Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 132/2013

Fimmtudaginn 3. desember 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 2. september 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 16. ágúst 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 13. september 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. október 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 31. október 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1956 og er einstæður. Ekki er vitað um dvalarstað hans, en hann leigir út 106 fermetra íbúð sína að B götu nr. 5 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er atvinnulaus og fær greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 27.571.106 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2007.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til skilnaðar, atvinnuleysis og tekjulækkunar.

Umsókn kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar barst umboðsmanni skuldara 28. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 6. febrúar 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum hans.

Skipaður umsjónarmaður kæranda sendi umboðsmanni skuldara greinargerð 3. janúar 2013. Þar kom fram að kærandi leigði út íbúð sína fyrir 160.000 krónur á mánuði. Hann byggi í herbergi sem hann hefði á leigu og greiddi fyrir það 40.000 krónur á mánuði. Kærandi fengi einnig greiddar atvinnuleysisbætur. Reiknaðist umsjónarmanni til að samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. hefði kærandi átt að geta lagt til hliðar 2.032.578 krónur á þeim 18 mánuðum sem hann hefði notið frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Umsjónarmaður hefði ítrekað reynt að hafa upp á kæranda til að fá upplýsingar um sparnað hans. Ekki væri vitað hvar kærandi væri niðurkominn og ekki hefði náðst í hann í síma. Fyrirliggjandi upplýsingar bentu þó ekki til þess að kærandi hefði rækt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Ekki sé mögulegt fyrir umsjónarmann að gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun þegar ekki náist í skuldara og ekki sé vitað hvort og þá hve mikið hann hafi lagt til hliðar á tímabili greiðsluskjóls, enda skuli frumvarp samið í samráði við skuldara samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. Af þessum sökum lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf á lögheimili hans 28. júní og 7. ágúst 2013 þar sem honum var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunar. Engin svör bárust.

Með ákvörðun 16. ágúst 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 15. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans þannig að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi segist hafa verið í áfengismeðferð og því hafi hann ekki fengið gögn í málinu. Hann kveðst hafa vilja til að semja um skuldir sínar og biður um annað tækifæri til þess.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 6. gr. lge. séu tilteknar þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segi að skylt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Umsjónarmaður hafi gert ítrekaðar tilraunir til að ná sambandi við kæranda og einnig hafi kæranda verið send tvö ábyrgðarbréf en án árangurs.

Eigi umsjónarmanni að vera unnt að gera drög að raunhæfu frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun verði hann meðal annars að hafa upplýsingar um hvort kærandi hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja til hliðar fé í greiðsluskjóli. Því verði að leggja þær skyldur á kæranda að hann sýni samstarfsvilja og leggi fram þau gögn sem óskað sé eftir og máli skipti við gerð frumvarps. Sérstaklega eigi þetta við þegar óskað sé eftir gögnum sem kærandi einn geti veitt eða varði afstöðu kæranda sjálfs til atriða er varða greiðsluaðlögunar-umleitanir. Upplýsingar um sparnað í greiðsluskjóli og búsetu verði að telja upplýsingar sem umsjónarmanni sé ómögulegt að afla án atbeina kæranda.

Kærandi kveðist ekki hafa fengið gögn í málinu þar sem hann hafi verið í áfengismeðferð. Embætti umsjónarmanns telji þó að honum hafi verið í lófa lagið að afhenda umsjónarmanni þau gögn sem óskað hafi verið eftir. Það sé einnig eðlileg krafa að þeir sem hafi fengið heimild til greiðsluaðlögunar láti embættið eða umsjónarmann sinn vita ef þeir eru fjarverandi í lengri tíma á meðan unnið er að frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun.

Því verði að telja að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 15. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Í 15. gr. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Umboðsmaður skuldara telur að svo að unnt sé að halda greiðsluaðlögunarumleitunum áfram þurfi kærandi meðal annars að leggja fram upplýsingar um sparnað sinn í greiðsluskjóli samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. eða gögn er sýni fram á útgjöld sem hafi verið nauðsynleg til að sjá kæranda farborða á tímabilinu. Í samræmi við þetta sendi embættið kæranda tvö bréf, annað þeirra 28. júní 2013 og hitt 7. ágúst 2013 þar sem meðal annars var óskað eftir gögnum um sparnað eða óvænt útgjöld á tímabilinu. Í bréfinu frá 7. ágúst 2013 kom fram að þar sem ekki hefði náðst í kæranda skorti upplýsingar um hvort hann hefði uppfyllt skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. Væri fjárhagur kæranda því óglöggur í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Í bréfinu var kæranda gefinn einnar viku frestur til að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort greiðsluaðlögunarumleitanir hans yrðu felldar niður á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Í skýringum með frumvarpi til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur ekki gefið upplýsingar um sparnað sinn í greiðsluskjóli og ekki liggur fyrir hvort hann hafi orðið fyrir óvæntum útgjöldum í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. á tímabilinu. Eins og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun voru umræddar upplýsingar taldar nauðsynlegar til þess að unnt yrði að fá skýra mynd af fjárhag kæranda, en sá gagnaskortur var talinn standa í vegi fyrir því að nægilega glögg mynd fengist af fjárhag kæranda. Engar upplýsingar liggja fyrir um dvalarstað kæranda.

Með hliðsjón af því sem fram hefur komið telur kærunefndin að skort hafi á að kærandi legði fram nauðsynleg gögn til að unnt væri að fá nægilega glögga mynd af fjárhag hans eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar svo sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. áskilur. Jafnframt var nauðsynlegt að kærandi legði fram gögn um sparnað á tímabili greiðsluskjóls. Einnig er atbeini kæranda og samstarf við hann nauðsynlegt til að unnt sé að semja frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. Ekki hefur tekist að hafa upp á kæranda og því hefur ekki verið unnt að hafa við hann nauðsynlega samvinnu til frumvarpsgerðar svo sem áskilið er.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta