Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 61/2012

Mánudaginn 17. mars 2014

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 7. mars 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. febrúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 14. mars 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 16. maí 2012. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 22. maí 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Svar barst með bréfi 7. júní 2012.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1953 og 1959. Þau eru í sambúð og búa ásamt tveimur börnum sínum í eigin 148 fermetra einbýlishúsi að C götu nr. 3 í sveitafélaginu D.

Kærendur eru kartöflubændur. Þau stofnuðu félagið X ehf. 1992 og voru með starfsemi sína í félaginu sem nú er gjaldþrota. Skömmu eftir stofnun félagsins tóku kærendur að sér skólaakstur fyrir sveitarfélagið en því hættu þau árið 2011. Kærendur stofnuðu félagið T ehf. á árinu 2010 en rekstur á kartöfluræktun kærenda er nú í því félagi.

Þegar ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin í febrúar 2012 voru síðustu uppgefnu laun kærenda frá miðju ári 2011. Samkvæmt því eru mánaðarlaun hvors kæranda um sig 134.479 krónur eftir frádrátt skatts en T ehf. er launagreiðandi. Barnabætur nema 27.805 krónum á mánuði og vaxtabætur nema 16.404 krónum á mánuði. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kærenda um mitt ár 2011 voru því 313.167 krónur.

Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til rekstrar X ehf. en þau hafi skort þekkingu á meðferð fjármuna. Þau telja líkur á að rekstur félagsins hafi aldrei borið sig heldur hafi honum verið haldið gangandi með veðlánum og launum sem kærendur fengu fyrir skólaakstur. Umboðsmaður skuldara telur gögn málsins bera með sér að fjárhagserfiðleika kærenda megi rekja til ársins 2007 en það ár hafi orðið veruleg tekjulækkun hjá þeim á sama tíma og greiðslubyrði lána hafi aukist. Verulegur hluti tekna kærenda hafi farið í vaxtagreiðslur, bankakostnað og kostnað vegna lögfræðiinnheimtu. Kærandi B hefur átt við veikindi að stríða í töluverðan tíma og sótt lyfjameðferð vegna þeirra.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 66.077.495 krónur. Þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) að undanskilinni meðlagsskuld að fjárhæð 1.043.499 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2006 og 2007. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur gengist í ábyrgðarskuldbindingar fyrir félag sitt vegna lána að fjárhæð 13.473.172 krónur en til helstu ábyrgðarskuldbindinga var stofnað á árunum 2004 og 2008.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 23. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. febrúar 2012 var umsókn þeirra hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Þess er krafist að kærunefndin felli úr gildi synjun umboðsmanns skuldara og embættinu verði gert að taka ákvörðun sína til endurskoðunar.

Kærendur kveðast ekki sátt við að fá ekki notið greiðsluaðlögunar á þeim forsendum sem umboðsmaður skuldara byggi ákvörðun sína. Telji þau umboðsmann ekki hafa litið með sanngjörnum hætti á heildarmynd af fjárhagsstöðu þeirra og þeirri aðstöðu sem þau hafi verið í. Þeirra mat sé að þau eigi rétt á því eins og aðrir sem búi við slæma fjárhagsstöðu að fá heimild til greiðsluaðlögunar.

Kærendur hafi stofnað fyrirtæki utan um atvinnu sína, kartöflurækt, á árinu 1992 og hafi þau starfað við það æ síðan. Þar sem þau hafi ekki haft þekkingu á fjármálum hafi þau ávallt leitað viðeigandi sérfræðiþjónustu við reksturinn. Tilgangur kærenda með rekstri sínum hafi verið að afla sér tekna, en lítið umfram það, enda kartöflurækt ekki líkleg til að skapa mikla auðlegð. Kærendur hafi ekki getað stofnað fyrirtækið án fyrirgreiðslu og samvinnu við viðskiptabanka sinn. Hafi þau alla tíð notið þar ráðgjafar um fjármál fyrirtækisins og þegar upp hafi komið fjárhagsvandi hafi þau fengið þaðan ráðgjöf, leiðsögn og í framhaldinu fyrirgreiðslu væri þess þörf.

Varðandi skuldasöfnun á tímabilinu 2006 til 2007 sé ekki unnt að líta fram hjá uppskerubresti á þessum árum sem hafi haft verri áhrif á reksturinn en fyrri niðursveiflur. Allan fastan kostnað hafi eftir sem áður þurft að greiða og séu áburðar- og garðlyfjakaup stór þáttur í þeim kostnaði ásamt vélum, áhöldum, viðhaldi og launaliðum. Hafi þessi staða einnig haft áhrif á laun kærenda en á þessu tímabili hafi þau verið lægri en oft áður. Til að bregðast við þeirri stöðu sem upp hafi verið komin hafi kærendur leitað til viðskiptabanka síns. Hafi þau í einu og öllu farið eftir ráðleggingum og kröfum bankans. Ekki sé hægt að líta fram hjá því að skilyrði bankans fyrir lánveitingum hafi verið veð í fasteign þeirra en einnig hafi þeim verið gert að taka lán í eigin nafni þótt vitað væri að peningarnir væru til rekstrar X ehf. Sum þessara lána hafi verið veitt til uppgreiðslu annarra smærri lána bæði hjá bankanum og öðrum lánardrottnum. Ekki hafi tekist að rétta af rekstur félagsins og hafi það verið tekið til gjaldþrotaskipta árið 2010.

Í kjölfar fyrrnefndra erfiðleika hafi veikindi kæranda B ágerst en það skýri einnig lækkandi tekjur hans.

Ekki verði annað séð en að umboðsmaður skuldara byggi synjun sína á þeirri fyrirgreiðslu sem fyrirtæki kærenda hafi notið í kjölfar uppskerubrests. Einnig virðist embættið bera fjárhæðir lána saman við tekjur kærenda á umræddu tímabili. Í því sambandi bendi kærendur á að tekjur þeirra hafi verið óvenju lágar á þessu tímabili.

Þær lagatilvísanir sem umboðsmaður skuldara beri fyrir sig leiði ekki til þess að embættinu hafi borið að hafna umsókn kærenda. Í 2. mgr. 6. gr. lge. segi þannig skýrt að umboðsmanni sé heimilt, en ekki skylt, að hafna umsókn ef óhæfilegt þyki að veita hana. Stafliðir þeir sem fylgi í kjölfarið séu einungis til leiðbeiningar um til hvers skuli meðal annars líta við mat á slíku. Augljóslega megi og skuli líta til annarra atriða sem uppi hafi verið við stofnun skulda, ástæður skuldasöfnunar og tilgang. Grundvallaratriði sé ávallt hvort óhæfilegt sé að heimila greiðsluaðlögun. Kærendur telji fráleitt að óhæfilegt sé að heimila þeim greiðsluaðlögun. Ætla kærendur að löggjafinn hafi með heimildarákvæði 2. mgr. 6. gr. lge. verið að reyna að sporna við því að heimild til greiðsluaðlögunar yrði veitt þeim sem sýnt hafi bersýnilega óráðsíu vitandi vits um að þeir gætu aldrei staðið skil á sínum skuldum, þeirra sem aflað hafi sér lánsfjár á fölskum forsendum eða til kaupa á ónauðsynlegum hlutum. Að mati kærenda er fjarri lagi að þau falli í þann flokk enda hafi lántökur kærenda snúist um að halda rekstrinum gangandi og tryggja tekjur þeirra.

Í ljósi þess hvernig fór að lokum megi vel vera að þær aðgerðir sem ákveðnar hafi verið í samráði við bankann hafi verið óraunhæfar. Kærendur hafi upplýst bankann að öllu leyti um stöðuna þannig að ekki verði annað séð en að bankinn sjálfur hafi talið aðgerðirnar raunhæfar. Kærendur telja því ekki rétt að þau verði ein látin bera ábyrgðina. Fjármálafyrirtæki láni ekki peninga nema þau séu nokkuð viss um að fá þá endurgreidda.

Ekki sé nema eðlilegt að kærendur fái heimild til greiðsluaðlögunar og reyni að komast að frjálsum samningum við þá sem veitt hafi þeim lánin og beri þar með samábyrgð á þeirri stöðu sem upp sé komin. Athygli veki að hvergi sé minnst á ábyrgð bankanna í rökstuðningi ákvörðunar umboðsmanns skuldara og verði ekki séð að það atriði hafi verið tekið til skoðunar í málinu.

