Mál nr. 120/2012
Fimmtudaginn 13. mars 2014
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.
Þann 3. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 8. júní 2012 þar sem umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar var synjað.
Með bréfi 17. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 23. júlí 2012.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 27. júlí 2012 og var þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.
I. Málsatvik
Kærendur lögðu inn umsókn um greiðsluaðlögun 4. nóvember 2010. Þau eru fædd 1956 og 1957. Kærendur voru gift og bjuggu á árunum 2008 til 2013 í leiguhúsnæði í Svíþjóð.
Að sögn kærenda má helst rekja fjárhagserfiðleika þeirra til atvinnuleysis og tekjulækkunar. Kærandi B hafi misst vinnu sína árið 2008 og hafi þau í kjölfarið flutt til Svíþjóðar þar sem hann hafi freistað þess að fá atvinnu. Í október sama ár fékk kærandi B tímabundið starf. Hann veiktist alvarlega í desember 2011 og leitaði meðferðar vegna veikindanna. Fram kemur í kæru að kærendur hyggjast flytja aftur til Íslands þegar atvinnuástand batnar. Kærandi B lést Y. desember 2013.
Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kærenda 26.670.034 krónur og þar af falla 26.333.932 krónur innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Meðlagsskuld að fjárhæð 336.642 krónur fellur utan samnings um greiðsluaðlögun. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 og 2007 til 2009.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. júní 2012 var umsókn kærenda um greiðsluaðlögun hafnað með vísan til þess að þau uppfylltu ekki skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Málatilbúnað kærenda verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja um heimild til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.
Krefjast kærendur að tekið verði tillit til aðstæðna þeirra sem séu nú aðrar en hafi verið í upphafi þegar þau hafi fyrst sótt um aðstoð umboðsmanns skuldara. Kærandi B hafi greinst með krabbamein í byrjun desember 2011 og sé búinn að vera í strangri lyfja- og geislameðferð. Hefðu veikindi kæranda B ekki komið til væru þau eflaust farin að huga að heimferð því ekki hafi allt gengið eftir í Svíþjóð sem vonast hafi verið til í upphafi. Ekki hafi verið um neina fasta vinnu að ræða fyrr en seint á árinu 2011 en þá hafi kærandi B orðið veikur og orðið að hætta.
Kærendur taka fram að þau hafi verið heiðarleg í umsókn sinni. Þeim þyki ljóst að fái þau ekki aðstoð muni þau missa íbúð sína á Íslandi.
Kærendur gera athugasemdir við þær fjárhæðir sem notaðar séu til að meta greiðslugetu þeirra. Áætluð greiðslugeta sé talin of mikil miðað við sjúkralaun kæranda B. Kærandi B fái aðeins lægstu sjúkrabætur greiddar þar sem hann sé ekki fær um að vinna fulla vinnu vegna veikinda.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. sé það skilyrði sett fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar að umsækjandi sé búsettur og eigi lögheimili hér á landi. Víkja megi frá skilyrðinu ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi verið búsettur á Íslandi í að minnsta kosti þrjú ár samfleytt, enda leiti hann greiðsluaðlögunar einungis vegna skuldbindinga sem stofnast til á Íslandi við lánardrottna sem eigi heimili á Íslandi.
Samkvæmt gögnum málsins hafi kærendur flutt til Svíþjóðar í nóvember 2008. Þau hafi flutt með búslóð og bifreið að vel athuguðu máli og með fyrirheit um að kærandi B fengi vinnu þar í landi. Fram komi í gögnum málsins að kærendur hafi í hyggju að vera í Svíþjóð þar til læknismeðferð kæranda B ljúki og að þau muni koma til Íslands þegar atvinnuástand batni, en óvíst sé hvenær það verði.
Umboðsmaður greinir frá því að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi í máli nr. 14/2011 úrskurðað um hvort líta ætti á búsetu kæranda erlendis sem tímabundna þannig að undantekningarheimild 4. mgr. 2. gr. lge. ætti við. Í úrskurði nefndarinnar frá 24. nóvember 2011 segi: „Til að afmarka þau tilvik þar sem um tímabundna búsetu erlendis er að ræða verður að líta til þess að heimildin er undantekning frá meginreglu, sem ekki er ætlað að ná til allra sem flytja erlendis um ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Það ræður ekki úrslitum í málum af þessu tagi hvort viðkomandi hafi flutt lögheimili sitt erlendis. Hins vegar verður við það að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Verði ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd neinum gögnum og er ekki fullnægjandi í þessu sambandi að viðkomandi lýsi yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands einhvern tímann í framtíðinni, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði.“
Samkvæmt því sem fram komi í greinargerð kærenda með umsókn um greiðsluaðlögun hafi þau verið búsett í Svíþjóð frá því í lok árs 2008. Umboðsmaður skuldara hafi óskað eftir gögnum frá kærendum er sýndu fram á að búseta þeirra erlendis væri tímabundin. Af framlögðum gögnum kærenda hafi umboðsmaður skuldara metið aðstæður þannig að búseta þeirra væri ekki tímabundin eða það með öðrum hætti gert líklegt að um tímabundna ráðstöfun hafi verið að ræða sem í upphafi hafi verið markaður ákveðinn tími.
Í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram, í tilefni af athugasemdum kærenda um að tekjur þeirra hafi breyst á því tímabili sem umsókn hafi verið til meðferðar, að umboðsmaður muni taka tillit til breytinga á tekjum kærenda komi mál kærenda aftur til meðferðar embættisins.
Með vísan til forsenda hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu má þó víkja, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfellt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.
Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist á því að kærendur séu búsett erlendis. Ekki sé unnt að líta svo á að búseta þeirra sé tímabundin vegna náms, starfa eða veikinda í skilningi undantekningarákvæðis 4. mgr. 2. gr. lge. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge., var því umsókn kærenda um greiðsluaðlögun synjað.
Í máli þessu liggur fyrir að þegar ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin voru kærendur búsett í Svíþjóð og áttu þar lögheimili. Samkvæmt athugun kærunefndar greiðsluaðlögunarmála flutti kærandi A lögheimili sitt að C götu nr. 204 í sveitarfélaginu D, 22. september 2013. Ekki liggur annað fyrir í málinu en að hún sé nú búsett á Íslandi. Kærandi B er látinn.
Endurskoðun æðra stjórnvalds á ákvörðunum lægra setts stjórnvalds á grundvelli stjórnsýslukæru tekur til allra þátta ákvörðunarinnar. Breyttar aðstæður eftir að ákvörðun umboðsmanns skuldara hefur verið tekin kunna því eftir atvikum að verða tilefni til þess að úrskurður kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sé á annan veg en ákvörðun umboðsmanns skuldara. Í máli þessu er synjun byggð á því að búseta og lögheimili kærenda hafi ekki verið á Íslandi og kærendur hafi ekki sýnt fram á að undantekningar 4. mgr. 2. gr. lge. ættu við í máli þeirra.
Fyrir liggur að kærandi A er nú búsett og er með lögheimili á Íslandi. Kærandi A uppfyllir því skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. Í ljósi þessa er það niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að fella beri úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Lára Sverrisdóttir