Mál nr. 11/2011
Fimmtudaginn 20. október 2011
A og B
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.
Þann 21. mars 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 7. mars 2011, þar sem umsókn þeirra um greiðsluaðlögum er hafnað.
Með bréfi, dags. 24. mars 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 8. apríl 2011.
Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi, dags. 13. apríl 2011, og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kærendum.
Óskað var eftir frekari upplýsingum frá umboðsmanni skuldara þann 12. september 2011 og bárust svör umboðsmanns með tölvupóstum, dags. 16. og 20. september 2011.
I.
Málsatvik
Kærendur lýsa aðstæðum sínum þannig að fjárhagserfiðleika þeirra sé að rekja til þess að byggingafyrirtæki þeirra, X ehf., varð gjaldþrota í kjölfar skorts á verkefnum eftir hrunið 2008. A starfar sem leikskólakennari en A er húsasmíðameistari og starfar sem slíkur. Þau búa ásamt börnum sínum tveimur, 13 og 15 ára, í einbýlishúsi í sveitarfélaginu C
A hafi rekið byggingafyrirtækið X ehf. til margra ára og hafði allt að átta manns í vinnu. Í október 2008 hafi rekstrargrundvöllur fyrirtækisins versnað, allur kostnaður hækkaði, verkefnum fækkaði og fækka varð starfsfólki. A hafi ekki fengið útborguð laun frá maí til nóvember 2009 þegar félagið var úrskurðað gjaldþrota. Kærendur hafi verið í nokkrum ábyrgðum fyrir félagið. Í október sama ár hafi kærendur stofnað félagið Y ehf. sem A starfar nú hjá.
Þá hafi þau einnig tekist á hendur talsverðar skuldbindingar vegna byggingar einbýlishúss þeirra, sem þau búa í núna, á árunum 2005–2006, en byggingin hafi orðið dýrari en áætlað var. Var hún fjármögnuð að mestu leyti með lánum en þau hafi þó lagt fram um 4.000.000 króna í eigin fé sem þau hafi átt í kjölfarið á sölu á annarri eign. Telja kærendur að kostnaður þeirra vegna byggingar hússins sé á bilinu 25–30.000.000 króna.
Aðrar skuldir kæranda séu til komnar vegna hesthúss sem A eigi helmingshlut í á móti öðrum manni, lán vegna bílakaupa og lán sem tekið hafi verið til byggingaframkvæmda á fasteign að D-götu nr. 6 í sveitarfélaginu E. A sé skráður fyrir síðastnefnda láninu en X ehf. hafi séð um framkvæmdina. Til hafi staðið að selja eignina með hagnaði að framkvæmdum loknum. Það hafi ekki gengið eftir og var eignin seld á nauðungaruppboði árið 2010.
Kærendur lögðu inn umsókn um greiðsluaðlögun þann 9. ágúst 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 7. mars 2011, var umsókn þeirra synjað með vísan til þess að þau hafi tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.), sem leiddi til þess að umboðsmanni þótti óhæfilegt veita heimild til greiðsluaðlögunar.
II.
Sjónarmið kærenda
Kærendur telja að margt í ákvörðun umboðsmanns sé ekki rétt skráð eða hafi með einhverjum hætti misfarist. Í fyrsta lagi séu margar af skuldum þeirra komnar til vegna sjálfskuldarábyrgða fyrir X ehf. en þau telja ekki rétt að taka þær með í reikninginn þar sem um sé að ræða kröfur á hendur gjaldþrota fyrirtæki.
Varðandi D-götu nr. 6 telja kærendur það ekki hafa verið áhættusama fjárfestingu enda hafi allar forsendur verið fyrir hendi til að það gengi að selja húsið með hagnaði og ekkert sem benti til annars. Nú hafi Íbúðalánasjóður hins vegar látið selja eignina nauðungarsölu.
Varðandi hesthúsið í helmingseigu A, þá hafi verið hætt að greiða af því láni árið 2009 þar sem enginn leigjandi fékkst að húsinu. Þá hafi afborganir verið orðnar svo háar að leigutekjur hefðu ekki staðið undir þeim. Nú sé búið að endurreikna það lán og hafi það þá lækkað um 11.353.166 krónur. Persónulegar skuldir þeirra séu í raun 26.866.317 krónum lægri en greinir í ákvörðun umboðsmanns.
Þá sé ekki getið um hlutabréfaeign þeirra í eigin fyrirtækjum í ákvörðun umboðsmanns en samkvæmt skattframtölum nemur hún 1.567.000 krónum auk þess sem þau hafi selt einn vélsleða og tvö torfæruhjól til þess að greiða niður skuldir. Þau hafi hins vegar viljað einblína á persónulegar skuldir sínar vegna húsnæðis og bíls en þær eru samtals 43.000.000 króna. Hafi þau lagt áherslu á að standa í skilum með þær.
Undanfarin ár hafi þau verið að byggja sér hús sem hafi kostað sitt og þar af leiðandi sé fjárhagsstaða þeirra ekki sterk. Þau hafi þó alltaf náð endum saman meðan nóg var að gera og bjart framundan í byggingariðnaðinum. Húsið hafi verið metið á 40.950.000 krónur í júlí 2006 og hjá fasteignasala upp á 53.000.000 króna. Þau telja sig því ekki hafa verið að gera neitt rangt enda hafi enginn varað þau við og bankarnir héldu áfram að lána. Bankahrunið hafi komið þeim sérstaklega illa með öllum þeim hækkunum sem því fylgdi auk þess sem fótunum var kippt undan rekstri byggingafyrirtækisins á einni nóttu. Finnst þeim ekki hafa verið tekið nægjanlegt tillit til þess við vinnslu umsóknar þeirra.
III.
Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns kemur fram að heildarskuldir kærenda sem falla innan samnings um greiðsluaðlögun séu 95.205.385 krónur.
Í nóvember 2008 hafi A fest kaup á fasteigninni að D-götu nr. 6 fyrir 20.000.000 króna. A hafi gefið út veðskuldabréf til Íbúðalánasjóðs til þess að fjármagna byggingaframkvæmdir á eigninni að fjárhæð 13.628.946 krónur. Samanlagðar meðaltekjur kærenda árið 2008, þ.e. útborguð laun og aðrar tekjur að frádregnum sköttum og gjöldum, voru 386.731 króna á mánuði. Þó hafi tekjur þeirra verið hærri seinni hluta árs en í nóvember 2008 voru samanlagðar tekjur þeirra 500.066 krónur. Auk þess hafi kærendur haft tekjur af útleigu á hesthúsi í eigu A þó þær tekjur komi ekki fram á skattframtali.
Fram að því tímamarki höfðu kærendur stofnað til umtalsverðra skuldbindinga. Í fyrsta lagi með útgáfu skuldabréfs til Sparisjóðs Vestmannaeyja, upphaflega að fjárhæð 4.500.000 krónur, í öðru lagi með útgáfu skuldabréfs til Byrs hf. að fjárhæð 1.840.000 krónur og í þriðja lagi með gerð bílasamnings við SP-fjármögnun að fjárhæð 4.610.256 krónur. Í fjórða og fimmta lagi með útgáfu tveggja skuldabréfa til Íbúðalánasjóðs að samanlagðri fjárhæð 18.000.000 króna. Í sjötta lagi með útgáfu veðskuldabréfs til Glitnis hf. að fjárhæð 3.000.000 króna, í sjöunda lagi með gerð raðgreiðslusamnings við Byr hf. og í áttunda lagi með útgáfu veðskuldabréfs til LÍN. Í níunda lagi með útgáfu skuldabréfs til Frjálsa fjárfestingabankans hf. að fjárhæð 10.500.000 krónur. Samanlögð mánaðarleg greiðslubyrði skuldbindinga kærenda var í nóvember 2008 orðin 361.253 krónur án tillits til skuldbindingarinnar vegna D-götu nr. 6, en umsamdar mánaðarlegar afborganir af láni tengdu þeim kaupum voru 87.089 krónur. Á sama tíma tókust kærendur á hendur ábyrgðarskuldbindingar fyrir X ehf. bæði með því að veita veð í íbúðarhúsi sínu og með sjálfskuldarábyrgðum.
Þegar litið sé til fjárhags umsækjenda á sama tíma og þau stofnuðu til fjárhagslegra skuldbindinga sinna, bæði persónulega og fyrir félag sitt, sé ljóst að kærendur hafi ekki haft nægjanlegar tekjur til að standa undir framfærslu fjölskyldunnar auk greiðslubyrði skuldbindinga þeirra. Fjárhagsstaða X ehf. hafi á sama tíma verið slæm, eiginfjárstaða þeirra ekki sterk og greiðsluerfiðleikar þegar farnir að segja til sín.
Í ákvörðun sinni segir umboðsmaður að í nóvember 2008 hafi tekjur kærenda ekki verið nægar til að standa undir framfærslu fjölskyldunnar að viðbættri greiðslubyrði þeirra skuldbindinga sem þau þegar höfðu tekist á hendur. Á sama tíma hafi fjárhagsstaða X ehf. verið slæm, eiginfjárstaða kærenda ekki sterk og þá þegar farið að bera á greiðsluerfiðleikum hjá þeim. Með hliðsjón af þessu taldi umboðsmaður að með því að bæta enn við skuldsetningu sína, með útgáfu veðskuldabréfs nr. 1004-74-502746 til Íbúðalánasjóðs þann 19. nóvember 2008, hafi kærendur tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma.
Í greinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 8. apríl 2011, kemur fram að ákvörðun um synjun sé byggð meðal annars á c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita skuldara heimild til að leita greiðsluaðlögunar beri meðal annars að líta til þeirrar dómaframkvæmdar sem komin var á þágildandi ákvæði gjaldþrotalaga um greiðsluaðlögun í 2. og 3. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga nr. 21/1991. Í athugasemdum með c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að Hæstiréttur hafi túlkað ákvæðið á þann hátt að líta beri til eignastöðu skuldara svo og tekna hans á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað. Þá eigi þær ástæður sem varðað geti synjun og tilgreindar séu í 2. mgr. 6. gr. það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.
Í máli þessu hafi umsækjendur tekist á hendur umtalsverðar skuldbindingar á árinu 2008 á sama tíma og farið var að bera á vanskilum hjá þeim og verkefnaskortur hjá fyrirtæki þeirra orðinn viðvarandi. Verður því að telja að kærendur hafi verið meðvitaðir um fjárhagsstöðu sína og að hún hafi verið orðin þröng á framangreindu tímamarki. Þrátt fyrir það hafi þau tekist á hendur frekari skuldbindingar sem voru í engu samræmi við fjárhagsstöðu þeirra.
Telur umboðsmaður því að ekki verði hjá því komist að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Með tölvupósti, dags. 12. september 2011 óskaði kærunefndin eftir nánari gögnum og upplýsingum í málinu frá umboðsmanni skuldara. Meðal annars var farið fram á að umboðsmaður upplýsti hvaða gögn hann hefði aflað varðandi D-götu nr. 6 bæði varðandi kaupin sjálf og ráðstöfun söluandvirðis eignarinnar eftir að eignin var seld nauðungarsölu. Í svari umboðsmanns kemur fram að við rannsókn málsins hafi ekki verið leitast við að greina nákvæmlega milli kaupa á fasteigninni og framkvæmda við hana enda var það talið skipta litlu hvort fjármunum var varið til kaupa eða framkvæmda. Einnig segir: „Undirritaður fær ekki séð hvernig upplýsingar um söluandvirði eignarinnar á nauðungarsölunni og hvernig þeim fjármunum var varið geti haft áhrif við mat á því hvort heimfæra skuli athafnir umsækjenda á c-lið 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010. Enda mælir síðastnefnt ákvæði fyrir um að meta skuli fjárhagsstöðu umsækjenda á því tímamarki sem þeir stofna til umræddrar skuldbindingar.“
IV.
Niðurstaða
Synjun umboðsmanns byggir á því að óhæfilegt hafi verið að veita kærendum greiðsluaðlögun í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge., meðal annars með vísan til þess að þau hafi tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu kærenda.
Í rökstuðningi umboðsmanns varðandi hina fjárhagslegu áhættu kærenda vísar umboðsmaður fyrst og fremst til háttsemi þeirra í nóvember 2008 þegar þau festu kaup á fasteigninni D-götu nr. 6 og tóku á sama tíma lán hjá Íbúðalánasjóði upp á rúmlega 13,6 milljónir króna. Segir í niðurstöðu umboðsmanns orðrétt að „[m]eð hliðsjón af eðli og umfangi skuldbindingarinnar sem fólst í útgáfu veðskuldabréfs nr. 1004-74-502746, að því að umsækjendum láðist að telja leigutekjur vegna hesthússins fram til skatts, og með tilliti til annarra atvika málsins, er það mat umboðsmanns að óhæfilegt sé að veita umsækjendum greiðsluaðlögun“.
Það er við þessa niðurstöðu að athuga að hún ber ekki með sér að umboðsmaður hafi litið heildstætt til allra atvika málsins og rannsakað fjárhagsstöðu kærenda í heild þegar mat var lagt á það hvort þau hafi farið óhæfilega með fjármuni sína og tekið áhættu sem leiddi til þess að rétt hafi verið að synja þeim um greiðsluaðlögun. Telji umboðsmaður rétt að synja kæranda um greiðsluaðlögunar á grundvelli einstakrar fjárfestingar eða skuldsetningar ber honum að sjá til þess að fjárhagslegar forsendur og afleiðingar þeirrar ráðstöfunar liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin. Í þessu tilviki snýr rannsóknarskylda umboðsmanns að því að rannsaka hvaða forsendur eða fjárhagsáætlanir lágu til grundvallar fjárfestingunni, hvernig hún var fjármögnuð og á hverju væntingar um hagnað eða tekjur af henni byggðu. Enn fremur er nauðsynlegt að skoða hvaða afleiðingar ráðstöfunin í raun og veru hafði á fjárhag umsækjenda, meðal annars eigna- og skuldastöðu þeirra. Í málinu er fram komið að ekki hafi gengið eftir að ljúka byggingu hússins og selja það með hagnaði eins og til stóð. Enn fremur liggur fyrir að eignin var seld nauðungarsölu. Hins vegar er engum gögnum til að dreifa um það hvaða verð fékkst fyrir eignina og hvernig þeim fjármunum var varið. Í svari umboðsmanns til kærunefndar kemur fram að þær upplýsingar hafi hann talið málinu óviðkomandi. Eins og að framan segir tekur nefndin ekki undir það sjónarmið og bendir í því sambandi sérstaklega á að mikilvægt er að heildstæð mynd af fjárhag skuldara liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin í máli hans. Sérstaklega er mikilvægt að rannsaka forsendur og afleiðingar einstakra fjárhagsráðstafana í þeim tilvikum þegar umboðsmaður telur rétt að byggja rökstuðning sinn fyrst og fremst á mati á tiltekinni fjárfestingu.
Þá er einnig við þessa niðurstöðu umboðsmanns að athuga hún byggir einnig á því að svo virðist sem kærendur hafi ekki gefið upp til skatts leigutekjur af hesthúsi fyrir tiltekið tímabil. Skattaundanskot geta leitt til viðurlaga sem geta haft áhrif á fjárhagsstöðu skuldara og geta að því marki haft áhrif á mat umboðsmanns á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. meðal annars d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Hins vegar liggja engin gögn fyrir í málinu til þess að byggja slíka niðurstöðu á. Í ákvörðun umboðsmanns er einnig vísað til „annarra atvika málsins“ án þess að séð verði með skýrum hætti hvað átt er við.
Í rannsóknarskyldu umboðsmanns felst að honum bera að afla gagna eða skora á skuldara að leggja fram gögn sem gefa glögga mynd af fjárhag hans, bæði þróun hans sl. 4 ár og núverandi stöðu. Í því felst að liggja verða fyrir greinargóðar upplýsingar um tekjur, eignir og skuldir. Eins og framan greinir eru nokkrir annmarkar á að það hafi verið gert. Þrátt fyrir þessa annmarka á málmeðferð umboðsmanns skuldara hvað varðar málsatvik er hann byggir niðurstöðu sína á, telur nefndin þá ekki nægjanlega ástæðu til þess að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Þótt fyrirliggjandi gögn nægi ekki til stuðnings þeim forsendum sem niðurstaða umboðsmanns er byggð á, telur nefndin hins vegar að í málinu liggi fyrir nægar upplýsingar um aðra þætti til að taka megi afstöðu til þess hvort heimila skuli greiðsluaðlögun eða ekki.
Í skuldayfirliti umboðsmanns skuldara kemur fram að heildarskuldir kærenda eru nú um 98.653.077 krónur og skuldir sem falla innan samnings um greiðsluaðlögun 95.205.385 krónur, þar af stafar rúmlega 21 milljón króna af vanskilakostnaði. Samkvæmt upplýsingum kærenda um endurútreikning gengisláns hjá Frjálsa fjárfestingabankanum hf. hafa skuldir nú lækkað um 11.353.166 krónur, og standa því heildarskuldir í 83.852.217 krónum. Af framangreindu skuldayfirliti má ráða að ef einungis er horft til lána sem kærendur tókust á hendur á árunum 2003–2008 námu skuldbindingar vegna þeirra, miðað við upphaflegan höfuðstól, 42.216.984 krónum, þar af er um 3 milljón króna námslán og ekki tekið tillit til ábyrgðarskuldbindinga. Þessi fjárhæð ein og sér er hærri en svo að eðlileg geti talist í ljósi eignstöðu þeirra, tekna og tekjumöguleika. Líklegt er að þessi skuldasöfnun hefði skapað þeim verulega fjárhagserfiðleika þótt ekki hefði komið til sú mikla hækkun vegna vísitölu- og gengisþróunar og minnkandi kaupmáttur launa.
Af skattframtölum kærenda má sjá að þau hafa jafnt og þétt aukið við skuldir sínar á síðastliðnum árum án þess að eignarmyndun hafi aukist í samræmi við skuldirnar. Í lok árs 2006 voru heildarskuldir þeirra 34.816.220 krónur og eignir þeirra 35.208.934 krónur. Í lok árs 2007 voru skuldir orðnar 39.298.660 krónur en eignir 33.395.750 krónur. Í árslok 2008 voru heildarskuldir kærenda orðnar 59.575.065 krónur og er þá lánið vegna D-götu nr. 6 ekki tekið með en eignir, með D-götu nr. 6, þá 42.681.827 krónur. Í árslok 2009 voru heildarskuldir kærenda samkvæmt skattframtali 73.026.728 krónur en eignir 43.728.687 krónur. Árið 2010 voru skuldir samkvæmt skattframtali 67.409.106 krónur en eignir 30.187.446 krónur. Ástæður mikillar skuldasöfnunar frá árslokum 2008 skýrast ekki af nýjum lántökum heldur vísitöluhækkunum og síauknum vanskilum.
Af gögnum málsins má sjá að strax árið 2007 var svigrúm kærenda til að bæta við sig frekari skuldbindingum orðið lítið sem ekkert. Mánaðarlegar afborganir af skuldbindingum sem kærendur tókust á hendur fram til ársloka 2006 námu 275.146 krónum. Á sama tíma námu útborgaðar tekjur þeirra 378.523 krónum á mánuði. Því er ljóst að strax þá hefur verið erfitt fyrir kærendur að greiða af skuldbindingum sínum að teknu tilliti til hefðbundinna útgjalda vegna heimilishalds. Árið 2008 voru meðaltekjur kærenda 386.731 króna á mánuði en mánaðarleg greiðslubyrði þeirra skuldbindinga sem þau höfðu þá tekist á hendur orðin nánast jafnhá mánaðarlegum tekjum þeirra, eða um 361.253 krónur. Miðað við að kærendur þurftu einnig að reka heimili er ljóst að þau hafa þegar á þeim tíma ekki getað staðið við skuldbindingar sínar. Þrátt fyrir það bættu kærendur talsvert við skuldir sínar í nóvember 2008 með því að festa kaup á fasteign að D-götu nr. 6 í sveitarfélaginu E, sem nú hefur verið seld nauðungarsölu.
Síðla árs 2008 hafði mjög hægst um á fasteignamarkaði og í byggingariðnaðinum almennt. Kærendum átti því að vera ljóst að mikil óvissa var um hvernig ganga myndi að selja eignina aftur að loknum framkvæmdum, eins og ætlunin var. Jafnvel þótt kærendum hefði tekist að ljúka við framkvæmdir á fasteigninni og selja eignina með einhverjum hagnaði er ljóst að þau hefðu samt sem áður þurft að geta staðið skil á afborgunum þann tíma sem á framkvæmdum stóð. Af gögnum málsins verður ráðið að þau hafi á þeim tíma ekki haft greiðslugetu til að standa við skuldbindinguna á meðan framkvæmdum stóð enda áttu þau fullt í fangi með að standa við þær skuldbindingar sem þau höfðu stofnað til áður en til kaupanna á D-götu nr. 6 kom. Verður því að líta svo á að heildstætt metið hafi fjárhagsráðstafanir þeirra fram til ársloka 2008 verið með þeim hætti að óhæfilegt sé að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar, svo sem segir í 2. mgr. 6. gr. lge. Er þá sérstaklega litið til þess að kærendur stofnuðu til skulda á þeim tíma sem þau voru greinilega ófær um að standa við fyrri skuldbindingar og með lántökum og ábyrgðarskuldbindingum sem fólu í sér verulega fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagstöðu þeirra á þeim tíma sem til þeirra var stofnað.
Í kæru kemur fram að kærendur telji það skekkja fjárhagsstöðu þeirra að taka með í skuldayfirlit þeirra skuldir sem eru komnar til vegna sjálfskuldarábyrgðar á skuldbindingum X ehf. Telja þau þetta vera kröfur sem tilheyra gjaldþrota fyrirtæki sem ekki eigi að horfa til þegar fjárhagur þeirra sjálfra sé metinn. Þeirra persónulegu skuldir séu fyrst og fremst tilkomnar vegna byggingar á húsnæði og kaupa á bíl. Verður ekki fallist á þetta sjónarmið enda eru skuldir vegna sjálfskuldarábyrgðar á skuldum fyrirtækis þeirra kröfur á þau persónulega enda felst í sjálfskuldarábyrgð ótakmörkuð yfirlýsing einstaklings um að standa skil á fjárhagslegum skuldbindingum þriðja aðila og því hluti af þeim skuldbindingum sem þau hafa bakað sér.
Með ofangreindum rökstuðningi er það það niðurstaða nefndarinnar að staðfesta beri ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir
Einar Páll Tamimi
Arndís Anna K. Gunnarsdóttir