Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 182/2013

Fimmtudaginn 26. nóvember 2015


A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 11. desember 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 25. nóvember 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 20. desember 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. mars 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 20. mars 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust 3. apríl 2014. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 7. apríl 2014 og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1960. Hann er kvæntur og býr í eigin raðhúsi að B götu nr. 41 sveitarfélaginu C, sem er 173,9 fermetrar að stærð. Kærandi starfar hjá X ses., en sinnir einnig öðrum störfum.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 59.823.033 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2001 til 2008.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína meðal annars til húsnæðiskaupa árið 2001 og tekjulækkunar.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 29. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. maí 2012 var honum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 22. júlí 2013 tilkynnti umsjónarmaður að hann gæti ekki mælt með því að kærandi héldi áfram greiðslu-aðlögunarumleitunum. Tveir stærstu kröfuhafar kæranda hefðu mótmælt því að frumvarp til greiðsluaðlögunar næði fram að ganga. Hafi þeir hafnað því að fella niður skuldir kæranda að hluta til eða í heild. Ástæðurnar hefðu fyrst og fremst verið þær að kærandi hefði ekki lagt nægilega fyrir á tímabili greiðsluskjóls. Lengst af hafi samanlagðar ráðstöfunartekjur kæranda og eiginkonu hans verið rúmar 774.000 krónur, en nettótekjur heimilisins hafi þó verið umtalsvert hærri undanfarna sex mánuði eða um 900.000 krónur. Kærandi og eiginkona hans hafi nú um 600.000 krónur til ráðstöfunar eftir að þau hafi staðið straum af lágmarksframfærslukostnaði samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Engin gögn hafi verið lögð fram um að kærandi hefði lagt fyrir nema 1.000.000 króna, sem lögð hafi verið inn á sparifjárreikning, og engar skýringar hafi borist á því hvers vegna kærandi hefði ekki lagt meira fyrir á tímabilinu.

Með vísan til þessa taldi umsjónarmaður að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafi staðið yfir.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 5. nóvember 2013 var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svari kæranda hafi meðal annars komið fram að hann og eiginkona hans þyrftu að sjá fyrir syni sínum á þrítugsaldri. Þrátt fyrir að hann stundaði vinnu gæti hann ekki séð fyrir sér sökum áfengis- og spilafíknar. Þá hefði fallið til kostnaður vegna viðhalds á fasteign þeirra hjóna. Einnig hefðu þau skipt um bíl, en eldri bíll hefði verið dýr í rekstri.

Með bréfi til kæranda 25. nóvember 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðslu­aðlögunar­umleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi setur ekki fram sérstakar kröfur í málinu, en skilja verður kæru hans svo að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. sömu laga. Byggt sé á því að kærandi hafi vikið frá skyldu sinni samkvæmt a- lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki fyrir af launum sínum það sem hafi verið umfram nauðsynlega framfærslu. Kærandi telur sig ekki hafa brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., en á bankareikningi hans séu peningar sem ekki fari til framfærslu.

Kærandi segir að hann hafi lagt fyrir 2.000.000 króna, auk þess sem hann eigi bifreið sem metin sé á rúmlega 1.000.000 króna. Framfærslukostnaður kæranda og fjölskyldu hans sé vissulega ekki í samræmi við þau viðmið sem þeim sé gert að fara eftir en fyrir því séu gildar ástæður. Kærandi og eiginkona hans eigi fjögur börn. Þar af búi tvær dætur þeirra í Danmörku og hafi kærandi og eiginkona hans reynt að koma við hjá þeim þegar leiðir þeirra hafi legið þangað. Tveir synir þeirra búi í foreldrahúsum. Annar sonanna sé í framhaldsskóla en hinn í fullri vinnu, en kærandi og eiginkona hans hafi þó þurft að sjá fyrir honum vegna erfiðleika hans.

Tekjur kæranda hafi verið nokkuð misjafnar undanfarin misseri og fyrirsjáanleg einhver tekjulækkun vegna breyttrar vinnutilhögunar. Kærandi og eiginkona hans hafi reynt að selja fasteign sína en án árangurs. Þau hafi reynt að halda eigninni í þokkalegu standi en viðhaldsþörf sé orðin nokkur.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 27 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. júlí 2011 til 30. september 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. júlí 2011 til 30. september 2013 að frádregnum skatti 15.518.722
Bætur, sérstök vaxtaniðurgreiðsla o.fl. 387.988
Samtals 15.906.710
Mánaðarlegar meðaltekjur 589.137
Framfærslukostnaður á mánuði 169.115
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 420.022
Samtals greiðslugeta í 27 mánuði 11.340.605

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 589.137 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 27 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að heildarútgjöld kæranda hafi verið um 169.115 krónur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið á þeim tíma, þ.e. októbermánaðar 2013, fyrir tvo fullorðna einstaklinga með eitt barn á framfæri. Gert sé ráð fyrir að maki kæranda greiði helming framfærslukostnaðar á móti kæranda. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir um 11.340.594 krónur á fyrrnefndu tímabili.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærandi hafi gefið skýringar á því hjá umsjónarmanni hvers vegna hann hafi lagt svo lítið fyrir á tímabili greiðsluskjóls. Meðal annars hafi kærandi greint frá því að 26 ára sonur hans og eiginkonu sinnar búi á heimilinu. Þau þurfi að framfleyta honum þó að hann sé í launaðri vinnu þar sem hann glími við áfengis- og spilafíkn. Einnig hafi kærandi greint frá því að hann hafi þurft að greiða fyrir viðhald á fasteign sinni og hafi keypt bifreið. Kærandi hafi engin gögn lagt fram máli sínu til stuðnings og því sé ekki unnt að taka tillit til þeirra útgjalda sem hann kveðist hafa þurft að standa straum af.

Gera verði þá kröfu til þeirra, sem glími við svo verulega fjárhagsörðugleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi saman þau útgjöld sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta. Það eigi sérstaklega við á meðan kærandi sé með umsókn um greiðsluaðlögun í vinnslu. Skuldurum í því ferli séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun umframfjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja til hliðar það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi skylt að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Samkvæmt framansögðu hafi kærandi ekki sýnt fram á það með fullnægjandi hætti hvers vegna hann hafi ekki getað lagt fyrir í samræmi við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 22. júlí 2013 að hann gæti ekki mælt með því að kærandi héldi áfram greiðsluaðlögunarumleitunum. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 25. nóvember 2013 samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 15. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 11.340.594 krónur eftir að umsókn hans um greiðsluaðlögun var lögð fram og þar til greiðsluaðlögunarumleitanir voru felldar niður, eða allt frá 1. júlí 2011 til 31. október 2013.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2011: Sex mánuðir
Nettótekjur alls 2.928.049
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali 488.008
   
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur alls 6.597.733
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali 541.699


Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. október 2013: Tíu mánuðir
Nettótekjur alls 6.698.621
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali 669.862


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 16.224.403
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 579.443

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bætur var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. júní 2011 til 31. október 2013: 28 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 16.224.403
Bótagreiðslur 358.609
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 16.583.012
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 592.250
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns* 169.115
Greiðslugeta kæranda á mánuði 423.135
Alls sparnaður í 28 mánuði í greiðsluskjóli x 423.135 11.847.792

*Helmingur framfærslukostnaðar tveggja fullorðinna með eitt barn.

 

Kærandi telur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara of lág. Hann hefur lagt fram yfirlit þar sem fram kemur að framfærslukostnaður heimilisins sé að meðaltali 583.854 krónur á mánuði eða 291.927 krónur á hvort hjóna. Engin gögn hafa þó verið lögð fram þessu til staðfestingar. Því er ekki hægt að taka tillit til þess kostnaðar við útreikning á því fé sem kæranda bar að leggja til hliðar á tímabilinu. Þá hefur kærandi engin gögn lagt fram í málinu því til staðfestingar að hann hafi lagt fé til hliðar á tímabili greiðsluskjóls, þrátt fyrir fullyrðingar hans í þá veru og því er heldur ekki hægt að taka tillit til þess.

Það er mat kærunefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst að honum hafi borið skylda til að leggja fyrir af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls í samræmi við skýr fyrirmæli í a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Samkvæmt framansögðu hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 11.847.792 krónur á tímabili greiðsluskjóls, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur hann ekkert lagt fyrir.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Þar sem kærandi brást skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. bar umboðsmanni skuldara samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda niður. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta