Mál nr. 162/2013
Fimmtudaginn 22. október 2015
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 11. október 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 27. september 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.
Með bréfi 11. nóvember 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. desember 2013.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 13. janúar 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Athugasemdir bárust ekki.
I. Málsatvik
Kærendur eru fædd 1958 og 1960. Þau eru gift og búa ásamt tveimur börnum sínum í eigin 250 fermetra einbýlishúsi við C götu nr. 3 í sveitarfélaginu D.
Kærandi A starfar hjá eigin félagi, X ehf. Kærandi B er viðskiptafræðingur og starfar hjá Y. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur þeirra eru samtals 465.514 krónur vegna launa og barnabóta.
Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 63.339.568 krónur.
Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína einkum til þess að tekjur kæranda A hafi lækkað í kjölfar efnahagshrunsins.
Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 27. janúar 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. júní 2012 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 2. janúar 2013 tilkynnti umsjónarmaður að hann sæi sér ekki annað fært en að tilkynna embættinu að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil, sbr. 15. gr. lge.
Kærendur hefðu átt fimm nánar tilgreind félög, þar af væri eitt gjaldþrota. Væru skuldir félaganna við innheimtumann ríkissjóðs verulegar. Þannig skulduðu félögin alls 14.954.807 krónur vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda, 715.159 krónur vegna staðgreiðslu launagreiðanda og 2.850.840 krónur vegna virðisaukaskatts. Teldust staðgreiðslu- og virðisaukaskattskuldir til vörsluskattaskulda en samtals næmi fjárhæð þeirra 3.565.999 krónum.
Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skal taka sérstakt tillit til aðstæðna sem talin eru upp í ákvæðinu í stafliðum a-g. Í d-lið sé litið til þess hvort skuldari hefði bakað sér skuldbindingu sem einhverju næmi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðaði refsingu eða skaðabótaskyldu. Samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá hafi kærendur verið einu stjórnarmenn umræddra félaga. Hvíli því á þeim sú skylda sem tilgreind sé í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá skuli fyrirsvarsmaður hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 1. og 8. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 1. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 40/1987.
Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé samhljóða eldra ákvæði um greiðsluaðlögun en það hafi verið í 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Hafi ákvæðið verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem leitt geti til refsingar geti girt fyrir heimild til að leita greiðslualögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Þetta hafi verið staðfest í úrskurðum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í málum nr. 10/2011 og 59/2011.
Ofangreindar upplýsingar virtust ekki hafa legið fyrir þegar ákvörðun var tekin um að veita kærendum heimild til að leita greiðsluaðlögunar 8. júní 2013, en umboðsmanni skuldara hafi borið að líta til þessa við mat á því hvort heimila skyldi greiðsluaðlögun.
Fjögur af félögum kærenda hafi ekki skilað ársreikningum. Vanskilin stafi í einu tilviki frá árinu 2007, í einu tilviki frá 2009 og í tveimur tilvikum frá 2011. Samkvæmt 13. og 14. gr. lge. beri umsjónarmanni að verðmeta einstakar eignir skuldara. Við mat á því hvort rétt sé að selja eignir skuldara beri meðal annars að líta til verðmætis eignanna. Hafi ársreikningi ekki verið skilað sé slíkt mat ómögulegt og því geti greiðsluaðlögun ekki náð fram að ganga að mati umsjónarmanns.
Kærandi A kveðist hafa greitt sér mánaðarlega laun að fjárhæð 150.000 krónur til 300.000 krónur úr félagi sínu á árinu 2012. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi hann engar launagreiðslur fengið á þessum tíma. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. sé gert ráð fyrir að upplýsingar um tekjur liggi fyrir. Geti umboðsmaður skuldara krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum, sbr. 1. mgr. 5. gr. lge. Skylt sé að synja manni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag hans samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.
Kærendur hafi sótt um greiðsluaðlögun 27. janúar 2011. Hafi frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge., svokallað greiðsluskjól, þá hafist. Frá sama tíma hafi skyldur kærenda samkvæmt 12. gr. lge. hafist. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærendur ekki staðið í skilum með fasteignagjöld í greiðsluskjólinu en skuldin nemi 648.895 krónum. Greiðslugeta kærenda hafi verið jákvæð á tímabilinu og því telji umsjónarmaður að þau hafi brotið gegn ákvæðum d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.
Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 4. september 2013 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svari kærenda kom fram að félög þeirra skulduðu ekki virðisaukaskatt þar sem álagning á þau hefði verið leiðrétt og skuldir greiddar. Ársreikningar vegna félaga kærenda hefðu verið sendir til ársreikningaskrár. Þá greindu kærendur frá því að kærandi A hefði ekki fengið greitt eins og til hafi staðið fyrir verk sem hann hefði unnið og því hefðu tekjur hans borist seint og verið sveiflukenndar. Loks greindu kærendur frá því að þau hefðu lagt fyrir 3.000.000 króna. Féð sé ekki inn á bankareikningi en kærendur séu reiðubúin til að leggja það á bankareikning til að sýna fram á sparnað sinn, sé þess sérstaklega óskað.
Með bréfi til kærenda 27. september 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr., a–lið 1. mgr. 12. gr., 13. gr. og 14. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur krefjast þess að hinni kærðu ákvörðun verði snúið við og umboðsmanni skuldara verði falið að hjálpa þeim að finna lausn á skuldamálum sínum. Verður að skilja þetta svo að kærendur fari fram á að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi. Kærendur krefjast þess einnig að fá greiddan málskostnað samkvæmt mati nefndarinnar.
Kærendur gera verulegar athugasemdir við ákvörðun umboðsmanns skuldara. Í fyrsta lagi haldi umboðsmaður skuldara því fram að félag kæranda A, X ehf., skuldi virðisaukaskatt að fjárhæð 931.868 krónur vegna áranna 2010 til 2012. Samkvæmt staðfestingu ríkisskattstjóra, sem kærendur hafi nú lagt fram, skuldi félagið ekki virðisaukaskatt.
Í öðru lagi haldi umboðsmaður skuldara því fram að félagið Z ehf., sem einnig sé í eigu kæranda A, skuldi virðisaukaskatt að fjárhæð 183.057 krónur. Nú skuldi félagið engan virðisaukaskatt samkvæmt framlagðri staðfestingu.
Í þriðja lagi sé í ákvörðun umboðsmanns skuldara að finna hugleiðingar embættisins um mögulega fangelsun kærenda. Telji þau rétt að taka fram að tvö tilgreind félög í sinni eigu hafi skilað ársreikningum vegna ársins 2012. Leggi kærendur nú fram staðfestingu vegna þessa. Endurskoðandi félaganna standi í samningaviðræðum við ársreikningaskrár ríkisskattstjóra um lækkun sekta á félögin. Einnig leggi kærendur fram tölvupóst á milli endurskoðanda síns og starfsmanns ársreikningaskrár til staðfestingar á því að hvorki geti verið um að ræða refsi- né skaðabótaábyrgð forsvarsmanna félaganna vegna sekta ársreikningaskrár.
Samkvæmt þessu séu aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. ekki fyrir hendi í málinu og komi því ekki í veg fyrir heimild kærenda til þess að leita samnings um greiðsluaðlögun.
Í hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara séu tilgreind meint ógreidd þing- og sveitarsjóðsgjöld og bifreiðagjöld félaga kærenda og því haldið fram að kærendur beri ábyrgð á því að félögin standi ekki í skilum með þessi gjöld. Vissulega eigi félögin að greiða skatta og gjöld. Kærendur eigi þó ekki að greiða fyrrnefnd gjöld fyrir félögin og beri ekki persónulega ábyrgð á þeim. Það sé því í besta falli villandi framsetning og í versta falli rangt þegar umboðsmaður skuldara haldi þessu fram. Í öllu falli virðist fullyrðing embættisins sett fram í þeim eina tilgangi að rökstyðja synjun á heimild kærenda til greiðsluaðlögunar. Sé þetta ekki einungis ómálaefnalegt heldur beinlínis í andstöðu við tilgang embættis umboðsmanns skuldara samkvæmt lögum um embættið og að auki brot á IV. kafla laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna nr. 70/1996.
Kærendur hafi lagt til hliðar 3.000.000 króna á tímabilinu. Sé það 82% þeirrar fjárhæðar sem viðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir. Þar sem embættið hafi sjálft greint frá því að tekið sé tillit til aðstæðna hvers og eins sé sú fjárhæð sem umboðsmaður skuldara telji að upp á vanti ein og sér ekki næg ástæða til að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Nú sé lögð fram staðfesting sem sýni að kærendur hafi lagt til hliðar 3.000.000 króna á tímabilinu. Verði að telja að með því að leggja þessa fjárhæð fyrir hafi kærendur sýnt mikinn vilja og getu til að gera samning til greiðsluaðlögunar.
Að því er varði framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara bendi kærendur á að um sé að ræða viðmið en ekki sannleik. Viðmið umboðsmanns sé einnig verulega mikið lægra en viðmið velferðarráðuneytisins. Engar verklagsreglur liggi fyrir um notkun viðmiðs umboðsmanns skuldara. Í ákvörðun embættisins segi að um hlutlægt viðmið sé að ræða án þess að það sé nánar útskýrt í hverju það felist. Beri vinnubrögð umboðsmanns skuldara þess engin merki að hlutlægni hafi verið gætt í málinu.
Samkvæmt því sem hér hafi verið rakið séu þær aðstæður sem umboðsmaður skuldara byggi synjun sína á ekki lengur fyrir hendi. Kærendur uppfylli nú allar kröfur og skyldur sem á þeim hvíli og til þeirra séu gerðar.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Í 6. gr. lge. séu tilgreindar þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. segi að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu.
Í 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 komi fram að refsing geti meðal annars legið við því að skila ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 hafi kærunefndin fallist á þá ákvörðun umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að samþykkja greiðsluaðlögun þar sem skuldari hefði ekki staðið skil á vörslusköttum. Í niðurstöðu kærunefndarinnar komi fram að skattskuldir, sem leitt gæti til refsingar, girtu fyrir heimild til að leita greiðsuaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefði verið staðfest með dómi eður ei.
Í máli kærenda liggi fyrir að töluverðar skattskuldir hvíli á félögum þar sem kærendur gegni ýmist stöðu framkvæmdastjóra, stjórnarmanns, varamanns í stjórn og/eða prókúruhafa. Skattskuldirnar séu meðal annars vegna virðisaukaskatts, staðgreiðslu launagreiðanda, staðgreiðslu tryggingagjalds, bifreiðagjalds, þing- og sveitarsjóðsgjalda og sekta fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra. Stöðu sinnar vegna beri kærendur ábyrgð á að félögin standi í skilum með skatta og gjöld.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá Tollstjóranum í Reykjavík hvíli meðal annars á X ehf. virðisaukaskattskuld að höfuðstólsfjárhæð 632.500 krónur en þar af séu 510.000 krónur byggðar á álagningu og 122.500 krónur á áætlun. Á Z ehf. hvíli virðisaukaskattskuld að höfuðstólsfjárhæð 122.500 krónur og sé skuldin byggð á áætlun. Samanlagður höfuðstóll á vanskilum opinberra gjalda, sem rekja megi til háttsemi sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu, nemi 815.557 krónum. Þá hafi fallið á þrjú félaga kærenda fésektir ársreikningaskrár sem nemi að höfuðstólsfjárhæð 1.000.000 króna. Þrátt fyrir að stjórnarmönnum félaga verði ekki gert að greiða sektirnar teljist vanræksla á ársreikningaskilum meiri háttar brot gegn lögum um ársreikninga nr. 3/2006 en það varði fésektum samkvæmt 120. gr. laganna eða fangelsi allt að sex árum samkvæmt 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 1971940.
Samkvæmt framansögðu sé samanlögð fjárhæð skulda, sem rekja megi til háttsemi er varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu, 1.815.557 krónur.
Eignastaða kærenda sé neikvæð en greiðslugeta þeirra hafi verið 117.351 króna á mánuði. Sé þá ekki tekið tillit til afborgana af þeim húsnæðislánum kærenda sem séu innan matsverðs fasteignar þeirra. Ljóst þyki því að kærendur hafi ekki svigrúm til að greiða þær sektir sem á þau kynnu að falla vegna vanskila á vörslusköttum og vanskilum ársreikninga. Í ljósi þessa verði að telja að skuldir sem falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu verulegar með tilliti til fjárhags þeirra. Því sé ekki hæfilegt að veita heimild til greiðsluaðlögunar.
Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu tilteknar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun á meðan frestun greiðslna standi yfir. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Ljóst sé að frestun greiðslna hafi staðið yfir frá 27. janúar 2011. Greiðsluskjól kærenda hafi þannig staðið yfir í 30 mánuði miðað við tímabilið frá 1. febrúar 2011 til 31. júlí 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:
Launatekjur 1. febrúar 2011 til 31. júlí 2013 að frádregnum skatti | 12.621.301 |
Barnabætur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla | 1.314.220 |
Samtals | 13.935.521 |
Framfærslukostnaður á mánuði | 342.537 |
Samtals greiðslugeta í 30 mánuði | 3.659.411 |
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en reiknaður hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að kærendum sé veitt nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 342.537 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Tekið sé mið af heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt nýjustu framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara fyrir hjón með tvö börn auk upplýsinga um framfærslukostnað frá kærendum sjálfum. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir allt að 3.659.411 krónur á fyrrnefndu tímabili.
Í bréfi umboðsmanns skuldara 4. september 2013 hafi verið óskað eftir upplýsingum um fjárhæð sparnaðar á tímabili greiðsluskjóls og framvísunar bankayfirlits til staðfestingar. Kærendur kváðust hafa lagt til hliðar 3.000.000 króna en peningarnir væru ekki í banka. Þau gætu þó lagt féð inn á bankareikning til að sýna fram á að þau hafi lagt til hliðar, væri þess óskað. Embætti umboðsmanns hafi þegar óskað eftir því að kærendur legðu fram bankayfirlit til að sýna fram á fjárhæð sparnaðar. Því hefði kærendum mátt vera ljóst að það væri ekki fullnægjandi að greina aðeins frá því hver fjárhæð sparnaðar væri. Embættið geri ekki kröfu til þess að sparnaður sé geymdur í banka en þar sem sparnaðurinn sé greiddur til kröfuhafa þegar að samningum komi þurfi kærendur að færa sparnað sinn á bankareikning. Þar sem kærendur hafi ekki orðið við beiðni um staðfestingu á sparnaði geti umboðsmaður skuldara ekki gengið út frá því að kærendur hafi lagt umrædda fjárhæð til hliðar.
Eins og áður er fram komið telji embætti umboðsmanns skuldara að kærendur hefðu átt að leggja til hliðar 3.659.411 krónur. Kærendur hafi ekki veitt upplýsingar um hvernig þau hafi ráðstafað mismuninum á þeirri fjárhæð og þeirri fjárhæð sem þau kveðast hafa lagt til hliðar, eða 659.411 krónum.
Samkvæmt 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Samkvæmt 14. gr. lge. skal umsjónarmaður eftir þörfum afla mats á verðmæti þeirra eigna sem skuldara sé ekki gert að selja.
Fyrir liggi að einkahlutafélög kærenda hafi ekki skilað ársreikningum. Því hafi umsjónarmaður ekki getað lagt mat á stöðu félaganna og þar með ekki getað sinnt skyldum sínum samkvæmt 13. og 14. gr. lge. Kærendur hafi greint frá því að öll félög þeirra hefðu nú skilað ársreikningum fram til ársins 2011 og að ársreikningar vegna ársins 2012 séu í vinnslu og verði skilað innan fárra daga. Þar sem ársreikningar vegna árins 2012 liggi ekki fyrir sé ekki unnt að leggja mat á núverandi stöðu félaganna. Embætti umboðsmanns skuldara geti ekki annað en tekið mið af fyrirliggjandi gögnum við ákvörðun. Þar sem ekki liggi fyrir að ársreikningum vegna ársins 2012, hafi verið skilað hafi umsjónarmaður ekki forsendur til að sinna skyldum sínum við mat á eignum samkvæmt 13. og 14. gr. lge.
Við töku stjórnvaldsákvörðunar sé ekki fært að byggja á öðru en því sem fyrir liggi í málinu á þeim tíma sem ákvörðun sé tekin. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi kærendum gefist færi á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn í samræmi við skyldu stjórnvalds til að veita andmælarétt við töku stjórnvaldsákvarðana samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendur hafi lagt fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála upplýsingar sem ekki hafi legið fyrir í málinu þegar ákvörðun hafi verið tekin. Séu það annars vegar staðfesting á leiðréttingu áætlunar ríkisskattstjóra á virðisaukaskattskuld tveggja félaga í eigu kærenda og hins vegar staðfesting á sparnaði kærenda. Ekki verði séð að ársreikningar hafi verið lagðir fram.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr., a–lið 1. mgr. 12. gr., 13. gr. og 14. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr., a-liðar 1. mgr. 12. gr., 13. gr. og 14. gr. lge.
Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Samkvæmt 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Samkvæmt 14. gr. lge. skal umsjónarmaður eftir þörfum afla mats á verðmæti þeirra eigna sem skuldara sé ekki gert að selja.
Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.
Verður nú vikið að einstökum synjunarástæðum umboðsmanns skuldara.
Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í tengslum við d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eru að hluta vangoldnir vörsluskattar félaga kærenda. Fyrir kærunefndina hafa kærendur lagt staðfestingar þess efnis að umræddir vörsluskattar séu ekki lengur fyrir hendi og þykir því ekki ástæða til að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. komi til frekari skoðunar við úrlausn málsins.
Einnig byggir umboðsmaður skuldara ákvörðun sína á a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga, sbr. lög nr. 128/2010, hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að leggja til hliðar 3.659.411 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var móttekin, eða allt frá 27. janúar 2011 til 31. júlí 2013. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara kváðust kærendur hafa lagt fyrir 3.000.000 króna en þau lögðu ekki fram gögn því til staðfestingar.
Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:
Tímabilið 1. febrúar 2011 til 31. desember 2011: Ellefu mánuðir | |
Nettótekjur A | 1.152.000 |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 104.727 |
Nettótekjur B | 3.072.977 |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 279.362 |
Nettótekjur alls | 4.224.977 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 384.089 |
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir | |
Nettótekjur A | 1.515.656 |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 126.305 |
Nettótekjur B | 3.600.911 |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 300.076 |
Nettótekjur alls | 5.116.567 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 426.381 |
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. ágúst 2013: Átta mánuðir | |
Nettótekjur A | 1.174.839 |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 146.855 |
Nettótekjur B | 2.579.523 |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 322.440 |
Nettótekjur alls | 3.754.362 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 469.295 |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 13.095.906 |
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli | 422.449 |
Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. febrúar 2011 til 31. ágúst 2013: 31 mánuður | |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 13.095.906 |
Bótagreiðslur | 1.411.684 |
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli | 14.507.590 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 467.987 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns | 342.537 |
Greiðslugeta kærenda á mánuði | 125.450 |
Alls sparnaður í 31 mánuð í greiðsluskjóli x 125.450 | 3.888.943 |
Kærunefndin telur að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem þau fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu og að ráðstafa ekki fjármunum sem söfnuðust fyrir í greiðsluskjóli sem gagnast gætu kröfuhöfum við gerð samnings um greiðsluaðlögun.
Við meðferð málsins hjá kærunefndinni hafa kærendur lagt fram yfirlit af bankareikningi þar sem fram kemur að þau eigi 3.017.611 krónur. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara sýndu kærendur ekki fram á sparnað sinn en það hafa þau nú gert. Að því leyti eru aðrar aðstæður uppi í málinu en voru þegar hin kærða ákvörðun var tekin og verður því niðurstaða í málinu nú ekki byggð á þeirri synjunarástæðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki lagt fé til hliðar á tímabili greiðsluaðlögunar.
Loks byggir umboðsmaður skuldara ákvörðun sína á 13. og 14. gr. lge. Embættið telur að þar sem ársreikningum félaga kærenda vegna ársins 2012 hafi ekki verið skilað, hafi umsjónarmaður ekki haft forsendur til að sinna þeim skyldum sem á honum hvíla við mat á eignum samkvæmt 13. og 14. gr. lge. Kærendur hafa nú lagt fram staðfestingu á því að félög þeirra hafi skilað umræddum ársreikningum og kemur þetta atriði því ekki til frekari skoðunar við meðferð málsins fyrir kærunefndinni.
Kröfuna um greiðslu málskostnaðar verður að mati kærunefndarinnar að skilja svo að farið sé fram á greiðslu þóknunar til lögfræðings kærenda sem hefur komið fram fyrir þau gagnvart kærunefndinni.
Í 30. gr. lge. kemur fram hvernig háttað skuli greiðslu kostnaðar við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Segir þar að umboðsmaður skuldara beri kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og störf umsjónarmanna. Lánardrottnar beri þann kostnað sem á þá falli af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar. Í lge. er ekki að finna ákvæði er lúta að kostnaði við málsmeðferð fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Þannig greina lge. ekki frá því hver beri sérfræðikostnað kæranda, kjósi hann að leita sér aðstoðar utanaðkomandi aðila við málarekstur fyrir kærunefndinni. Þá eru engin ákvæði í lge. er heimila kærunefndinni að ákvarða kæranda kostnað úr hendi þriðja aðila vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni. Samkvæmt þessu standa lög ekki til annars en að kærendur verði sjálf að bera þann kostnað sem þau kunni að hafa stofnað til við málsmeðferð fyrir kærunefndinni. Beiðni kærenda um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.
Samkvæmt framangreindu eiga synjunarástæður umboðsmanns skuldara ekki lengur við þar sem kærendur hafa brugðist við þeim öllum. Með vísan til þessa er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara felld úr gildi.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er felld úr gildi.
Kröfu um málskostnað er hafnað.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir