Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 63/2014

Mál nr. 63/2014

Fimmtudaginn 22. desember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 6. júní 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 22. maí 2014 þar sem umsókn kæranda og eiginkonu hans B, sem lést X, um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 26. júní 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. ágúst sama ár.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 2. september 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 7. október 2014 og var óskað eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til þeirra með bréfi 8. október 2014. Engar frekari athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1956 og er öryrki. Hann býr í eigin íbúð að C sem er 202 fermetrar að stærð. Kærandi á einnig fasteignir að D og E sem og sumarbústaðalóð að F. Tekjur kæranda eru greiðslur frá Tryggingastofnun vegna örorku.

Heildarskuldir kæranda og eiginkonu hans voru 57.199.126 krónur samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 22. maí 2014. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2003 vegna húsbyggingar og árið 2005 vegna fasteignakaupa í tengslum við atvinnurekstur.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til atvinnureksturs. Hann hafi rekið fyrirtæki sem ráðist hafi í [...] en Landsbankinn hf. hafi hætt að fjármagna verkefni fyrirtækisins í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 19. janúar 2011 ásamt eiginkonu sinni. Frestun greiðslna hófst þegar umboðsmaður skuldara tók á móti umsókn þeirra um greiðsluaðlögun samkvæmt bráðabirgðaákvæði nr. II, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.). Skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. tóku jafnframt gildi frá þeim degi gagnvart kæranda, sbr. brb. ákvæði II í 5. mgr. 1. gr. laga nr. 128/2010.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 5. september 2011 var kæranda og eiginkonu hans synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Ákvörðun umboðsmanns skuldara var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála 27. september 2011 og með úrskurði kærunefndarinnar 29. október 2013 var hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir umboðsmann skuldara að taka umsókn þeirra aftur til vinnslu.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda og eiginkonu hans 28. janúar 2014 var þeim kynnt að atriði hefðu komið fram við vinnslu umsóknar þeirra sem kynnu að leiða til þess að umsókn þeirra um heimild til að leita greiðsluaðlögunar yrði synjað. Þeim var jafnframt gefinn 15 daga frestur til að tjá sig um efni málsins og styðja með gögnum. Svör kærenda bárust með tölvupósti 14. og 21. febrúar 2014 og 16. maí 2014. Umboðsmaður skuldara synjaði kæranda og eiginkonu hans í framhaldi þessa aftur um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með ákvörðun 22. maí 2014 en eins og fram hefur komið lést eiginkona kæranda áður en ákvörðun var tekin af hálfu embættisins, eða X. Í formála sem fylgdi hinni kærðu ákvörðun kemur fram að umsókn kæranda og eiginkonu hans hafi legið fyrir fullbúin 16. maí 2014. Sama dag hafi umboðsmaður skuldara fengið vitneskju um að eiginkona kæranda hefði látist X. Embættið telji hinar breyttu aðstæður ekki hafa efnislega þýðingu við úrlausn umsóknar kæranda og séu forsendur hinnar kærðu ákvörðunar því óbreyttar. Ástæður þess að umsókn kæranda og eiginkonu hans var hafnað voru þær að óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. og d- og c-liða 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans þannig að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Hvað fasteignagjöld varði kveður kærandi ljóst að áður en kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi úrskurðað vegna fyrri synjunar umboðsmanns skuldara á umsókn þeirra hjóna um greiðsluaðlögun 29. október 2013 hafi fjárhagsleg staða þeirra verið slæm og fyrirséð að þau myndu óska eftir að bú þeirra yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Fasteignagjöld hafi farið í vanskil vegna bágrar fjárhagsstöðu þeirra, félagslegra aðstæðna og veikinda og hafi ekki verið í forgangi að greiða þau. Kærandi vísar til þess að ákvæði um skyldur skuldara hafi verið sett með almenna ferlið í huga en ekki sé gert ráð fyrir því að málsmeðferð dragist úr hófi. Í því samhengi bendir kærandi á að tekið hafi þrjú ár og fimm mánuði að afgreiða mál hans. Auk þess sé umsóknarferlinu í raun lokið þegar umsókn sé synjað og gildi reglur um skyldur skuldara því ekki á meðan beðið sé eftir niðurstöðu kærunefndar. Þá séu kröfur vegna fasteignagjalda og trygginga tryggðar með lögveði og gangi þær því framar öðrum kröfum. Eftir að úrskurður kærunefndar lá fyrir 29. október 2013 hafi tekjur heimilisins lækkað og útgjöld hækkað verulega vegna veikinda eiginkonu kæranda, auk þess sem lítið ráðrúm hafi verið í þeim aðstæðum til að hafa áhyggjur af fjárhagsstöðu þeirra. Nú sé unnið að því að koma framangreindum gjöldum í skil.

Kærandi kveður fasteignir í sinni eigu ekki hafa verið í leiguhæfu ástandi en hann hafi ekki haft efni á að bæta úr því. Kærandi hafi þó gert tilraun til þess en ekki haft mikið á milli handanna um hver mánaðamót. Viðhald fasteigna sé dýrt og kærandi hafi ekki fjárhags síns vegna getað bætt ástand þeirra að ráði. Dóttir kæranda hafi búið í einni fasteign hans en ekki greitt leigu heldur unnið að endurbótum á eigninni í staðinn. Hið sama gildi um íbúa að D en stefnt sé að því að hann muni greiða leigu þegar íbúðin verði komin í betra ástand. Fasteign kæranda að E sé í niðurníðslu.

Kærandi kveður engin verðmæti hafa orðið til eða glatast við kaup á fellihýsi af gerðinni G eða sölu á H húsbíl. Við söluna hafi orðið til verðmæti þar sem hið keypta sé verðmætara en hið selda. Að mati kæranda geti jákvæðar breytingar á fjárhag hans ekki orðið grundvöllur þess að umsókn um greiðsluaðlögun verði synjað samkvæmt ákvæðum lge. Húsbíllinn hafi verið seldur til að standa straum af kostnaði vegna veikinda og jarðarfarar eiginkonu kæranda. Kærandi hafi ekki hugað að því að hafa samband við umboðsmann skuldara vegna þessara viðskipta, enda hafi um margt annað verið að hugsa.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara sé einnig byggð á því að skýringar kæranda séu ekki fullnægjandi eða studdar gögnum. Kærandi telur að embættið hefði átt að gefa honum tækifæri til að skýra mál sitt betur og koma að andmælum áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Kærandi byggir á því að framfærslu- og tekjuviðmið séu ekki rétt, auk þess sem ekki sé gert ráð fyrir rekstrarkostnaði fasteigna hans í þeim. Eignir hans séu auk þess almennt taldar verðmætari en þær séu í raun, enda séu þær yfirveðsettar.

Auk þess er að framan greinir sé fráleitt að hvorki sé tekið tillit til veikinda eiginkonu kæranda í hinni kærðu ákvörðun né þeirra breytinga sem hafi orðið við fráfall hennar. Staða kæranda sé allt önnur í kjölfar andláts hennar, enda hafi hún haft hærri tekjur en kærandi. Nettótekjur kæranda árið 2013 hafi aðeins numið 181.916 krónum á mánuði. Kærandi byggir á því að taka þurfi tillit til ytri aðstæðna, veikinda og þess hve óskýrt framhald kröfu hans hjá umboðsmanni skuldara hafi verið. Ákvæði 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimildarákvæði en leggi ekki skyldu á umboðsmann skuldara til að synja skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar þó að einhver skilyrði séu ekki uppfyllt.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar beri embættinu að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita hana. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann nýtur greiðsluskjóls. Í c-lið 1. mgr. 12. gr. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna.

Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari, að því gefnu að hann hafi nægilegt fé aflögu, greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað, meðal annars kostnað vegna rafmagns og hita, samskiptakostnað og fasteignagjöld. Gert hafi verið ráð fyrir þessum kostnaði í greiðsluáætlun kæranda þegar mánaðarlegur framfærslukostnaður hans var áætlaður.

Greiðsluskjól kæranda og eiginkonu hans hafi staðið yfir frá 18. janúar 2011 eða í 35 mánuði og hafi skyldur kæranda samkvæmt 12. gr. lge. einnig tekið gildi frá þeim tíma. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og öðrum gögnum málsins hafi fjárhagur þeirra verið eftirfarandi á tímabilinu í krónum:

Tekjur 1. febrúar 2011 til 31. desember 2013 að frádregnum skatti 11.595.154
Sérstök vaxtaniðurgreiðsla 129.328
Heildartekjur á tímabilinu 11.724.482
Meðaltekjur á mánuði 334.985
Framfærslukostnaður á mánuði* 317.513
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 17.472

* Framfærslukostnaður er reiknaður miðað við útgjöld hjóna samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í janúar 2014 og upplýsingar frá kæranda um annan framfærslukostnað.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir venjulegan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Fyrir liggi að kærandi og eiginkona hans hafi ekki staðið í skilum með fasteignagjöld árin 2011 til 2013, samtals að fjárhæð 650.058 krónur á tímabili greiðsluskjóls, þrátt fyrir að þau hafi haft fjármuni aflögu til að greiða þau. Vangoldin fasteignagjöld séu 432.513 krónur vegna C, 200.494 krónur vegna D og 17.051 króna vegna E.

Umboðsmaður skuldara telur að kærandi og eiginkona hans hafi stofnað til nýrra skulda sem skaðað geti hagsmuni kröfuhafa, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge., með því að greiða ekki framangreind fasteignagjöld. Auk þess hafi kærandi og eiginkona hans á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eins og þeim var framast unnt, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Kærandi og eiginkona hans hafi eins og áður segi átt fyrrnefndar þrjár fasteignir að C, D og E. Þau hafi upplýst 24. janúar 2014 að fasteignirnar að D og E væru ekki í útleigu en samkvæmt skráningu á vefsíðunni www.ja.is X hafi íbúi verið skráður til heimilis að D. Í greinargerð sem fylgdi með umsókn kæranda og eiginkonu hans hafi komið fram að dóttir þeirra væri búsett hjá þeim að C ásamt tengdasyni og X börnum þeirra en ekki hafi komið fram hvort þau greiddu húsaleigu.

Að mati umboðsmanns skuldara leiði það af skyldum skuldara samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að innheimta beri fullar leigugreiðslur vegna annarra fasteigna í eigu skuldara en íbúðarhúsnæðis til eigin nota til að verða ekki af fjármunum sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Kærandi og eiginkona hans hafi því með þessum hætti einnig látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir fremsta megni, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge., þar sem þau hefðu getað aflað sér frekari tekna sem hefði mátt ráðstafa til kröfuhafa eða til að greiða fasteignagjöld.

Samkvæmt skattframtali kæranda og eiginkonu hans 2013 fyrir tekjuárið 2012 og upplýsingum úr ökutækjaskrá hafi þau keypt fellihýsi af tegundinni G, með skráningarnúmerið J, X án vitundar eða heimildar frá umboðsmanni skuldara, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lge, sbr. 11. gr. laga nr. 135/2010, um breytingu á lögum nr. 101/2010. Verðmæti fellihýsisins samkvæmt upplýsingum í skattframtali 2013 hafi verið 1.500.000 króna. Kærandi og eiginkona hans hafi jafnframt selt hjólhýsi sitt af tegundinni H, með skráningarnúmerið K. X. Verðmæti þess hafi verið 1.000.000 króna samkvæmt upplýsingum í skattframtali 2012.

Kærendur hafi selt fyrrnefnt fellihýsi þann X samkvæmt upplýsingum úr ökutækjaskrá og X sama ár hafi þau keypt húsbíl af gerðinni L með skráningarnúmerið M. Samkvæmt upplýsingum úr ökutækjaskrá hafi þau selt húsbílinn X en verðmæti hans hafi verið 1.500.000 króna, sbr. upplýsingar úr skattframtali 2014.

Umboðsmaður skuldara telur að kærandi og eiginkona hans hafi með þessu brotið gegn skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem þau hafi látið af hendi verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Auk þess sé óljóst hvernig þau hafi varið söluhagnaði vegna framangreindra ráðstafana.

Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar voru fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Upplýsingarnar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Kæranda og eiginkonu hans hafi því vel mátt vera ljósar skyldur sínar í greiðsluskjóli, þ.e. að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau áttu aflögu í lok hvers mánaðar umfram framfærslukostnað, að óheimilt væri að láta eignir af hendi og að greiða ætti tilfallandi mánaðarleg útgjöld, þ.á m. fasteignagjöld.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kæranda og eiginkonu hans verið sent bréf 28. janúar 2014 þar sem óskað var skýringa á framangreindum álitaefnum. Með bréfinu hafi þeim verið gefinn kostur á að koma andmælum sínum á framfæri vegna fyrirhugaðrar synjunar umsóknar þeirra um greiðsluaðlögun á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. og c- og d-liða 1. mgr. 12. lge. Í svari kæranda 14. febrúar 2014 hafi komið fram að hann og eiginkona hans væru að greiða upp vangoldin fasteignagjöld en vanskil mætti rekja til erfiðra félagslegra aðstæðna þeirra. Jafnframt hafi verið tekið fram að fjármunir hafi ekki skipt um hendur vegna viðskipta með fellihýsi og hjólhýsi og að verðmat þeirra samkvæmt skattframtölum væri ómarktækt. Andmæli kæranda hafi ekki verið studd neinum gögnum.

Umboðsmaður skuldara hafi óskað eftir ítarlegri skýringum með tölvupósti 19. febrúar 2014 og hafi borist svar frá kæranda 21. febrúar 2014. Þar hafi komið fram að fasteignirnar að E og D hefðu ekki verið leigðar út þar sem þær væru ekki í leiguhæfu ástandi að mati kæranda og eiginkonu hans. Þá hafi komið fram að til stæði að leigja út þann hluta fasteignarinnar að C sem dóttir þeirra hafi búið í en ekkert hafi komið fram um það hvort hún hafi greitt leigu. Kærandi hafi talið framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara of lág og að hann hafi orðið að leggja út fyrir óvæntum lyfjakostnaði en engin gögn lagt fram sem sýndu fram á það. Kærandi hafi ítrekað að enginn söluhagnaður hafi verið af viðskiptum með hjól- og fellihýsi þar sem um slétt skipti hafi verið að ræða. Verðmæti fellihýsisins hafi verið jafnmikið og verðmæti húsbílsins 1.500.000 króna, samkvæmt meðfylgjandi afsali vegna kaupa á húsbílnum frá X.

Umboðsmaður skuldara hafi sent kæranda tölvupóst 14. maí 2014 þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvernig söluhagnaði vegna sölu húsbílsins hefði verið ráðstafað. Í svari kæranda 16. maí 2014 komi fram að eiginkona hans hefði látist X og að söluhagnaði hefði verið varið til að greiða kostnað vegna jarðarfarar hennar.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærandi ekki veitt fullnægjandi skýringar á framangreindum álitaefnum um vangoldin fasteignagjöld og útleigu fasteigna. Með hliðsjón af gögnum málsins verði því að líta svo á að kærandi og eiginkona hans hafi með ámælisverðum hætti látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim var framast unnt og jafnframt að þau hafi látið af hendi verðmæti sem hefðu getað gagnast lánardrottnum sem greiðsla. Að öllu framangreindu virtu verði því ekki hjá því komist að synja umsókn kæranda og eiginkonu hans um greiðsluaðlögun með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. og d- og c-liða 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess sem fram komi í kæru um að kærandi telji skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. ekki eiga við eftir að máli ljúki með synjun embættisins á umsókn um greiðsluaðlögun. Í því sambandi er vísað til 15. gr. lge. þar sem fram komi að tímabil greiðsluaðlögunarumleitana skuli standa þar til niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála liggi fyrir. Af því sé ljóst að skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. séu virkar á meðan mál kæranda sé til meðferðar hjá kærunefndinni.

Kærandi hafi borið fyrir sig í málinu að framfærsluviðmið embættisins væru of lág, ekki hafi verið gert ráð fyrir aukakostnaði sem fylgi fasteignum hans og ekki hafi verið tekið tillit til kostnaðar vegna veikinda og fráfalls eiginkonu hans. Umboðsmaður skuldara ítrekar í þessu sambandi að kæranda hafi verið gefinn kostur á því að leggja fram gögn sem gætu sýnt fram á útgjöld hans á tímabili greiðsluskjóls. Ekki þyki fært að miða áætluð útgjöld kæranda við aðrar fjárhæðir en byggja megi á í framkomnum gögnum og framfærsluviðmiðum embættisins og að í þeim hafi verið tekið tillit til fasteigna- og vatns- og fráveitugjalda vegna fasteignanna þriggja. Embættið tekur einnig fram að umsókn kæranda og eiginkonu hans hafi legið fyrir fullbúin 16. maí 2014 og að andlát eiginkonu kæranda hafi ekki haft efnislega þýðingu við úrslausn þeirra álitaefna sem uppi hafi verið varðandi hina kærðu ákvörðun.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Kærandi telur að umboðsmaður skuldara hafi ekki veitt honum nægilegt færi á að koma að andmælum og skýringum áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun í því er tekin. Í þessu er talinn felast réttur aðila til að koma að viðbótargögnum, upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli. Þessi réttur varðar einkum upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir mat á staðreyndum málsins eða sönnun um hverjar þær eru. Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda og eiginkonu hans 28. janúar 2014 og tölvupóstum 19. febrúar og 14. maí sama ár var þeim veitt færi á að tjá sig skriflega um efni málsins. Andsvör kæranda bárust með tölvubréfum 14. og 21. febrúar 2014, sem og 16. maí 2014. Í bréfi umboðsmanns var meðal annars gerð grein fyrir f-lið 2. mgr. 6. gr. og c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og útskýrt að hvaða leyti umboðsmaður skuldara teldi ákvæðin eiga við um fjárhag kæranda. Að mati kærunefndarinnar hefur kærandi með bréfi þessu og tölvupóstum fengið fullnægjandi tækifæri til að tjá sig um efni málsins á þann hátt sem gert er ráð fyrir í 13. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefndin telur samkvæmt þessu að andmælaréttur kæranda hafi verið virtur.

Þá telur kærandi að hvorki hafi verið tekið tillit til veikinda eiginkonu hans í hinni kærðu ákvörðun né þeirra breytinga sem hafi orðið á fjárhag hans við fráfall hennar. Kærandi telur fráfall eiginkonu sinnar hafa haft neikvæð áhrif á fjárhag sinn þar sem hún hafi verið aðalfyrirvinna heimilisins. Kærandi rökstyður ekki frekar hvaða áhrif þær breytingar hafi haft varðandi þá háttsemi sem hin kærða ákvörðun fjallar um. Kærunefnd hafnar því fyrrgreindum málsástæðum kæranda sem órökstuddum.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á f-lið 2. mgr. 6. gr. og c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin þau atriði sem umboðsmaður skuldara skuli sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Meðal þeirra atriða er f-liður 2. mgr. 6. gr. lge., sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli þess ákvæðis.

Í 12. gr. lge. er fjallað um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Í c-lið 1. mgr. 12. gr. kemur fram að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. má skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað geta hagsmuni lánardrottna, nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Ákvæði 12. gr. lge. snúa að því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Víki skuldari frá þessum skyldum með vísvitandi hætti getur slíkt leitt til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. Í 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis II. í lge. er kveðið á um að skyldur skuldara við greiðsluaðlögun, sbr. 12. gr. laganna, eigi einnig við þegar umsókn hefur verið móttekin af umboðsmanni skuldara og greiðslum frestað tímabundið. Umboðsmaður skuldara getur því hafnað umsókn skuldara á grundvelli þess ákvæðis, sinni skuldari ekki skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. frá því að umsókn er móttekin og á þeim tíma er hann naut greiðsluskjóls.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar af fremsta megni í skilningi f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. með því að innheimta ekki leigutekjur af fasteignum sínum, en þær hefði til að mynda mátt nýta til að greiða af þeim fasteignagjöld. Þá telur embættið að með framangreindri háttsemi hafi kærandi orðið af fjármunum sem gagnast hefðu getað lánardrottnum sem greiðsla og að honum hefði borið að innheimta leigu vegna fyrrnefndra fasteigna, enda leiði það af skyldu skuldara samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærandi kveður fasteignirnar að D og E ekki hafa verið í leiguhæfu ástandi en kærandi hafi ekki haft efni á því að koma þeim í viðunandi horf. Þá hafi dóttir hans, sem búið hafi á heimili kæranda, unnið að endurbótum á fasteigninni í stað þess að greiða hefðbunda leigu. Leigjandi að D greiði leigu á sama hátt þar til íbúðin verði komin í sæmilegt horf.

Í tölvupósti kæranda frá 21. febrúar 2014 kemur fram að íbúðin að E sé í niðurníðslu og óíbúðarhæf og að kærandi hafi notað hana sem [...]. Nú sé þar leigjandi sem greiði leiguna með því að sinna viðhaldi og endurbótum á eigninni. Einnig kemur fram í tölvupóstinum að kærandi hafi byrjað að gera D upp en hafi ekki haft fjármagn til að klára það og sé hann því að athuga hvort hægt sé að leigja fasteignina út. Í málinu er að finna skjal sem sýnir skráningu íbúa að D, en skjalið er ódagsett. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að skjalið sé frá 22. apríl 2014. Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn sem sýna fram á að ástand fasteigna hans að D og E sé það slæmt að þær séu óhæfar til útleigu. Samkvæmt skattframtölum kæranda hafði hann engar leigutekjur af fasteignum sínum að D og E á tímabili greiðsluskjóls. Að framangreindu virtu verður ekki talið að háttsemi kæranda hvað þetta varðar verði felld undir f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Embætti umboðsmanns skuldara telur einnig að kaup og sala kæranda á ökutækjum á tímabili greiðsluaðlögunar séu ráðstafanir sem brjóti gegn skyldum skuldara samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem verðmæti hafi verið látin af hendi sem gagnast hefðu getað lánardrottnum sem greiðsla.

Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa, eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem greiðsluaðlögun hefur að jafnaði í för með sér eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Á þessum grunni byggist c-liður 1. mgr. 12. gr. lge.

Í skattframtölum 2012, 2013 og 2014 sem og fyrirliggjandi gögnum koma fram upplýsingar um kaup og sölu ökutækja í krónum:

Kaupdagur Kaupverð Söludagur Söluverð
N X - 28. apríl 2011 -
J X - 8. júlí 2013 -
K X - 4. júlí 2012 -
O X 440.000
M X 1.500.000
P X - 17. apríl 2013 30.000

Kærandi kveður verðmæti hvorki hafa orðið til né glatast við sölu hjólhýsis með fastanúmerið K, við kaup og sölu á fellihýsi með fastanúmerið J og við kaup á húsbíl með fastanúmerið M. Kærandi heldur því þó fram að verðmæti hafi orðið til við viðskiptin með tvö fyrstgreindu ökutækin þar sem hið keypta hafi verið verðmætara en hið selda. Kærandi kveður húsbílinn hafa verið seldan og að andvirðinu hafi verið varið í að greiða kostnað vegna veikinda eiginkonu hans og síðan útfararkostnað. Kærandi hefur hvorki lagt fram gögn sem sýna fram á kaup- eða söluverð ökutækjanna, fyrir utan afsal vegna kaupa á húsbíl X, né hefur hann lagt fram gögn sem sýna fram á kostnað vegna veikinda og útfarar eiginkonu sinnar. Að mati kærunefndarinnar verður því ekki byggt á framangreindum málsástæðum kæranda.

Svo sem rakið hefur verið er skuldara óheimilt, á sama tíma og leitað er greiðsluaðlögunar, að láta af hendi verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. Með sölu fellihýsis, hjólhýsis og húsbíls án samráðs við umboðsmann skuldara telst kærandi hafa brotið skyldur sínar samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge., sbr. 11. gr. laga nr. 135/2010.

Kærunefndin fellst einnig á það mat umboðsmanns skuldara að á meðan skuldari njóti greiðsluskjóls, samkvæmt 11. gr. lge., hvíli sú skylda á honum að innheimta eðlilegt endurgjald fyrir afnot þriðja aðila af eignum sínum. Með því að láta undir höfuð leggjast að innheimta leigu fyrir afnot þriðja aðila af áðurgreindum fasteignum hefur kærandi orðið af fjármunum sem hefðu getað gagnast lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Að þessu leyti telur kærunefndin að kærandi hafi einnig gerst brotlegur við skyldur sínar samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Þá byggist hin kærða ákvörðun einnig á því að kærandi hafi stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. með því að greiða ekki öll áfallin fasteignagjöld árin 2011 til 2013 vegna fasteigna sinna að C, D og E. Auk þess hafi kærandi með því látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir fremsta megni, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá Q og R eru eftirtalin fasteignagjöld ógreidd á neðangreindu tímabili í krónum:

Ár 2011 2012 2013 Samtals
C 28.610 123.245 280.658 432.513
D 74.440 126.054 200.494
E 76.422 76.422
Samtals á ári 28.610 197.685 483.134 709.429

Kærandi vísar til þess að ákvæði um skyldur skuldara séu sett með almenna ferlið í huga en ekki sé gert ráð fyrir því að málsmeðferð dragist úr hófi, en þrjú ár og fimm mánuði hafi tekið að afgreiða mál kæranda. Auk þess sé umsóknarferli í raun lokið þegar umboðsmaður skuldara synji umsókn og gildi reglur um skyldur skuldara því ekki á meðan beðið sé eftir niðurstöðu kærunefndar.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgða-ákvæði laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010, hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun, sem var 19. janúar 2011. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Kæranda bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna frá 18. janúar 2011 og þar til málsmeðferð lauk hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. getur skuldari kært synjun umboðsmanns skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála (nú úrskurðarnefndar velferðarmála) og skal greiðsluskjól þá standa þar til niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála liggur fyrir, sbr. 6. mgr. bráðabirgðaákvæðis II í lge., sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010. Ekki verður því fallist á málsástæður kæranda um þetta atriði.

Samkvæmt skattframtölum og öðrum gögnum málsins voru tekjur og fjárhagur kæranda og eiginkonu hans eftirfarandi í krónum á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. febrúar 2011 til 31. desember 2011: Ellefu mánuðir
Nettótekjur eiginkonu kæranda 1.696.570
Nettótekjur kæranda 1.978.920
Sérstök vaxtaniðurgreiðsla 129.328
Samtals tekjur kæranda og eiginkonu hans 3.804.818
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 345.893
Mánaðarleg útgjöld kæranda og eiginkonu hans* 317.513
Til ráðstöfunar eftir greiðslu mánaðarlegra útgjalda 28.379

Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: Tólf mánuðir
Nettótekjur eiginkonu kæranda 1.899.226
Nettótekjur kæranda 1.989.051
Samtals tekjur kæranda og eiginkonu hans 3.888.277
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 324.023
Mánaðarleg útgjöld kæranda og eiginkonu hans* 317.513
Til ráðstöfunar eftir greiðslu mánaðarlegra útgjalda 6.510

Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: Tólf mánuðir
Nettótekjur eiginkonu kæranda 2.007.362
Nettótekjur kæranda 1.979.904
Skattfrjálsar greiðslur 300.000
Samtals tekjur kæranda og eiginkonu hans 4.287.266
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 357.272
Mánaðarleg útgjöld kæranda og eiginkonu hans* 317.513
Til ráðstöfunar eftir greiðslu mánaðarlegra útgjalda 39.759

* Miðað er við útgjöld hjóna samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í janúar 2014 og upplýsingar um önnur útgjöld frá kæranda.

Kærandi kveður það ekki hafa verið í forgangi að greiða fasteignagjöld sökum fjárhagsstöðu hans og eiginkonu hans á þessum árum, félagslegra aðstæðna þeirra og veikinda. Þá séu kröfur vegna fasteignagjalda og trygginga tryggðar með lögveði og gangi þær því framar öðrum kröfum.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að kærandi og eiginkona hans höfðu fé til ráðstöfunar í hverjum mánuði að meðaltali árin 2011 til 2013 eftir að hafa staðið straum af framfærslukostnaði. Samkvæmt greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara var enn fremur þegar gert ráð fyrir að fasteignagjöld væru greidd í áætluðum útgjöldum kæranda og eiginkonu hans. Kæranda bar því að greiða gjöld sem féllu til á tímabilinu, enda nær frestun greiðslna ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge.

Kærandi hefur að mati kærunefndarinnar með þessu stofnað til nýrra skulda á tímabili greiðsluskjóls í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Kærunefndin fellst því á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara um að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt tilgreindu lagaákvæði.

Í ljósi þess er að framan greinir telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til c- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta