Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 160/2013

Fimmtudaginn 22. október 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 15. október 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 27. september 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 21. október 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. nóvember 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 8. nóvember 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 19. mars 2014. Voru þær sendar embætti umboðmanns skuldara með bréfi 31. mars 2014 og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1967. Hann er fráskilinn og starfar sem bílstjóri. Ástæður fjárhagsvanda eru að mati kæranda fyrst og fremst tekjulækkun og vankunnátta í fjármálum.

Kærandi og fyrrverandi eiginkona hans óskuðu greiðsluaðlögunar í sameiningu 13. september 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. október 2012 var þeim veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 21. maí 2013 upplýsti umsjónarmaður að kærandi og eiginkona hans hefðu tilkynnt að þau hefðu slitið samvistir og því væru forsendur fyrir sameiginlegri heimild þeirra til greiðsluaðlögunar brostnar. Hafi þau bæði lýst yfir vilja til að halda áfram greiðsluaðlögunarumleitunum hvort í sínu lagi.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 29. maí 2013 kom fram að kærandi þyrfti að leggja fram nánar tilgreind gögn til að unnt væri af afgreiða mál hans sérstaklega. Nánar tiltekið væri um að ræða fjárskiptasamning og undirritaða samþykkisyfirlýsingu. Var veittur fimmtán daga frestur til að koma umbeðnum gögnum til embættisins ella yrði umsókn synjað vegna ónógra gagna, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Með bréfi til kæranda 27. september 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 15. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans þannig að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst hafa staðið í greiðsluaðlögunarumleitunum ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni, en vegna skilnaðar þeirra hafi málið farið í annan farveg. Kærandi hafi verið of seinn að sækja um að nýju. Hafi hann því ákveðið að kæra ákvörðun umboðsmanns skuldara og freista þess að komast aftur inn í greiðsluaðlögunarferlið.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 6. gr. lge. séu tilteknar þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segi að skylt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Kærandi og eiginkona hans hafi tilkynnt umsjónarmanni að þau hafi skilið að borði og sæng. Því uppfylltu þau ekki lengur skilyrði 3. mgr. 2. gr. lge. um að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu. Kærandi hafi óskað þess að halda áfram greiðsluaðlögunarumleitunum einn síns liðs.

Skilyrði þess að skuldarar sem hafa óskað greiðsluaðlögunar í sameiningu geti síðar aðskilið umsóknir sínar, sé meðal annars það að fyrir liggi ný yfirlýsing um að umboðsmanni skuldara sé heimilt að staðreyna gefnar upplýsingar og afla nánari upplýsinga samkvæmt 11. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 29. maí 2013 þar sem meðal annars var óskað eftir fyrrnefndri yfirlýsingu. Með bréfinu hafi fylgt óundirrituð yfirlýsing sem kærandi var beðinn um að undirrita og koma til embættisins. Kærandi hafi ekki orðið við þessu.

Þar sem kærandi hafi ekki skilað fyrrnefndri yfirlýsingu sé ljóst að umboðsmaður skuldara geti ekki fengið glögga mynd af fjárhag kæranda vegna skorts á gögnum. Það sé eðlileg krafa að umboðsmaður skuldara geti staðreynt gögn sem skuldari leggi fram og aflað gagna, án þess að þagnarskylda þeirra sem búi yfir slíkum upplýsingum hindri það. Að auki sé það sérstaklega tekið fram í 11. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. að umsókn um greiðsluaðlögun skuli fylgja umrædd yfirlýsing.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi heimild kæranda til greiðsluaðlögunar verið felld niður samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 15. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Í 15. gr. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Umsókn kæranda og þáverandi eiginkonu hans um greiðsluaðlögun var samþykkt 18. október 2012. Þau tilkynntu um hjónaskilnað í maí 2013 en á þeim tíma voru greiðsluaðlögunarumleitanir yfirstandandi. Þau lýstu bæði yfir vilja sínum til að halda áfram greiðsluaðlögunarumleitunum hvort í sínu lagi.

Umboðsmaður skuldara telur að til að unnt sé að halda greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda áfram þurfi hann meðal annars að leggja fram undirritaða yfirlýsingu samkvæmt 11. tölulið 1. mgr. 4. gr. lge. um að umboðsmanni skuldara sé heimilt að staðreyna gefnar upplýsingar og afla nánari upplýsinga, án þess að þagnarskylda þeirra sem búa yfir slíkum upplýsingum hindri það, sé talin þörf á því. Í samræmi við þetta sendi embættið kæranda bréf 29. maí 2013 þar sem meðal annars var óskað eftir fyrrnefndri yfirlýsingu. Kom þar fram að til að unnt væri að afgreiða mál kæranda og fyrrum eiginkonu hans hvort í sínu lagi þyrfti að leggja fram „undirritaða samþykkisyfirlýsingu“. Í bréfinu kom einnig fram að yrði gögnum ekki skilað innan 15 daga yrði umsókn um greiðsluaðlögun synjað vegna ónógra gagna, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Í máli þessu liggur fyrir að á sínum tíma taldi embætti umboðsmanns skuldara að þær upplýsingar sem kærandi og eiginkona hans létu sameiginlega í té með umsókn sinni væru fullnægjandi. Var þeim því veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Með tilkynningu sinni um skilnað í maí 2013 var grundvellinum óhjákvæmilega kippt undan sameiginlegum greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra þar sem eignum og skuldum bús er skipt á milli hjóna við skilnað. Frá þeim tíma lágu ekki lengur fyrir fullnægjandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu kæranda, eins og segir í 16. gr. lge.

Í skýringum með frumvarpi til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur ekki skilað undirritaðri yfirlýsingu þess efnis að hann heimili embætti umboðsmanns skuldara að staðreyna gefnar upplýsingar og afla nánari upplýsinga en samkvæmt 11. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. skal umrædd yfirlýsing fylgja umsókn um greiðsluaðlögun. Eins og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun var hin undirritaða yfirlýsing talin nauðsynleg til þess að unnt yrði að staðreyna og afla upplýsinga um fjárhag kæranda að nýju, en sá gagnaskortur var talinn standa í vegi fyrir því að embættið fengi glögga mynd af fjárhag kæranda.

Með hliðsjón af því sem fram hefur komið telur kærunefndin að skort hafi á að kærandi legði fram nauðsynleg gögn til að unnt væri að afla upplýsinga um eignir hans, skuldir og stöðu hans að öðru leyti og fá þannig nægilega glögga mynd af fjárhag hans eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar, svo sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. áskilur.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta