 reiknist greiðslugeta kæranda 193.900 krónur á mánuði. Umsjónarmaður kveði kæranda geta staðið við greiðslur áhvílandi veðkrafna innan matsverðs ásamt sambýliskonu sinni.

Kærandi kveðist þurfa á húsnæðinu að halda vegna erfiðra félagslegra aðstæðna barna sambýliskonu sinnar og einnig vegna þess að samtals eigi þau X börn og búi X þeirra hjá þeim að staðaldri, bæði að hluta til og að fullu. Sé þeim því nauðsynlegt að halda fasteign sinni þar sem þau þurfi á nægilega rúmgóðu húsnæði að halda með hagsmuni fjölskyldunnar og barnanna í huga.

Umsjónarmaður hafi lagt fram frumvarp með ofangreind sjónarmið í huga en hafi brýnt fyrir kæranda að kröfuhafar gætu farið fram á gögn sem sýndu fram á félagslega stöðu barna sambýliskonu kæranda, en líklegt væri að þeir myndu gera athugasemdir við þá tilhögun að kærandi kæmist hjá sölu fasteignar í greiðsluaðlögunarferli. Í kjölfarið hafi kröfuhafar hafnað frumvarpinu og í samskiptum við þá hafi komið fram að þeir teldu húsnæði kæranda óhóflegt í skilningi laganna og einnig að afborgun af húsnæðislánum væri of há með tilliti til sanngirnissjónarmiða, sér í lagi gagnvart samningskröfuhöfum. Þá hafi einnig komið fram að afstöðu þeirra mætti endurskoða yrðu lögð fram gögn sem sýndu fram á félagslega stöðu elstu barna kæranda, bæði varðandi þann möguleika að kærandi myndi halda fasteign sinni og varðandi hærri framfærslukostnað kæranda og sambýliskonu hans vegna búsetu ungmennanna hjá þeim. Kærandi og sambýliskona hans hafi ekki viljað leggja fram frekari gögn með vísan til þess að um afar persónuleg málefni væri að ræða.

Kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem sýni fram á erfiða félagslega stöðu elstu barna sambýliskonu sinnar og telji umsjónarmaður því ekki forsendur til að komast hjá sölu fasteignarinnar í greiðsluaðlögunarferli, sérstaklega með vísan til verðmætis hennar og hárrar greiðslubyrði lána sem á henni hvíli.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og greiðsluaðlögunarumleitunum hans verði haldið áfram. Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Því kemur aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram verði kærunefndin við kröfum kæranda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Kröfu kæranda þess efnis að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram ber að túlka í samræmi við þetta og kemur sú krafa því ekki frekar til álita við úrlausn málsins.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum, skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í 1. mgr. 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 5. febrúar 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í bréfinu kemur fram að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt annars vegar a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli og hins vegar 5. mgr. 13. gr. lge. með því að veita ekki samþykki fyrir sölu fasteignar, sem umsjónarmaður taldi þó nauðsynlega í ljósi verðmætis hennar og afstöðu kröfuhafa. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 4. apríl 2014.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010, hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við um leið og umboðsmaður skuldara hefur móttekið umsókn um greiðsluaðlögun.  Kæranda bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hans var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara telur að kærandi hefði átt að leggja til hliðar 4.590.821 krónu frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögun var lögð fram. Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi látið hjá líða að leggja fyrir fé í greiðsluskjóli og þar með brotið gegn skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. á þeim tíma. Kærandi kveðst hafa lagt til hliðar 2.200.000 króna. Þá hafi hann greitt hærra meðlag á tímabilinu en gert var ráð fyrir og lagt fram gögn vegna annarra útgjalda.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. desember 2010: Tveir mánuðir
Nettótekjur 784.659
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 392.330
Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur 4.737.066
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 394.756
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur 4.927.847
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 410.654
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur 5.285.177
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 440.431
 
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. mars 2014: Þrír mánuðir
Nettótekjur 1.340.369
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 446.790
   
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 17.075.118
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 416.466

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda, vaxtabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu, var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. mars 2014: 41 mánuður
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 17.075.118
Vaxtabætur og vaxtaniðurgreiðsla 669.043
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 17.744.161
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 432.784
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara 314.120
Greiðslugeta kæranda á mánuði 118.664
Alls sparnaður í 41 mánuð í greiðsluskjóli x 118.664 4.865.224

Við mat á því hvaða fjárhæð kæranda beri að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna hefur staðið er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Kærandi kveðst hafa þurft að standa straum af kostnaði á tímabilinu vegna viðhalds og reksturs bifreiðar, tannlæknaþjónustu, viðgerða á fasteign og endurnýjunar húsgagna, samtals að fjárhæð 345.000 krónur, auk þess að hafa styrkt son sinn fjárhagslega um 365.000 krónur. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem staðfesta þessi útgjöld og er því ekki unnt að draga framangreindan kostnað frá þeirri fjárhæð sem kærandi hefði átt að spara á tímabili greiðsluskjóls, sbr. ofangreinda útreikninga. Óumdeilt er að aukinn framfærslukostnaður kæranda í janúar 2012 að fjárhæð 207.987 krónur komi til frádráttar áætluðum sparnaði. Kærandi kveðst hafa greitt eitt og hálft meðlag á tímabili greiðsluskjóls en í greiðsluáætlun var aðeins gert ráð fyrir að hann greiddi einfalt meðlag. Samtals nemur aukakostnaður vegna meðlagsgreiðslna kæranda 615.039 krónum og hefur hann lagt fram gögn því til stuðnings. Þannig verður tekið tillit til þess kostnaðar við útreikning á því fé sem kæranda bar að leggja til hliðar á tímabilinu. Samkvæmt framansögðu ber að draga 823.026 krónur frá áætluðum sparnaði kæranda. (615.039 + 207.987).

Samkvæmt ofangreindu hefði kærandi átt að geta lagt til hliðar 4.042.198 krónur á tímabili greiðsluskjóls (4.865.224-823.026). Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi lagt fyrir 1.100.000 króna. Kærandi kveðst hafa lagt til hliðar 2.200.000 króna, en hefur ekki lagt fram gögn þess efnis og er því ekki unnt að byggja á að sparnaður hans hafi numið hærri fjárhæð en 1.100.000 krónum.

Í ljósi þess sem að framan greinir verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir hans niður. 

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara til að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Greiðslugeta kæranda er 118.664 krónur á mánuði að teknu tilliti til kostnaðar vegna framfærslu. Mánaðarlegar afborganir af fasteignalánum kæranda eru 311.838 krónur á mánuði. Umsjónarmaður telur kæranda geta staðið við greiðslu áhvílandi veðkrafna innan matsverðs fasteignarinnar ásamt sambýliskonu sinni. Frumvarpi umsjónarmanns var hins vegar hafnað þar sem að kröfuhafar töldu húsnæði kæranda óhóflegt í skilningi laganna og að afborganir af húsnæðislánum væru of háar með tilliti til sanngirnissjónarmiða.  Þar sem að kærandi lagði ekki fram gögn til stuðnings því að hann þyrfti á húsnæðinu að halda vegna félagslegra aðstæðna ákvað umsjónarmaður að selja skyldi húsnæðið. Kærandi féllst ekki á það og lagði umsjónarmaður því til að greiðsluaðlögunarumleitarnir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi í framhaldinu niður greiðsluaðlögunarumleitarnir kæranda með ákvörðun 4. apríl 2014.

Eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum sem þessum á grundvelli lge. er að selja þá eign sem veðsett er til að létta á greiðslubyrði skuldara vegna afborgana fasteignaveðkrafna. Þá telur kærunefndin að ekki sé unnt í ljósi málavaxta að líta öðruvísi á en svo að kærandi hafi hafnað því að framfylgja fyrirmælum umsjónarmanns um sölu á eigninni að C. Við þessar aðstæður verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 1. mgr. 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt öllu framansögðu er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta