Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 176/2013

Fimmtudaginn 3. desember 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 15. nóvember 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. október 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 29. nóvember 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara. Greinargerðin barst með bréfi 20. desember 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 13. janúar 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 27. janúar 2014. Voru þær sendar Embætti umboðsmanns skuldara með bréfi 10. febrúar 2014 og óskað eftir afstöðu embættisins. Umboðsmaður tók ekki afstöðu til athugasemda kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1974. Hún býr ásamt sambýlismanni og tveimur börnum í eigin 180 fermetra fasteign að B götu nr. 3 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er öryrki. Á þeim tíma er umsókn hennar um greiðsluaðlögun var samþykkt fékk hún mánaðarlega útborgaðar 185.855 krónur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þar að auki fékk hún mánaðarlega 14.338 krónur í barnabætur, 6.197 krónur í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu og 33.333 krónur í vaxtabætur.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt greiðsluyfirliti umboðsmanns skuldara eru 29.933.232 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2007.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til tekjulækkunar, vankunnáttu í fjármálum og veikinda.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 12. nóvember 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. apríl 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 21. september 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli lge. þar sem kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Því væri það mat hans að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að hann hafi gert frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun og sent kröfuhöfum en andmæli hefðu borist við frumvarpinu. Meðal annars hefði verið á það bent að kærandi hefði ekkert lagt til hliðar á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, sem staðið hefði yfir í um 22 mánuði. Miðað við framfærslukostnað kæranda samkvæmt neysluviðmiðum umboðsmanns skuldara og annan kostnað, sem kærandi hafi tilgreint, hefði hún átt að geta lagt fyrir rúmlega 43.000 krónur á mánuði þegar framangreindur kostnaður hafði verið greiddur. Auk þess hafi kærandi fengið greiddar vaxtabætur í ágúst 2011. Kærandi hafi greint frá því að hún hefði ekki lagt fyrir vegna þess að hún hefði nýtt fé til greiðslu eldri rafmagns- og orkureikninga. Hún hafi þó ekki lagt fram nein gögn vegna þessa.

Kæranda var sent bréf umboðsmanns skuldara 8. október 2012 þar sem henni var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Fram kemur í málinu að sambýlismaður kæranda hefði fyrir hennar hönd sent embættinu tölvupósta í nóvember 2012, en þar hefði ekkert komið fram um ástæður þess að kærandi hefði ekki lagt til hliðar á tímabili greiðsluskjóls.

Vegna tafa við vinnslu málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi kæranda verið sent annað bréf 24. september 2013 þar sem henni var aftur gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmanni skuldara hafi borist svar með bréfi sambýlismanns kæranda 10. október 2013. Þar hafi komið fram að kærandi og sambýlismaður hennar hefðu orðið fyrir ýmsum kostnaði á tíma greiðsluaðlögunarumleitanna, meðal annars vegna viðgerða á húsi þeirra og bifreið. Þau hafi þó ekki fengið nótur fyrir kostnaði við viðgerðirnar þar sem þau hafi viljað spara sér fé með nótulausum viðskiptum.

Með ákvörðun 18. október 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar svo að hún krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst ekki hafa getað lagt fjármuni til hliðar vegna mikilla og langvarandi fjárhagserfiðleika, veikinda og tekjulækkunar. Það fé sem lagt hafi verið til hliðar hafi meðal annars þurft að nota til að greiða fyrir jarðarför föður kæranda erlendis.

Kærandi er afar ósátt við málsmeðferð Embættis umboðsmanns skuldara og framkomu starfsmanna í sinn garð.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Öllum, sem sótt hafi um greiðsluaðlögun og verið hafi í greiðsluskjóli, hafi verið sent bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun 8. apríl 2011 sem henni hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kæranda því mátt vel vera ljóst að hún skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hún hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum, þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

 

Í máli umboðsmanns skuldara kemur fram að greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í rúmlega 33 mánuði, en miðað sé við tímabilið frá 1. desember 2010 til 31. ágúst 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. desember 2010 til 31. ágúst 2013 að frádregnum skatti 5.164.781
Barnabætur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 824.603
Barnalífeyrir 1.528.644
Samtals 7.518.028
Mánaðarlegar meðaltekjur 227.819
Framfærslukostnaður á mánuði 185.308
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 42.511
Samtals greiðslugeta í 33 mánuði 1.402.863

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 227.819 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 33 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kæranda með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið um 185.308 krónur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kæranda sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum minni háttar útgjöldum. Samkvæmt þessu sé miðað við helming heildarfjárhæðar útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum september 2013 fyrir hjón/ sambýlisfólk með tvö börn. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kæranda í hag. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir um 1.402.863 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðal greiðslugetu að fjárhæð 42.511 krónur á mánuði í 33 mánuði.

Sambýlismaður kæranda hafi lagt fram andmæli fyrir hennar hönd, ýmis gögn vegna útgjalda á tímabilinu auk greinargerðar um erfiðar félagslegar aðstæður. Að sögn hans hafi kostnaður fallið til vegna nauðsynlegra framkvæmda á fasteign þeirra vegna skemmda eftir óveður. Einnig hafi þurft að gera við bifreið þeirra. Að auki hafi þau staðið straum af kostnaði vegna fermingar dóttur hans árið 2011. Framlögð gögn hafi verið yfirlit frá sveitarfélaginu C vegna fasteignagjalda, yfirlit yfir tannlæknakostnað dóttur sambýlismannsins, nóta frá Bónus og vinnuseðill svo og ódagsett nóta vegna efniskostnaðar og vinnu við framkvæmdir á lóð. Embættið dragi frásögn kæranda að því er þetta varði ekki í efa, en til þess að unnt sé að taka tillit til þessa kostnaðar þurfi að leggja fram kvittanir. Þau gögn sem lögð hafi verið fram vegna framkvæmda hafi að mati umboðsmanns ekki verið fullnægjandi. Þrátt fyrir að tekið yrði tillit til framangreinds kostnaðar nemi hann aðeins hluta þess fjár sem kærandi hefði átt að leggja til hliðar.

Gera verði þá kröfu til einstaklinga, sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem er umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla. Auk þess sem óheimilt sé að stofna til nýrra skulda á tímabilinu.

Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kæranda til greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir þessum kostnaði í mánaðarlegum framfærslukostnaði kæranda.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunar-umleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 21. september 2012 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem bentu til þess að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 18. október 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun 12. nóvember 2010. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hennar var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 1.402.863 krónur frá því að umsókn hennar um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 12. nóvember 2010 til 18. október 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum er byggt á því að greiðslugeta kæranda hafi að meðaltali verið 42.511 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærandi hefur ekkert lagt til hliðar en hún hefur greint frá því að hún og sambýlismaður hennar hafi orðið fyrir óvæntum útgjöldum á tímabili greiðslufrestunar, meðal annars vegna framkvæmda á húsnæði þeirra, fermingar dóttur sambýlismanns hennar og viðgerða á bifreið.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. desember 2010 til 31. desember 2010: Einn mánuður
Nettótekjur 127.137

 

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur 1.838.577
Mánaðartekjur alls að meðaltali 153.215


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur 1.906.234
Mánaðartekjur alls að meðaltali 158.853


Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. september 2013: Níu mánuðir
Nettótekjur 1.452.759
Mánaðartekjur alls að meðaltali 161.418


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 5.324.707
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 156.609

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda, bætur og barnalífeyri var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. desember 2010 til 30. september 2013: 34 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 5.324.707
Bótagreiðslur 877.624
Barnalífeyrir 1.645.612
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 7.847.943
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 230.822
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 185.308
Greiðslugeta kæranda á mánuði 45.513
Alls sparnaður í 34 mánuði í greiðsluskjóli x 45.513 1.547.471

 

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Í málinu hafa verið lögð fram ýmis gögn vegna útgjalda kæranda og sambýlismanns hennar á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Í fyrsta lagi er um að ræða kostnað vegna tannlækninga dóttur kæranda og sambýlismannsins 2. september 2013 að fjárhæð 147.581 króna. Þar sem kærumál þetta varðar ekki sambýlismann kæranda er ekki unnt að taka tillit til þessa kostnaðar nema að hálfu leyti þegar metið er hver sparnaður kæranda hefði átt að vera á tímabili greiðsluskjóls. Verður samkvæmt því að telja að þetta sé ófyrirséður kostnaður kæranda að fjárhæð 73.790 krónur og kemur hann til frádráttar þegar reiknaður er sparnaður kæranda samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í öðru lagi hefur kærandi lagt fram yfirlit yfir ýmis byggingarefni þar sem fram kemur kostnaðarverð þeirra. Í skjalinu eru engar upplýsingar um seljanda, hvort vörurnar hafa verið seldar eða hvort greitt hafi verið fyrir þær. Fjárhæðir eru ógreinilegar.

Í þriðja lagi hefur verið lagður fram vinnuseðill frá júní 2012. Þar eru tilteknir þrír vinnuliðir sem sagðir eru kosta alls 99.550 krónur og listi yfir efnisnotkun að fjárhæð 33.500 krónur. Ekki kemur fram frá hverjum vinnuseðillinn stafar né hvort greitt hefur verið fyrir efni og vinnu samkvæmt honum. Ráða verður af málatilbúnaði kæranda að um sé að ræða kostnað vegna viðhalds á fasteign hennar en það bera gögnin ekki með sér. Er því ekki hægt að líta til þessa kostnaðar í málinu þegar greiðslugeta kæranda er reiknuð út.

Kærandi hefur í fjórða lagi lagt fram yfirlit yfir greiðslu fasteigna-, áskrifta-, samskipta- og veitugjalda frá nóvember 2012. Einnig hefur hún lagt fram tilkynningu um breytingu fasteignagjalda frá sveitarfélaginu C frá júlí 2013, en ekki kemur fram hvort gjöldin hafa verið greidd. Þá eru lögð fram yfirlit yfir endurnýjun á tryggingum sambýlismanns kæranda alls að fjárhæð 179.615 krónur og útprentanir úr heimabanka vegna greiðslu fasteignagjalda, samskiptakostnaðar, áskriftar, rafmagns og hita, leikskólagjalda og ríkissjóðsinnheimtu, allt frá því í september 2013. Loks hefur verið lögð fram debetkortakvittun frá Bónus að fjárhæð 21.988 krónur frá 7. október 2013.

Í greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara, er fylgdi ákvörðun hans um að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar 8. apríl 2011, kom fram að heildarútgjöld hennar væru 141.940 krónur á mánuði. Þegar þessi útgjöld hefðu verið greidd ætti kærandi 97.773 krónur aflögu. Inni í fjárhæð heildarútgjalda kæranda voru meðal annars fasteignagjöld, samskiptakostnaður, kostnaður við rafmagn og hita, kostnaður við dagvistun og tryggingar auk kostnaðar við matarinnkaup. Var samkvæmt þessu gert ráð fyrir framangreindum kostnaðarliðum þegar greiðslugeta kæranda var metin. Því eru hvorki efni til að taka tillit til kostnaðar kæranda vegna þessa né telja hann til óvæntra útgjalda.

Kærandi hefur hvorki lagt fram kvittanir né gögn vegna annarra kostnaðarliða sem hún kveðst hafa orðið fyrir á tímabilinu.

Að þessu virtu hefði kærandi því átt að geta lagt fyrir 1.473.681 krónur á tímabili greiðsluskjóls, enda er ekki unnt að taka tillit til framangreinds kostnaðar þar sem gögn hafa ekki verið lögð fram þeim til stuðnings að öðru leyti en að framan greinir.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Þar sem kærandi brást skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. bar umboðsmanni skuldara samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta