Mál nr. 47/2011
Fimmtudaginn 5. september 2013
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Lára Sverrisdóttir.
Þann 2. ágúst 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. júlí 2011 þar sem umsókn hans um greiðsluaðlögun var synjað. Greinargerð kæranda með kæru barst 24. ágúst 2011.
Með bréfi 2. september 2011 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. september 2011.
Greinargerðin var send kæranda með bréfi 22. september 2011 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 20. október 2011. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
I. Málsatvik
Kærandi býr ásamt sambýliskonu sinni og syni að B götu nr. 19 í sveitarfélaginu C. Fasteignin var áður í eigu kæranda en hann seldi hana með kaupsamningi 15. febrúar 2005. Eftir söluna hefur kærandi búið í eigninni og greitt af þeim lánum sem hvíla á henni. Kærandi er vélstjóri að mennt og starfar hjá Y ehf. Útborguð laun hans eru 403.757 krónur á mánuði.
Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til þátttöku í rekstri X hf. Í rúm tuttugu ár hafi kærandi verið einn þriggja hluthafa í félaginu. X hf. hafi einkum stundað skipasmíði og hafi starfsmenn verið um þrjátíu talsins. Hluthafar hafi gengist í sjálfskuldarábyrgðir fyrir umtalsverðum skuldbindingum félagsins við Kaupþing. X hf. hafi orðið gjaldþrota 2005. Kærandi hafi þá gert munnlegt samkomulag við Kaupþing um að félag í þess eigu, Viðjar ehf., fengi lokagreiðsluna vegna síðasta skipasmíðaverks X hf. Kærandi hafi talið að greiðslan myndi duga fyrir greiðslum ábyrgðarskuldbindinganna. Engin krafa hafi verið höfð uppi á hendur kæranda vegna ábyrgðarskuldbindinganna fyrr en í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Kærandi hafi haldið öllum skuldbindingum sínum við Arion banka hf. í skilum ef frá eru taldar ábyrgðarskuldbindingar hans vegna X hf. Kærandi hafi ekki ráðið við að greiða þær.
Heildarskuldir kæranda eru 1.032.814 krónur samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara. Að auki eru ábyrgðarskuldbindingar að fjárhæð 233.428.314 krónur orðnar virkar á hendur honum. Ábyrgðarskuldbindingarnar stafa allar frá atvinnurekstri. Allar skuldbindingar kæranda falla innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2002 og 2004.
Samkvæmt skattframtölum voru meðaltekjur kæranda á mánuði, eignir og skuldir þessar:
2002 | 2004* | |
Eignir | 23.494.721 kr. | 27.241.049 kr. |
Tekjur | 464.826 kr. | 465.334 kr. |
Skuldir | 15.723.832 kr. | 12.652.036 kr. |
*Að auki átti kærandi hlutabréf í X hf.
Samkvæmt skattframtölum voru tekjur maka kæranda að frádreginni staðgreiðslu 75.899 krónur að meðaltali á mánuði árið 2002 og 82.772 krónur að meðaltali á mánuði árið 2004.
Þann 8. júlí 2011 lá umsókn kæranda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Var umsókn hans synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. júlí 2011, með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi mótmælir því sjónarmiði umboðsmanns skuldara að hann hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Kærandi mótmælir einnig að lögum nr. 101/2010 sé ekki ætlað að veita skuldurum sem eru í hans sporum heimild til greiðsluaðlögunar.
Kærandi bendir á að þær skuldbindingar sem hann hafi tekist á hendur hafi allar miðað að því að tryggja rekstur X hf. til langs tíma. Kærandi hafi gengist í ábyrgð in solidum með öðrum hluthöfum. Rekstrargrundvöllur félagsins og ársreikningar hafi legið fyrir lánveitendum svo og greiðslugeta kæranda á þeim tíma.
Munnlegt samkomulag hafi verið gert við Kaupþing um lyktir skuldbindinga X hf. vegna láns sem veitt var 2004. Kærandi hafi þá talið að engar frekari kröfur yrðu hafðar uppi á hendur honum vegna þessa láns. Það hafi ekki reynst rétt þar sem hann hafi verið krafinn um greiðslu í október 2008. Öðrum kröfum vegna skuldbindinga X hf. hafi heldur ekki verið haldið fram fyrr en í október 2008. Kærandi bendir á að á þessum árum hafi það verið viðtekin venja að framkvæmdastjórar skrifuðu upp á sjálfskuldarábyrgðir vegna rekstrarlána fyrirtækja.
Kærandi telji að c-liður 2. mgr. 6. gr. lge. taki ekki til þeirra aðstæðna sem hann hafi verið í árin 2002‒2004. Kærandi hafi ekki stofnað til skulda í sjálfu sér heldur hafi verið um að ræða ábyrgðarskuldbindingar. Þessar ábyrgðarskuldbindingar hafi ekki verið í ósamræmi við fjárhagsstöðu kæranda á þessum tíma. Kærandi telji því að í ljósi samábyrgðar hluthafa X hf., stöðu kæranda sem framkvæmdastjóra, mats lánveitanda á greiðslugetu lántakandans og tíðarandans verði að telja að 2. mgr. 6. gr. lge., einkum b- og c-liðir, eigi ekki við í máli kæranda.
Kærandi bendir auk þess á að nauðsynlegt sé að gæta að jafnræði skuldara við afgreiðslu umsókna þeirra um heimild til þess að leita greiðsluaðlögunar. Kærandi telji það ljóst að þorri þeirra skuldara sem þegar hafi fengið heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi stofnað til fjárhagsskuldbindinga sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma. Lög 101/2010 þjóni ekki tilgangi sínum ef þau verði túlkuð með þeim hætti sem ákvörðun umboðsmanns byggist á í máli kæranda. Mál kæranda verði ekki heimfært undir c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. með þeim hætti sem umboðsmaður hafi gert.
Kærandi fer því fram á að ákvörðun umboðsmanns verði felld úr gildi og kæranda veitt heimild til þess að leita samnings um greiðsluaðlögun.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður vísar til umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun, sem synjað var með ákvörðun umboðsmanns sem tilkynnt var með bréfi 18. júlí 2011, með vísan c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Umboðsmaður bendir á að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimild sé til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skuli meðal annars taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.
Kærandi hafi árið 2002 gengist í sjálfskuldarábyrgðir fyrir greiðslum X hf. á fjórum tryggingarvíxlum. Samanlögð fjárhæð víxlanna hafi verið 38.500.000 króna. Skuld kæranda vegna þessara skuldbindinga nemi nú 132.304.084 krónum. Í júlí 2004 hafi kærandi síðan tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildar X hf. og nam fjárhæð skuldbindingarinnar 30.000.000 króna. Skuld kæranda vegna þessarar skuldbindingar nemi nú 101.124.230 krónum.
Umboðsmaður telur að kærandi hafi tekið talsverða áhættu er hann tók á sig ábyrgðarskuldbindingarnar enda fjárhæð þeirra mjög há. Sérstaklega verði að telja að sú ákvörðun kæranda að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir 30.000.000 króna skuldbindingu X hf. í júlí 2004 hafi falið í sér mikla áhættu. Til þess sé að líta að ársreikningar X hf. fyrir rekstrarárið 2003 sýni töluvert tap, minnkandi framleiðni og mikla lækkun á handbæru fé. X hf. skilaði ekki ársreikningi fyrir rekstrarárið 2004 en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í apríl 2005, níu mánuðum eftir að kærandi gekkst í umrædda sjálfskuldarábyrgð. Umboðsmaður telji að þetta bendi til þess að staða félagsins hafi verið ótrygg þegar kærandi hafi stofnað til umræddrar skuldbindingar. Ekki verði séð að fjárhagur kæranda hafi staðið undir svo miklum skuldbindingum meðal annars vegna þess að helstu tekjur kæranda hafi verið launatekjur frá félaginu. Ekki verði því séð að kærandi myndi hafa getað staðið skil á skuldbindingunum ef á reyndi.
Nær allar skuldir kæranda megi rekja til þessarar áhættutöku og verði því að telja að fjárhagserfiðleika kæranda megi að einhverju eða öllu leyti rekja til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.
Auk þess bendir umboðsmaður á að 99,56% af skuldum kæranda stafi af atvinnurekstri. Í almennum athugasemdum við frumvarp til laga nr. 101/2010 segi meðal annars að frumvarpinu sé fyrst og fremst ætlað að ná til heimilisreksturs einstaklinga en að mikilvægt sé að mæta aðstæðum þeirra sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Það sé þó ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eigi í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði.
Fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun sem tekin var á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. laga nr. 101/2010 verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til c-liðar. Í c-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.
Fyrir liggur að kærandi tókst á hendur verulegar ábyrgðarskuldbindingar árin 2002 og 2004. Var þar um að ræða sjálfskuldarábyrgðir sem hann gekkst í fyrir lánum X hf. Á árinu 2002 gekkst hann í ábyrgðir fyrir 38.500.000 krónum og á árinu 2004 gekkst hann í ábyrgðir fyrir 30.000.000 króna. Þegar kærandi óskaði eftir heimild til greiðsluaðlögunar námu þessar ábyrgðarskuldbindingar samtals 233.428.314 krónum.
Hér verður enn fremur að líta til þess að stór hluti af skuldbindingum kærenda er vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Hins vegar bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.
Það er mat kærunefndarinnar að með því að gangast undir svo stórfelldar ábyrgðarskuldbindingar hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er hann gekkst undir þær. Er þá í fyrsta lagi litið til fjárhagsstöðu X hf., en rekstur félagsins gekk erfiðlega árin 2001‒2003 og var það tekið til gjaldþrotaskipta í apríl 2005. Í öðru lagi er litið þess að kærandi hafði helstu launatekjur sínar frá X hf. og í þriðja lagi til þess að hvorki tekjur né eignastaða kæranda veittu teljandi svigrúm til að greiða þessar skuldbindingar ef á reyndi, samanber dóm Hæstaréttar í málinu nr. 198/2010.
Með vísan til ofangreinds rökstuðnings er ákvörðun umboðsmanns staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Sigríður Ingvarsdóttir
Lára Sverrisdóttir
Kristrún Heimisdóttir