Mál nr. 106/2014
Mál nr. 106/2014
Fimmtudaginn 15. desember 2016
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.
Þann 15. október 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 26. september 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.
Með bréfi 23. október 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. nóvember 2014.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 2. desember 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 14. janúar 2015. Engar athugasemdir bárust.
I. Málsatvik
Kærendur eru fædd 1962 og 1965 og eru í sambúð. Þau búa ásamt X uppkomnum börnum í eigin íbúð að C sem er 150 fermetrar að stærð.
Kærandi A starfar í hlutastarfi hjá D og fær auk þess greiðslur úr Lífeyrissjóði [...] og frá Greiðslustofu lífeyrissjóða. Kærandi B hefur verið metinn til örorku og fær greiðslur frá Tryggingastofnun og Greiðslustofu lífeyrissjóða.
Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 8. júlí 2011, eru 38.927.552 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga árin 2005 til 2007.
Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína einkum til lækkunnar tekna vegna veikinda. Kærandi B slasaðist árið 2002 og var í kjölfarið metinn til örorku og kærandi A veiktist árið 2008. Auk þess hafi útgjöld vegna framkvæmda á sameigninni að C árin 2008 og 2009 verið erfið fyrir fjárhag þeirra.
Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun hjá Embætti umboðsmanns skuldara 1. desember 2010. Með ákvörðun embættisins 8. júlí 2011 var þeim veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hófst við móttöku umsóknar 1. desember 2010, sbr. bráðabirgðaákvæði nr. II. í lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010.
Með bréfi til umboðsmanns skuldara 12. maí 2014 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem þau hefðu ekki lagt nægilega fjármuni til hliðar á tímabili greiðsluskjóls og skaðað hagsmuni lánardrottna með því að stofna til nýrra skuldbindinga á tímabilinu. Því bæri að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 28. ágúst 2014 þar sem þeim var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge. Kærendum var jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör kærenda bárust með bréfi 15. september 2014.
Með ákvörðun 26. september 2014 felldi umboðsmaður skuldara í framhaldinu niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda með vísan til 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur kæra ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana. Skilja verður kæru þeirra þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Kærendur kveða umsjónarmann ekki hafa gert athugasemdir við sparnað þeirra fyrr en með bréfi 28. apríl 2014 og mótmæla tillögu umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Að mati kærenda feli það ekki í sér sanngjörn málalok þar sem umsjónarmaður hafi ekki sinnt hlutverki sínu sem skyldi en hann hafi aldrei svarað fyrirspurnum kærenda um áhrif mögulegra samvistarslita kærenda á greiðsluaðlögun, auk þess sem þau hafi beðið lengi eftir því að lögveðskröfur þeirra væru uppreiknaðar.
Þá kveðst kærandi A hafa glímt við erfið veikindi á tímabilinu. Auk þess hafi [...] kærenda glímt við [...] og þau þurft að greiða skuldir hans eða eiga að öðrum kosti von á handrukkurum til að innheimta þær.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.
Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann nýtur greiðsluskjóls. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. segi að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 44 mánuði sé miðað við tímabilið 1. desember 2010 til 31. júlí 2014. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi fjárhagur kærenda verið eftirfarandi á tímabili greiðsluskjóls í krónum:
Tekjur alls á tímabilinu | 24.992.064 |
Mánaðarlegar meðaltekjur á tímabili greiðsluskjóls | 568.001 |
Framfærslukostnaður á mánuði* | 350.031 |
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði | 217.970 |
Samtals greiðslugeta á tímabilinu | 9.590.700 |
* Framfærslukostnaður miðar við útgjöld hjóna sem framfleyta einu ungmenni í framhaldsskóla samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í ágúst 2014, auk þess sem byggt var á upplýsingum frá kærendum um annan kostnað.
Gera verði þá kröfu til skuldara að dregið sé úr útgjöldum sem ætla má að megi komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum standi. Þá séu ákveðnar skorður settar á ráðstöfun umframfjár sem safnist í greiðsluskjóli. Skuldurum sé í fyrsta lagi skylt að geyma það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi sé þeim skylt að ráðstafa ekki því fé þar sem það gæti gagnast lánardrottnum sem greiðsla. Auk þess sé skuldurum óheimilt að stofna til nýrra skulda á tímabili greiðsluskjóls.
Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað, svo sem rafmagn, hita, samskiptakostnað, fasteignagjöld og þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun um samþykki umsóknar um heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir framangreindum kostnaði í mánaðarlegum framfærslukostnaði skuldara. Á meðan á frestun greiðslna standi sé skuldara ætlað að standa við gjöld og kostnað vegna framfærslu eftir getu, enda sé markmiðið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á skuldir og greiðslubyrði skuldara.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir venjulegan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Kærendur kveðist hafa orðið að leggja út fyrir óvæntum útgjöldum á tímabili greiðsluskjóls þar sem læknis- og lyfjakostnaður hafi að jafnaði verið 30.000 til 35.000 krónur á mánuði. Að sögn kærenda hafi þau lagt 2.000.000 króna til hliðar á tímabilinu en þau hafi hvorki lagt fram gögn til að sýna fram á þann sparnað né gögn vegna fyrrnefnds kostnaðar. Þrátt fyrir að tekið yrði tillit til þess að kærendur hefðu lagt framangreinda fjárhæð til hliðar nemi sparnaður þeirra að frádregnum útlögðum kostnaði aðeins um 21% af þeirri fjárhæð sem þau hefðu átt að geta lagt til hliðar á tímabili greiðsluskjóls. Þá hafi kærendur ekki veitt umboðsmanni skuldara fullnægjandi skýringar á því hvers vegna þau hafi ekki lagt nægilegt fé til hliðar á tímabilinu.
Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna, nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.
Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærendur stofnað til nýrra skulda á tímabili greiðsluskjóls með því að greiða hvorki áfallin fasteignagjöld né vatns- og fráveitugjöld vegna fasteignar þeirra að C. Árið 2014 hafi skuld vegna framangreindra gjalda numið 154.739 krónum og 420.175 krónum vegna áranna 2011-2013, auk skuldar vegna vangoldinna gjalda lögboðinnar brunatryggingar. Kærendur hafi því stofnað til nýrra skuldbindinga að fjárhæð 574.914 krónur á tímabili greiðsluskjóls sem að mati umboðsmanns skuldara hafi skaðað hagsmuni kröfuhafa samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. séu ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um skyldur skuldara fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun. Upplýsingarnar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Kærendum hafi því vel mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi heimild kærenda til greiðsluaðlögunar verið felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til þeirra forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.
Á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skal skuldari samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá segir í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar slíkt er nauðsynlegt til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun. Í málinu liggur fyrir að kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 1. desember 2010. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í lge., sem sett var með lögum nr. 128/2010, hófst tímabundin frestun greiðslna á þeim tíma er kærendur sóttu um greiðsluaðlögun þegar umboðsmaður skuldara hafði móttekið umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt 5. mgr. sama bráðabirgðaákvæðis eiga skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge. við frá þeim tíma er umsókn hefur verið móttekin og er greiðslum þá frestað í samræmi við bráðabirgðaákvæðið. Kærendum bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. um leið og þau sóttu um greiðsluaðlögun 1. desember 2010. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýstir um skyldur sínar við greiðsluaðlögun í samræmi við 12. gr. lge.
Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að geta lagt til hliðar 9.590.700 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Þau kveðist eiga 2.000.000 króna í sparnað og hafa greitt 30.000 til 35.000 krónur á mánuði í læknis- og lyfjakostnað á tímabili greiðsluskjóls umfram það sem ráðgert hafði verið. Kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á framangreint.
Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa launatekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:
Tímabilið 1. desember 2010 til 31. ágúst 2014: 45 mánuðir | |
Nettótekjur kæranda A | 13.542.501 |
Nettótekjur kæranda B | 11.167.644 |
Alls nettótekjur kærenda á tímabilinu | 24.710.145 |
Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara og upplýsingar úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra og skattframtölum um tekjur kærenda var greiðslugeta þeirra þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. desember 2010 til 31. ágúst 2014: 45 mánuðir | |
Nettólaunatekjur alls í greiðsluskjóli | 24.710.145 |
Barnabætur | 25.778 |
Vaxtabætur | 507.822 |
Sérstök vaxtaniðurgreiðsla | 134.356 |
Barnalífeyrir | 272.162 |
Heildarráðstöfunartekjur á tímabilinu | 25.650.263 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 570.006 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns* | 350.031 |
Greiðslugeta kærenda á mánuði | 219.975 |
Alls sparnaður í 45 mánuði í greiðsluskjóli x 219.975 | 9.898.875 |
* Framfærslukostnaður miðar við útgjöld hjóna sem framfleyta einu ungmenni í framhaldsskóla samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í ágúst 2014, auk þess sem byggt var á upplýsingum frá kærendum um annan kostnað.
Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna hefur staðið er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.
Kærendur kveðast hafa greitt á bilinu 30.000 til 35.000 krónur á mánuði vegna læknis- og lyfjakostnaðar, auk þess að hafa keypt sjónvarp á 150.000 krónur. Þá kveðast kærendur eiga 2.000.000 króna í sparnað. Þau hafa ekki lagt fram nein gögn sem sýna fram á að þessar fullyrðingar eigi við rök að styðjast og verður því ekki tekið tillit til þessara fjárhæða við mat á sparnaði kærenda.
Að þessu virtu og með vísan til framangreindra útreikninga hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 9.898.875 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem þau fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt þessu hafa kærendur ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Þá byggðist hin kærða ákvörðun á því að kærendur hafi stofnað til nýrra skulda á tímabili greiðsluskjóls, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Samkvæmt gögnum málsins eru eftirtalin gjöld í vanskilum í krónum vegna neðangreindra tímabila:
2011 | 2012 | 2013 | 2014 | Alls | |
Fasteignagjöld | 78.412 | 0 | 157.117 | 63.267 | 298.796 |
Vatns- og fráveitugjöld | 0 | 148.127 | 163.927 | 91.472 | 403.526 |
Brunatryggingar | 0 | 0 | 99.131 | 0 | 99.131 |
Samtals | 78.412 | 148.127 | 420.175 | 154.739 | 801.453 |
Kærendum bar að greiða gjöld sem féllu til á tímabilinu, enda nær frestun greiðslna ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge. Með því að greiða ekki þessi gjöld hafa kærendur að mati kærunefndarinnar stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Kærunefndin fellst því á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt framangreindu lagaákvæði.
Í ljósi þess er að framan greinir telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Þórhildur Líndal