Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 104/2014

Mál nr. 104/2014

Fimmtudaginn 15. desember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 7. október 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 26. september 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 9. október 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 27. nóvember 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 2. desember 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 26. janúar 2015. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 28. janúar 2015 og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1974. Hann býr í eigin fasteign að B. Kærandi á son sem býr hjá honum aðra hvora helgi. Kærandi er [...] og starfar hjá C.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 22. apríl 2013, eru 19.495.324 krónur. Af þeim falla 17.205.703 krónur innan samnings samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2006 vegna fasteignakaupa.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til ársins 2008 þegar hann varð atvinnulaus í kjölfar efnahagshrunsins.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun með umsókn 24. september 2012. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. apríl 2013 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 6. september 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í bréfi umsjónarmanns kom fram að hann teldi þörf á því að selja fasteign kæranda í ljósi takmarkaðrar greiðslugetu hans, sbr. 13. gr. lge. Kærandi hafi ekki orðið við beiðni umsjónarmanns um að upplýsa um afstöðu sína til sölu fasteignarinnar og því hafi umsjónarmaður lagt til að greiðsluaðlögunarumleitanir hans yrðu felldar niður samkvæmt 5. mgr. 13. gr. lge., sbr. 1. mgr. 13. gr. og 21. gr. lge. Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 29. janúar 2014 þar sem honum var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans með vísan til framangreindra ákvæða lge. Í kjölfar þess hafi komið í ljós að kærandi hefði jafnframt átt þess kost að leggja fyrir fjármuni umfram mánaðarlegan framfærslukostnað í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á tímabili greiðsluskjóls. Umboðsmaður skuldara sendi kæranda í framhaldinu annað bréf 18. febrúar 2014 þar sem honum var kynnt að greiðsluaðlögunarumleitanir hans kynnu einnig að verða felldar niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi 18. mars 2014 veitti umboðsmaður skuldara kæranda heimild til áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitana en að mati embættisins hefði kærandi ekki brotið gegn skyldum sínum samkvæmt framangreindum ákvæðum 12. og 13. gr. lge. Um það var vísað til þess að sparnaður kæranda samkvæmt gögnum málsins ætti að vera 854.072 krónur en væri 555.551 króna. Kærandi hafi lagt fram gögn um að hann hefði greitt tvöfalt meðlag en reiknað hafi verið með því að hann greiddi aðeins einfalt meðlag. Einnig hafi ekki verið gert ráð fyrir því að kærandi væri með son sinn aðra hvora helgi og því hafi framfærslukostnaður kæranda verið hækkaður um 15.000 krónur á mánuði.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 16. júlí 2014 lagði umsjónarmaður til á ný að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Umsjónarmaður taldi að kærandi hefði ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem hann hefði ekki lagt nægilega fjármuni til hliðar frá því að frestun greiðslna hófst. Að mati umsjónarmanns hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 1.140.000 krónur en samkvæmt upplýsingum frá kæranda hefði hann aðeins lagt fyrir um 700.000 krónur. Skýringar kæranda fólust meðal annars í því að vegna andláts ættingja hefði hann þurft að greiða fyrir ýmsan kostnað tengdan jarðarförinni. Kærandi lagði ekki fram nein gögn til stuðnings þeim skýringum.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 9. september 2014 var honum kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Andmæli kæranda bárust 19. september 2014.

Með ákvörðun 26. september 2014 felldi umboðsmaður skuldara í framhaldinu niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að umboðsmaður skuldara veiti honum tækifæri vegna mistaka umsjónarmanns og axli ábyrgð á þeim. Skilja verður kæru þannig að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst hafa staðið við allt í sambandi við umsókn sína um greiðsluaðlögun. Hann hafi verið búinn að bíða þolinmóður eftir niðurstöðu málsins í tvö ár þegar umsjónarmaður tjáði honum að það eina í stöðunni væri að selja íbúð hans. Kærandi hafi lagst gegn því og eftir þetta hafi hann algjörlega misst vonina um að hann fengi heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Hann hafi því hálfpartinn afskrifað úrræðið, enda datt honum ekki í hug miðað við hvernig umsjónarmaður lýsti stöðunni að það væri einhver von að umsókninni yrði áfram haldið. Í ljós hafi komið að umsjónarmaður hafði rangt fyrir sér og hafi kærandi auðveldlega átt að standast skilyrði til að fá greiðsluaðlögun.

Kærandi bendir á að á þeim tíma er umsjónarmaður lagði til sölu á íbúð hans hafi sparnaður hans numið yfir einni milljón króna. Þessi upphæð hafi verið innan þess ramma sem áætlað hafi verið að sparnaður hans ætti að vera og rúmlega það. Eftir að umsjónarmaður tilkynnti um fyrirhugaða sölu fasteignar hans hafi kærandi farið að taka fjármuni af reikningi sínum til þess að greiða upp ýmsa reikninga, hreinsa upp skuldir og reyna að koma sínum málum í eins rétt og viðráðanlegt form og hann gat. Kærandi hafi því tekið málin í sínar hendur, enda hafi hann talið það vera hið eina sem hann gat gert í stöðunni. Síðar hafi komið í ljós að umsjónarmaður hafði gert mistök og hafi umboðsmaður skuldara tilkynnt kæranda að hann ætti fullkomlega að komast í gegnum greiðsluaðlögun án þess að selja íbúð sína.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í hinni kærðu ákvörðun vísar umboðsmaður skuldara til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umsókn kæranda um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt 22. apríl 2013 og hófst þá frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. Frá sama tíma hafi kæranda borið að fara eftir þeim skyldum sem lagðar eru á herðar skuldara og tilgreindar eru í 12. gr. lge. Frestun greiðslna hafi staðið yfir frá 22. apríl 2013 eða í rúmlega 16 mánuði en útreikningar umboðsmanns skuldara hafi miðað við 1. maí 2013 til 31. ágúst 2014.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. maí 2013 til 31. ágúst 2014 að frádregnum skatti 5.108.665
Meðaltekjur á mánuði 319.292
Framfærslukostnaður á mánuði 220.694
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 98.598
Samtals greiðslugeta í 16 mánuði 1.577.561

Í ljósi framangreindra forsendna megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið um 220.694 krónur á mánuði á meðan hann naut greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu mögulegu framfærsluviðmið kæranda í hag. Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærandi því átt að geta lagt fyrir 1.577.561 krónu á fyrrnefndu tímabili, sé lagt til grundvallar að hann hafi átt 98.598 krónur á mánuði aflögu til að greiða af skuldbindingum sínum að teknu tilliti til framfærslukostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi greitt tvöfalt meðlag í stað einfalds á tímabili greiðsluskjóls. Samtals hafi hann greitt 104.324 krónur umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir frá 1. maí 2013 til 30. september 2013. Að sögn umsjónarmanns hafi kærandi lagt til hliðar 700.000 krónur og þurft að leggja út fyrir óvæntum útgjöldum að fjárhæð 360.000 krónur en hann hafi ekki stutt fullyrðingar sínar með haldbærum gögnum. Þrátt fyrir að tekið yrði tillit til fyrrnefndra meðlagsgreiðslna, sparnaðar og óvæntra útgjalda kæranda væri ljóst að sú fjárhæð næmi einungis 71,9% af þeirri fjárhæð sem kærandi hefði alla jafna átt að vera kleift að leggja til hliðar á tímabili greiðsluskjóls.

Kærandi þyki ekki hafa veitt umboðsmanni skuldara fullnægjandi skýringar á því hvers vegna hann hafi ekki lagt fé til hliðar á meðan frestun greiðslna hafi staðið. Upplýsingar um skyldur skuldara á tímabili greiðsluskjóls megi finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara, www.ums.is. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjanda. Þá hafi fylgt skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun 22. apríl 2013 sem honum hafi borist með ábyrgðarbréfi. Kæranda hafi því vel mátt vera ljóst að hann skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hann hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar verið felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum, skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunar-umleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 16. júlí 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í bréfinu kemur fram að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 26. september 2014.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem honum hafi verið skylt að leggja fyrir á því tímabili sem hann naut greiðsluskjóls. Kærandi kveðst hafa þurft að leggja út 360.000 krónur á tímabilinu vegna ýmissa óvæntra útgjalda og að hann hafi nýtt ótilgreindan hluta sparnaðar síns til að greiða niður skuldir sökum mistaka umsjónarmanns.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 24. september 2012 og umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn hans með ákvörðun 22. apríl 2013. Kæranda bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna um leið og umsókn hans var samþykkt og frestun greiðslna hófst.

Umboðsmaður skuldara telur að kærandi hafi átt að leggja til hliðar 1.577.561 krónu frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt. Kærandi kveðst hafa lagt til hliðar 700.000 krónur á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, voru mánaðartekjur kæranda í krónum eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. maí 2013 til 31. desember 2013: Átta mánuðir
Nettótekjur 2.522.792
Nettó mánaðartekjur meðaltali 315.349
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. ágúst 2014: Átta mánuðir
Nettótekjur 2.585.873
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 323.234
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 5.108.665
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 319.292

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og vaxtabætur, var greiðslugeta hans þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. maí 2013 til 31. ágúst 2014: 16 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 5.108.665
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 319.292
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 220.694
Greiðslugeta kærenda á mánuði 98.598
Alls sparnaður í 16 mánuði í greiðsluskjóli x 98.598 1.577.561

Við mat á því hvaða fjárhæð kæranda beri að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur en í lge. er ekki heimild til að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem umboðsmaður skuldara reiknar út.

Kærandi kveðst hafa staðið straum af auknum kostnaði á tímabilinu, meðal annars vegna jarðarfarar, samtals að fjárhæð 360.000 krónur. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn vegna þessa kostnaðar og verður því ekki fallist á að framangreind útgjöld komi til frádráttar sparnaði. Kærandi hefur auk þess ekki lagt fram viðhlítandi gögn um fjárhæð sparnaðar.

Í málinu liggur fyrir að kærandi greiddi 104.324 krónur vegna meðlags með syni sínum umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir í greiðsluáætlun hans á tímabilinu 1. maí 2013 til 31. september 2013. Ber að taka tillit til þess við útreikninga á sparnaði kæranda.

Að þessu virtu hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 1.473.237 krónur (1.577.561-104.324) á tímabili greiðsluskjóls en gögn málsins sýna ekki fram á að kærandi eigi sparnað.

Í ljósi þess sem að framan greinir verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og umboðsmanni skuldara hafi því borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna

Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta