Mál nr. 122/2013
Fimmtudaginn 3. apríl 2014
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.
Þann 9. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 12. júní 2013 þar sem heimild til greiðsluaðlögunar var felld niður.
Með bréfi 6. ágúst 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 21. ágúst 2013.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 29. ágúst 2013. Engar frekari athugasemdir bárust kærunefndinni.
I. Málsatvik
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 6. maí 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Kærendur eru bæði fædd 1971. Þau voru búsett ásamt tveimur börnum sínum í eigin húsnæði að C götu nr. 14 í sveitarfélaginu D. Kærandi A er leikstjóri að mennt en hefur verið atvinnulaus frá janúar 2010. Kærandi B er hönnuður að mennt og starfaði sem deildarstjóri hjá X.
Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til kostnaðar vegna náms þeirra erlendis og óreglulegra tekna. Kærendur hafi komið frá námi á Ítalíu árið 2001. Vegna lágra tekna hafi þeim gengið erfiðlega að greiða af skuldum sínum og hafi vanskil safnast upp. Þau hafi skuldbreytt lánum og tekið ný til að greiða niður eldri skuldir.
Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kærenda 44.563.209 krónur og eru 33.124.134 krónur innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á námsárum kærenda 1995 til 2001.
Þann 9. maí 2011 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kærenda. Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 30. janúar 2012 var lagt til að heimild kærenda til greiðsluaðlögunar yrði felld niður, meðal annars vegna búsetu þeirra erlendis.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. júní 2013 var heimild kærenda til greiðsluaðlögunar felld niður samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. og 4. mgr. 2. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar verði hrundið.
Í umsókn kærenda um greiðsluaðlögun hafi komið fram að ætlunin væri að fara til Ítalíu. Umsóknin hafi verið samþykkt og þyki kærendum óréttlátt að heimild til greiðsluaðlögunar skuli felld niður á þessum forsendum. Kærendur hafi ekki farið til Ítalíu fyrr en umsókn þeirra hafði verið samþykkt.
Kærendur hafi fyrst farið til Ítalíu í sjö mánuði, komið til Íslands í fimm vikur og farið svo aftur til Ítalíu. Þau hafi svo komið aftur til Íslands að þremur mánuðum liðnum vegna þess að kærandi B var á atvinnuleysisbótum. Þegar kærandi A hafi verið ráðinn til starfa sem forstöðumaður V í Róm hafi þau farið aftur til Ítalíu. Kærandi A hóf störf á Ítalíu í september 2012 og gildi ráðningarsamningur hans til 3. september 2015. Samninginn sé hægt að framlengja um tvö ár en það verði ekki ákveðið fyrr en árið 2015.
Þegar kærendur hafi upphaflega farið til Ítalíu hafi ætlunin verið að vinna þar tímabundið verkefni fyrir íslenskt fyrirtæki. Það hafi ekki gengið eftir og í stað þess að hætta við allt saman hafi þau ákveðið að reyna að finna þar atvinnu sem svo hafi tekist. Sú atvinna sé einnig tímabundin.
Kærandi B starfar sem heimavinnandi húsmóðir og telja kærendur það ekki breyta þeirri staðreynd að búseta þeirra á Ítalíu sé tímabundin vegna starfa A. Kærendur séu íslenskir ríkisborgarar sem séu tímabundið búsett erlendis vegna starfa og telji sig uppfylla skilyrði 2. gr. lge. Kærendur taka fram að þau eigi tvo syni og hafi dvöl þeirra á Ítalíu alltaf verið hugsuð sem tímabundin.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að með bréfi til embættisins 30. janúar 2012 hafi umsjónarmaður lagt til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. Kærendur hafi flutt til Ítalíu skömmu eftir að umsókn þeirra hafi verið samþykkt. Umsjónarmaður hafi útbúið frumvarp til greiðsluaðlögunar og lagt fyrir kröfuhafa, en samkvæmt frumvarpinu hafi fjárhagsstaða og búseta kærenda verið nokkuð óljós. Kröfuhafar hafi gert athugasemdir og ekki talið mögulegt að samþykkja frumvarp á svo óljósum forsendum. Umsjónarmaður hafi verið í reglulegu sambandi við kærendur eftir flutning þeirra til Ítalíu en þau hafi ekki getað veitt skýrari mynd af fjárhag sínum og fyrirætlunum. Hafi umsjónarmaður því talið að forsendur til að ljúka málinu með greiðsluaðlögunarsamningi hefðu brostið.
Með bréfi umboðsmanns skuldara 5. mars 2012 hafi embættið óskað eftir skýringum kærenda áður en endanleg ákvörðun yrði tekin í málinu. Fyrstu skýringar þeirra hafi borist 25. mars 2012 þar sem þau hafi upplýst um atvinnustöðu sína og að tekjur þeirra og framtíðarsýn væri enn óljós. Frekari samskipti 22. ágúst 2012 hafi leitt í ljós að aðstæður kærenda hefðu breyst þar sem kærandi A væri nú kominn í fast starf. Þann 17. september 2012 hafi embættinu borist upplýsingar frá kærendum um sjálfstæðan rekstur kæranda B. Umboðsmaður skuldara hafi óskað upplýsinga og gagna til stuðnings staðhæfingum um reksturinn, auk þess sem kærendur hafi verið upplýst um skilyrði lge. um lögheimili og búsetu á Íslandi, sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. Þess hafi verið óskað að þau sýndu fram á að búseta þeirra erlendis væri tímabundin. Svör bárust frá kærendum 27. og 28. desember 2012 en þar var upplýst að sjálfstæður atvinnurekstur kæranda B hefði ekki heppnast og að hún væri í atvinnuleit. Kærendur hafi hvorki lagt fram gögn né ítarlegri upplýsingar um atvinnureksturinn. Kærendur hafi lagt fram ráðningarsamning vegna starfs kæranda A en samningurinn hafi verið tímabundinn til þriggja ára og endurnýjanlegur í tvö ár þar á eftir. Kærendur hafi ekki fært rök fyrir tímabundinni búsetu.
Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar.
Í 4. mgr. 2. gr. lge. komi fram að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eiga lögheimili og eru búsettir á Íslandi. Frá þessu skilyrði megi þó víkja ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hefur áður átt lögheimili og verið búsettur á Íslandi í a.m.k. þrjú ár samfleytt.
Samkvæmt gögnum málsins fluttu kærendur til Ítalíu eftir að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var samþykkt. Kærendur kveðast hafa flutt til Ítalíu í atvinnuleit en hvorugt þeirra hafði ráðið sig til vinnu áður en þau fluttu. Kærandi A hafi nú fengið fast starf og lagt fram ráðningarsamning. Kærandi B sé atvinnulaus en hafði með höndum sjálfstæðan atvinnurekstur. Embættinu sé ekki kunnugt um nánari tilhögun rekstrarins. Kærendur séu með skráð lögheimili á Íslandi.
Umboðsmaður greinir frá því að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi í máli nr. 14/2011 úrskurðað um hvort líta ætti á búsetu kæranda erlendis sem tímabundna þannig að undantekningarheimild 4. mgr. 2. gr. lge. ætti við. Í úrskurði nefndarinnar frá 24. nóvember 2011 segi að til að afmarka þau tilvik þar sem um tímabundna búsetu erlendis sé að ræða verði að líta til þess að heimildin er undantekning frá meginreglu, sem ekki sé ætlað að ná til allra sem flytji erlendis um ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Ekki ráði úrslitum í málum af þessu tagi hvort viðkomandi hafi flutt lögheimili sitt erlendis eða hvort lögheimili skuldara sé á Íslandi, sbr. einnig úrskurð kærunefndirnar nr. 65/2011 frá 13. mars 2012. Hins vegar verði við það að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt sé til útlanda vegna starfs verði því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram sé markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Verði ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða sé sú staðhæfing ekki studd neinum gögnum og sé ekki fullnægjandi í þessu sambandi að viðkomandi lýsi yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands einhvern tímann í framtíðinni, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði.
Samkvæmt gögnum málsins hafi búsetu kærenda á Ítalíu ekki verið markaður ákveðinn tími í upphafi en það leiði af eðli tímabundinnar ráðstöfunar að henni ljúki á ákveðnu tímamarki. Þvert á móti hafi kærendur upplýst að framtíðaráætlanir þeirra séu, og hafi þegar þau fluttust af landi brott, verið óljósar. Breyti það engu þó ráðningarsamningur kæranda A sé tímabundinn enda hafi samningurinn ekki legið fyrir þegar kærendur tóku ákvörðun um að flytja til Ítalíu. Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærendur því ekki markað sér ákveðinn tíma í upphafi til búsetu erlendis heldur hafi þau þvert á móti flutt til Ítalíu í von um að þau fengju þar atvinnu. Hvorki í upphafi né nú hafi dvöl þeirra verið tímabundin í ákveðinn og tiltekinn tíma af þeirra hálfu. Af úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 51/2011 frá 13. mars 2012 megi ráða að þrátt fyrir að kærendur hafi uppfyllt skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. þegar umsókn um greiðsluaðlögun var samþykkt, þurfi skilyrðin auk þess að vera uppfyllt allt það tímabil sem greiðsluaðlögunarumleitanir standi yfir. Séu búsetuskilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. ekki uppfyllt einhvern tímann á tímabilinu sé nauðsynlegt að skuldarar sýni fram á að aðstæður þeirra falli undir undanþágu laganna vegna tímabundinnar búsetu erlendis, sbr. a- og b-liði 4. mgr. 2. gr. lge., að öðrum kosti sé umboðsmanni skuldara skylt að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar.
Í ljósi búsetu kærenda, gagna málsins og eldri úrskurða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sé það mat umboðsmanns skuldara að kærendur uppfylli ekki skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge og sé því skylt að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. samkvæmt 15. gr. lge.
Í greinargerð umboðsmanns skuldara 21. ágúst 2013 kemur fram að við töku stjórnvaldsákvörðunar sé ekki fært að byggja á öðru en því sem liggi fyrir í málinu á þeim tíma sem ákvörðun er tekin. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi kærendum verið veitt tækifæri til að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn í samræmi við skyldu stjórnvalds til að veita andmælarétt við töku stjórnvaldsákvarðana samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendur hafi lagt fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála upplýsingar sem ekki hafi legið fyrir við töku ákvörðunar og hafi þær því ekki áhrif á gildi hennar með afturvirkum hætti.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu má þó víkja, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfellt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.
Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist á því að kærendur séu búsett erlendis. Ekki sé unnt að líta svo á að búseta þeirra sé tímabundin vegna náms, starfa eða veikinda í skilningi undantekningarákvæðis 4. mgr. 2. gr. lge. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge., var því heimild sem kærendur höfðu fengið til að leita greiðsluaðlögunar felld niður.
Í málinu er ágreiningur um hvort líta eigi á búsetu kærenda erlendis sem tímabundna þannig að áðurnefnd undantekningarheimild í 4. mgr. 2. gr. lge. eigi við.
Til skýringar á hugtakinu „tímabundin búseta erlendis“ í skilningi lge. verður líta til þess að heimildin í 4. mgr. 2. gr. lge. er undantekning frá meginreglu. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að því er ekki ætlað að ná til þeirra sem flytja til annarra landa í ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Við það verður að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði valdi því að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Að mati kærunefndarinnar verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd viðhlítandi gögnum. Nefndin telur ekki fullnægjandi í þessu sambandi að kærendur lýsi því yfir að þau hyggist flytja aftur til Íslands þegar fram líða stundir, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði.
Í tilviki kærenda liggur fyrir að þau hafa verið búsett á Ítalíu frá árinu 2012 og eru það enn. Kærendur hafa samkvæmt gögnum málsins ekki markað búsetu sinni erlendis ákveðinn tíma. Það er eðli tímabundinnar ráðstöfunar að ákvörðun um hvenær henni skuli ljúka liggi fyrir þegar ákvörðun um ráðstöfun er tekin eins og framan greinir. Með vísan til alls framangreinds og gagna málsins hafa kærendur að mati kærunefndarinnar ekki sýnt fram á að víkja skuli frá skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. vegna búsetu þeirra erlendis.
Með vísan til þessa er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kærenda um að leita greiðsluaðlögunar staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A og B til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir
Lára Sverrisdóttir