Mál nr. 429/2022-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 429/2022
Mánudaginn 14. október 2024
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Þann 12. september 2024 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 26. ágúst 2024, þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögunar var synjað.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi, sem er fædd 1964, lagði fram umsókn um aðstoð vegna fjárhagsvanda 3. nóvember 2023. Þann 30. maí 2024 óskaði kærandi eftir því að umsókn hennar yrði breytt í umsókn um greiðsluaðlögun einstaklinga, sbr. lög um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Með bréfi, dags. 11. júlí 2024, var kæranda tilkynnt að við meðferð málsins hefðu komið í ljós atriði sem leitt gætu til synjunar um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli d-liðar 6. gr. lge. Með bréfinu var kæranda veitt færi á að tjá sig um efni bréfsins og leggja fram gögn máli sínu til stuðnings áður en ákvörðun um afgreiðslu umsóknar yrði tekin. Kærandi brást ekki við erindi umboðsmanns skuldara. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 26. ágúst 2024, var umsókn kæranda synjað á grundvelli d-liðar 6. gr. lge.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. september 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 24. september 2024, var upplýst að kæra hefði borist að kærufresti liðnum og óskað skýringa. Kærandi brást ekki við erindi úrskurðarnefndarinnar.
II. Niðurstaða
Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. skal stjórnsýslukæra vegna ákvörðunar umboðsmanns skuldara um synjun um heimild til að leita greiðsluaðlögunar berast úrskurðarnefnd velferðarmála innan tveggja vikna frá því að tilkynning um ákvörðun barst skuldara. Þegar kæra berst að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. lagaákvæðisins, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. þess.
Samkvæmt gögnum málsins barst hin kærða ákvörðun kæranda með bréfi þann 27. ágúst 2024 og samkvæmt því byrjaði kærufrestur að líða þann dag. Kæra barst úrskurðarnefndinni 12. september 2024 og var þá kærufrestur liðinn.
Engar haldbærar skýringar hafa komið fram af hálfu kæranda á því hvers vegna kæran barst úrskurðarnefndinni að liðnum kærufresti. Þá liggur ekkert fyrir í gögnum málsins sem gefur til kynna að afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr. Önnur atvik málsins þykja heldur ekki leiða til þess að veigamiklar ástæður mæli með því að málið verði tekið til meðferðar á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson