Mál nr. 68/2014
Mál nr. 68/2014
Fimmtudaginn 29. september 2016
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.
Þann 7. júlí 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 26. júní 2014, þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 10. júlí 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 18. ágúst 2014.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 19. ágúst 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.
I. Málsatvik
Kærandi er fædd X og er í sambúð. Hún býr ásamt sambýlismanni sínum og uppkomnum syni í eigin húsnæði, X fermetra íbúð að B. Kærandi starfar hjá C.
Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 11. maí 2011, eru 53.208.528 krónur. Kærandi stofnaði til helstu skuldbindinga árið 2007 vegna fasteignakaupa.
Kærandi rekur greiðsluerfiðleika sína til tekjulækkunar, rangra leiðbeininga frá banka og auðvelds aðgangs að lánsfjármagni árin 2006 og 2007.
Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 10. ágúst 2010 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 11. maí 2011 var henni veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Frestun greiðslna hófst 18. október 2010, sbr. bráðabirgðaákvæði nr. II. í lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.)
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 29. janúar 2014 tilkynnti umsjónarmaður að hún teldi að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og því ætti að fella greiðsluaðlögunarumleitanir hennar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Mat umsjónarmanns var að kærandi hefði ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni á því tímabili sem frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafði staðið yfir. Fram kemur í bréfi umsjónarmanns að miðað við heildartekjur kæranda ætti hún að hafa getað lagt fyrir ríflega 4.000.000 króna á tímabili greiðsluskjóls en kærandi hafi ekkert lagt til hliðar. Í skýringum kæranda hafi komið fram að ástæður þess væru atvinnumissir og kostnaður vegna skólagöngu.
Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 3. júní 2014 þar sem henni var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör kæranda bárust með tölvupósti 23. júní 2014.
Með ákvörðun 26. júní 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærandi kveður málsmeðferðartíma umboðsmanns skuldara hafa verið langan. Hún hafi sótt um greiðsluaðlögun vegna lánsveða en engin svör fengið. Í kjölfar niðurfellingar heimildar til greiðsluaðlögunar sé hætta á að hún og móðir hennar missi heimili sín.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.
Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann nýtur greiðsluskjóls. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. segi að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 42 mánuði en miðað sé við tímabilið frá nóvember 2010 til apríl 2014. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:
Tekjur 1. nóvember 2010 til 30. apríl 2014 að frádregnum skatti* | 12.893.341 |
Mánaðarlegar meðaltekjur | 306.984 |
*Launatekjur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla
Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 306.984 krónur í meðaltekjur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls.
Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bætur hafi greiðslugeta hennar verið þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Framfærslukostnaður á mánuði* | 133.012 |
Heildarframfærslukostnaður á tímabili greiðsluskjóls í 42 mánuði | 5.586.504 |
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði | 173.972 |
Samtals greiðslugeta | 7.306.837 |
* Framfærslukostnaður er reiknaður miðað við helming heildarútgjalda hjóna samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í mars 2014 auk þess sem byggt er á upplýsingum frá kæranda.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Umboðsmaður vísi til þess að kærandi hafi lagt fram gögn vegna kaupa á tölvu, bifreið og þvottavél sem og vegna bílaviðgerða og tannlæknakostnaðar, samtals að fjárhæð 1.181.395 krónur. Embættið hafi talið að þótt tekið yrði tillit til framlagðra kvittana fyrir þessari fjárhæð væri það aðeins hluti af þeirri fjárhæð sem kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar á tímabili greiðsluskjóls.
Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Upplýsingarnar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Kæranda hafi því vel mátt vera ljóst að hún skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hún hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Kærandi telur málsmeðferðartíma umboðsmanns skuldara hafa verið of langan.
Í 9. gr. stjórnsýslulaga er ákvæði er lýtur að málshraða. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 10. ágúst 2010 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 11. maí 2011 var henni veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Þann 4. janúar 2013 var nýr umsjónarmaður skipaður í máli kæranda og 29. janúar 2014 sendi hann umboðsmanni skuldara tillögu um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana kæranda. Þann 3. júní 2014 sendi umboðsmaður skuldara kæranda bréf vegna tillögu umsjónarmanns og veitti kæranda vikufrest til að bregðast við því. Þann 26. júní sama ár var tekin ákvörðun af hálfu embættisins um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda. Í málinu liggur fyrir að frá því að umsjónarmaður sendi umboðsmanni skuldara tillögu sína liðu tæpir fimm mánuðir þar til ákvörðun var tekin í málinu. Kærunefndin telur ekki að um slíkar tafir sé að ræða að það brjóti í bága við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd tekur einnig fram að almennt sé talið að tafir á afgreiðslu máls geti ekki valdið ógildingu ákvörðunar, nema þær hafi haft áhrif á niðurstöðu hennar. Í þessu máli er það álit kærunefndarinnar að slíku sé ekki til að dreifa.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.
Á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skal skuldari samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu var umsókn kæranda móttekin af hálfu umboðsmanns skuldara 10. ágúst 2010 og hófst frestun greiðslna 18. október 2010 samkvæmt bráðabirgðaákvæði nr. II í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga. Frá og með þeim degi bar kæranda jafnframt að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar að minnsta kosti 7.306.837 krónur á tímabili greiðsluskjóls en sé tekið tillit til óvæntra útgjalda að fjárhæð 1.181.395 krónur, hefði hún átt að leggja 6.125.442 krónur til hliðar á tímabilinu.
Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:
Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. desember 2010: Tveir mánuðir | |
Nettótekjur kæranda | 719.781 |
Nettó mánaðartekjur kæranda að meðaltali | 359.891 |
Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir | |
Nettótekjur kæranda | 4.114.484 |
Nettó mánaðartekjur kæranda að meðaltali | 342.874 |
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir | |
Nettótekjur kæranda | 2.744.152 |
Nettó mánaðartekjur kæranda að meðaltali | 228.679 |
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir | |
Nettótekjur kæranda | 3.505.098 |
Nettó mánaðartekjur kæranda að meðaltali | 292.092 |
Tímabilið 1. janúar 2014 til 1. júní 2014: Fimm mánuðir | |
Nettótekjur kæranda | 1.610.324 |
Nettó mánaðartekjur kæranda að meðaltali | 322.065 |
Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara og upplýsingar úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra og skattframtölum um tekjur kæranda var greiðslugeta hennar þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. nóvember 2010 til 1. júní 2014: 43 mánuðir | |
Nettólaunatekjur alls í greiðsluskjóli | 12.693.839 |
Vaxtabætur og sérstakar vaxtabætur | 554.179 |
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli | 13.248.018 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 308.093 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns* | 133.012 |
Greiðslugeta kæranda á mánuði | 175.081 |
Alls sparnaður í 43 mánuði í greiðsluskjóli x 175.081 | 7.528.483 |
* Miðað er við helming heildarútgjalda hjóna samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í mars 2014 og upplýsingar um útgjöld frá kæranda.
Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna hefur staðið er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.
Kærandi hefur lagt fram gögn vegna kostnaðar á tímabili greiðsluskjóls, samtals að fjárhæð 807.273 krónur, og verður tekið tillit til þeirra við útreikninga á því hve háa fjárhæð kæranda bar að leggja til hliðar á tímabilinu eins og hér greinir: Kærunefndin telur rétt að taka tillit til kostnaðar vegna tannlækninga að fjárhæð 340.455 krónur, kaupa á tölvu og kæliskáp fyrir 183.257 krónur, helmings fjárhæðar vegna kaupa sambýlismanns á þvottavél, þ.e. 41.995 krónur, og reikninga vegna bílaviðgerða að fjárhæð 68.515 krónur. Aðrir reikningar vegna bílaviðgerða voru gefnir út á annan greiðanda en kæranda og verður ekki tekið tillit til þeirra. Alls verður því við úrlausn kærunefndarinnar tekið tillit til kostnaðar að fjárhæð 634.222 krónur.
Að þessu virtu hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 6.894.261 krónur á tímabili greiðsluskjóls (7.528.483 – 634.222) en kærandi hefur ekki lagt neitt til hliðar. Það er mat kærunefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem hún fékk í hendur, að henni hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt þessu hefur kærandi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Í ljósi þess er að framan greinir telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Þórhildur Líndal