Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 98/2012

Mánudaginn 18. ágúst 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 23. maí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra B og A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 9. maí 2012 þar sem umsókn kæranda A um greiðsluaðlögun var synjað. Kæranda B skortir kæruheimild þar sem ákvörðun umboðsmanns skuldara varðar aðeins kæranda A en samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) getur aðeins sá sem sótt hefur um greiðsluaðlögun kært synjun um greiðsluaðlögun. B hefur ekki sótt um greiðsluaðlögun og getur því ekki átt aðild á málinu.

Með bréfi 1. júní 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. júní 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 19. júlí 2012 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2012. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1967. Hún býr ásamt sambýlismanni og uppkominni dóttur sinni í 124,9 fermetra fasteign sinni að C götu nr. 10c í sveitarfélaginu D. Hluti húsnæðisins er leigður út.

Kærandi er atvinnulaus en hún er með stúdentspróf og hefur stundað nám í kvikmyndagerð. Síðast vann hún í bókaverslun en var sagt upp störfum árið 2009. Til ráðstöfunar hefur hún að meðaltali 237.555 krónur á mánuði að leigutekjum meðtöldum. Sambýlismaður kæranda er sjálfstætt starfandi myndlistarmaður og hönnuður en hann hefur mjög óreglulegar tekjur.

Kærandi keypti fasteignina að C götu nr. 10c af móður sinni í nóvember 2008. Kaupverð var 18.500.000 krónur og var greitt með yfirtöku áhvílandi lána. Á þeim tíma vann hún sem umsjónarmaður erlendrar bókadeildar hjá X. Í febrúar 2009 missti hún atvinnu sína og segir að fljótlega hafi orðið erfitt að greiða af reikningum og hafi vanskil hlaðist upp. Einnig hafi tekjur sambýlismanns hennar minnkað mjög árið 2008. Að sögn kæranda hafi tekjur hennar farið í að greiða af lánum en tekjur sambýlismanns hennar hafi verið notaðar til að reka heimilið.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 34.122.837 krónur. Námslán að fjárhæð 7.015.816 krónur og sekt að fjárhæð 15.000 krónur falla utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. lge. Helstu skuldbindingar kæranda má rekja til ársins 2008 en þá keypti hún fyrrgreinda fasteign með yfirtöku áhvílandi veðskulda.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. maí 2012 var umsókn hennar hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki eiginlegar kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað hennar þannig að hún krefjist þess að sú ákvörðun umboðsmanns skuldara að synja um heimild til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærandi telur synjun umboðsmanns skuldara ekki samrýmast þeim veruleika sem hún hafi staðið frammi fyrir árið 2008 en umboðsmaður hafi synjað beiðni kæranda á þeirri forsendu að hún hafi keypt húsnæði sem hún hafi ekki ráðið við en umboðsmaður hafi álitið að kærandi hefði ekki haft nægar tekjur samkvæmt skattframtölum. Kærandi hafi þá haft atvinnu og hafi farið í hefðbundið greiðslumat. Fasteignakaupin hafi í raun farið fram með yfirtöku á áhvílandi skuldum en eignin hafi verið á nafni móður kæranda. Kærandi hafi ráðið sig til vinnu í bókaverslun í upphafi árs 2008 fyrir 200.000 krónur á mánuði. Hægt og rólega hafi vinnan verið minnkuð við hana og henni síðan sagt upp.

Lengi hafði staðið til að koma nefndri fasteign yfir á nafn kæranda en þarna hafi verið látið verða af því þar sem hún hafði þá lokið námi og verið komin með fasta atvinnu. Í eigninni séu leigjendur en tekjur kæranda ásamt leigutekjum hefðu átt að duga til að greiða af eigninni. Aðstæður kæranda séu ekki hefðbundnar og hafi verið reynt að útskýra þær fyrir umboðsmanni skuldara.

Samkvæmt beiðni hafi kærandi sent ráðgjafa hjá umboðsmanni skuldara upplýsingar um tekjur sambýlismanns sem verið hafi vegna listaverkasölu og hönnunar. Hafi beiðni þessi komið henni í opna skjöldu og hafi þurft að svara henni skjótt. Vera megi að kærandi hafi ekki alveg áttað sig að fullu um hvað beiðnin snerist en hún hafi talið sig vera að leita skjóls frá þeim tíma sem umsókn hennar var móttekin hjá umboðsmanni.

Kærandi telur sig hafa góða möguleika til að koma skuldamálum sínum á réttan kjöl fái hún til þess grunnaðstoð í einhvern tíma.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Samkvæmt gögnum málsins keypti kærandi íbúð í nóvember 2008. Hafi kaupin verið fjármögnuð með því að yfirtaka áhvílandi veðskuldir hjá Íbúðalánasjóði og taka eitt lán til viðbótar hjá sjóðnum. Hafi þessar skuldir numið 13.654.323 krónum í lok árs 2008. Samkvæmt gögnum málsins hafi samanlagðar afborganir lánanna verið um 110.000 krónur. Aðrar skuldir í árslok 2008 hafi samkvæmt skattframtali verið 8.255.965 krónur að frátöldum námslánum. Fyrir liggi að afborganir af einu þessara lána hafi verið 26.000 krónur á mánuði. Ekki liggi fyrir nákvæmar upplýsingar um greiðslubyrði allra skulda en ljóst þyki samkvæmt þessu að hún hafi að minnsta kosti verið 136.000 krónur.

Gögn málsins beri með sér að tekjur kæranda á árinu 2008 hafi verið 60.752 krónur á mánuði að meðaltali. Tekjur sambýlismanns hafi þá verið 109.948 krónur á mánuði á meðaltali. Heildartekjur þeirra hafi því verið 170.829 krónur á mánuði að meðaltali.

Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi kæranda verið sent bréf þar sem henni hafi verið gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum og gögnum þar sem gögn málsins hafi gefið til kynna að hún hafi stofnað til skulda þegar hún hafi að öllum líkindum verið ófær um að standa í skilum miðað við greiðslugetu og uppgefnar tekjur. Í bréfinu komi fram að neysluviðmið umboðsmanns skuldara sé 145.092 krónur fyrir árið 2008 miðað við tvo fullorðna með eitt barn og því ljóst að tekjur kæranda og sambýlismanns hafi aðeins verið um 25.000 krónum yfir neysluviðmiði. Í svari kæranda hafni hún því að nefnt neysluviðmið eigi við í málinu. Sambýlismaður hennar fái oft greitt fyrir vinnu sína með mat, svo sem kjöti eða fiski, enda sé frystir þeirra yfirleitt fullur af mat. Umboðsmaður skuldara telji að þótt neysluviðmið fyrir tvo einstaklinga og eitt barn sé fyrrnefnd fjárhæð verði ekki framhjá því litið að greiðslubyrði þeirra skulda sem kærandi hafi tekist á hendur árið 2008 hafi í það minnsta verið 136.000 krónur sem bendi þá til þess að meirihluta tekna þeirra hafi þurft til að standa í skilum með afborganir lána.

Í svari kæranda komi einnig fram að tekjur sambýlismanns kæranda hafi ekki allar komið fram á skattframtali. Tilgreindar séu greiðslur vegna vinnu hans á árinu 2008 sem nemi alls 1.424.500 krónum og skýrt tekið fram að þær greiðslur komi ekki fram á skattframtali. Þessu til viðbótar megi lesa úr svörum kæranda að verulegur hluti af vinnu sambýlismanns hafi verið greiddur í matvælum og ekki séu tök á að reikna fyrir þau endurgjald. Samkvæmt þessu liggi fyrir að kærandi útskýri hvernig henni hafi verið unnt að standa í skilum með skuldbindingar umfram greiðslugetu með því að óuppgefnar tekjur hafi leitt til þess að það hafi verið hægt.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 17/2011 komi fram að þær tekjur sem fram komi á skattframtölum séu lagðar til grundvallar þegar metið sé hvort veita eigi heimild til greiðsluaðlögunar. Í tilviki sem þessu þar sem umsækjandi greini frá verulegum tekjum sem ekki komi fram á skattframtali sé því ekki tekið tillit til slíkra tekna við ákvörðun um hvort veita eigi heimild til greiðsluaðlögunar. Komi óuppgefnar tekjur því ekki til skoðunar við samanburð á skuldbindingum kæranda og tekjum sambýlismanns á þeim tíma er til skuldbindinganna hafi verið stofnað. Enn fremur segi í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn veita ekki glögga mynd af fjárhag skuldara og væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í máli þessu valdi hinar óuppgefnu tekjur því að ekki sé unnt að fá glögga mynd af fjárhag kæranda.

Að sögn kæranda hafi hún og sambýlismaður hennar séð fram á að standa í skilum með afborganir af skuldum vegna fasteignakaupa með því að laun kæranda dygðu til greiðslu afborgana en tekjur sambýlismanns væru notaðar til að reka heimilið. Fyrir liggi að samanlagðar tekjur þeirra samkvæmt skattframtölum hafi aðeins nægt fyrir litlu umfram afborganir. Því sé ljóst að kærandi hafi stofnað til skuldbindinga sem henni hafi ekki verið fært að standa í skilum með.

Þegar litið sé heildstætt á fjárhag kæranda þyki ljóst að við lántöku og yfirtöku veðskulda við kaup á fasteign hafi kærandi tekist á hendur skuldbindingar umfram greiðslugetu, sé tekið mið af mánaðarlegum tekjum samkvæmt skattframtölum. Kærandi hafi talið atvinnuleysi ástæðu greiðsluerfiðleika sinna en samkvæmt skattframtali hennar fyrir árið 2009 hafi mánaðarlegar meðaltekjur hennar það ár verið 127.534 krónur. Bendi það eindregið til þess að fjárhagur hennar hafi ekki beðið tjón af atvinnuleysi.

Af því sem hér hafi verið rakið um fjárhag kæranda á árinu 2008 þyki ljóst að fjárhagsstaða hennar hafi verið slík að henni hafi ekki verið unnt að standa í skilum með þær skuldbindingar sem hún hafi tekist á hendur.

Með vísan til þess sem komið hefur fram er það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b-lið 2. mgr. 6. gr. lge., en samkvæmt lagaákvæðinu er heimilt að synja um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Samkvæmt skattskýrslum og öðrum gögnum málsins var fjárhagsstaða kæranda eftirfarandi árin 2007 til 2010 í krónum:

  2007 2008 2009 2010
Meðaltekjur á mán. (nettó) 93.110 176.328 127.534 163.104
Eignir alls 0 32.257.449 29.700.417 26.400.137
· Fasteign 0 32.140.000 29.700.000 26.400.000
· Bankainnstæður o.fl. 0 117.449 417 137
Skuldir kr. 5.359.682 27.250.586 33.247.110 31.605.791
Nettóeignastaða kr. -5.359.682 5.006.863 -3.546.693 -5.205.654

 

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
Lífsj. verzlunarmanna 2002 Veðskuldabréf 650.000 1.105.004 2010
Gildi lífeyrissjóður 2004 Veðskuldabréf 3.000.000 5.871.227 2011
Íbúðalánasjóður 2008 Veðskuldabréf 5.500.000 9.686.121  
Íbúðalánasjóður 2008 Veðskuldabréf 2.055.961 3.911.913  
Íbúðalánasjóður 2008 Veðskuldabréf 3.584.384 5.142.267  
Landsbankinn 2009 Greiðslukort 25.000 522.799 2009
Landsbankinn   Yfirdráttur   644.761 2012
LÍN   Námslán   7.015.816  
Tollstjóri 2011 Opinber gjöld 95.459 97.109 2011
Ýmsir 2011 Reikningar 92.739 125.820 2011
 
Alls 15.003.543 34.122.837  

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í 2. mgr. 6. gr. eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Í framhaldinu eru í sjö liðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða er b-liður 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þess ákvæðis.

Áður en kærandi keypti fasteign á árinu 2008 voru skuldir hennar 5.359.682 krónur og eignir engar. Við fasteignakaupin tókst hún á hendur nýjar skuldbindingar sem hér segir:

  2008
Alls nýjar skuldbindingar 11.140.345
Mánaðarlegar 176.328
ráðstöfunartekjur  
Mánaðarlegur kostnaður 72.546
við framfærslu*  
Mánaðarleg greiðslugeta 103.782

* Helmingur neysluviðmiðs umboðsmanns skuldara þar sem gert er ráð fyrir að sambýlismaður kæranda standi straum af hinum helmingnum.

Af töflunni má sjá að árið 2008 hafði kærandi alls 103.782 krónur á mánuði til að greiða af lánum sínum. Engu að síður tókst hún á hendur lán það ár þar sem mánaðarleg greiðslubyrði nam um 136.000 krónum en við það varð greiðslugeta hennar neikvæð um rúmlega 32.000 krónur. Má af þessu ráða að kærandi var ekki fær um að standa við nema hluta þessara skuldbindinga þegar hún stofnaði til þeirra. Telur kærunefndin því að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma er hún var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

 Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta