Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 150/2013

Fimmtudaginn 15. október 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 26. september 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 12. september 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 17. október 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. nóvember 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 8. nóvember 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1960 og 1963. Þau búa saman að C götu nr. 26 í sveitarfélaginu D.

Kærandi A er pípulagningamaður og starfar hjá eigin félagi; X ehf. sem stofnað var árið 2011. Kærandi B er öryrki og fær bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði. Kærendur fá einnig greiddar vaxtabætur, sérstaka vaxtaniðurgreiðslu og barnabætur.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 42.605.866 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til ábyrgðarskuldbindinga sem kærandi A tókst á hendur á árunum 2003 og 2004 fyrir félagið Y ehf. sem nú er hætt rekstri. Einnig hafi kærandi A misst atvinnuna um skeið. Þá hafi veikindi kæranda B haft þau áhrif að dregið hafi úr starfsgetu þeirra beggja.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. mars 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 1. nóvember 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 16. maí 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. þar sem í ljós hefðu komið upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun samkvæmt lge. væri heimil. Í ljós hefði komið að kærendur hefðu haft töluverða greiðslugetu á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 3.112.720 krónur en þau hafi ekkert lagt fyrir. Skýringar kærenda hefðu verið á þá lund að kærandi A hefði ekki fengið greidd þau laun frá félagi sínu, X ehf., sem greint er frá í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Ástæða þessa væri sú að kærendur hefðu ákveðið að byggja upp rekstur félagsins. Þar sem kærendur hefðu ekkert lagt fyrir teldi umsjónarmaður að þau hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fé í greiðsluskjóli og ráðstafa því fé sem gagnast hefði lánardrottnum sem greiðsla til uppbyggingar á rekstri X ehf.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 1. júlí 2013 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur hafi svarað með bréfi 8. júlí 2013 og einnig lagt fram gögn. Í bréfinu kom fram að félagið X ehf. hefði ekki getað greitt kæranda A full laun allt til loka ársins 2012 þar sem reksturinn hefði verið mjög erfiður og verkefni af skornum skammti. Félagið skuldi kæranda A 2.700.000 krónur vegna ógreiddra launa. Hann hafi þó orðið að reikna sér tekjur vegna starfa sinna hjá félaginu. Gefi einstaklingur ekki upp tekjur eða reikni sér endurgjald af eigin atvinnustarfsemi áætli ríkisskattstjóri á hann tekjur. Af reiknuðum tekjum verði síðan að greiða skatta og launatengd gjöld svo sem kærandi A hafi gert. Þær tekjur sem kærandi A hafi gefið upp hafi samkvæmt þessu verið reiknaðar tekjur en ekki raunveruleg laun. Þetta megi bæði sjá af ársreikningum félagsins og yfirlýsingu endurskoðanda sem kærendur hafi lagt fram. Af þessum sökum hafi kærendur ekki getað lagt fyrir fé í greiðsluskjóli og hafi þau því hvorki brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a- né c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem þau hafi ekki getað ráðstafað fé sem þau hafi aldrei fengið. Einnig hafni kærendur því að hafa varið fé til uppbyggingar á rekstri X ehf. eins og umsjónarmaður þeirra haldi fram. Starfsemi félagsins sé aðeins pípulagningavinna eins manns.

Umboðsmaður skuldara svaraði með tölvupósti 11. júlí 2013. Þar kom fram að ekki væri unnt að taka tillit til annarra upplýsinga um tekjur kærenda en þeirra sem fram kæmu á skattframtali eða þeirra sem gerð hafi verið skil á, meðal annars samkvæmt lögun um tekjuskatt nr. 90/2003. Í framlögðum ársreikningum X ehf. fyrir árin 2011 og 2012 komi fram að tekjur kæranda A hafi í raun verið umtalsvert lægri en áður hafi verið gefið upp. Því séu kærendur hér með upplýstir um að þeim gefist kostur á að senda ríkisskattstjóra beiðni um leiðréttingu launa kæranda A. Verði þetta gert óski embættið staðfestingar frá ríkisskattstjóra þar að lútandi. Einnig sé óskað staðfestingar innan einnar viku á því að kærendur hafi farið fram á leiðréttinguna. Að óbreyttu megi gera ráð fyrir að heimild kærenda til greiðsluaðlögunar verði felld niður.

Með bréfi til kærenda 12. september 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a– og c- liði 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera þá kröfu að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála felli úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara og veiti þeim áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunar.

Frá árinu 2008 hafi kærendur átt í verulegum greiðsluerfiðleikum í kjölfar atvinnumissis, hækkandi lána og hækkandi framfærslukostnaðar. Kærendur hafi lagt fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. mars 2011 og hafi greiðsluskjól þeirra hafist þann dag. Kærendur hafi fengið tölvupóst frá umsjónarmanni sínum 16. janúar 2013 þar sem þeim hafi verið kynnt að samkvæmt útreikningum umsjónarmannsins ættu þau að vera búin að leggja fyrir alls 3.112.720 krónur. Í svari kærenda til umsjónarmanns hafi komið fram að kærandi A hefði í raun aldrei fengið greidd þau laun sem fram kæmu í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra frá félaginu X ehf. Um hefði verið að ræða reiknað endurgjald sem honum hefði borið skylda til að reikna sér lögum samkvæmt, óháð því hvort hann hefði eða myndi fá greiðsluna. Hafi kærendur fengið frest til að skila gögnum þar að lútandi. Með tölvupósti 26. febrúar 2013 hefðu þau svo framvísað ársreikningi X ehf. ásamt staðfestingu löggilts endurskoðanda á því að félagið skuldaði kæranda A 2.700.000 krónur vegna ógreiddra launa.

Með bréfi frá umboðsmanni skuldara 1. júlí 2013 hefðu kærendur verið upplýst um að umsjónarmaður þeirra hefði tilkynnt umboðsmanni skuldara að hann teldi að kærendur hefðu ekki uppfyllt skyldur sínar í greiðsluskjóli samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fyrir fé í greiðsluskjóli og ráðstafa fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla. Væri það mat umsjónarmanns að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda af þessum sökum, sbr. 15. gr. lge. Kærendum hafi verið veittur einnar viku frestur til að leggja fram frekari gögn og skýringar áður en heimild þeirra til greiðsluaðlögunar yrði felld niður.

Með bréfi 8. júlí 2013 hafi kærendur sent embættinu frekari skýringar og ítrekað að þau hefðu þegar lagt fram gögn sem sýndu fram á að kærandi A hefði aldrei fengið umrædd laun greidd. Því ætti hvorki a- liður né c-liður 1. mgr. 12. gr. lge. við í málinu því kærendur hefðu ekki getað lagt fyrir fjármuni sem aldrei hefðu verið til staðar. Umboðsmaður skuldara hefði svarað kærendum 11. júlí 2013 á þann veg að embættið gæti ekki tekið tillit til annarra upplýsinga um tekjur kærenda en þeirra sem fram kæmu á skattframtölum og staðgreiðsluskrám. Hafi kærendum verið gefinn viku frestur til að leiðrétta uppgefnar tekjur sínar til samræmis við raunverulegar tekjur. Kærendur hafi í kjölfarið ítrekað óskað eftir því að fá frestinn framlengdan sökum sumarfría endurskoðanda þeirra og lögmanns. Þar sem ekki hefði náðst í þann starfsmann embættisins sem unnið hefði málið hefði verið óskað eftir því að skilaboð yrðu lögð fyrir starfsmanninn um að hann væri beðinn um að hafa samband við lögmann kærenda. Síðar hefði lögmanni kærenda verið tjáð að starfsmaðurinn væri í sumarfríi til 22. eða 23. ágúst 2013. Hefði starfsmanninum því verið sendur tölvupóstur 22. ágúst 2013 þar sem óskað hafi verið eftir fresti til að skoða málið með endurskoðandanum. Ekkert svar hafi borist. Með bréfi 12. september 2013 hafi kærendum síðan verið tilkynnt að heimild þeirra til greiðsluaðlögunar hefði verið felld niður.

Eftir þetta hefðu kærendur sent ríkisskattstjóra leiðréttingu vegna tekna kæranda A. Þar sem leiðréttingin hefði ekki enn verið færð inn hjá ríkisskattstjóra hefði ekki tekist að fá staðfestingu en hún verði send um leið og hún sé tiltæk.

Þó að frumkvæðisskylda skuldara sé rík að því er varði gagnaöflun verði ekki horft fram hjá því að stjórnvald skuli á grundvelli rannsóknarreglunnar í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Sé litið til athugasemda með 10. gr. í frumvarpi til stjórnsýslulaganna komi fram að í rannsóknarreglunni felist skylda stjórnvalds til að sjá til þess að málsatvik séu nægilega upplýst áður en stjórnvald taki ákvörðun í máli. Í 5. gr. lge. sé rannsóknarreglan nánar útfærð. Í 1. mgr. 5. gr. komi fram að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar upplýsingar sem nauðsynlegar séu. Geti umboðsmaður krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum. Í 2. mgr. 5. gr. lge. segi að umboðsmaður skuldara skuli auk þess afla upplýsinga sem hann telji að skipt geti máli varðandi eignir, skuldir, tekjur og framferði skuldara áður en hann taki ákvörðun um hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar. Sé það mat kærenda að embætti umboðsmanns skuldara hefði átt að setja sig í samband við ríkisskattstjóra áður en ákvörðun í málinu var tekin, enda hefði embættið þá getað fengið staðfestingu á því að farið hefði verið fram á leiðréttingu á launum kæranda A.

Þá sé vert að hafa í huga eftirfarandi umfjöllun um 2. mgr. 6. gr. lge. í frumvarpi til laganna: „Þegar skuldari glímir við verulegan fjárhagsvanda hlýtur vissulega eitt og annað að hafa farið úrskeiðis hjá honum án þess þó að framangreind atriði verði talin eiga við þannig að girt sé fyrir greiðsluaðlögun.“ Ekki verði séð að embætti umboðsmanns skuldara sé bundið af því að taka mið af launum samkvæmt staðgreiðsluskrá líkt og það hafi haldið fram. Einnig sé rétt að benda á að kærendum hafi lögum samkvæmt borið að gefa upp til skatts hið minnsta reiknað endurgjald og greiða skatta af því. Þrátt fyrir þessa skyldu hafi það verið að kröfu umboðsmanns skuldara að endurskoðandi kærenda þurfti að leiðrétta skattskil. Telja verði mótsagnarkennt að opinbert embætti ýti mönnum út í slíkt þegar fyrir liggi að einstaklingum með eigin atvinnurekstur beri að gefa upp reiknað endurgjald og greiða tekjuskatt af þeirri fjárhæð.

Að mati kærenda hafi þeim ekki verið gefinn kostur á að andmæla fyrirhugaðri ákvörðun umboðsmanns skuldara með fullnægjandi hætti áður en hún var tekin.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara á meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum standi. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.

Upplýsingar um skyldur skuldara í greiðsluskjóli hafi verið að finna á heimasíðu embættisins www.ums.is. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 1. nóvember 2012 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar kæmi að því að semja við kröfuhafa.

Kærendur hafi óskað greiðsluaðlögunar 29. mars 2011 og hafi frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge., svokallað greiðsluskjól, þá hafist. Frá sama tíma hafi skyldur kærenda samkvæmt 12. gr. lge. orðið virkar. Greiðsluskjól kærenda hafi samkvæmt því staðið yfir í rúma 26 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. apríl 2011 til maíloka 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. apríl 2011 til 31. maí 2013 að frádregnum skatti 10.261.871
Álögð gjöld eftir á til frádráttar -219.503
Barnabætur 54.284
Samtals 10.042.884
Mánaðarlegar meðaltekjur 394.687
Framfærslukostnaður á mánuði 285.772
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 108.915
Samtals greiðslugeta í 26 mánuði 2.831.799

 

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 285.772 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kærendum í hag. Samkvæmt þessu sé miðað við framfærslukostnað júnímánaðar 2013 fyrir tvo fullorðna og eitt barn á framhaldsskólaaldri. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 2.831.799 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðal greiðslugetu að fjárhæð 108.915 krónur á mánuði í 26 mánuði. Kærendur hafi ekkert lagt fyrir á tímabilinu.

Í ljósi þessa verði að líta svo á að kærendur hafi brotið gegn skyldum sínum á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að því er varði c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. komi fram í bréfi umsjónarmanns 16. maí 2013 að samkvæmt skýringum kærenda hafi kærandi A varið því fé sem hafi verið umfram framfærslukostnað til uppbyggingar á rekstri félags síns, X ehf. Bendi umsjónarmaður á að óheimilt sé að verja fjármunum í greiðsluskjóli til að byggja upp rekstur. Geti kærendur því ekki byggt á því að þetta sé ástæða þess að þau hafi ekki lagt fyrir fé á tímabilinu.

Í málinu liggi fyrir að launatekjur kæranda A á tímabilinu 2011 til 2012 hafi verið umtalsvert lægri en gefið hafi verið upp til skatts. Því hafi umboðsmaður skuldara farið þess á leit við kærendur að þau óskuðu leiðréttingar hjá ríkisskattstjóra innan tilskilins frests. Við þessum tilmælum hafi kærendur ekki orðið. Embættið hafi þegar upplýst kærendur um að því sé ekki mögulegt að byggja á öðru en fyrirliggjandi gögnum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Í málinu liggi hvorki fyrir leiðrétting frá ríkisskattstjóra né staðfesting á því að hennar hafi verið óskað.

Rétt sé að geta þess að embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki borist tölvupóstur sá er kærendur kveðist hafa sent embættinu 22. ágúst 2013.

Að framangreindu virtu og að undangengnu heildstæðu mati á aðstæðum kærenda og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a- og c- liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála felli úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara og veiti þeim áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunar. Ef umboðsmaður skuldara fellir niður greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur aðeins komið til þess að kærunefndin staðfesti eða felli ákvörðun umboðsmanns úr gildi. Felli kærunefndin hina kærðu ákvörðun úr gildi halda greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda áfram án þess að kærunefndin veiti slíka heimild. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála veiti kærendum áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunar. Skilja verður kröfugerð kærenda með tilliti til þessa.

Kærendur telja umboðsmann skuldara hvorki hafa veitt þeim lögboðinn andmælarétt samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 5. gr. lge. Kærendur telja nánar tiltekið að embættið hefði átt að hafa samband við ríkisskattstjóra áður en ákvörðun var tekin í málinu til þess að fá staðfestingu á því að kærendur hefðu óskað leiðréttingar á launum kæranda A.

Í 5. gr. lge. er, auk rannsóknarskyldu, ákvæði um að umboðsmaður skuldara hafi heimild til að krefjast þess að skuldari staðfesti gefnar upplýsingar með skriflegum gögnum. Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun er tekin í því. Í þessu er talinn felast réttur aðila til að koma að viðbótargögnum, upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 1. júlí 2013 voru rakin ákvæði a- og c-liða 1. mgr. 12. gr. lge. og tekið fram að það væri mat umsjónarmanns að kærendur hefðu ekki rækt skyldur sínar samkvæmt þeim lagaákvæðum þar sem þau hefðu ekki lagt fyrir fé á tímabili greiðsluskjóls en það gæti leitt til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra yrðu felldar niður. Voru tekjur þeirra samkvæmt staðgreiðsluskrá tíundaðar. Þá var þeim gefinn kostur á að leggja fram gögn áður en embættið tæki ákvörðun í málinu. Í bréfinu segir orðrétt: „Frekari gögn gætu verið reikningar, kvittanir og önnur gögn sem fært geta sönnur á nauðsynleg útgjöld á tímabilinu eða aðrar upplýsingar varðandi tekjur.“ Kærendur svöruðu með bréfi 8. júlí 2013 þar sem þau kváðu þær tekjur sem kærandi A hefði gefið upp til skatts árin 2011 og 2012 vera reiknaðar tekjur en ekki raunveruleg laun. Þetta megi bæði sjá af ársreikningum félagsins og yfirlýsingu endurskoðanda sem þau hafi lagt fram. Af þessum sökum hafi kærendur ekki getað lagt fyrir fé í greiðsluskjóli. Umboðsmaður skuldara svaraði með tölvupósti 11. júlí 2013. Þar kom meðal annars fram að embættið gæti ekki tekið tillit til annarra upplýsinga um tekjur kærenda en þeirra sem fram kæmu í skattframtali. Var kærendum bent á að þau gætu óskað þess við ríkisskattstjóra að leiðrétting væri gerð á framtöldum launum kæranda A. Gerðu kærendur þetta væri þess óskað að embættið fengi staðfestingu á því að beiðnin hefði verið lögð fram. Kærendur lögðu ekki fram gögn er sýndu fram á að þau hefðu lagt fram framangreinda beiðni til ríkisskattstjóra.

Þótt umboðsmanni skuldara beri skylda til að afla frekari upplýsinga eftir að umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram samkvæmt 5. gr. lge., verður einnig að líta til þess að skuldara ber að taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við vinnslu máls. Var kærendum samkvæmt framansögðu gefinn kostur á því að leggja fram gögn er sýndu annað hvort fram á réttmæti fullyrðingar þeirra og/eða að þau hefðu óskað leiðréttingar.

Kærendur lögðu fram yfirlýsingu frá endurskoðanda 26. febrúar 2013. Þar segir: „ Eins og fram kemur í ársreikningi X ehf. kt. 440311-2530 fyrir árið 2012 skuldar félagið eiganda sínum, B kr. 3.412.672.-. Stór hluti þessarar skuldar eða ca. 2.700.000.- er til kominn vegna ógreiddra launa til A árin 2011 og 2012.“ Þegar nefndir ársreikningar eru skoðaðir má sjá að í lok árs 2011 voru skuldir við hluthafa tilteknar 2.482.766 krónur samkvæmt efnahagsreikningi. Í ársreikningi ársins 2012 eru skuldir við hluthafa ekki sérstaklega tilgreindar í efnahagsreikningi. Í sjóðsstreymi ársins 2012 kemur fram að engin breyting hafi orðið á fjárhæð skulda við hluthafa á milli loka árs 2011 og loka árs 2012. Í skýringu nr. 9 (aðrar peningalegar skuldir) með ársreikningnum 2012 er fjárhæð annarra skulda tiltekin 3.412.672 krónur á móti 2.482.766 krónum árið áður. Skuld við hluthafa er ekki tilgreind. Af þessu má ráða að skuld félagsins við hluthafa hafi numið 2.482.766 krónum í lok ársins 2012. Ofangreind gögn staðfesta samkvæmt framansögðu á hinn bóginn hvorki að skuld vegna launa til kæranda A hafi verið 2.700.000 krónur í lok árs 2012 né að laun hans hafi að einhverju marki verið vangreidd.

Í ljósi þess að kærendur héldu því fram við meðferð málsins að þær upplýsingar sem þau sjálf veittu skattyfirvöldum væru rangar telur kærunefndin að kærendum hafi sjálfum borið að sýna fram á það. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að embætti umboðsmanns skuldara hafi á fyrrgreindan hátt uppfyllt bæði rannsóknarskyldu sína og virt andmælarétt kærenda á þann hátt sem lög mæla fyrir um, en að kærendum hafi ekki tekist að sýna fram á réttmæti fullyrðingar sinnar með viðhlítandi hætti.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og c- liða 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum, skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 16. maí 2013 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 12. september 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi látið hjá líða að leggja fyrir fé í greiðsluskjóli og þar með brotið gegn skyldum sínum á þeim tíma. Kærendur kveðast á hinn bóginn ekki hafa haft peninga til að leggja til hliðar þar sem kærandi A hafi í raun haft 2.700.000 krónum lægri tekjur en hann hafi gefið upp til skatts sem reiknað endurgjald frá félagi sínu, X ehf. Segjast kærendur hafa óskað leiðréttingar ríkisskattstjóra á meintum röngum skattskilum.

Undir rekstri málsins fyrir kærunefnd var aflað upplýsinga um framtaldar tekjur kærenda og skattskil þeirra. Nánar tiltekið er miðað við þær upplýsingar sem fram koma í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra 25. mars 2015 fyrir það tímabil sem kærendur nutu greiðsluskjóls. Samkvæmt framangreindu, fyrirliggjandi skattframtölum og álagningarseðlum, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. apríl 2011 til 31. desember 2011: Níu mánuðir
Nettótekjur A 1.542.110
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 171.346
Nettótekjur B 2.319.905
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 257.767
Nettótekjur alls 3.862.015
Mánaðartekjur alls að meðaltali 429.113


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 1.794.195
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 149.516
Nettótekjur B 2.496.288
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 208.024
Nettótekjur alls 4.290.483
Mánaðartekjur alls að meðaltali 357.540


Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. ágúst 2013: Átta mánuðir
Nettótekjur A 1.059.324
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 132.416
Nettótekjur B 1.661.663
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 207.708
Nettótekjur alls 2.720.987
Mánaðartekjur alls að meðaltali 340.123


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.873.485
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 374.948

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara frá júní 2013, tekjur kærenda samkvæmt framangreindu, endurgreiðslu oftekinna skatta og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. apríl 2011 til 31. ágúst 2013: 29 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.873.485
Bótagreiðslur 1.068.622
Endurgreidd ofgreidd staðgreiðsla 391.837
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 12.333.944
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 425.308
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 285.772
Greiðslugeta kærenda á mánuði 139.536
Alls sparnaður í 29 mánuði í greiðsluskjóli x 139.536 4.046.556

 

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Samkvæmt ofangreindu hefðu kærendur átt að getað lagt til hliðar 4.046.556 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Kærendur hafa ekkert lagt fyrir.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Svo sem rakið hefur verið er skuldurum óheimilt, á saman tíma og leitað er greiðsluaðlögunar, að láta af hendi verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. Málatilbúnaður kærenda er óljós að því er varðar ráðstöfun umframfjár í greiðsluskjóli. Kærunefndin telur því ekki forsendur til þess að meta hvort kærendur hafi brotið skyldur sínar samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. sem umboðsmaður skuldara byggir ákvörðun sína einnig á.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta