Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 125/2013

Fimmtudaginn 29. október 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 15. ágúst 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra Aog B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 1. ágúst 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 20. ágúst 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. ágúst 2013. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 29. ágúst 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 9. september 2013. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 13. september 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 16. september 2013. Var hún send kærendum með bréfi 23. september 2013 og þeim boðið að gera athugasemdir. Framhaldsgreinargerð kærenda barst með bréfi 30. september 2013. Frekari gögn frá kærendum bárust með bréfi 27. nóvember 2013. Voru þau send embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 4. desember 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1946 og 1941. Þau eru í hjúskap og búa í 200 fermetra sérhæð með bílskúr að C götu nr. 21 í sveitarfélaginu D en eignin er í eigu kæranda A.

Kærandi A starfar sem sundlaugarvörður en kærandi B er hættur að vinna sökum aldurs. Tekjur kærenda auk launa eru vegna ellilífeyris og tekjutryggingar.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 125.169.674 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 1993, 2004 og 2007.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til veikinda, tekjulækkunar og tapaðra fjárfestinga.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. janúar 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 17. maí 2013 tilkynnti umsjónarmaður að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli lge. Væri því ekki annar möguleiki fyrir hendi en að fella greiðslu-aðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge).

Fram kom í bréfi umsjónarmanns að hæstu kröfurnar væru á hendur kæranda B en þær væru frá Landsbankanum að fjárhæð 102.581.883 krónur. Kröfurnar væru tryggðar með veði í fasteigninni að C götu nr. 21 í sveitarfélaginu D sem væri í eigu kæranda A. Því hefði hún í reynd veitt lánsveð fyrir framangreindri veðsetningu. Tekjur kærenda væru ekki nógu miklar til að þau gætu greitt inn á skuldina, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Reiknuð greiðslugeta næmi um 60.000 krónum á mánuði en að sögn kærenda hefðu þau þá fjárhæð ekki aflögu. Nægði greiðslugeta kærenda því hvorki fyrir afborgun né hæfilegri leigu fyrir eignina en fasteignamat hennar væri 42.250.000 krónur. Kærendur hafi hafnað því að selja eignina eins og skylt væri að gera við þessar aðstæður samkvæmt 1. mgr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Þessu til viðbótar kunni sú staða að vera uppi að veðsetning fasteignarinnar til Landsbankans sé ólögmæt vegna samkomulags um notkun ábyrgða frá árinu 2001, en þar sé kveðið á um hvernig fjármálafyrirtæki skuli standa að gerð veðsetninga. Hafi greiðslumat ekki farið fram eins og áskilið sé í samkomulaginu. Umsjónarmaður hafi átt samskipti við Landsbankann vegna þessa en bankinn telji veðsetninguna lögmæta. Miðað við þetta sé kærendum nauðugur einn kostur að láta reyna á málið fyrir dómstólum, en ljóst sé að það taki töluverðan tíma. Telji umsjónarmaður ekki unnt að bíða með greiðsluaðlögunarumleitanir á meðan, enda litlar líkur á að vandi kærenda verði leystur með greiðsluaðlögun.

Að teknu tilliti til þeirra aðstæðna sem uppi séu í málinu telji umsjónarmaður að ekki verði komist lengra með málið samkvæmt lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 21. júní 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan viku og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar. Í svari kærenda hafi komið fram að þau mótmæltu því að greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra yrðu felldar niður og hygðust leggja mál sitt fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

Með bréfi til kærenda 1. ágúst 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærð er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar. Verður að skilja þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur kveða aðstæður sínar sérstakar, en knýja hafi átt þau til að selja fasteign kæranda A án þess að fyrir lægi hverjar væru raunverulegar veðskuldir á eigninni. Sala eignarinnar við þær aðstæður hefði haft áhrif á söluverðmæti hennar og stöðu kærenda gagnvart kröfuhöfum þar sem viðbúið væri að þau sjónarmið, sem uppi hefðu verið við meðferð fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, hefðu glatast við sölu eignarinnar. Skorti á að mál kærenda hafi verið meðhöndlað af sanngirni og meðalhófi. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að kanna ekki til hlítar hverjar væru réttmætar kröfur á hendur kærendum áður en ákveðið yrði með sölu eigna hefði getað valdið kærendum óafturkræfu tjóni.

Kærendur hafi skotið deilu um veðsetningu á fasteign kæranda A til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Í málinu liggi nú fyrir niðurstaða og hafi höfuðstóll áhvílandi veðskulda verið lækkaður úr 48.000.000 króna í 11.521.974 krónur. Breyti þetta máli kærenda í veigamiklum atriðum frá því er umboðsmaður skuldara tók ákvörðun um að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar.

Sé það óviðunandi ef fallist verði á sjónarmið umboðsmanns skuldara þegar forsendur í málinu hafi breyst svo verulega, kærendum til hagsbóta.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr., skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í sérstökum athugasemdum við 13. gr. í frumvarpi til lge. segi að við mat á því hvort mælt skuli með sölu fasteignar umsækjanda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skuli meðal annars horft til þess hvort íbúðarhúsnæði skuldara sé bersýnilega verulega umfram þá stærð sem skuldara og fjölskyldu hans hæfi, auk þess sem miklar líkur þurfi að vera á því að hann geti greitt afborganir af áhvílandi veðlánum eftir að greiðsluaðlögun ljúki. Þá segi í niðurlagi 1. mgr. 13. gr. lge. að umsjónarmanni sé heimilt að leita afstöðu lánardrottna áður en mælt sé með sölu fasteignar, þyki honum ástæða til.

Í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. segi að haldi  skuldari eftir eignum, sem veðkröfur á hendur honum hvíli á, skuli hann greiða fastar mánaðargreiðslur af þeim veðkröfum, sem séu innan matsverðs eignar, á tímabili greiðsluaðlögunar eftir ákvæðum 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Segi enn fremur að fastar mánaðargreiðslur megi ekki nema lægri fjárhæð en sem ætla megi, samkvæmt mati umsjónarmanns, að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varði nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Umsjónarmanni sé við slíkar aðstæður heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu, en þó aldrei lægri en 60% af hæfilegu leiguverði fyrir sambærilega fasteign. Ljóst sé þó að slík ráðstöfun yrði aðeins til örfárra mánaða, með fyrirvara um fyrirsjáanlega hækkun á tekjum kærenda.

Kærendur byggi andstöðu sína gegn sölu fasteignar sinnar á því að á eigninni hvíli umdeildar ábyrgðarskuldbindingar, auk þess sem þau telji áhvílandi lán bundin ólögmætri gengistryggingu. Ekki sé unnt að tefja greiðsluaðlögunarumleitanir á meðan leyst sé úr álitamálum varðandi áhvílandi lán, en kærendur hafi þegar sent kvörtun til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki og kveðast þegar hafa byrjað undirbúning einkamáls á hendur Landsbankanum.

Greiðslugeta kærenda hafi aukist frá því að málið hafi verið til meðferðar hjá umsjónarmanni og sé nú 134.781 króna. Þrátt fyrir þetta sé ljóst að greiðslugetan dugi ekki til að greiða af veðkröfum innan matsverðs eignarinnar, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Þrátt fyrir að mögulegt sé að greiðslugeta kærenda dugi til að greiða 60% af hæfilegu leiguverði eignarinnar, sbr. undanþágu 2. mgr. 7. gr. laga um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, teljist ekki líklegt að um sérstakar og tímabundnar aðstæður sé að ræða í skilningi a-liðar 1. mgr. 21. gr. lge.

Jafnvel þó að Landsbankinn felldi niður umdeilda veðsetningu sé vandséð að það breyti ákvörðun embættisins. Kærendur hafi ekki samþykkt sölu fasteignar sinnar samkvæmt 13. gr. lge., en telja verði sölu eignarinnar nauðsynlega til að unnt sé að koma á samningum við kröfuhafa. Eignin sé langt umfram það sem nauðsynlegt sé fyrir kærendur og hljóti að teljast óeðlilegt að halda svo dýrri fasteign á sama tíma og reynt sé að semja um niðurfellingu og/eða frestun krafna á hendur þeim. Gæta verði jafnræðis og samræmis gagnvart skuldurum í greiðsluaðlögun og leggja sömu forsendur til grundvallar í samkynja málum. Því sé ekki hægt að heimila kærendum að halda eigninni.

Ekki hafi verið unnt að byggja á öðru en því sem legið hafi fyrir í málinu við töku ákvörðunar. Nú hafi kærendur á hinn bóginn lagt fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunar-mála upplýsingar sem ekki hafi legið fyrir þegar ákvörðun var tekin en þessar upplýsingar geti ekki haft áhrif á ákvörðun embættisins með afturvirkum hætti.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla megi að mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar, nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna, en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt, svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Tilgangur greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. gr. lge. er að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu í þeim tilvikum er skuldari uppfyllir skilyrði lge. Einn meginþáttur umboðsmanns skuldara í rannsókn greiðsluaðlögunarmáls er því eðli málsins samkvæmt að staðreyna greiðslubyrði, fjárhæðir skulda og greiðslugetu viðkomandi umsækjanda.

Þegar málið kom til kasta Embættis umboðsmanns skuldara voru veðtryggðar kröfur Landsbankans á hendur kæranda B 102.581.883 krónur. Þessar kröfur voru tryggðar með veði í fasteign kæranda A að C götu nr. 21 í sveitarfélaginu D á grundvelli tryggingabréfa að höfuðstólsfjárhæð 48.000.000 krónur. Kærendur vísuðu síðar máli sínu til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var sú að veðsetning samkvæmt framangreindum tryggingabréfum skyldi ógilt að því leyti sem hún væri umfram 11.521.974 krónur. Hafa þær fjárhæðir sem hvíla á fasteign kæranda A þar af leiðandi lækkað mikið frá því er málið var til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara og umsjónarmanni. Í málinu liggur þó ekki fyrir hverjar áhvílandi veðskuldir á fasteigninni eru eftir ofangreinda lækkun.

Í málinu hefur einnig verið upplýst að greiðslugeta kærenda hefur hækkað úr 60.000 krónum á mánuði í 134.781 krónu á mánuði frá því að málið var til meðferðar hjá umsjónarmanni. Forsendur málsins eru því að þessu leyti breyttar frá því sem áður var.

Miðað við hinar breyttu forsendur telur kærunefndin að ekki liggi fyrir hvort kærendur geta greitt af eign sinni samkvæmt reglum a-liðar 1. mgr. 21. gr. lge.

Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, telur kærunefndin óhjákvæmilegt að umboðsmaður skuldara taki greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda til meðferðar á ný með hliðsjón af breyttum forsendum. Með vísan til þessa er ákvörðun umboðsmanns skuldara felld úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta