Mál nr. 97/2014
Mál nr. 97/2014
Fimmtudaginn 22. desember 2016
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.
Þann 5. september 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 22. ágúst 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður. Greinargerð með kærunni barst 17. september 2014.
Með bréfi 19. september 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 16. október 2014. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 24. október 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 7. nóvember 2014 og með bréfi sama dag var óskað eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til þeirra. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst í kjölfarið 18. nóvember 2014.
Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 21. nóvember 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Með bréfi 1. desember 2014 bárust viðbótarathugasemdir kærenda og var óskað eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til þeirra með bréfi 4. desember 2014. Með tölvupósti 29. janúar 2015 tilkynnti umboðsmaður skuldara að ekki yrði brugðist við athugasemdum kærenda.
I. Málsatvik
Kærendur eru fædd 1950 og 1944 og eru gift. Þau búa í eigin húsnæði að C. Kærandi A er með eigin rekstur og kærandi B fær tekjur frá Tryggingastofnun.
Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 4. maí 2012 eru 70.097.626 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga á árunum 2005 til 2008 vegna fasteignakaupa.
Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína einkum til þess að við efnahagshrunið 2008 hafi orðið lítil sem engin hreyfing á fasteigna- og bifreiðamarkaðnum en kærandi B hafi starfað við að [...]. Í kjölfar hrunsins hafi [...]. Þá hafi greiðslubyrði allra lána jafnframt hækkað mikið.
Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun hjá Embætti umboðsmanns skuldara 29. júní 2011 og með ákvörðun embættisins 4. maí 2012 var þeim veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Frestun greiðslna hófst við móttöku umsóknar 29. júní 2011, sbr. bráðabirgðaákvæði nr. II í lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010.
Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 2. október 2013 tilkynnti umsjónarmaður að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun kærenda væri heimil á grundvelli 15. gr. lge. Að mati umsjónarmanns væri óljóst hverjar tekjur kærenda vegna [...] væru sem gerði að verkum að fjárhagur þeirra teldist óljós. Kærendur hafi jafnframt lagt fram ófullnægjandi gögn um [...] sem ekki hafi verið í samræmi við þær upplýsingar sem þau hefðu þegar veitt um þessi viðskipti. Þá hafi kærendur látið fjármuni af hendi, sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla, með því að láta bifreiðar af hendi án vitundar og/eða samþykkis umsjónarmanns. Kærendur hafi til að mynda keypt bifreiðina D á 1.000.000 króna og selt með talsverðu tapi eða á 550.000 krónur. Að mati umsjónarmanns hafi kærendur með framangreindri háttsemi brotið gegn c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge.
Með bréfi 12. ágúst 2014 var kærendum kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Þá var kærendum jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör kærenda og gögn bárust með bréfi 17. ágúst 2014.
Með ákvörðun 22. ágúst 2014 felldi umboðsmaður skuldara í framhaldinu niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og c- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur mótmæla þeirri ákvörðun umboðsmanns skuldara að fella niður heimild þeirra til áframhaldandi greiðsluaðlögunar. Skilja verður kæru þeirra svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunar-umleitanir þeirra verði felld úr gildi.
Kærendur kveða helstu rök umboðsmanns skuldara fyrir því að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra hafa verið þau að kærandi B hefði ekki lagt fram fullnægjandi gögn til skýringar á [...] og því væri fjárhagur þeirra óljós. Þá hafi umboðsmaður skuldara talið að [...] hafi verið án samráðs við umsjónarmann sem væri brot á lge.
Kærendur taka fram að þegar þau hafi sótt um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi þau gert grein fyrir því í greinargerð til umboðsmanns skuldara að kærandi B hefði í áratugi stundað [...]. Ekki hafi neitt annað komið þar fram en að hann myndi stunda þetta áfram og hafi embættið ekki gert athugasemdir við það. Eftir hrunið 2008 hafi [...] lagst af en viðskipti með [...] haldið áfram í litlum mæli miðað við það sem áður var. Þessi starfsemi hafi skilað kærendum litlu en hafi þó staðið undir sér að öllu leyti og reyndar verið afþreying um leið. Kærandi B hafi stundað [...] með viðskiptafélaga sínum og þeir gert samning sín á milli um að hinn síðarnefndi legði fram peninga og vinnu eftir þörfum gegn því að fá helming hagnaðar á móti kæranda. Umboðsmaður skuldara hafi verið upplýstur um viðskiptasamning þeirra en embættið ekki óskað eftir afriti af honum.
Kærendur kveðast hafa lagt fram öll gögn sem óskað hafi verið eftir um [...]. Þessu hafi fylgt útreikningur á hagnaði og síðan hafi verið sendar inn kostnaðarnótur. Þessa pappíra og vinnuna sem legið hafi þar að baki, hafi umboðsmaður skuldara hundsað en sett fram órökstuddar fullyrðingar um að kærandi B hefði haft af þessu hagnað að fjárhæð 1.193.000 krónur. Enginn útreikningur hafi fylgt þessu til stuðnings og til samanburðar við útreikning kærenda. Þar sem þessi [...] hafi ekki verið bókhaldsskyld hafi pappírar ef til vill glatast.
Kærendur hafna því að ráðstöfunarfé þeirra hafi farið í að greiða fyrir [...].
Kærendur greina frá því að þau hafi sent umboðsmanni skuldara kvittanir fyrir kostnaði sem hafi verið skipt með eftirfarandi hætti í krónum:
E | 66.068 |
F | 263.766 |
G | 296.149 |
H | 278.311 |
Samtals | 904.294 |
Umboðsmaður skuldara hafi talið að hluti þessa kostnaðar kæmi málinu ekki við en embættið ekki rökstutt það eða óskað eftir frekari skýringum á þeim kostnaði.
Kærendur greina frá því að kvittanir hafi einnig glatast á þetta löngu tímabili og kostnaður hafi því verið eitthvað meiri.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Í c-lið 1. mgr. 12. gr. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Í d-lið 12. gr. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema þær séu nauðsynlegar til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.
Kærandi B hafi átt í [...] á tímabili frestunar greiðslna án samráðs við umsjónarmann sem að mati hins síðarnefnda hefðu verið gerð í hagnaðarskyni. Kærendur hafi lagt fram ófullnægjandi gögn sem hafi verið í ósamræmi við upplýsingar sem þau hefðu þegar veitt um [...] sem kærandi B hefði [...]. Þá hafi kærendur hvorki lagt fram frekari gögn né veitt nánari skýringar á því ósamræmi sem umsjónarmaður taldi að væri til staðar. Í bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 12. ágúst 2014 hafi komið fram að einungis [...] hefðu borist vegna [...] og var vísað í bréf umsjónarmanns til nánari skýringa á því. Í bréfi umsjónarmanns hafi komið fram að [...] hafi borist vegna bæði [...]. Þá hefði borist [...]. Með andmælum kærenda hafi síðan borist [...] til viðbótar vegna [...].
Umboðsmaður skuldara telji að kærendur hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn og skýringar varðandi [...] kæranda B og sé fjárhagur þeirra því of óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. til að hægt sé að leggja heildarmat á hann. Enn fremur telur umboðsmaður skuldara að kærendur hafi brotið gegn c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. með því að [...] á tímabili frestunar greiðslna án samráðs við umsjónarmann.
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að kærendur hafi talið að embættið hafi ekki svarað því sem fram hafi komið í kæru. Umboðsmaður skuldara vísar til þess að þau atriði sem átt sé við hafi legið fyrir í bréfi umsjónarmanns 7. ágúst 2014, en í bréfinu komi fram orðrétt:
„Umsjónarmaður hefur farið ítarlega yfir öll framlögð gögn frá skuldurum. Í ljós hefur verið leitt [að] [...] er verulega ábótavant. Þannig eru einungis [...] á árunum 2012 og 2013. [...]. Þá liggur fyrir [...] sem dagsett er X 2011 vegna [...]. Engar upplýsingar eru að finna í skattframtali ársins 2012 vegna tekna ársins 2011 vegna framangreindra [...].
Að því er kostnaðarnótur varðar þá liggja fyrir reikningar vegna þeirra [...] sem óskað var upplýsinga um að fjárhæð 494.627 kr. og er það í engu samræmi við upplýsingar frá umboðsmanni skuldara þar um, en í tölvupósti dags. 10. júní 2014 eru kostnaðarnótur auk kostnaðar við [...] sagðar vera að fjárhæð 856.248 kr. Vísar umboðsmaður þeirra til framlagðra reikninga þar um.
Við yfirferð gagnanna kom í ljós að reikningar að fjárhæð 347.582 kr. voru vegna annarra viðskipta en þeirra sem um var beðið, þ.e. viðskiptamaður var annar aðili en skuldarar/eða enginn tilgreining var á reikningum um hvaða [...] var að ræða. Ekki eru því forsendur til að þess að taka framangreinda reikninga til greina.
Af yfirferð gagnanna var í ljós leitt að hagnaður vegna [...] að teknu tilliti til kostnaðar með vísan til gagna þar um, er að fjárhæð 1.196.895 kr. Ekki er tekið tillit til [...] í framangreindri fjárhæð. Þá bárust ekki upplýsingar annars vegar [um] [...].“
Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og c- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.
Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu var umsókn kærenda móttekin af hálfu umboðsmanns skuldara 29. júní 2011 og hófst frestun greiðslna þann dag samkvæmt bráðabirgðaákvæði nr. II í lge., sbr. lög nr. 128/2010. Frá og með þeim degi bar kærendum jafnframt að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge., sbr. 5. mgr. 1. gr. laga nr. 128/2010. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge.
Í skýringum með frumvarpi til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.
Við mat á því hvað teljist vera nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge. Í 4. gr. laganna er gerð grein fyrir því hvernig umsókn um greiðsluaðlögun eigi að vera úr garði gerð og er þar talið upp í ellefu töluliðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókninni. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að umsókn skuli fylgja upplýsingar um hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort hann muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.
Í 3. mgr. 4. gr. lge. segir að með umsókn um greiðsluaðlögun skuli fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma, vottorð um hjúskaparstöðu og fjölskyldu og síðustu fjögur skattframtöl skuldara. Þá kemur fram í niðurlagi 4. mgr. sömu lagagreinar að skuldari skuli að jafnaði útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara. Þá ber einnig að líta til þess sem kemur fram í 2. mgr. 16. gr. lge. að í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun skuli tiltaka viðeigandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu skuldara, meðal annars upplýsingar um tekjur, skuldir, eignir og mánaðarleg útgjöld.
Að mati umboðsmanns skuldara veittu kærendur ekki fullnægjandi upplýsingar um [...] á tímabili greiðsluskjóls.
Í málinu liggja fyrir skattframtöl kærenda vegna tekna þeirra árin 2011-2013 og koma þar fram eftirfarandi upplýsingar um [...] í krónum:
Kaupdagur | Kaupverð | Söludagur | Söluverð | |
I | 17.7.2012 | 90.000 | 16.8.2012 | 340.000 |
J | 20.6.2012 | 1.000.000 | 23.9.2013 | 450.000 |
K | 4.4.2012 | 16.7.2012 | 425.000 | |
L | 12.3.2012 | 200.000 | 22.5.2012 | 223.000 |
M | 5.12.2012 | 50.000 | 25.1.2013 | 350.000 |
N | 19.10.2012 | 80.000 | 12.11.2013 | |
O | 6.9.2012 | 250.000 | 21.11.2012 | 280.000 |
Ó | 23.2.2012 | 12.3.2012 | 400.000 | |
P | 4.1.2012 | 40.000 | 9.5.2012 | 60.000 |
Q | 5.9.2012 | 350.000 | ||
R | 13.8.2012 | 100.000 | ||
S | 23.02.212 | 320.000 | ||
T | 16.9.2013 | |||
U | 17.4.2013 | 200.000 | 17.4.2013 | 260.000 |
Ú | 3.12.2013 | 250.000 | ||
V | 14.8.2103 | 250.000 | 21.8.2013 | 300.000 |
W | 18.4.2013 | 7.5.2013 | 300.000 | |
X | 24.10.2013 | 150.000 | 1.11.2013 | |
Y | 23.9.2013 | 250.000 | 14.10.2013 | |
Ý | 1.10.2013 | 250.000 | ||
Z | 14.8.2013 | 20.9.2013 | ||
Þ | 9.7.2013 | 100.000 | 18.7.2013 |
Umsjónarmaður óskaði skýringa og gagna frá kærendum um kaup og sölu þeirra bifreiða sem kærandi B átti viðskipti með á tímabili greiðsluskjóls og voru skýringar veittar að hluta til án þess að gögn væru lögð fram þeim til stuðnings.
Með bréfi umboðsmanns skuldara 12. ágúst 2014 var óskað eftir upplýsingum og gögnum um viðskipti kæranda B með [...]. Í svari kærenda kváðust þau hafa sent umsjónarmanni gögn samkvæmt beiðni þar um, svo sem [...]. Í bréfi umboðsmanns skuldara kemur fram að embættið telji að af svörum kærenda megi álykta að kærandi B hafi haft með höndum [...] í hagnaðarskyni. Hann hafi þó hvorki lagt fram fullnægjandi upplýsingar um tekjur sínar vegna [...] né upplýsingar um útgjöld vegna [...]. Óskað var eftir upplýsingum um þetta allt frá árinu 2012 svo og upplýsingum um [...] sem kærandi kynni að hafa haft af [...]. Eins og fram hefur komið lagði kærandi ekki fram fullnægjandi gögn vegna viðskipta sinna með [...].
Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa, eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Hér verður að hafa í huga að skuldari hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa.
Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge hvílir á skuldara skylda til samráðs við umsjónarmann við undirbúning frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun. Sú skylda sem hvílir á skuldara samkvæmt 4. og 5. gr. lge. hlýtur því eðli málsins samkvæmt að vera fyrir hendi þar til greiðsluaðlögunarsamningur kemst á og sér í lagi ef aðstæður breytast eða nýjar upplýsingar um fjárhag skuldara koma fram. Að mati kærunefndarinnar eru þær upplýsingar, sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge., grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda væri ómögulegt án þeirra upplýsinga að átta sig á því hve mikið skuldari getur greitt af skuldbindingum sínum þegar gerður er samningur um greiðsluaðlögun.
Af gögnum málsins verður ráðið að fjárhagur kærenda, sem varðar [...] kæranda B árin 2012 og 2013, er óljós. Að mati kærunefndarinnar hafa kærendur ekki lagt fram fullnægjandi gögn sem styðja frásögn þeirra um [...] á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt því verður að telja að kærendur hafi ekki látið í té fullnægjandi upplýsingar til að unnt sé að fá nauðsynlega heildarmynd af fjárhag þeirra og greiðslugetu vegna frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 16. gr. lge. Þannig verður að telja fjárhag kærenda óglöggan í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr.
Svo sem rakið hefur verið er skuldurum óheimilt á tímabili greiðsluskjóls að láta af hendi verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. Með [...], án samráðs og heimildar umsjónarmanns, teljast kærendur að mati kærunefndarinnar hafa brotið skyldur sínar samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Einnig hefur verið rakið að skuldurum er óheimilt, á sama tíma og leitað er greiðsluaðlögunar, að stofna til nýrra skuldbindinga eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Með [...], án heimildar og samráðs við umsjónarmann, teljast kærendur hafa ráðstafað fjármunum með þeim hætti að þau hafi einnig brotið skyldur sínar samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt því telur kærunefndin að umboðsmaður skuldara hafi réttilega komist að þeirri niðurstöðu að kærendur hafi ekki virt þær skyldur sem á þeim hvíldu samkvæmt c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. á tímabili greiðsluskjóls.
Í ljósi alls þessa uppfylltu kærendur ekki skilyrði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. til þess að hljóta heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Jafnframt verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt c- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge., sbr. 5. mgr. 1. gr. laga nr. 128/2010. Umboðsmanni skuldara bar því samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B, er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Þórhildur Líndal