Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 44/2013

Fimmtudaginn 5. september 2013

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 14. mars 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 1. mars 2013, þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 20. mars 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. mars 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 25. mars 2013 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 6. maí 2013.

I. Málsatvik

Kærandi er 51 árs og býr í eigin húsnæði að H á Akureyri. Tvö uppkomin börn kæranda búa hjá henni og er annað þeirra í námi.

Kærandi er með BA-gráðu í Þ og starfaði hjá X þar til 30. desember 2011 er hún sagði upp störfum. Kærandi er með 201.595 krónur í ráðstöfunartekjur að meðaltali á mánuði og samanstanda þær af greiðslum frá Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun ríkisins og Lífeyrissjóði verzlunarmanna.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til loka árs 2011 þegar hún sagði upp starfi sínu. Ástæða uppsagnarinnar var sú að henni þótti hún ekki geta sinnt starfi sínu nægilega vel vegna álags. Í kjölfar mikillar tekjulækkunar telur kærandi sér ekki fært að standa undir skuldbindingum sínum.

Heildarskuldir kæranda nema 26.178.336 krónum samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara og falla 17.973.490 krónur innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 og 2012.

Heildarskuldir kæranda skiptast þannig: Skuldabréf með sjálfskuldarábyrgð hjá Arion banka hf. að fjárhæð 796.803 krónur. Veðkrafa hjá Arion banka hf. að fjárhæð 658.751 króna. Bílasamningur hjá Landsbankanum að fjárhæð 1.656.016 krónur. Veðkrafa hjá Íslandsbanka hf. að fjárhæð 13.062.512 krónur. Námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna samtals að fjárhæð 8.204.846 krónur. Aðrar skuldir kæranda nema samtals 1.799.408 krónum.

Eignir kæranda samkvæmt eignayfirliti umboðsmanns skuldara eru fasteign að verðmæti 13.700.000 krónur, bankainnistæða að verðmæti 576 krónur og bifreið að verðmæti 5.800.000 krónur.

Undanfarin ár hafa tekjur kæranda að frádregnum sköttum verið eftirfarandi, samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara: Árið 2006 voru mánaðarlegar tekjur hennar að meðaltali 276.189 krónur, 306.675 krónur árið 2007, 699.394 krónur árið 2008, 416.782 krónur árið 2009, 366.395 krónur árið 2010 og 376.348 krónur árið 2011.

Kærandi lagði umsókn sína um greiðsluaðlögun inn þann 8. júní 2012 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 1. mars 2013 var umsókn hennar hafnað með vísan til b- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru sinni kveður kærandi að bifreið sú sem sé aðalástæða fyrir höfnun umboðsmanns skuldara sé í eigu sonar síns. Því til stuðnings leggi kærandi fram afrit af millifærslukvittunum úr banka frá honum.

Kærandi taki fram að hún hafi látið son sinn vita af því að verði umsókn hennar samþykkt, verði bíllinn tekinn upp í skuldir kæranda verði hann enn á hennar nafni.

Kærandi vísi í réttindi sín samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að sonur hennar hafi verið í neyslu og að hann hafi skuldað peninga. Til að aðstoða hann hafi kærandi gefið leyfi fyrir því að bíllinn yrði tímabundið settur á hennar nafn. Þegar kærandi hafi séð að það myndi ekki ganga eftir að bíllinn yrði skráður af hennar nafni, hafi hún látið son sinn vita að bíllinn yrði þá tekinn upp í skuldir sínar.

Kærandi hafi einungis ætlað að aðstoða son sinn með því að leyfa að bíllinn yrði skráður á hennar nafn en það hafi kostað hana ómæld útgjöld, auk þess sem það hafi leitt til þess að umboðsmaður skuldara hafi hafnaði beiðni kæranda.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara 1. mars 2013 kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar séu tilteknar aðstæður fyrir hendi sem tíundaðar séu í fimm liðum ákvæðisins. Í 2. mgr. sömu greinar sé til viðbótar við skilyrði 1. mgr. kveðið á um heimild til þess að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því sé sérstaklega litið til þeirra atriða sem talin séu upp í a–g-liðum ákvæðisins sem öll eigi það sameiginlegt að það geti ekki verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans sé að einhverju eða öllu leyti rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Á grundvelli b-liðar 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun ef stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma sem skuldari hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Umboðsmaður skuldara bendi á að kærandi hafi fest kaup á bifreiðinni Y skráður 2007, þann 26. janúar 2012. Bifreiðin hafi kostað 5.800.000 krónur og hafi kærandi greitt 2.800.000 krónur í peningum en gert bílasamning fyrir eftirstöðvum kaupverðsins eða 3.087.179 krónum. Mánaðarleg afborgun frá útgáfudegi lánsins hafi verið 98.000 krónur á mánuði.

Á sama tíma hafi kærandi greitt af fjórum öðrum lánum: Láni útgefnu 31. ágúst 2004 upphaflega að fjárhæð 636.110 krónur, láni útgefnu 16. nóvember 1993 upphaflega að fjárhæð 525.562 krónur, láni útgefnu 8. desember 2008 upphaflega að fjárhæð 331.404 krónur og láni útgefnu 13. júlí 2005 upphaflega að fjárhæð 10.328.833 krónur. Áætluð greiðslubyrði vegna allra framangreindra lána í janúar 2012 hafi verið um 100.000 krónur á mánuði.

Á þessum tíma hafi kærandi verið með eitt barn á framfæri en framfærslukostnaður og annar kostnaður einstaklings með eitt barn hafi samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara í byrjun árs 2012 verið 136.900 krónur á mánuði. Þá hafi kærandi nýlega sagt starfi sínu lausu en síðasti starfsdagur hennar samkvæmt greinargerð var 30. desember 2011. Meðalráðstöfunartekjur kæranda frá janúar til september 2012 hafi verið 241.781 króna á mánuði. Að mati umboðsmanns skuldara beri því gögn málsins með sér að í janúar 2012 hafi kærandi stofnað til skuldbindingar á þeim tíma sem hún var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Samkvæmt ofangreindum bílasamningi hafi kærandi reitt af hendi 2.800.000 krónur við fyrrnefnd bílakaup. Í ljósi framangreindra aðstæðna kæranda í ársbyrjun 2012 verði að telja að kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eins og henni var framast unnt, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Af gögnum málsins mætti sjá að greiddar hefðu verið um 810.000 krónur inn á bílasamninginn í maí og júní 2012 en kærandi hafi þá þegar verið komin í vanskil með símreikninga og skuldabréf.

Kæranda hafi verið sent bréf þar sem vísað var til alls ofangreinds, henni tilkynnt um hugsanlega synjun og boðið að láta álit sitt í ljós. Í svari sínu við andmælabréfinu hafi kærandi tekið fram að hún hefði gert sérstaka grein fyrir áðurnefndum bílakaupum í viðtali sínu hjá embætti umboðsmanns skuldara á Akureyri. Kærandi hefði leyft syni sínum að setja þennan bíl á sitt nafn en hún hefði aldrei borgað af honum. Kærandi hafi sagst reiðubúin til þess að leggja fram sannanir fyrir máli sínu.

Embætti umboðsmanns skuldara hafi svarað kæranda og sú afstaða embættisins komið fram um að þegar opinber gögn tilgreini eiganda eða umráðamann að eignum eða öðrum verðmætum teljist sú skráning rétt, þar til sýnt sé fram á annað með fullnægjandi hætti. Þá hefðu opinber gögn almennt meira sönnunargildi þar sem löglíkur væru á því að slíkar upplýsingar væru réttar. Vissulega gætu opinber gögn gefið rangar upplýsingar en þá yrði að gera strangar kröfur til sönnunar á hinu gagnstæða. Kærandi hafi verið hvött til að koma með gögn sem styddi þá fullyrðingu að hún væri ekki réttur umráðamaður að bifreiðinni.

Umboðsmaður skuldara hafi einnig bent kæranda á að jafnvel þó að hún væri ekki raunverulegur umráðamaður bifreiðarinnar þá myndi skráning hennar á nafni kæranda hafa tilteknar afleiðingar í för með sér ef hún fengi samþykki til greiðsluaðlögunar. Bifreiðin, sem sé skráð á nafn kæranda, væri metin á 5.800.000 króna og eftirstöðvar af kaupleigusamningi næmu um 1.600.000 krónum. Töluverð verðmæti væru því í bifreiðinni, eða ríflega 4.000.000 króna. Kröfuhafar myndu að öllum líkindum krefjast sölu á henni og nota andvirðið til að greiða af kröfum sínum. Ólíklegt væri að þeir myndu taka mótbárur kæranda um hin réttu umráð gildar gegn opinberum gögnum um skráningu. Engin frekari gögn hafi borist frá kæranda.

Að öllu ofangreindu virtu hafi það verið mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar, með vísan til b- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Í greinargerð með kæru hafi kærandi byggt einkum á því að bifreiðin sé í eigu sonar síns og að það hafi í raun verið hann sem festi kaup á bifreiðinni en ekki hún. Við meðferð málsins hafi kærandi verið hvött til að leggja fram sannanir þess efnis, en engin gögn hafi borist embættinu. Að mati umboðsmanns skuldara hafi ekki þótt annað fært en að miða við að kærandi hafi sjálf og í eigin nafni staðið að þeim skuldbindingum sem tengdust bifreiðakaupum þessum árið 2012.

Fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á 2. mgr. 6. gr. lge., einkum með tilliti til b- og f-liða. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í b-lið ákvæðisins kemur fram að við mat á því skal taka sérstakt tillit til þess hvort stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og samkvæmt f-lið skal tekið tillit til þess hvort skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Í fyrri úrskurðum kærunefndar hefur niðurstaðan jafnan verið sú að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur eru á að þeir geti staðið undir afborgunum af miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem lán eru tekin, sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun.

Við mat á því hvort beita skuli þessu ákvæði laganna, þ.e. 2. mgr. 6. gr. lge., ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er. Samkvæmt gögnum málsins voru meðal ráðstöfunartekjur kæranda frá janúar til september 2012 alls 241.781 króna á mánuði. Framfærslukostnaður í byrjun árs 2012 var samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara 136.900 krónur á mánuði miðað við einstakling með eitt barn. Þá var mánaðarleg greiðslubyrði kæranda af lánum um 100.000 krónur á mánuði. Þegar kærandi hafði staðið straum af framangreindum kostnaði var greiðslugeta hennar jákvæð um rúmar 4.000 krónur.

Á þessum tíma sagði kærandi upp starfi sínu. Þann 26. janúar 2012 festi hún síðan kaup á bifreiðinni Y, skráðri 2007. Kaupverð var 5.800.000 krónur og voru 2.800.000 krónur greiddar með peningum og kaupleigusamningur gerður fyrir eftirstöðvunum að fjárhæð 3.087.179 krónur. Mánaðarleg afborgun frá útgáfudegi kaupleigusamningsins átti að vera um 98.000 krónur á mánuði. Þegar framangreint er virt telur kærunefndin að hér hafi kærandi stofnað til skuldar sem hún var greinilega ófær um að standa við í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Þá telur kærunefndin rétt að líta til þess að inn á bílalánið voru greiddar rúmar 980.000 krónur í maí og júní 2012 en á þeim tíma var kærandi komin í vanskil með hluta skuldbindinga sinna. Að mati nefndarinnar varðar þessi háttsemi kæranda við f-lið 2. mgr. 6. gr. lge., þ.e. að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Þess ber að geta að kærandi ber sjálf að sonur hennar hafi verið raunverulegur kaupandi bifreiðarinnar og hann myndi standa straum af afborgunum vegna bílalánsins, en hún hefur ekki getað sýnt fram á þá staðhæfingu. Kærunefndinni er því ekki unnt að taka tillit til þess við meðferð málsins.

Með vísan til þess sem að framan greinir verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Lára Sverrisdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta