Mál nr. 346/2017
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 346/2017
Mánudaginn 2. október 2017
A
gegn
skipuðum umsjónarmanni B, lögfræðingi
ÚRSKURÐUR
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Þann 22. september 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, lögfræðings, sem tilkynnt var með bréfi 13. september 2017. Í ákvörðuninni mælir umsjónarmaður gegn því að nauðasamningur samkvæmt 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) komist á.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. mars 2017 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður var skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda sama dag. Öllum þekktum kröfum var lýst en þær voru að fjárhæð 3.134.490 krónur. Umsjónarmaður sendi frumvarp til kröfuhafa 10. maí 2017. Lagði hann til að greiðsluaðlögunartímabil yrði 12 mánuðir og að 100% samningskrafna yrðu gefnar eftir að þeim tíma liðnum. Landsbankinn hf. andmælti frumvarpinu og hafnaði tillögum umsjónarmanns um lengd tímabils og eftirgjöf krafna. Bankinn benti á að kærandi hefði fengið 62.000 krónur greiddar inn á bankareikning sinn í hverjum mánuði til viðbótar þeim launum sem hann hefði gefið upp. Af þeim sökum taldi bankinn að kærandi gæti samið við kröfuhafa sína og greitt niður skuldir.
Umsjónarmaður óskaði eftir frekari skýringum frá Landsbankanum hf. um framangreindar innborganir á bankareikning kæranda. Í ljós kom að frá því að bankareikningurinn var stofnaður hefðu borist mánaðarlegar greiðslur frá móður kæranda og öðrum aðila.
Þegar óskað var skýringa hjá kæranda greindi hann frá því að innborganir frá móður hans væru vegna ferðakostnaðar hans til C. Móðir kæranda búi á C og hafi hann farið þangað mánaðarlega til þess að líta til með henni.
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kærandi hafi lagt fram reikningsyfirlit af bankareikningi sínum vegna tímabilsins október 2016 til mars 2017. Samkvæmt yfirlitinu hafi móðir kæranda lagt 50.000 krónur inn á reikninginn á mánuði á tímabilinu 4. október 2016 til 4. janúar 2017 eða samtals í 4 mánuði. Þá hafi kærandi sjálfur lagt inn á reikninginn 50.000 krónur í febrúar og mars 2017. Af reikningsyfirlitinu verði ekki ráðið að kærandi hafi ráðstafað peningunum frá móður sinni í kostnað vegna ferða sinna til C. Í yfirlitinu komi líka fram að D, [...], hafi lagt inn á reikninginn 12.000 krónur í alls fimm skipti í október, nóvember og desember 2016 og í febrúar og mars 2017. Samkvæmt skýringum kæranda hafi innborganirnar frá D verið vegna leigu á bifreið í eigu kæranda en að hans sögn hafi verið um nokkurs konar greiða að ræða.
Umsjónarmaður upplýsti kæranda um framkomin andmæli og að samningur myndi ekki takast í samræmi við ákvæði IV. kafla lge. Kærandi hafi lýst því yfir við umsjónarmann 30. ágúst 2017 að hann vildi leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.
Umsjónarmaður tilkynnti kæranda með bréfi 13. september 2017 ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar á grundvelli 18. gr. lge.
II. Sjónarmið umsjónarmanns
Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að við mat á því hvort mælt sé með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar komist á samkvæmt 18. gr. lge. beri meðal annars að líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram í öndverðu sem hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og hvort skuldari hafi að öðru leyti staðið heiðarlega við greiðsluaðlögunarumleitanir. Þá beri umsjónarmanni einnig að líta til þess hvort raunhæft sé að skuldari muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafi umleitanir til sín taka.
Við skoðun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda hafi honum verið sendur tölvupóstur með fyrirspurnum 15. desember 2016. Þær hafi meðal annars lotið að tekjum kæranda vegna útleigu á bifreiðum og tengslum hans við einkahlutafélagið E ehf. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá hafi kærandi verið skráður varamaður í stjórn félagsins og prókúruhafi þess. Kærandi hafi upplýst að E ehf. væri í eigu sonar hans, en kærandi hefði aðstoðað hann við félagið. Í umsókn kæranda hafi komið fram að hann hefði leigt út þrjá bíla í eigu sinni til ferðamanna sumarið 2016. Bílarnir hefðu allir skemmst og hefði kærandi því í raun tapað á útleigunni vegna þess gríðarlega kostnaðar sem þetta hafði í för með sér. Kærandi hafi lagt fram yfirlit yfir fjárhæð leigugreiðslna og yfirlit yfir fjárhæð útgjalda.
Upplýsingar liggi fyrir um innborganir af bankareikningi móður kæranda inn á reikning hans á tímabilinu 4. október 2016 til 4. janúar 2017. Ekki liggi fyrir gögn sem staðfesti frekari innborganir en að sögn Landsbankans hf. hafi slíkar greiðslur átt sér stað mánaðarlega yfir langt tímabil. Kærandi hafi lagt fram kvittanir vegna kostnaðar við ferðir sínar til C vegna útgjalda á tímabilinu 15. júní til 10. júlí 2017. Kvittanirnar sýni fram á greiðslur í apóteki, matvöruverslun og á bensínstöð, samtals að fjárhæð 38.075 krónur. Kvittanirnar veiti því ekki fullnægjandi skýringar á því hvernig þeim peningum sem móðir kæranda hafi greitt honum á tímabilinu 4. október 2016 til 4. janúar 2017, alls 200.000 krónum, hafi verið ráðstafað.
Bifreiðin X sem kærandi segist hafa leigt D hafi verið skráð eign einkahlutafélagsins E ehf. á tímabilinu 29. maí 2015 til 28. mars 2017 en þá hafi F hf. eignast bílinn. Fram komi í tölvupósti frá kæranda til umsjónarmanns 1. júní 2017 að D hafi haft afnot af gömlum bíl sem kærandi hafi lánað henni. Þá segi í tölvupósti frá kæranda 7. júní 2017 að E ehf. hafi keypti þá bifreið í X 2015 og hafi D haft afnot af henni frá því um áramótin 2015/2016. Þar komi jafnframt fram að kærandi hafi sjálfur átt félagið E ehf. árið 2015. Áður en umsókn kæranda hafi verið samþykkt hafi hann verið spurður út í tengsl sín við fyrrgreint félag en hvorki hafi komið fram að hann hefði verið eigandi þess né notið fjárhagslegs ávinnings af því.
Við mat á því hvort mælt sé með því að nauðasamningur komist á skuli umsjónarmaður líta til þess hvort skuldari hafi að öðru leyti staðið heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar. Í málinu liggi fyrir að kærandi fékk greiðslur frá tveimur nafngreindum einstaklingum samtals að fjárhæð 62.000 krónur á mánuði. Kærandi hafi ekki upplýst umsjónarmann um þessar greiðslur. Þegar umsókn kæranda um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt hafi umsjónarmaður sent honum tölvupóst þar sem meðal annars hafi komið fram að mikilvægt væri að kærandi upplýsti umsjónarmann um það ef breyting yrði á tekjum hans. Auk þess hefði umsjónarmaður áður óskað eftir upplýsingum um tekjur kæranda. Kæranda hafi því átt að vera ljóst að honum bæri að upplýsa umsjónarmann um umræddar greiðslur og mögulega leggja þá fjármuni til hliðar. Eftir að innköllunarfresti var lokið hafi umsjónarmaður hafið vinnslu við gerð frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun fyrir kæranda þar sem hvorki hafi verið gert ráð fyrir fyrrgreindum greiðslum frá D né G, móður kæranda. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við efni tillögunnar en umsjónarmaður hafi sérstaklega óskað eftir því að kærandi staðfesti upplýsingar um tekjur, útgjöld, eignir og skuldir. Með vísan til alls framangreinds hefði það verið mat umsjónarmanns að kærandi hefði ekki staðið heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar þar sem hann hefði ekki upplýst umsjónarmann um áðurnefndar greiðslur. Þessar upplýsingar séu þess eðlis að leggja verði það á kæranda sjálfan að framvísa gögnum sem sýni fram á hvernig fjárhag hans sé háttað.
Við mat á því hvort heimilt sé að mæla með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar komist á beri umsjónarmanni jafnframt að líta til framkominna andmæla kröfuhafa. Landsbankinn hf. hafi hafnað frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun fyrir kæranda þar sem lögð hafi verið til 100% eftirgjöf samningskrafna við lok greiðsluaðlögunartímabils. Kæranda hafi verið veitt færi á að leggja fram athugasemdir við andmælin og hafi lagt fram skýringar sínar og gögn. Þær skýringar hafi verið bornar undir Landsbankann hf. sem hafi haldið sig við fyrri afstöðu og því ljóst að frjáls samningur um greiðsluaðlögun myndi ekki nást.
Í ljósi þess hafi það verið mat umsjónarmanns að fjárhagur kæranda væri óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Ekki hafi legið fyrir með fullnægjandi hætti upplýsingar um hvaða tekjur kærandi hefði og á hvaða tímabili þær innborganir sem Landsbankinn hf. benti á í andmælum sínum hafi átt sér stað.
Að mati umsjónarmanns hafi auk þess ekki verið séð hvernig honum ætti að vera fært að stilla upp frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun fyrir kæranda í samræmi við 16. gr. og 21. gr. lge. þegar svo mikil óvissa ríkti um fjárhag hans. Ekki lægi skýrt fyrir hvaða tekjur kærandi hafi haft síðustu mánuði né hve miklar framtíðartekjur kæranda kæmu til með að verða. Umsjónarmaður hafi talið umbeðnar upplýsingar um fjárhag kæranda mikilvægar og nauðsynlegar til þess að fá heildarmynd af fjárhagsstöðu hans, enda breyttu þessar upplýsingar greiðslugetu kæranda töluvert og þar með því hvort hann gæti greitt af skuldbindingum sínum. Umsjónarmaður taldi því að það væri á ábyrgð kæranda að leggja fram gögn sem skýrðu fjárhag hans með ítarlegri hætti.
Með hliðsjón af framangreindu hafi umsjónarmaður ekki séð sér annað fært en að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar, sbr. 2. mgr. 18. gr. lge.
III. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans þannig að þess sé krafist að ákvörðun skipaðs umsjónarmanns verði felld úr gildi.
Að sögn kæranda séu heildartekjur hans 185.846 krónur á mánuði. Hann hafi haft þessar tekjur undanfarna mánuði og muni hafa þær um ókomin ár.
Kærandi hafi fengið greiðslu að fjárhæð 12.000 krónur frá D, vegna bíls sem hann hafi lánað henni. Það hafi verið af greiðasemi en ekki til að hljóta fjárhagslegan ávinning þar sem hann hafi greitt tryggingar, bifreiðagjöld, skoðunargjald, varahluti og viðhaldskostnað af bílnum,[...]ofl. Bílinn hafi kærandi greitt sjálfur hjá H og öll gjöld séu rekjanleg til hans persónulega.
Kærandi hafi upphaflega átt félagið E ehf. með syni sínum en hafi hvorki haft afskipti af því né tekjur síðan fyrri hluta ársins 2016. Fjárframlag að fjárhæð 50.000 krónur frá móður kæranda hafi verið þannig til komið að um 10.000 krónur hafi farið inn á lán sem hvíli á J en 40.000 krónur hafi verið til að mæta kostnaði við ferðir hans [til C].
Engir peningar hafi verið eftir í framangreindum tilvikum, þeir hafi farið í kostnað inn og út en ef eitthvað hafi verið, hafi orðið tap fyrir kæranda. Móðir kæranda haldi áfram að greiða 50.000 krónur inn á veðlán vegna J. Kærandi haldi áfram að fara [til C] en nú á eigin kostnað.
Það hafi ekki verið mögulegt fyrir kæranda að leggja til hliðar greiðslur sem hafi farið í kostnað. Áður en kærandi hafi sótt um greiðsluaðlögun hafi hann greitt upp skuldir við einkaaðila eins og hann hafi getað. Þegar hann hafi lent í slæmu slysi árið 2016, tapað [...] hafi verið útilokað að hann gæti greitt skuldir sínar.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna ekki tekist þá geti skuldari lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með því að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.
Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að mæla verði gegn því að nauðasamningur komist á vegna þess að kærandi hafi fengið 62.000 krónur greiddar inn á bankareikning sinn til viðbótar við uppgefin laun en ekki getað skýrt þessar greiðslur með viðhlítandi hætti. Fjárhagur hans teldist því óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Auk þess hafi kærandi ekki staðið heiðarlega að verki við greiðsluaðlögunarumleitanir þar sem hann hafi ekki upplýst umsjónarmann um fyrrnefndar greiðslur. Loks hafi Landsbankinn hf. hafnað frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun fyrir kæranda og því ljóst að samningur um greiðsluaðlögun myndi ekki takast.
Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.
Umsjónarmaður gerði drög að frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings 10. maí 2017. Þar kemur fram að tekjur kæranda séu örorkulífeyrir frá Tryggingastofnun og lífeyrisgreiðslur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og Lífeyrissjóði [...]. Þess er getið að upplýsingar um tekjur komi úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra. Einnig kemur fram að mánaðarleg greiðslugeta kæranda sé 5.947 krónur og að hann hafi ekkert getað lagt fyrir þar sem greiðslugeta hafi verið neikvæð á tímabili greiðsluskjóls.
Umsjónarmaður sendi kæranda frumvarpsdrögin með tölvupósti sama dag, 10. maí 2017. Í tölvupóstinum segir: „Meðfylgjandi er tillaga mín að frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun fyrir þig. Þú þarft að lesa tillöguna vel yfir og koma fram með athugasemdir ef eitthvað er ekki rétt. Það er sérstaklega mikilvægt að upplýsingar um tekjur, útgjöld, eignir og skuldir séu réttar.“ Þessu svaraði kærandi samdægurs: „Samþykki tillöguna án athugasemda.“
Frumvarpsdrögin voru síðan send til kröfuhafa kæranda. Landsbankinn hf. hafnaði drögunum. Afstaða bankans byggðist á því að á undanförnum árum hefði kærandi fengið ýmsar greiðslur frá einstaklingum inn á bankareikning sinn, auk launa. Á tímabilinu 1. júlí 2016 til 8. mars 2017 hefðu þessar greiðslur numið 976.186 krónum. Meðal þeirra sem lagt hefðu peninga inn á bankareikning kæranda væri móðir hans.
Í tölvupósti umsjónarmanns til kæranda 2. júní 2017 var hann meðal annars spurður um þá fjármuni sem móðir hans hefði látið honum í té. Orðrétt segir: „Eins þarf að skoða hvernig þeim fjármunum sem móðir þín hefur lagt inn á þig hefur verið ráðstafað. Getur þú upplýst mig nánar um hvaða kostnaður það var sem þessir fjármunir áttu að nýtast í.“ Í svari kæranda kemur fram að X ára móðir hans og X ára [...] hans búi saman á C án nokkurrar umönnunar eða aðstoðar. Kærandi hafi reynt að líta til með þeim að minnsta kosti tvisvar í mánuði og móðir hans hefði millifært á sig 50.000 krónur á mánuði fyrir bensíni og öðrum tilfallandi kostnaði vegna ferða [til C].
Í fyrrnefndum tölvupósti var kærandi einnig spurður um greiðslur að fjárhæð 12.000 krónur á mánuði frá D. Kærandi kvað greiðslur frá D tilkomnar vegna bíls í eigu kæranda sem D hefði afnot af. Peningarnir væru vegna greiðslu á tryggingum, bifreiðagjöldum, skoðunargjaldi og viðhaldi. Bíllinn sé nú ónýtur og hafi verið afskráður í X 2017. Kærandi kveðst hafa greitt um 5.000 krónum meira á mánuði vegna reksturs á bílnum en hann hafi fengið frá D.
Samkvæmt fyrirliggjandi reikningsyfirlitum yfir bankareikning kæranda fyrir tímabilið 1. október 2016 til 19. júní 2017 fékk hann alls greiddar 430.000 krónur frá bæði einstaklingum og lögaðilum, þar af 325.000 krónur frá móður sinni og 75.000 krónur frá D. Þá fékk hann greiddar 195.000 krónur frá E ehf. og 80.000 krónur frá K ehf. Alls nema þessar greiðslur 705.000 krónum á fyrrgreindu níu mánaða tímabili. Í málinu liggur ekki fyrir hvort kærandi hefur fengið greiðslur frá þessum eða öðrum aðilum eftir 19. júní 2017 en hann hefur ekki lagt fram reikningsyfirlit eða önnur gögn þar að lútandi.
Með tölvupósti 11. júlí 2017 gaf umsjónarmaður kæranda kost á að skýra innborganir á bankareikning hans frekar og leggja fram frekari gögn. Kærandi lagði þá fram kvittanir vegna kaupa á bensíni og mat í L og á C. Fyrir úrskurðarnefndina hefur kærandi einnig lagt fram kvittanir vegna þessa. Alls nemur fjárhæð framlagðra kvittana 88.435 krónum. Vörurnar voru keyptar í maí, júní, júlí, ágúst og september 2017, þ.e. að mestu leyti eftir að fyrrnefndu reikningsyfirliti yfir bankareikning var framvísað.
Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. telur úrskurðarnefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.
Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig umsókn um greiðsluaðlögun skuli vera úr garði gerð. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. lagaákvæðisins segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum.
Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning í 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.
Í 5. gr. lge. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu hans og væntanlega þróun hennar til framtíðar.
Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.
Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal þannig veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun.
Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Hér verður að hafa í huga að skuldari hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa.
Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda væri ómögulegt án þeirra upplýsinga að átta sig á greiðslugetu skuldara þegar gerður er samningur um greiðsluaðlögun.
Eins og rakið er hér að framan liggur ekki fyllilega ljóst fyrir hve háa fjárhæð kærandi hefur til ráðstöfunar í mánuði hverjum en hann hefur ekki lagt fram nauðsynleg gögn þar að lútandi. Af þeim sökum er ekki unnt að leggja mat á fjárhag hans að því marki sem nauðsynlegt er samkvæmt ákvæðum lge. Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að fjárhagur kæranda sé óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.
Umsjónarmaður telur að kærandi hafi ekki staðið heiðarlega að verki við greiðsluaðlögunarumleitanir þar sem hann hafi ekki upplýst um mánaðarlegar greiðslur til sín að fjárhæð 62.000 krónur, auk annarra greiðslna. Í málinu hefur komið fram að kærandi hefur um langt skeið fengið mánaðarlegar greiðslur frá móður sinni og D. Fram til júní 2017 námu þær greiðslur samtals 62.000 krónum á mánuði. Þau laun sem kærandi kveðst fá eru 185.846 krónur á mánuði en að viðbættum reglulegum aukagreiðslum sem hann hefur fengið er það fé sem hann hefur mánaðarlega haft til ráðstöfunar að minnsta kosti 247.486 krónur, en eins og rakið hefur verið hefur kærandi einnig fengið aðrar greiðslur frá ákveðnum lögaðilum. Miðað við þetta hefur kærandi haft getu til að greiða af skuldum sínum að einhverju eða öllu leyti. Leiðir það til þess að telja verður að kærandi hafi ekki staðið heiðarlega að verki við greiðsluaðlögunarumleitanir.
Við úrlausn málsins ber loks að taka tillit til sjónarmiða þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka. Samkvæmt gögnum málsins hafnaði Landsbankinn hf. drögum að frumvarpi til greiðsluaðlögunar fyrir kæranda. Mótmælin byggðust á því að á undanförnum árum hefði kærandi fengið greiðslur frá einstaklingum og lögaðilum inn á bankareikning sinn auk launa. Á tímabilinu 1. júlí 2016 til 8. mars 2017 hefðu þessar greiðslur numið 976.186 krónum. Því teldi bankinn að við lok samnings gæti kærandi samið um þær skuldir sem hann hefði stofnað til og greitt þær niður í framhaldinu.
Samkvæmt því sem að framan er rakið eru ekki forsendur til að mæla með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar, sbr. 2. mgr. 18. gr. lge. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun umsjónarmanns staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B lögfræðings, um að mæla gegn því að nauðasamningur komist á í máli A, er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Björn Jóhannesson
Þórhildur Líndal