Loks vilji kærendur koma á framfæri óánægju sinni með þann frest er kærunefndin hafi veitt embætti umboðsmanns skuldara til að skila greinargerð í kjölfar kæru. Í bréfi nefndarinnar til umboðsmanns 14. mars 2012 sé veittur 14 daga frestur til að koma athugasemdum til nefndarinnar. Greinargerð umboðsmanns sé dagsett 16. maí 2012 og því ljóst að fresturinn var löngu liðinn.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lge. komi fram að ef þær aðstæður sem taldar séu upp í 2. mgr. 6. gr. lge. séu fyrir hendi geti verið óviðeigandi að skuldari eigi möguleika á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skuldbindinga þegar hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Eftirfarandi upplýsingar um tekjur, eignir og skuldir kærenda megi sjá í skattframtölum þeirra:

  2006 2007 2008
Mánaðarlegar tekjur 254.182 139.350 161.516
Eignir alls 6.610.000 7.315.000 8.061.500
Skuldir kr. 10.546.522 16.078.000 19.542.259

Af gögnum málsins verði ráðið að stofnað hafi verið til mikilla skulda á árunum 2006 til 2007 en þær nemi alls 20.899.494 krónum. Auk þess bendi gögn málsins til þess að kærendur hafi tekist á hendur umtalsverðar ábyrgðarskuldbindingar fyrir X ehf. á árunum 2005, 2006 og 2008 en þær nemi nú alls 19.310.259 krónum.

Í ljósi heildarfjárhæðar ábyrgðarskuldbindinga kærenda sé nauðsynlegt að skoða hvort kærendur hafi með því að takast á hendur þessar skuldbindingar, auk skuldbindinga í eigin nafni, hagað fjármálum sínum með þeim hætti sem lýst sé í b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Þegar litið sé til fjárhagslegrar stöðu kærenda á árunum 2006 til 2007 sé ljóst að tekjur þeirra hefðu ekki nægt til að standa undir framfærslu fjölskyldunnar að viðbættri greiðslubyrði þeirra skulda sem þau höfðu þegar tekist á hendur, hvað þá greiðslubyrði nýrra lána. Því verði að telja að kærendur hafi stofnað til skuldbindinga þegar þau voru greinilega ófær um að standa við skuldbindingar sínar. Einnig hafi þau tekið fjárhagslega áhættu með hinni miklu skuldasöfnun og hafi hún ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Af upplýsingum kærenda þyki ljóst að til umræddra fjárhagsskuldbindinga, bæði persónulegra skulda og ábyrgðarskulda, hafi verið stofnað vegna fyrirtækjareksturs kærenda. Kærendum hljóti að hafa verið ljóst að næsta óumflýjanlegt, eða í það minnsta veruleg hætta hafi verið á því að þau gætu ekki staðið við skuldbindingar sínar eins og til þeirra hafi verið stofnað. Það eigi sér í lagi við um skuldbindingar sem stofnaðar hafi verið í eigin nafni kærenda eftir 2006. Á þeim tíma hafi tekjur þeirra verið lágar og eignir veðsettar að fullu.

Um þátt ábyrgðarskuldbindinga í því mati sem fram fari á því hvort óhæfilegt þyki að veita skuldara heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. megi vísa til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 19/2011: „Sá sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf vissulega að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum, að hluta eða í heild, þó ekki verði gengið svo langt að gera þá kröfu að ábyrgðaraðili gangi fortakslaust út frá því að hann muni á endanum þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á. Verður því að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.“ Í niðurstöðu sinni hafi kærunefndin meðal annars lagt áherslu á það annars vegar hvort ábyrgðarmaður hafi haft raunhæfa möguleika á að greiða af skuldbindingunum ef á reyndi og hins vegar á að fjárhagur aðalskuldara hafi verið þannig að ábyrgðarmanni hafi mátt vera ljóst að nokkrar líkur væru á að á ábyrgðirnar myndi reyna.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 18/2011 hafi nefndin staðfest mat umboðsmanns skuldara á því hvort aðstæður þær sem lýst sé í b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. hafi verið uppi í málinu. Hin kærða ákvörðun hafi byggst á því að kærandi hafi stofnað til umtalsverðra fjárhagslegra ábyrgðarskuldbindinga fyrir fyrirtæki maka hans. Hafi kæranda mátt vera ljóst að hann væri ekki greiðslufær ef ábyrgðarskuldbindingarnar féllu á hann. Hafi í því sambandi verið litið sérstaklega til rekstrarvanda fyrirtækisins.

Fyrirtæki kærenda hafi átt í verulegum rekstrarvanda þegar til ábyrgðarskuldbindinganna hafi verið stofnað. Þannig hljóti þeim að hafa verið ljóst að nokkrar líkur væru á því að á ábyrgðirnar myndi reyna og að persónulegar tekjur þeirra og eignir gætu ekki staðið undir þeim ef svo færi.

Hin kærða ákvörðun sé byggð á heildstæðu mati á fjárhagsstöðu kærenda, framlögðum gögnum og öllum atvikum máls. Þannig þyki kærendur hafa stofnað til skulda og ábyrgðarskuldbindinga á þeim tíma er þau hafi greinilega verið ófær um að standa við þær skuldbindingar og að þau hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað.

Með vísan til þess sem að framan greini telji umboðsmaður skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Ástæðurnar sem taldar eru upp í 2. mgr. 6. gr. lge. eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita hana ef skuldari hefur stofnað til skuldbindinga þegar hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita hana ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kærenda eftirtaldar:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil Trygging
      fjárhæð   frá  
Arion banki 2002 Skuldabréf 2.310.000 869.716 2010 Veð í fasteign
Sparisjóður Vestmannaeyja 2002 Skuldabréf 380.332 108.176 2010 Veð í bifreið
Arion banki 2003 Skuldabréf 3.500.000 1.849.174 2010 Veð í fasteign
Sparisjóður Vestmannaeyja 2006 Skuldabréf 900.000 1.220.830 2010 Veð í fasteign
Arion banki 2006 Skuldabréf 3.000.000 4.386.502 2010 Veð í fasteign
Arion banki 2006 Skuldabréf 10.133.233 20.124.754 2009 Veð í fasteign
Sparisjóður Vestmannaeyja 2007 Skuldabréf 3.500.000 5.910.504 2009 Veð í fasteign
Sparisjóður Vestmannaeyja 2007 Skuldabréf 4.900.000 8.403.000 2008 Veð í bifreið
Íslandsbanki 2010 Víxill 298.690 302.190 2010 Ábyrgðarmaður
Arion banki 2010 Yfirdráttur   2.742.777 2010 -
Sparisjóður Vestmannaeyja 2011 Yfirdráttur   307.900   -
Sparisjóður Vestmannaeyja 2011 Yfirdráttur   5.778.500 2011 -
Innheimtustofnun sveitarfélaga - Meðlagsskuldir 569.670 1.043.499 2007 -
Tollstjóri 2005-2011 Opinber gjöld 1.844.046 2.337.799 2005 -
Ýmsir 1996-2011 Reikningar o.fl. 7.521.334 14.368.639 1996 -


Alls kr. 38.857.305 69.753.960

Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur gengist í neðangreindar ábyrgðarskuldbindingar fyrir félag sitt X ehf.:

Kröfuhafi Ár Skuldari Tegund Höfuðstóll Staða Aðrar
          2011 tryggingar
Arion banki 2004 X ehf. Skuldabréf 5.363.868 8.789.046 Fasteignaveð
Íslandsbanki 2006 X ehf. Yfirdráttur 923.153 1.533.943 -
Betra land ehf.* 2008 X ehf. Skuldabréf 3.150.183 3.150.183 Fasteignaveð
      Alls kr. 9.437.204 13.473.172  

* Staða lánsins 2011 liggur ekki fyrir.

Á því tímabili sem hér er til skoðunar voru tekjur kærenda, eignir og skuldir samkvæmt skattframtölum þessar:

  2006 2007 2008 2009 2010
Meðaltekjur á mánuði (nettó) 254.182 139.350 161.516 162.764 206.333
Eignir alls: 6.750.000 7.463.302 8.240.719 8.018.289 19.519.498
· C gata nr. 3 6.450.000 7.170.000 7.530.000 7.340.000 18.570.000
· Bifreið O 150.000 135.000 121.500 109.350  
· Bifreið P 10.000 10.000 10.000 9.000 81.000
· Bifreið R     400.000 360.000  
· Hlutir í félögum 140.000 140.000 140.000 140.000 640.000
· Bankainnstæður   8.302 39.219 59.939 228.498
Skuldir kr. 17.810.123 19.604.069 31.443.412 37.618.671 44.246.201
Nettóeignastaða kr. -11.060.123 -12.140.767 -23.202.693 -29.600.382 -24.726.703
Höfuðstóll ábyrgðarskuldbindinga 6.287.021 6.287.021 9.437.204 9.437.204 9.437.204

Markmið lge. er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð, sbr. 1. gr. laganna. Í því skyni getur sá einstaklingur leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar.

Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í 2. mgr. 6. gr. eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Í framhaldinu eru í sjö liðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara hafnaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þeirra ákvæða.

Fyrir liggur að kærendur hafa stundað atvinnu sína, kartöflurækt, í gegnum einkahlutafélag sitt X ehf. allt frá árinu 1992. Samkvæmt gögnum málsins eru helstu skuldir kærenda frá árunum 2006 og 2007 enda þótt þess sjái stað að þau hafi áður velt á undan sér ýmsum lausaskuldum tengdum rekstrinum. Af gögnum málsins má einnig ráða að mest af lántökum kærenda og allar skuldbindingar þeirra vegna sjálfskuldarábyrgða hafi verið til að fjármagna rekstur félags þeirra. Af þessum sökum er ekki unnt að líta öðruvísi á en að fjárhagur kærenda og félagsins hafi verið samofinn og í reynd hafi reksturinn verið sambærilegur við að kærendur bæru ótakmarkaða ábyrgð á honum.

Af gögnum málsins verður ráðið að rekstur kærenda hafi verið bágborinn um nokkra hríð en töluverð breyting til hins verra varð á árinu 2007 þegar uppskerubrestur varð í kartöflurækt. Þar sem persónulegur fjárhagur kærenda og fjárhagur félagsins var samtvinnaður höfðu þessir rekstrarerfiðleikar félagsins bein áhrif á fjárhag kærenda, þar með talið laun þeirra. Brugðust þau við fjárhagsvandanum með auknum lántökum til þess að halda rekstrinum gangandi og þar af leiðandi til að halda atvinnu sinni og lífsviðurværi.

Þau lán sem kærendur tóku á þeim tíma sem hér skipta máli voru að mestu leyti langtímalán. Vegna hins samtvinnaða fjárhags kærenda og félags þeirra verður ekki annað séð en að gert hafi verið ráð fyrir að félagið skyldi standa undir afborgunum lána að miklu eða öllu leyti. Með því að taka lán til lengri tíma voru meiri líkur á því að reksturinn gæti greitt af lánunum þegar fram liðu stundir. Telur kærunefndin því ekki unnt að líta eingöngu á tekjur kærenda og eignir þegar mat er lagt á fjárhagslega framgöngu þeirra eins og gert var í ákvörðun umboðsmanns skuldara. Verður einnig að líta til þess að vandi kærenda verður að miklu leyti rakinn til uppskerubrests árið 2007 þannig að ekki er unnt að líta svo á að kærendur beri að öllu leyti eða miklu ábyrgð þeim atvikum sem eru undirrót vanda þeirra.

Við þinglega meðferð frumvarps til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga kom fram í umfjöllun félags- og tryggingamálanefndar Alþingis að mikilvægt væri að einstaklingum yrði gert kleift að halda áfram atvinnurekstri sem sé til þess fallinn að skapa heimili einstaklings raunhæfan grundvöll til tekjuöflunar til framtíðar. Við vinnslu frumvarpsins hafi verið mikið rætt um málefni bænda. Huga þurfi að þeirri staðreynd að heimilisrekstur bænda og tekjuöflun séu oft og tíðum óaðgreinanleg. Frumvarpinu sé þó fyrst og fremst ætlað að ná til heimilisreksturs einstaklinga en mikilvægt sé að mæta aðstæðum þeirra sem séu með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A og B hafi verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar án þess að fyrir því væru viðhlítandi lagarök. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta