Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 98/2014

Mál nr. 98/2014

Fimmtudaginn 22. desember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 10. september 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 28. ágúst 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 15. september 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. nóvember 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 2. desember 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir og gögn kæranda bárust 22. mars 2015.

Með bréfi 23. mars 2015 óskaði kærunefndin eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til athugasemda kæranda sem barst með bréfi 25. mars 2015. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 26. mars 2015 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1958. Hann býr í eigin húsnæði að B, sem er 238,9 fermetra einbýli. Kærandi starfar við eigin fyrirtæki sem rekur ferðaþjónustu að B yfir sumarmánuðina. Hina mánuði ársins vinnur kærandi sem launamaður. Auk þess hefur kærandi tekjur af útleigu af 29,17% hlut í fasteigninni C.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 2. júlí 2012, eru 47.180.075 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 1994 vegna fasteignakaupa.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til atvinnuleysis.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 19. október 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. júlí 2012 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 27. febrúar 2014 upplýsti umsjónarmaður að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.) og lagði því til að greiðsluaðlögunarumleitanir hans yrðu felldar niður. Í bréfi umsjónarmanns kom fram að kærandi hefði ekki lagt fé til hliðar á því tímabili sem frestun greiðslna hafði staðið yfir, á tímabili svokallaðs greiðsluskjóls eða allt frá 19. október 2010, í samræmi við skyldur hans samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá hafi ráðstöfun kæranda á leigutekjum brotið í bága við c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Auk þess taldi umsjónarmaður að nauðsynlegt væri að kveða á um sölu fasteignar kæranda í greiðsluaðlögunarsamningi hans þar sem hann hafi ekki getað greitt af þeim veðkröfum sem hvíldu á eigninni og rúmuðust innan matsverðs hennar. Þá hafi kostnaður skuldara við rekstur fasteignarinnar verið óvenju hár miðað við það sem almennt gæti talist raunhæft fyrir rekstur fasteignar fyrir einstakling.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 2. júní 2014 þar sem honum var kynnt að fram væru komnar upplýsingar sem gætu leitt til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir hans yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Kæranda var jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan viku og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunar. Svör kæranda bárust 21. júní 2014 og 14. júlí 2014. Með tölvupósti 19. ágúst 2014 tilkynnti umboðmaður skuldara kæranda að hann þyrfti sjálfur að útvega gögn sem hann teldi nauðsynleg til stuðnings andmælum sínum og skila til embættisins en engin svör hafi borist frá kæranda eftir það.

Með ákvörðun 28. ágúst 2014 felldi umboðsmaður skuldara í framhaldinu niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar. Skilja verður þetta svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Í kæru kemur fram að sparnaður kæranda sé allur til staðar og meira til. Hann telji sig því hafa uppfyllt kröfur um sparnað á tímabili greiðsluskjóls. Sparnaður hans sé á bók í Landsbankanum hf. og muni kærandi leggja fram staðfestingu á sparnaði ásamt nýju skattframtali.

Kærandi kveðst hafa verið að byggja upp ferðaþjónustu á undanförnum árum sem gengið hafi mjög vel. Íbúðarhúsnæðið að B sé með X herbergjum, frá tveggja manna til fjögurra manna. Kærandi hafi keypt X sumarhús sem hann hafi sett við hliðina á íbúðarhúsinu. Hann kveður ferðaþjónustuna vera alfarið í sinni eigu og þegar ferðþjónustutímabilinu ljúki starfi hann við [...] sem launamaður.

Við meðferð málsins hjá kærunefndinni lagði kærandi fram sundurliðunarblað með skattframtali 2015 sem sýnir inneignir á bankareikningum sem nema alls 597.294 krónum um áramótin 2015/2016. Auk þess lagði kærandi fram kvittun frá 16. mars 2015 sem sýnir inneign á reikningi hans hjá Landsbankanum að fjárhæð 370.083 krónur. Þá lagði hann fram viðskiptakvittun frá 16. mars 2015 frá félaginu D ehf. sem sýnir innlegg og síðar útttekt að fjárhæð 1.275.507 krónur. Einnig lagði kærandi fram ársreikning D ehf. fyrir árið 2014.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Að mati umsjónarmanns og með hliðsjón af möguleikum kæranda til að greiða af fasteignaveðlánum sínum hafi verið ljóst að selja þyrfti fasteign hans að B. Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hafi mánaðarleg greiðslugeta kæranda verið 42.247 krónur en mánaðarlegar afborganir af veðkröfum þeim sem hvíli á fasteigninni um 250.000 krónur. Að sögn umsjónarmanns hafi kærandi haldið því fram að hann gæti greitt töluvert meira en þetta á mánuði, en að mati umsjónarmanns ættu uppgefnar tekjur kæranda ekki við rök að styðjast. Með hliðsjón af þessu svari hafi umsjónarmaður talið að kærandi stæði í vegi fyrir því að fasteign hans yrði seld.

Samkvæmt framansögðu hafi það verið samdóma álit umsjónarmanns og umboðsmanns skuldara að selja þyrfti fasteign kæranda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. Kærandi hafi ekki svarað umboðsmanni skuldara um það hvort hann teldi sig geta framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um sölu á fasteigninni. Greiðsluaðlögunarumleitanir geti ekki haldið áfram, telji kærandi sig ekki geta framfylgt slíkri ákvörðun umsjónarmanns.

Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærandi hafi sótt um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 19. október 2010 og stóð frestun greiðslna yfir í rúmlega 43 mánuði, en útreikningar umsjónarmanns hafi miðað við 40 mánaða tímabil. Umboðsmaður skuldara vísar til útreikninga umsjónarmanns sem gerðir hafi verið á grundvelli fyrirliggjandi gagna og upplýsinga frá kæranda. Umsjónarmaður hafi reiknað út að tekjur kæranda á ársgrundvelli hafi verið 3.346.887 krónur sé tekið meðaltal af tekjum hans árin 2011, 2012 og 2013. Í bréfi umsjónarmanns frá 27. febrúar 2014 komi fram að kærandi hafi haft tekjur af vinnu [...], af [...] og af störfum sínum sem launþegi hjá D ehf. árið 2013. Umsjónarmaður hafi ekki talið að hægt væri að fara aðra leið til að áætla tekjur kæranda en þá að reikna út meðaltal tekna hans síðastliðin ár þar sem atvinnuhagir kæranda hefðu verið mjög óreglulegir. Þegar meðaltals árstekjum kæranda hafi verið deilt niður á 12 mánuði ársins hefði verið ljóst að mánaðartekjur hans næmu 278.907 krónum.

Kærandi hafi samkvæmt útreikningum umsjónarmanns haft neðangreindar tekjur á framangreindu 40 mánaða tímabili í krónum:

Áætlaðar tekjur kæranda frá 19. október 2010 10.040.662
Meðaltekjur á mánuði 278.907
Framfærslukostnaður á mánuði 236.660
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 42.247

Að sögn umsjónarmanns hafi kærandi skilað inn gögnum þar sem fram kom að hann hefði greitt fyrir lögmannsþjónustu samtals 445.139 krónur. Þá sýndu gögn að D ehf. hefði greitt kæranda 450.000 krónur í leigugreiðslur vegna afnota af fasteign hans að B. Að teknu tilliti til þeirra fjárhæða hafi það verið mat umsjónarmanns að sparnaður kæranda ætti að nema 1.110.662 krónum.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kæranda með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir venjulegan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærandi hafi ekki lagt fram haldbær gögn sem sýnt hafi heildarsparnað hans á tímabili greiðsluskjóls, þrátt fyrir ítrekaða beiðni umboðsmanns skuldara þess efnis. Því hafi embættið orðið að ganga út frá því að enginn sparnaður væri til staðar hjá kæranda.

Umboðsmaður skuldara hafnar því að þau gögn sem kærandi hefur lagt fyrir kærunefndina breyti mati embættisins um hina kærðu ákvörðun. Hafi ætlun kæranda verið að sýna fram á að hann hefði lagt fyrir 370.083 krónur með hinum framlögðu gögnum breyti það ekki mati umboðsmanns skuldara þar sem sparnaður kæranda hefði átt að nema 1.110.662 krónum miðað við 40 mánaða tímabil frá október 2010. Engar skýringar hafi þó fylgt gögnunum. Af þeim sökum verði að telja að töluvert vanti upp á fyrrgreinda fjárhæð á reikningi kæranda, miðað við áætlun umsjónarmanns. Þá hafi framlögð ársskýrsla og sundurliðurnarblað skattframtals ársins 2015 ekki heldur útskýrt skort á sparnaði.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum, skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í 1. mgr. 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 27. febrúar 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í bréfinu kemur fram að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt annars vegar a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli og hins vegar 5. mgr. 13. gr. lge. með því að veita ekki samþykki fyrir því að selja fasteign sína, sem umsjónarmaður taldi þó nauðsynlegt í ljósi verðmætis hennar og afstöðu kröfuhafa. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 28. ágúst 2014.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna nr. II, sbr. 1. gr. laga nr. 128/2010, hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun 19. október 2010. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við um leið og umboðsmaður skuldara hefur móttekið umsókn um greiðsluaðlögun. Kæranda bar því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hans var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara telur að kærandi hefði átt að leggja til hliðar 1.110.662 krónur frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögun var lögð fram. Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi látið hjá líða að leggja fyrir fé í greiðsluskjóli og þar með brotið gegn skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. á þeim tíma. Kærandi hefur lagt fram gögn sem sýna fram á að hann hafi lagt fyrir 370.083 krónur á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, voru mánaðartekjur kæranda í krónum eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. desember 2010: Tveir mánuðir
Nettótekjur 564.420
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 282.210

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur 3.586.158
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 298.847
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur 4.567.435
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 380.620
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur 2.091.551
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 174.296
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. júlí 2014: Sjö mánuðir
Nettótekjur 1.487.126
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 212.447
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 12.296.690
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 273.260

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda, leigutekjur og óskattskyldar tekjur, var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. júlí 2014: 45 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 12.296.690
Leigutekjur 1.560.000
Óskattskyldar tekjur 2.720.100
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 16.576.790
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 368.373
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara* 236.660
Greiðslugeta kæranda á mánuði 131.713
Alls sparnaður í 45 mánuð í greiðsluskjóli x 131.713 5.927.085

* Framfærslukostnaður kæranda miðað við febrúarmánuð 2014

Við mat á því hvaða fjárhæð kæranda beri að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna hefur staðið er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að kærandi hafi skilað inn gögnum til umsjónarmanns sem sýni fram á að hann hafi greitt kostnað vegna lögmannsþjónustu fyrir samtals 445.139 krónur og að umsjónarmaður hafi tekið tillit til þess kostnaðar. Þannig verður tekið tillit til þess kostnaðar við útreikning á því fé sem kæranda bar að leggja til hliðar á tímabilinu. Samkvæmt framansögðu ber því að draga 445.139 krónur frá áætluðum sparnaði kæranda.

Samkvæmt ofangreindu hefði kærandi þannig átt að geta lagt til hliðar 5.481.946 krónur (5.927.085 - 445.139) á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt upplýsingum sem bárust með kæru hefur kærandi lagt fyrir 370.083 krónur.

Í ljósi þess sem að framan greinir verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir hans niður.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið þeirra aðgerða, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða því frá að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara til að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Greiðslugeta kæranda er neikvæð samkvæmt upplýsingum um tekjur hans árið 2014 sem voru 212.447 krónur á mánuði. Mánaðarleg útgjöld kæranda eru 236.660 krónur. Samkvæmt upplýsingum frá fasteignaskrá var fasteignamat fasteignar kæranda 27.970.000 krónur árið 2014. Mánaðarlegar afborgarnir af áhvílandi veðkröfum, sem eru innan matsverðs fasteignar kæranda, nema um 250.000 krónum á mánuði. Þannig er ljóst að kærandi getur ekki greitt af veðkröfum innan matsverðs fasteignarinnar eins og a-liður 21. gr. lge. áskilur í þeim tilvikum er skuldari heldur eftir eignum sem veðkröfur á hendur honum hvíla á.

Eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum sem þessum á grundvelli lge. er að selja þá eign sem veðsett er til að létta á greiðslubyrði skuldara vegna afborgana fasteignaveðkrafna. Kærandi hefur hafnað því að selja fasteign sína samkvæmt tillögu umsjónarmanns. Við þessar aðstæður verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 1. mgr. 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt öllu framansögðu er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta