Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 10/2011

Greiðsluaðlögun.

Miðvikudaginn 31. ágúst 2011

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 21. mars 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, en kærandi tilkynnti að hún hygðist leggja inn kæru símleiðis þann 18. mars 2011. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 4. mars 2011, þar sem umsókn hennar um greiðsluaðlögun er hafnað.

Með bréfi, dags. 24. mars 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 8. apríl 2011.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 13. apríl 2011, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda í bréfi, dags. 2. maí 2011. Í þeim athugasemdum komu fram nánari skýringar sem nefndin taldi rétt að fá afstöðu umboðsmanns skuldara til og voru þær sendar embættinu með bréfi, dags. 15. júlí 2011. Svar umboðsmanns barst kærunefnd 29. júlí sama ár.

I.

Málsatvik

Kærandi lýsir aðstæðum sínum þannig að ástæður fjárhagsvanda hennar megi rekja til gjaldþrots X ehf. Kærandi hafi verið stjórnarformaður fyrirtækisins, en fyrrverandi eiginmaður hennar, sem sé múrarameistari, hafi séð um faglegu hlið þess og sonur þeirra hafi verið fjármálastjóri. Þau hafi verið bjartsýn á reksturinn og fjárfest í húsi, bifreiðum og hjólhýsi. Þó hafi farið að bera á verkefnaskorti árið 2008 og erfiðlega hafi gengið að fá greitt fyrir stórt verkefni sem þau hafi unnið. Var höfðað mál vegna verksins sem tapaðist að mestu, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. Y sem kveðinn var upp Y. júlí 2010. Hafi það leitt til þess að félagið var úrskurðað gjaldþrota að beiðni tollstjóra þann 8. september 2010.

Í yfirliti frá tollstjóra kemur fram að fyrirtækið X ehf. hafi ekki staðið skil á vörslusköttum og öðrum opinberum gjöldum árin 2007–2010 og nemi vangoldin gjöld vegna virðisaukaskatts, staðgreiðslu og tryggingagjalds ásamt þing- og sveitarsjóðsgjöldum samtals 50.545.725 krónum.

Kærandi starfar nú sem stuðningsfulltrúi í grunnskóla og telur hún að tekjulækkun, skilnaður og það sem að framan greinir séu helstu ástæður greiðsluvanda hennar núna.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að heildarskuldir kæranda, að undanskildum ábyrgðarskuldbindingum, nemi 31.619.545 krónum en þær séu að mestu leyti tilkomnar vegna fasteignakaupa árið 2006 en hún er skráð skuldari af láni hjá Íbúðalánasjóði ásamt syni sínum og nemur hennar hlutur 19.366.417 krónum. Meðaltekjur kæranda árin 2006–2008 voru 236.000 krónur á mánuði og áætlaðar heildartekjur hennar nú eru 271.137 krónur á mánuði.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 4. mars 2011, var umsókn kæranda um greiðsluaðlögun synjað á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Taldi umboðsmaður að óhæfilegt væri að veita kæranda greiðsluaðlögun þar sem kærandi hafi bakað sér talsverðar skuldir með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu og vísar þá til umræddra skattskulda en kærandi var skráð framkvæmdastjóri, stjórnarformaður og prókúruhafi í félaginu.

 

II.

Sjónarmið kæranda

Kærandi mótmælir því mati umboðsmanns að óhæfilegt sé að veita henni greiðsluaðlögun á grundvelli heimildarákvæðis í 2. mgr. 6. gr. lge.

Kærandi segir að fjárhæð skattskuldar sé ekki réttilega tilgreind í ákvörðun. Mikið af skuldinni sé byggt á áætlunum og á ekki við rök að styðjast. Meðal annars séu þing- og sveitarstjórnargjöld fyrir árin 2009 og 2010 röng, en gjöldin eigi að vera kredit vegna tapreksturs félagsins en það hætti rekstri árið 2010. Einnig séu áætluð gjöld á félagið fyrir árið 2011 sem ekki geti staðist þar sem félagið var tekið til gjaldþrotaskipa um mitt ár 2010. Fjármagnstekjuskattur sé byggður á áætlunum og eigi ekki við rök að styðjast. Virðisaukaskattur vegna ársins 2010 sé heldur ekki á rökum reistur enda hafi engin starfsemi verið í félaginu það ár.

Þá sé því mótmælt að skuldin sé veruleg miðað við fjárhag kæranda. Kærandi mótmælir því mati umboðsmanns að háttsemi hennar sé refsiverð, en saknæmisskilyrði skorti að mati umsækjanda til að svo sé. Þá verði ekki leyst úr því hvort háttsemi hennar sé refsiverð hjá umboðsmanni skuldara.

Þá eigi eftir að afskrifa viðskiptaskuld sem ekki fékkst greidd en um hana vísast til dóms Héraðsdóms Reykjaness frá Y. júlí 2010 í máli nr. Y. Samkvæmt dómnum hafi fyrirtækið þurft að gefa eftir 12.893.205 krónur auk 4.244.492 krónu afsláttar af verkinu sem fyrirtækið hafi boðið til að leita sátta áður en málið fór fyrir dómstóla. Skattskuldin miðist meðal annars við útgefna reikninga vegna þessa verks sem ekki hafi fengist greiddir og fást ekki greiddir að fullu á grundvelli niðurstöðu héraðsdóms.

Einnig hafi sett strik í reikninginn að Landsbankinn hafi týnt skuldabréfi sem verkkaupi hafi gefið út til þeirra til tryggingar skilvísum greiðslum á verkinu. Greiðslur hafi borist seint og illa og þegar þau hafi ætlað að innheimta skuldabréfið hafi komið í ljós að það hafi týnst í miðju bankahruninu.

Þá hafi kærandi ekki verið ein um að greiða af skuldbindingum sínum, heldur hafi fyrrverandi eiginmaður hennar einnig tekið þátt í að greiða af skuldbindingunum, þó þær hafi allar verið á hennar nafni þar sem hann varð gjaldþrota.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Synjun umboðsmanns skuldara byggist á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. en þar segir að heimilt sé að synja skuldara um greiðsluaðlögun hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Þurfi skuldbindingin að vera nokkuð stór hluti af heildarskuldbindingum skuldara. Vísar umboðsmaður í því samhengi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 sem fjallaði um sambærilegt ákvæði sem þá var að finna í lögum um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991. Þar var niðurstaðan sú að synja ætti um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar þar sem fjárhæð vangreidds virðisaukaskatts þótti allhá miðað við fjárhag skuldara eða 8,3% af heildarskuldum hans.

Hér sé um að ræða að vangoldnir vörsluskattar og önnur opinber gjöld nema samtals 50.545.725 krónum og hafi kærandi sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður félagsins borið ábyrgð á því að standa skil á vörslusköttum og öðrum opinberum gjöldum fyrir hönd félagsins, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, 1. og 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 1., 2. og 9. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Megi því til stuðnings einnig vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 659/2009 en þar hafi ákærða, sem framkvæmdastjóra, stjórnarmanni og prókúruhafa, verið gerð refsing fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum né virðisaukaskatti fyrir hönd félagsins.

Þá hafi kærandi stofnað til talsverðra skuldbindinga í eigin nafni á árunum 2006–2008 þegar tekjur hennar voru að meðaltali um 236.000 krónur á mánuði. Námu umsamdar mánaðarlegar greiðslur vegna þeirra 186.584 krónum og var þá ekki tekið tillit til gjaldfallinna kreditkortaskulda, bifreiðagjalda, annarra krafna á hendur skuldara og framfærslu fjölskyldunnar. Voru því skuldbindingar hennar einnig umfram greiðslugetu hennar og hefði því þá þegar á grundvelli b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. átt að synja henni um heimild til greiðsluaðlögun burtséð frá skuldbindingum vegna félagsins.

Kærandi hafi borið því við í kæru að skattskuldin vegna félagsins sé ranglega tilgreind en hefur ekki lagt fram frekari gögn máli sínu til stuðnings og verði því að styðjast við yfirlit frá tollstjóra.

Varðandi þá fullyrðingu kæranda að skuldin geti ekki talist veruleg miðað við fjárhag hennar segir umboðsmaður að skuldin nemi 48% af heildarskuldum kæranda og með vísan til framangreinds dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 verði það að teljast verulegur hluti heildarskulda kæranda. Hvað varðar það hvort háttsemi kæranda teljist refsiverð eða ekki vísar umboðsmaður til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Í svari umboðsmanns skuldara við athugasemdum kæranda, dags. 29. júlí sl., kemur fram að umboðsmaður geti í sjálfu sér fallist á að virðisaukaskattsáætlanir sem fallið hafi til eftir að félagið hætti rekstri eigi ekki að koma til skoðunar í málinu. Þrátt fyrir það sé stærstur hluti skulda X ehf. kominn til fyrir það tímamark. Jafnvel þó litið sé framhjá þeim skuldum sem kærandi mótmæli og tekið sé tillit til hugsanlegrar lækkunar kröfunnar vegna afskrifta á kröfum, þá sé ljóst að ekki hafi verið staðið skil á verulegum fjárhæðum vegna vörsluskatta. Þar af leiðandi sé það enn mat umboðsmanns skuldara að synja beri kæranda um greiðsluaðlögun af þeim sökum.

 

IV.

Niðurstaða

Í máli þessu er annars vegar deilt um hversu há skattskuld kæranda sé og hins vegar hvort hún teljist vera verulegur hluti skulda hennar í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt framagreindum lið er heimilt að synja skuldara um greiðsluaðlögun teljist óhæfilegt að veita hana enda hafi hann bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Framangreint ákvæði lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaganna, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei. Í máli þessu er óumdeilt að hluti skattskulda kæranda felst í ógreiddum virðisaukaskatti og staðgreiðslu vegna starfsemi einkahlutafélags þar sem kærandi gegndi stöðu framkvæmdastjóra, stjórnarformanns og prókúruhafa. Ber hún stöðu sinnar vegna ábyrgð á greiðslu umræddra skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1944. Samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, getur slík háttsemi varðað refsingu.

Samkvæmt upplýsingum kæranda sem fram koma í athugasemdum hennar, dags. 2. maí 2011, nemur skuld X ehf. vegna vangoldinna skatta, samtals 25.028.617 krónum. Er þessi skuld ein og sér nánast jafn há öllum persónulegum skuldum kæranda en þær nema samkvæmt skuldayfirliti samtals 31.619.545 krónum. Skattskuldir kæranda nema því um 44% af heildarskuldum hennar. Sé miðað við upplýsingar frá tollstjóra nemur heildarskattskuld kæranda 50.545.725 krónum eða tæplega 62% af heildarskuldum hennar. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, sem umboðsmaður skuldara vísar til í rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni, var vangreiddur virðisaukaskattur sem nam um 8,3% af heildarskuldum skuldara talinn allhá fjárhæð miðað við fjárhag skuldara og leiddi það til þess að skuldara var synjað um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, með vísan til 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d þágildandi laga um gjaldþrotaskipti.

Með hliðsjón af framangreindu er fallist á það með umboðsmanni skuldara að kærandi hafi bakað sér skuldbindingu svo einhverju nemi miðað við fjárhag hennar, sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Verður ákvörðun umboðsmanns um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta