Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 6/2011

Greiðsluaðlögun.

Mánudaginn 4. júlí 2011.

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 23. febrúar 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 9. febrúar 2011, þar sem umsókn hans um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi, dags. 1. mars 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 23. mars 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 29. mars 2011, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með tölvupósti, dags. 28. júní 2011.

I.

Málsatvik

Kærandi lýsir aðstæðum sínum þannig að upphaf fjárhagserfiðleika hans sé að rekja til ársins 2001 þegar hann ákvað að hefja nám í landslagsarkitektúr í Danmörku. Hafði hann áður starfað sjálfstætt við garðyrkju og hellulagnir frá árinu 1999 og safnaði á þeim tíma skattaskuld sem enn sé ógreidd að hluta.

Kærandi hafi notað allt sitt sparifé til þess að greiða fyrir flutning fjölskyldunnar til Danmerkur og ætlað að nota námslánin til þess að greiða skattaskuldina. Það hafi ekki gengið eftir þar sem fyrsti veturinn fór forgörðum vegna verkja og eymsla eftir bílslys sem kærandi lenti í skömmu áður en hann hóf nám. Afleiðingar slyssins leiddu einnig til þess að kærandi varð að segja upp starfi við garðyrkju og hellulagnir sumarið 2002 og hafi ekki getað ekki unnið við það milli námsára allan námstímann.

Kærandi hafi greitt af skattaskuld sinni í þrjú ár eða þangað til hann tók lán hjá viðskiptabanka sínum í Danmörku til þess að greiða upp skuldina. Hafi hann tekið skilyrt lán sem var greitt beint til skatt- og tollyfirvalda í Danmörku, en þeim hafði verið falið að innheimta skuldina. Hafi hann fengið kvittun um fullnaðargreiðslu skuldarinnar. Síðar hafi komið á daginn að lánið hafi ekki dugað til þess að greiða alla skuldina þrátt fyrir að fjárhæð lánsins hafi verið fengin frá dönskum skatt- og tollyfirvöldum. Því hafi eftirstöðvar skuldarinnar safnað vöxtum án vitundar kæranda í tvö ár. Kærandi hafi árangurslaust reynt að fá núverandi skuld lækkaða á grundvelli þessara mistaka en ekki gengið.

Kærandi hafi flutt heim ásamt fjölskyldu sinni haustið 2007 og hafið störf hjá verkfræðistofu í 50% starfi þar sem hann átti eftir að ljúka mastersritgerð sinni. Þáverandi eiginkona hans hafi verið með tilboð um vinnu en þeim gengið illa að finna dagvistun fyrir yngstu börnin sín tvö sem leiddi til þess að hún gat ekki farið út á vinnumarkaðinn fyrr en kærandi og kona hans fengu dagvistun fyrir yngsta barn þeirra í apríl 2008. Hafi kærandi því fljótlega lagt ritgerðina á hilluna og farið í 100% starf en það hafi dugað skammt þar sem hann var eina fyrirvinnan á heimilinu. Hafi þau meira og minna lifað á yfirdrætti veturinn 2007–2008.

Haustið 2008 hafi kreppan skollið á og starfshlutfall kæranda verið minnkað niður í 70% og eiginkona hans misst vinnuna. Hafi verkefnastaða hans í vinnunni verið léleg og starfshlutfall oft farið niður fyrir 50%. Kærandi og kona hans hafi þurft að forgangsraða fjármunum sínum en þau hafi frekar viljað verja peningunum til reksturs heimilisins og því hafi afborganir af skuldbindingum setið á hakanum. Eiginkona hans fékk aftur tímabundið starf vorið 2009 og var komin í fullt starf þá um haustið. Hafi kærandi misst vinnuna endanlega þá í ágúst og aðeins fengið tímabundin verkefni eftir það auk þess að hafa starfað sem sjálfboðaliði fyrir leikskóla og grunnskóla í hverfinu.

Í kjölfar þess hafi hann og kona hans skilið og sé hann þess vegna tímabundið heimilislaus en hann hefur fengið að gista hjá systur sinni.

Í gögnum málsins er að finna umsókn um greiðsluaðlögun, undirritaða af kæranda, dags. 30. mars 2010, ásamt ítarlegri greinargerð og staðfestingu á vinnslu umsóknar, dags. 14. ágúst 2010. Þar er einnig að finna ódagsett bréf þar sem skorað er á kæranda að leggja fram nánar tilgreind gögn og honum veittur viku frestur frá móttöku bréfsins til að skila umbeðnum gögnum. Þann 9. febrúar er umsókn hans synjað á grundvelli þess að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægjanlega glögga mynd af fjárhag kæranda, skv. b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

 

II.

Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi sótt um sértæk greiðsluúrræði hjá forvera umboðsmanns skuldara, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, og þar hafi hann lagt fram öll umbeðin gögn. Ekki hafi verið gerð athugasemd við að gögn vantaði fyrr en um ári eftir að umsóknin var lögð inn.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í greinargerð umboðsmanns kemur fram að kærandi hafi lagt inn umsókn um greiðsluaðlögun 17. ágúst 2010 og umsókn hans hafi verið tekin til vinnslu í nóvember sama ár. Í umsókn hafi komið fram takmarkaðar upplýsingar um skuldir og tekjur kæranda.

Umsókn kæranda hafi verið tekin til afgreiðslu 9. febrúar 2011 og hafi borið við mat á umsókninni að líta til atriða sem komið geta í veg fyrir að umsókn verði samþykkt skv. 6. gr. lge. Í b-lið 1. mgr. ákvæðisins skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara.

Af gögnum málins megi ráða að umsækjandi hafi stofnað til umtalsverðra skulda allt frá árinu 1999 en hvorki gefið nánari skýringar né lagt fram gögn sem varpað geti skýrara ljósi á fjárhag hans á umræddum tíma. Þá hafi ekki verið lögð fram gögn um fjárskipti hans og konu hans, meðlagsgreiðslur eða hvernig húsnæðismálum hans verði háttað í framtíðinni þrátt fyrir að eftir því hafi verið leitað. Hafi því umboðsmanni borið að synja umsókn hans með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

 

IV.

Niðurstaða

Niðurstaða umboðsmanns skuldara byggir eins og fram hefur komið á b-lið 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, en þar er kveðið á um skyldu til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægjanlega glögga mynda af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 101/2010 segir um þetta ákvæði:

Skv. b-lið skal umsókn hafnað ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Ákvæðið er samhljóða 1. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en þar er þó gert ráð fyrir að ástæðan geti orðið til þess að héraðsdómari hafni beiðni um nauðasamning en í frumvarpinu er kveðið á um skyldu til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar undir þessum kringumstæðum enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Hér er því einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Er hér áréttað eins og víða annars staðar í frumvarpi þessu að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Af gögnum málins er ljóst að talsvert vantar upp á upplýsingagjöf kæranda, meðal annars varðandi skilnað hans og fyrrverandi eiginkonu hans. Í gögnum málsins er ekki að finna leyfi til lögskilnaðar, samning um fjárskipti þeirra eða ákvörðun um meðlagsgreiðslur vegna barna þeirra. Er ljóst að til þess að unnt sé að leggja mat á fjárhagslega stöðu kæranda þarf að liggja ljóst fyrir hvernig eignum og skuldum sé skipt og hvort og þá hversu hátt meðlag hann komi til með að greiða.

Í gögnum málins er að finna nokkra tölvupósta þar sem skorað er á kæranda að leggja fram skilnaðarsamning sinn og fyrrverandi eiginkonu sinnar og honum bent á að fjárhagsstaða hans sé óljós að þessu leyti og muni umsókn hans vera synjað sé gögnunum ekki skilað. Er sá fyrsti dagsettur 19. nóvember 2010, annar dagsettur 20. janúar 2011 og sá þriðji dagsettur 26. janúar sama ár og er honum þar gefinn þriggja daga frestur til að skila inn umbeðnum gögnum. Hafði kærandi því að minnsta kosti haft tæplega fjóra mánuði til þess að skila inn umbeðnum gögnum þegar umsókn hans var tekin til formlegar afgreiðslu þann 9. febrúar 2011. Verður að telja það nægjanlegan tíma til þess að útvega umbeðin gögn auk þess sem kæranda mátti vera ljóst að upplýsingarnar skiptu miklu varðandi mat á fjárhagsstöðu hans. Við meðferð málsins hjá kærunefndinni hefur kærandi hvorki gefið skýringar á því hvers vegna hann ekki hafi lagt fram umbeðin gögn né heldur bætt úr þessum ágalla á umsókn sinni.

Er því tekið undir með umboðsmanni skuldara að ekki sé hægt að leggja fullnægjandi mat á fjárhagsstöðu skuldara á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta