Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 8/2011

Grein

Greiðsluaðlögun.

Þriðjudaginn 7. júní 2011

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 3. mars 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 17. febrúar 2011, um að synja umsókn kæranda um greiðsluaðlögun.

Með bréfi, dags. 9. mars 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 30. mars 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 1. apríl 2011, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

I.

Málsatvik

Kærandi lýsir aðstæðum sínum þannig að árið 2003 hafi hann hafið störf hjá X sem sölufulltrúi og síðar sölustjóri. Hafi fjárhagsstaða hans verið bág eftir skilnað og hafi hann unnið mikið til að greiða niður skuldir. Hafi hann fest kaup á íbúð sinni að B nr. 7 í sveitarfélaginu C árið 2004. Árið 2006 hafi hann loks náð að greiða niður allar skammtímaskuldir og eignamyndun hafist. Í lok árs 2006 hafi hann misst vinnuna hjá X og hafi vandræði hans hafist þá. Hafi hann hafið störf hjá X fasteignasölu sem sölufulltrúi en fljótlega ákveðið að stofna eigin fasteignasölu ásamt félögum sínum. Opnuðu þeir fasteignasöluna Z sumarið 2007. Hafi hann tekið 5.000.000 króna lán til að setja í hlutafé fyrirtækisins. Rekstur fasteignasölunnar hafi gengið ágætlega en þeir peningar sem komu inn hafi mestmegnis farið í rekstur og því hafi laun kæranda ekki verið há. Hann hafi þó náð að halda sér í skilum, meðal annars með því að skuldbreyta lánum. Árin 2007 og 2008 hafi hann þurft að taka lán vegna fasteignasölunnar í eigin nafni þar sem hann hafi átt í stappi við félaga sína og þurft að leggja út pening vegna þess.

Árið 2007 kveðst kærandi hafa keypt bifreið á 3.700.000 krónur og tók til þess lán að fjárhæð 3.300.000 krónur. Á sama tíma hafi hann selt eldri bifreið sína til fyrirtækis síns, D, fyrir 1.700.000 krónur. Ekki hafi þó tekist að færa bifreiðina á nafn fyrirtækisins og sé kærandi því enn skráður eigandi bifreiðarinnar. Hafi fasteignasalan séð um að greiða af þeirri bifreið en kærandi þeirri nýju en afborganir hafi numið um 50.000 krónum á mánuði. Hafi hann þó setið uppi með báðar bifreiðarnar eftir hrunið sem og kostnað vegna þeirra. Búið sé að taka báða bílana og gera upp lánin vegna þeirra en kærandi kveðst hafa gert þau mistök að hafa lánað félaga sínum nafn sitt svo hann gæti keypt bíl. Hafi félaginn ekki staðið við greiðslur af bílnum og hafi hann því setið uppi með bílinn og lánið sem honum fylgi. Það lán sé óuppgert í dag.

Kærandi lýsir því að í sömu viku og bankarnir hafi hrunið hafi hann ásamt félögum sínum ákveðið að loka fasteignasölunni og sameina við Y. Hafi þeir því samið við leigusala og reynt að lágmarka skuldastöðu sína við lánadrottna. Allt hlutafé kæranda hafi þannig tapast en hann hafi tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingar og veitt veð í fasteign sinni þegar hann stofnaði fasteignasöluna. Hafi það verið gert í þeirri von að fasteignasalan myndi skila hagnaði til að geta greitt upp lánin. Kærandi hafi hins vegar setið uppi með þessi lán og án atvinnu í byrjun árs 2009. Hafi hann þá farið á atvinnuleysisbætur og fær þær greiddar enn í dag. Kærandi hafi reynt að semja við flesta lánadrottna sína en án árangurs. Hann hafi þó náð að greiða upp flestar skuldir sínar við skattinn. Hafi hann reynt að ná að standa við aðrar skuldbindingar sínar en það ekki gengið vegna of lágra tekna.

Þann 16. ágúst 2010 sótti kærandi um greiðsluaðlögun en með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 17. febrúar 2011, var umsókn hans synjað þar sem fyrirliggjandi gögn þóttu ekki gefa nægjanlega glögga mynd af fjárhag kæranda árið 2008, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að tekjur kæranda árið 2008, samkvæmt skattframtali 2009, hafi verið að meðaltali 75.314 krónur á mánuði. Þrátt fyrir það hafi allar skuldbindingar kæranda verið í skilum fram til loka árs 2008.

II.

Sjónarmið kæranda

Kærandi mótmælir þeirri niðurstöðu umboðsmanns skuldara að fyrirliggjandi gögn veiti ekki nægjanlega glögga mynd af fjárhag skuldara.

Telur kærandi sig hafa lagt fram öll gögn og það vel. Telur hann sig ekki hafa frekari gögn til að leggja fram og ekki geta búið til upplýsingar um tekjur sem ekki var aflað á tímabilinu.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til b-liðar 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010, en þar kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægjanlega glögga mynd af fjárhag skuldara. Umboðsmaður hafi gefið kæranda tækifæri til að gera grein fyrir því hvernig hann stóð í skilum með skuldbindingar sínar árið 2008 en samkvæmt skattframtali árið 2009 hafi mánaðarlegar tekjur hans verið 75.314 krónur. Mánaðarlegar afborganir af skuldbindingum kæranda hafi hins vegar numið um 155.000 krónum mánaðarlega stærstan hluta ársins en vegna aukinna skuldbindinga hafi mánaðarleg greiðslubyrði skuldbindinga hans verið orðin 195.821 króna í september 2008. Þrátt fyrir lágar tekjur kæranda hafi lán, með mánaðarlegar umsamdar afborganir 104.500 krónur á mánuði, verið í skilum þar til í september 2008, tvö lán, samanlagt með mánaðarlegar afborganir að fjárhæð 48.521 krónu, voru í skilum fram í nóvember 2008 og lán sem hann tók 11. september 2008 að fjárhæð 2.500.000 krónur, með mánaðarlegum afborgunum að fjárhæð 42.800 krónur, var í skilum fram í mars 2009. Þegar kærandi hafi verið beðinn um skýringar á þessu hafi hann svarað því til að „engar tölulegar skýringar væru á þessu“.

Var það því niðurstaða umboðsmanns skuldara að fyrirliggjandi gögn gæfu ekki nægjanlega glögga mynd af fjárhag kæranda á tímabilinu sem um ræðir og því bæri að hafna umsókn hans með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. laganna.

 

IV.

Niðurstaða

Niðurstaða umboðsmanns skuldara byggir sem fyrr segir á b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.), en þar er kveðið á um skyldu til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægjanlega glögga mynda af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 101/2010 segir um þetta ákvæði:

Skv. b-lið skal umsókn hafnað ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Ákvæðið er samhljóða 1. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en þar er þó gert ráð fyrir að ástæðan geti orðið til þess að héraðsdómari hafni beiðni um nauðasamning en í frumvarpinu er kveðið á um skyldu til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar undir þessum kringumstæðum enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Hér er því einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Er hér áréttað eins og víða annars staðar í frumvarpi þessu að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Af framangreindu sést að ekki er skýrt frekar um hvaða tímamark er átt við varðandi fjárhag skuldara í þessum ákvæðum. Í hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns virðist sá skilningur lagður í ákvæðið að fyrir þurfi að liggja glöggar upplýsingar um fjárhag skuldara á þeim tíma sem hann leggur inn umsókn um greiðsluaðlögun, þróun fjárhags hans á greiðsluaðlögunartímanum, sem og hvernig fjárhag skuldara var háttað á því tímabili sem stofnað var til þeirra fjárskuldbindinga sem valda þeim greiðsluerfiðleikum sem hann er í nú.

Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara er rétt að líta til 4. og 5. gr. lge. Í 4. gr. er talið upp í ellefu liðum hvað eigi að koma fram í umsókn um greiðsluaðlögun, auk þess sem henni skulu fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum, vottorð um hjúskaparstöðu og fjölskyldu og skattframtöl síðustu fjögurra ára. Skal í umsókn meðal annars greina sundurliðaðar upplýsingar um eignir skuldara, upplýsingar um fjárhæð skulda, tekjur og mánaðarleg útgjöld. Einnig er gerð krafa um að umsókn fylgi lýsing skuldara á því hvað hafi valdið skuldastöðu hans og af hverju hann telji sér ekki fært að standa að fullu við skuldbindingar sínar. Af ákvæðinu verður ekki ráðið að umsókn þurfi að fylgja nákvæmar upplýsingar um þróun fjárhags skuldara síðustu árin áður en hann leggur inn umsókn um greiðsluaðlögun. Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur hann ef þörf krefur krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum.

Rannsókn á fjárhagssögu skuldara hefur þýðingu bæði við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar. Þó að eitthvað sé óskýrt um það hvernig skuldari fór að því að standa í skilum með skuldbindingar sínar áður en hann lagði inn umsókn um greiðsluaðlögun, verður ekki séð að það eitt og sér geti leitt til þess að umsókn hans verði hafnað á grundvelli 4. og 6. gr. lge.  Eins og hér háttar hefur það út af fyrir sig litla þýðingu að sannreyna hvernig skuldari fór að því að standa í skilum á tilteknu tímabili áður en hann leitaði heimildar til greiðsluaðlögunar nema að því leyti sem háttsemi hans kann að hafa áhrif á núverandi fjárhagsstöðu hans eða þróun hennar til framtíðar. Ef umboðsmaður hefur til dæmis grun um að tekjur hafi verið vantaldar á skattframtali á ákveðnu tímabili þá getur hann eftir atvikum aflað gagna þar að lútandi eða krafist þess að skuldari geri það. Verður ekki séð af gögnum málsins að það hafi verið gert né að tekin sé afstaða til þess hvort að þessi óvissa um samspil tekna og skulda kæranda á framagreindu tímabili hafi áhrif á fjárhagsstöðu skuldara eins og hún er í dag.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að umboðsmaður skuldara geri athugasemdir við þær upplýsingar sem kærandi hefur lagt fram um fjárhagsstöðu sína eins og hún var þegar hann lagði fram umsókn sína um greiðsluaðlögun eða um það hvernig fjárhagur hans muni þróast á greiðsluaðlögunartímanum. Þá eru heldur engar vísbendingar um það í málinu  hvort eða á hvern hátt sú staðreynd að kærandi stóð í skilum með tiltekin lán á árunum 2008 og 2009, geti mögulega haft áhrif á fjárhagstöðu hans nú eða væntanlega þróun hennar á næstu árum.

Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að hafna umsókn A um heimild til greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta