Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 152/2012

Fimmtudaginn 7. ágúst 2014


A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 2. ágúst 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 17. júlí 2012 þar sem umsókn þeirra um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var hafnað.

Með bréfi 16. apríl 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. apríl 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 22. apríl 2013 og var þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Með bréfi 26. september 2013 var kærendum tilkynnt með vísan til 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að afgreiðsla málsins myndi tefjast. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1969 og 1971. Samkvæmt gögnum málsins eru kærendur gift og búa ásamt tveimur börnum sínum í eigin húsnæði að C götu nr. 17 í sveitarfélaginu D, en um er að ræða 255,6 fermetra einbýlishús.

Heildarskuldir kærenda nema 61.772.865 krónum samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara og þar af falla 52.284.921 króna innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Kærendur eru í ábyrgðum fyrir aðra vegna skulda að fjárhæð 33.248.120 krónur og eru 29.898.826 krónur þar af í vanskilum. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 1999–2007 og þá einkum vegna húsbyggingar á árunum 2005–2007.

Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til ársins 2004 þegar þau fengu úthlutað lóð og hófust handa við að byggja einbýlishús við C götu nr. 17. Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins áttu kærendur á þeim tíma íbúð að E götu nr. 14 í sveitarfélaginu D. Bygging hússins tók tvö ár og var fjármögnuð að mestu með yfirdráttarheimild hjá Sparisjóði Mýrarsýslu, en einnig fengu kærendur fyrirgreiðslu frá öðrum lánastofnunum. Til stóð að breyta lánunum í lán í erlendri mynt þegar kærendur væru búin að fá mat á húsið. Áður en matið lá fyrir töldu kærendur óhagstætt að taka lán í erlendri mynt vegna þess hve gengi íslensku krónunnar var sterkt. Kærendur reyndu að semja við Sparisjóðinn en án árangurs.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að kærandi B hefði að eigin sögn verið tekjulaus seinni hluta árs 2012. Kærandi A hefði verið í 70% starfi sem aðstoðarmaður tannlæknis og útborguð laun hennar voru að meðaltali 173.427 krónur á mánuði. Þá þáðu þau barnabætur að fjárhæð 11.964 krónur á mánuði og ráðstöfunartekjur þeirra voru 185.391 króna á mánuði að meðaltali.

Umboðsmaður vísar til þess að við meðferð málsins komu í ljós atvik sem þóttu geta leitt til synjunar á heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Kærendum var því sent ábyrgðarbréf í þrígang, 20. apríl, 23. maí og 14. júní 2012, þar sem þeim var boðið að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós. Við fyrsta bréfinu barst umboðsmanni skuldara svar sem þótti ófullnægjandi og við öðru bréfinu barst ekkert svar, en umbeðin gögn voru lögð fram. Engin svör bárust vegna síðasta bréfsins.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 17. júlí 2012 var umsókninni hafnað með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Í kæru eru ekki settar fram neinar kröfur en skilja verður málatilbúnað kærenda þannig að þau mótmæli ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja umsókn þeirra um heimild til að leita greiðsluaðlögunar og að þau krefjist þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Fljótlega eftir að afgreiðsla á umsókn kærenda hófst hafi komið í ljós að samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hefði kærandi B ekki haft neinar tekjur síðan í maí 2011. Með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kærendum verið sent bréf 20. apríl 2012 þar sem óskað hafi verið upplýsinga um tekjur kæranda B seinni hluta árs 2011 og skýringa á því hvers vegna opinber gjöld hefðu ekki verið greidd vegna þeirra. Hafi kærendum verið gefinn 15 daga frestur frá móttöku bréfsins til að svara því og gefa embættinu skýrari og gleggri mynd af fjárhagsstöðu sinni.

Svar hafi borist frá kærendum með tölvupósti 8. maí 2012. Þar hafi kærandi B greint frá því að hann væri tekjulaus um þær mundir en væri að byggja hús með bróður sínum. Þeir hygðust síðan selja húsið og nota hagnaðinn af sölunni til þess að greiða sér laun og fjárfesta í annarri lóð. Þá hafi og komið fram að B hefði verið í vinnu hjá X ehf. þar til í nóvember 2011. Þar sem ekki hafi komið fram greinargóðar upplýsingar um tekjur var kærendum sent annað bréf 23. maí 2012, þar sem beiðni um sömu upplýsingar var ítrekuð. Í sama bréfi hafi kærendur verið beðin um að skila inn skattframtali 2012 fyrir tekjuárið 2011 svo hægt væri að vinna umsókn kærenda áfram. Ekkert svar hafi borist við bréfinu en skattframtali 2012 fyrir tekjuárið 2011 hafi verið skilað inn. Kærandi B hafi þar reiknað sér endurgjald vegna eigin reksturs X ehf. að fjárhæð 2.400.000 krónur á árinu 2011 og hagnað af starfseminni að fjárhæð 1.080.203 krónur sama ár. Ekki hafi verið greiddur skattur af þessum fjárhæðum samkvæmt skattframtalinu.

Þá segir umboðsmaður skuldara að þrátt fyrir að mynd af fjárhagsstöðu kærenda hafi orðið örlítið gleggri, vantaði að mati embættisins enn mikið upp á til að hægt væri að taka efnislega ákvörðun í máli kærenda. Þar sem annar kærenda virðist hafa verið tekjulaus frá janúar til júní 2012 var kærendum sent annað bréf 14. júní 2012 og aftur vísað til hugsanlegrar synjunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Var kærendum tjáð að tilgangur lagagreinarinnar væri að hjálpa embætti umboðsmanns skuldara að fá sem gleggsta mynd af fjárhagsstöðu skuldara og væntanlegri þróun fjárhags þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar ef til hennar kæmi. Þá hafi og verið útskýrt að ef greiðsluaðlögun yrði samþykkt þyrfti greiðslugeta kærenda að liggja eins skýrt fyrir og mögulegt væri þar sem hún væri grundvallarforsenda fyrir samningum við kröfuhafa. Hafi kærendum verið tjáð að enn væri mynd embættisins af fjárhag þeirra og væntanlegri framvindu hans óglögg.

Í viðleitni embættisins til að fá skýrari mynd af fjárhag kærenda hafi ákveðnum spurningum verið varpað fram og kærendur beðin um svör ásamt gögnum sem styddu þau. Kærendur hafi verið spurð um það hvernig þau hefðu farið að því að framfleyta sér fyrst kærandi B hefði verið tekjulaus það sem af var árinu 2012 en tekjur kæranda Nönnu væru að meðaltali 185.391 króna á mánuði að barnabótum meðtöldum. Hafi verið tekið fram að framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara gerðu ráð fyrir að framfærslukostnaður fjögurra manna fjölskyldu væri 278.220 krónur á mánuði að viðbættum kostnaði vegna hita, rafmagns og trygginga. Þá hafi kærendur verið innt svara við því hvernig væntanlegri sölu fasteignarinnar sem kærandi B væri að byggja með bróður sínum yrði háttað. Spurt hafi verið hver væri skráður eigandi fasteignarinnar, hver bæri kostnaðinn af henni og hvort samningur lægi fyrir um uppgjör milli þeirra bræðra vegna sölunnar. Loks hafi verið spurt að því hvers vegna opinber gjöld hefðu ekki verið greidd af launatekjum kæranda B fyrir árið 2011. Hafi kærendum verið veittur 15 daga frestur frá móttöku bréfsins til að tjá sig skriflega um efni málsins og styðja mál sitt með gögnum. Bréfið hafi verið afhent kærendum 15. júní 2012 en engin svör hafi borist.

Umboðsmaður skuldara segir í greinargerð sinni að í kæru skorti á athugasemdir kærenda, kröfur þeirra og rök. Embætti umboðsmanns skuldara geti af þeim sökum ekki tekið frekari afstöðu til kæruefnisins og fer, með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar, fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Við mat á því hvað teljist vera nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning í 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

Í 5. gr. lge. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist, eins og áður segir, á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki glögga mynd af fjárhag kærenda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Eins og rakið er hér að framan hefur umboðsmaður í þrígang óskað eftir því að kærendur skili inn frekari gögnum og upplýsingum til umboðsmanns skuldara. Um upplýsingar og gögn um tekjur kærenda er að ræða en slíkar upplýsingar verða að teljast nauðsynlegar til þess að embættið geti fengið skýra mynd af fjárhagsstöðu kærenda nú og í nánustu framtíð og upplýsingarnar eru þess eðlis að kærendur geta ein látið þær í té. Kærendur hafa ekki orðið við ítrekaðri beiðni umboðsmanns skuldara og ekki skilað inn greinargerð vegna málsins til kærunefndarinnar. Hafa kærendur þannig engan reka gert að því að skýra frekar afstöðu sína í málinu eða leggja fram umbeðin gögn, þrátt fyrir ítrekaða fresti sem þeim hafa verið veittir til þess.

Að mati kærunefndarinnar skortir því á að kærendur hafi lagt fram nauðsynlegar upplýsingar til að fyrir liggi glögg mynd af fjárhag þeirra eða væntanlegri þróun fjárhags þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar, svo sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. áskilur.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta