Mál nr. 129/2013
Fimmtudaginn 19. nóvember 2015
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.
Þann 23. ágúst 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara, sem tilkynnt var með bréfi 8. ágúst 2013, þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.
Með bréfi 27. ágúst 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 3. september 2013.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 6. september 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Frekari athugasemdir bárust ekki.
I. Málsatvik
Kærendur eru fædd 1964 og 1959. Þau eru gift og búa ásamt þremur börnum sínum í eigin íbúð að C götu nr. 6 í sveitarfélaginu D sem er 105 fermetrar að stærð.
Kærandi A starfar sem skólaliði en kærandi B er bílstjóri. Tekjur kærenda eru vegna launa og barnabóta.
Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 50.603.806 krónur.
Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína meðal annars til veikinda, erfiðleika í rekstri kæranda B, atvinnuleysis, tekjulækkunar og skuldsetningar.
Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 2. febrúar 2012. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. maí 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr.101/2010 (lge.).
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 4. mars 2013 var lagt til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður með vísan til 15. gr. lge.
Í bréfinu var vísað til þess að kærendur hefðu notið frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, frá 24. maí 2012. Reiknist umsjónarmanni til að miðað við greiðslugetu hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 1.566.660 krónur í greiðsluskjólinu samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. en þau hafi ekkert lagt fyrir. Umsjónarmaður hafi óskað eftir skýringum kærenda en engar skýringar hafi borist. Sjái umsjónarmaður sér ekki annað fært en að tilkynna umboðsmanni skuldara að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil þar sem hann telji að kærendur hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 26. júlí 2013 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.
Með bréfi til kærenda 8. ágúst 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærður er úrskurður um niðurfellingu greiðsluaðlögunar. Verður að skilja þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda verði felld úr gildi.
Kærendur kveðast hafa misskilið bréf umboðsmanns skuldara þar sem þeim hafi verið boðið að leggja fram frekari gögn og því hafi þau ekki framvísað gögnum. Þess vegna telji kærendur að ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi verið byggð á misskilningi.
Kærendur séu með fimm manna fjölskyldu á framfæri. Telji þau framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara allt of lág. Framfærslukostnaður kærenda hafi verið hóflegur og án munaðar en þó hafi þau ekkert haft aflögu til að leggja fyrir.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.
Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 13 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. júní 2012 til 1. júní 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:
Launatekjur 1. júní 2012 til og með 1. júní 2013 að frádregnum skatti | 5.843.522 |
Barnabætur | 163.768 |
Samtals | 6.007.290 |
Mánaðarlegar meðaltekjur | 462.099 |
Framfærslukostnaður á mánuði | 372.069 |
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði | 90.030 |
Samtals greiðslugeta í 13 mánuði | 1.566.660 |
Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 462.099 krónur í meðaltekjur á mánuði á 13 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur nutu greiðsluskjóls.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort kærendur hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkuð svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr.
Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 372.069 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kærendum í hag og framfærslukostnað júlímánaðar 2013 fyrir tvo fullorðna með þrjú börn. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir 1.566.660 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðal greiðslugetu að fjárhæð 90.030 krónur á mánuði í 13 mánuði.
Kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn sem veitt gætu tæmandi skýringar á því hvers vegna þau hafi ekki lagt fyrir í greiðsluskjóli.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 4. mars 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður þar sem kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekkert fyrir á tímabili greiðsluskjóls. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 8. ágúst 2013.
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið skylt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls. Kærendur kveða framfærslukostnað sinn hafa verið hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir. Einnig hafi þau látið hjá líða að leggja fram gögn máli sínu til stuðnings vegna misskilnings.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax við samþykki á umsókn þeirra hjá umboðsmanni skuldara 24. maí 2012. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 1.566.660 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:
Tímabilið 1. júní 2012 til 31. desember 2012: Sjö mánuðir | |
Nettótekjur A | 1.091.766 |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 155.967 |
Nettótekjur B | 2.014.703 |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 287.815 |
Nettótekjur alls | 3.106.469 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 443.781 |
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. júlí 2013: Sjö mánuðir | |
Nettótekjur A | 1.125.006 |
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali | 160.715 |
Nettótekjur B | 2.067.591 |
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali | 295.370 |
Nettótekjur alls | 3.192.597 |
Mánaðartekjur alls að meðaltali | 456.085 |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 6.299.066 |
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli | 449.933 |
Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta þeirra þessi í greiðsluskjóli í krónum:
Tímabilið 1. júní 2012 til 31. júlí 2013: 14 mánuðir | |
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli | 6.299.066 |
Bótagreiðslur 2012 | 166.824 |
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli | 6.465.890 |
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli | 461.849 |
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns | 372.069 |
Greiðslugeta kærenda á mánuði | 89.780 |
Alls sparnaður í 14 mánuði í greiðsluskjóli x 89.780 | 1.256.924 |
Kærendur segjast hafa misskilið bréf umboðsmanns skuldara þar sem þeim var boðið að leggja fram gögn og því hafi þau ekki lagt fram nein gögn máli sínu til stuðnings. Hafi ákvörðun umboðsmanns skuldara af þeim sökum verið byggð á misskilningi. Kærendur hafa ekki framvísað neinum gögnum við meðferð málsins fyrir kærunefndinni þrátt fyrir að þeim hafi í tvígang verið boðið að gera athugasemdir við málsmeðferð umboðsmanns skuldara. Í málinu verður ekki byggt á öðrum gögnum en þeim sem liggja fyrir og verða kærendur að bera hallann af því að hafa ekki lagt fram frekari gögn sjónarmiðum sínum til stuðnings.
Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Kærendur hafa hvorki lagt fram viðhlítandi gögn er sýna sparnað né óvæntan kostnað og er því ekki unnt að taka tillit til þess við útreikninga á sparnaði kærenda. Samkvæmt ofangreindu hefði sparnaður kærenda á tímabilinu því átt að nema 1.256.924 krónum.
Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.
Þar sem kærendur hafa brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. bar umboðsmanni skuldara samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Þórhildur Líndal