Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 236/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 236/2016

Miðvikudaginn 31. ágúst 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 22. júní 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 13. júní 2016 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 24. júní 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 27. júní 2016. Greinargerð umboðsmanns var send kæranda með bréfi 29. júní 2016 þar sem henni var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 25. júlí 2016. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 26. júlí 2016 og óskað eftir afstöðu embættisins til þeirra. Með tölvupósti 29. júlí 2016 upplýsti embættið að það teldi ekki ástæðu til að aðhafast frekar. Kærandi lagði fram viðbótargögn með tölvupósti 11. ágúst 2016.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd 1972. Hún [...]á 115,5 fermetra íbúð að B.

Kærandi hefur verið án atvinnu um X ára skeið en hún glímir við [...]sjúkdóm. Hún fær örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Kærandi var svipt lögræði tímabundið í tvö ár með úrskurði Héraðsdóms [...] X 2015. Lögráðamaður kæranda fer með málið fyrir hennar hönd.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til langvarandi [...]sjúkdóms og afleiðinga hans.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 35.496.967 krónur. Helstu skuldir kæranda eru vegna veðlána sem hvíla á fasteign hennar.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun í desember 2015 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. júní 2016 var umsókn hennar hafnað með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.), sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. sömu laga.

II. Sjónarmið kæranda

Engar kröfur eru settar fram í málinu en skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að þess sé krafist að synjun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi hafi mjög litlar tekjur og hún sé ekki í stakk búin til að greiða af skuldum sínum. Auk veðskulda, lausaskulda og námsskulda, standi kærandi í skuld við föður sinn en hann hafi lánað henni 10.000.000 króna til íbúðarkaupa. Kæranda hafi gengið erfiðlega að finna kvittanir vegna lánsins en óski engu að síður að tillit sé tekið til skuldarinnar.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 2. gr. laganna sé fjallað um það hverjir geti leitað greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. lge. geti einstaklingur, sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar, leitað greiðsluaðlögunar. Í 2. mgr. 2. gr. sé skýrt hvenær einstaklingur sé ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar samkvæmt lögunum. Í V. hluta almennra athugasemda með greinargerð til lge. komi fram að skuldari skuli sýna fram á greiðsluvanda sinn og að hafna beri umsókn ef greiðslugeta er til staðar jafnvel þó að eiginfjárstaða viðkomandi sé neikvæð. Í athugasemdum við 2. gr. lge. komi fram að skuldari skuli leita annarra leiða til að aðlaga skuldbindingar sínar sé það mögulegt áður en hann sæki um greiðsluaðlögun, enda felist í samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun viðurkenning af hálfu stjórnvalda á að litlar sem engar líkur séu á því að lánardrottnar fái fullar efndir krafna sinna og að nauðsynlegt sé að afskrifa þær að hluta eða í heild.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé fjárhagur kæranda mjög þröngur sé tekið mið af greiðslugetu hennar. Ljóst sé að tekjur kæranda hrökkvi ekki til greiðslu þeirra lána sem á henni hvíli. Sé tekið mið af áætluðu markaðsvirði fasteignar kæranda nemi eignir hennar 40.415.200 krónum en skuldir samkvæmt skuldayfirliti séu 35.496.967 krónur. Eignir kæranda umfram skuldir nemi því 4.918.233 krónum.

Lögráðamanni kæranda hafi verið gerð grein fyrir því mati umboðsmanns skuldara að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 2. gr. lge. um að vera um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Lögráðamaður hafi þá gert athugasemdir fyrir hönd föður kæranda, en samkvæmt upplýsingum frá honum séu skuldir kæranda töluvert hærri en skuldayfirlit gefi til kynna. Ástæðan sé tryggingabréf sem láðst hafi að þinglýsa á fasteign kæranda við kaup á eigninni. Tryggingabréfið hafi átt að vera til tryggingar fé sem foreldrar kæranda hafi lagt henni til við kaupin. Af þessu tilefni hafi lögráðamanni verið gefinn kostur á því að leggja fram gögn vegna kröfu að baki tryggingabréfi, sýna fram á að kærandi uppfyllti skilyrði lge. um að leita greiðsluaðlögunar eða að fyrirliggjandi skuldayfirlit gæfi ranga mynd af fjárhag kæranda. Ekki hafi verið gerðar athugasemdir við áætlað markaðsvirði á fasteign kæranda en lögð voru fram gögn vegna kröfu foreldra kæranda. Þau gögn hafi verið kröfulýsing vegna skuldar að fjárhæð 15.709.092 krónur, millifærslukvittun 23. nóvember 2004, millifærslur frá 10. október 2007 og 26. október 2007, kaupsamningur vegna B og tryggingarbréf. Að mati umboðsmanns skuldara hafi framlögð gögn ekki verið fullnægjandi grundvöllur fyrir kröfunni. Ekki sé hægt að ráða af gögnunum að faðir kæranda hafi lánað henni peninga, en framangreindar millifærslur varði greiðslur frá kæranda sjálfum til þriðja manns og frá föður kæranda til þriðja manns. Föður kæranda hafi verið veitt færi á að leggja fram frekari gögn en það hafi ekki verið gert.

Í ljósi eignastöðu kæranda telji umboðsmaður skuldara einsýnt að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. og því sé skylt að synja henni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge., enda séu miklar líkur á því að lánardrottnar fái fullar efndir krafna sinna við sölu á fasteign kæranda. Embættið viti ekki til þess að reynt hafi verið að selja fasteign kæranda. Að mati umboðsmanns skuldara þurfi kærandi að reyna að leysa skuldavanda sinn til dæmis með sölu eignarinnar áður en umsókn hennar um greiðsluaðlögun verði tekin til efnislegrar meðferðar.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Nánar tiltekið er talið að eignastaða kæranda sé jákvæð og því sé hún ekki ógjaldfær í skilningi lge. Í 1. mgr. 2. gr. segir að einstaklingur, sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar, geti leitað greiðsluaðlögunar í samræmi við lögin. Í 2. mgr. 2. gr. segir að einstaklingur teljist ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar þegar ætla má að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segir að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að forsenda þess að umboðsmaður skuldara samþykki umsókn skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé sú að skuldari sé einstaklingur og ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar eða verði það um fyrirsjáanlega framtíð. Greiðsluerfiðleikar verða að hafa staðið eða vera líklegir til að standa um nokkurn tíma og lausn þeirra ekki í sjónmáli. Þegar afstaða sé tekin til þess hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar þurfi að meta greiðslugetu skuldarans og möguleika hans á að standa í skilum. Hafna beri umsókn ef greiðslugeta er til staðar, enda þótt eiginfjárstaða viðkomandi sé neikvæð.

Í bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 28. apríl 2016 segir að fjárhagur hennar sé afar þröngur sé tekið mið af greiðslugetu hennar og liggi ljóst fyrir að tekjur hennar dugi ekki fyrir greiðslu þeirra lána sem á henni hvíli. Eignastaða kæranda sé þó jákvæð. Með vísan til þess verði ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kærandi sé um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar samkvæmt 2. gr. lge.

Í fyrirliggjandi greiðsluáætlun, sem umboðsmaður skuldara hefur gert fyrir kæranda og dagsett er 13. júní 2016, kemur fram að til framfærslu hafi kærandi að meðaltali 240.945 krónur á mánuði. Samkvæmt framfærsluviðmiðum Embættis umboðsmanns skuldara nemi framfærslukostnaður kæranda 235.827 krónum á mánuði, án tillits til afborgunar lána og annarra skulda. Á grundvelli þess hafi hún því 5.118 krónur aflögu á mánuði til greiðslu skulda. Samkvæmt greiðsluyfirliti frá Íbúðalánasjóði er mánaðarleg greiðslubyrði af íbúðarláni kæranda 96.913 krónur á mánuði. Þannig vantar mánaðarlega tæplega 92.000 krónur upp á að kærandi geti greitt af láni Íbúðalánasjóðs. Þá eru ótaldar aðrar skuldbindingar kæranda upp á samtals 11.616.838 krónur samkvæmt gögnum málsins.

Í hinni kærðu ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ítrekar umboðsmaður skuldara þá afstöðu sína að kærandi hafi ekki tekjur til aðstanda í skilum með greiðslur lána.

Samkvæmt 1. gr. lge. er það markmið laganna að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Í máli þessu liggur fyrir að skuldbindingar kæranda eru þegar fallnar í vanskil og umboðsmaður skuldara hefur fallist á að hún eigi í greiðsluvanda.

Í 9. gr. lge. segir að hafi umboðsmaður skuldara samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun skuli hann þegar í stað skipa umsjónarmann með greiðsluaðlöguninni. Samkvæmt 13. gr. laganna getur umsjónarmaður með greiðsluaðlögun ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem hann telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þannig er gert ráð fyrir að mat á því hvort ætlast megi til þess að skuldari selji eignir sínar til þess að geta staðið í skilum sé almennt í höndum umsjónarmanns með greiðsluaðlögun og að slíkt mat fari fram eftir að greiðsluaðlögunarumleitanir eru hafnar samkvæmt III. kafla laganna. Eins og hér stendur á verður að telja að það sé á hendi umsjónarmanns með greiðsluaðlögun að meta hvort skuldara, sem sannanlega á við greiðsluvanda að etja og getur þar af leiðandi ekki staðið við fjárskuldbindingar sínar, verði gert að selja eignir sínar til þess að greiða skuldir.

Þegar allt framanritað er virt telur úrskurðarnefndin ekki unnt að líta svo á að kærandi teljist gjaldfær og að hún fullnægi ekki skilyrði a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. til að leita greiðsluaðlögunar á þeim forsendum einum að eignastaða hennar sé jákvæð. Að mati úrkskurðarnefndarinnar hafi kæranda þannig ranglega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta