Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 172/2012

Mánudaginn 25. ágúst 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir .

Þann 6. september 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. ágúst 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður. Þann 18. september 2012 bárust kærunefndinni röksemdir kæranda og gögn vegna kærunnar.

Með bréfi 18. september 2012 óskaði kærunefndin eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 15. nóvember 2012.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 21. nóvember 2012 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 4. desember 2012.

 

I. Málsatvik

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 29. júlí 2011 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Í ákvörðuninni eru aðstæður kæranda og forsendur ákvörðunarinnar raktar. Umsjónarmaður var skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda.

Þann 6. mars 2012 barst umboðsmanni skuldara bréf þar sem umsjónarmaður lagði til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður. Ástæðan var sögð sú að Íbúðalánasjóður hefði ekki tekið umsókn kæranda um hina svokölluðu 110% leið fyrir þar sem kærandi væri aðeins kaupsamningshafi en ekki afsalshafi fasteignar sem hún hafði keypt. Kærandi hafi haldið eftir lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningnum vegna meints galla á fasteigninni og hafi þannig talið sig eiga gagnkröfu á hendur seljandanum sem einnig var byggingaraðili eignarinnar. Ekki hafi legið fyrir skýrsla dómkvaddra matsmanna um meintan galla og þá hafi kærandi ekki lýst gallakröfu sinni í þrotabú seljanda, X ehf. Að sögn umsjónarmanns hafi kæranda verið leiðbeint um að gera kröfu í búið án þess að hún hefði nýtt sér leiðbeiningarnar. Þá hafi tilraunir umsjónarmanns til samninga við Íbúðalánasjóð ekki skilað árangri. Hin umdeilda krafa hins gjaldþrota byggingaraðila hvíli á skuldara og verði ekki unnt að ákvarða fjárhæð hennar fyrr en kærandi hafi útkljáð ágreininginn við þrotabúið. Óljóst sé hvort og hvenær af því verði. Því sé ákveðinn ómöguleiki fyrir hendi sem leiði til þess að umsjónarmaður geti ekki lokið vinnslu málsins. Umsjónarmaður eigi þess einan kost að endursenda umboðsmanni skuldara málið.

Í tölvupósti umsjónarmanns til kæranda 5. mars 2012 kemur meðal annars fram að reynt hafi verið að leysa málið þótt kærandi væri ekki afsalshafi að íbúð sinni. Umsjónarmaður hafi leitað ráðgjafar hjá umboðsmanni skuldara og Íbúðalánasjóði vegna þess. Virðist ómögulegt að halda áfram með vinnslu málsins eða ljúka því fyrr en kærandi hafi jafnað ágreining sinn við þrotabú X ehf. Ekki sé því annar kostur fyrir hendi en að endursenda málið til umboðsmanns skuldara á grundvelli 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem fyrrnefndur ómöguleiki sé fyrir hendi.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. ágúst 2012 kemur fram að embættið hafi verið í samskiptum við kæranda og kynnt honum bréf umsjónarmanns. Kærandi hafi óskað eftir tveggja til þriggja daga fresti til að ljúka samningum við skiptastjóra þrotabús X ehf. og fá útgefið afsal fyrir fasteigninni. Embættið hafi orðið við beiðni kæranda en hún hafi þó ekki haft samband við umboðsmann skuldara að nýju. Einnig hafi embættið ítrekað reynt að ná tali af umboðsmanni kæranda, án árangurs. Gagnaöflun í málinu hafi því verið lokið, sbr. 5. gr. lge. auk 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í forsendum hinnar kærðu ákvörðunar kemur fram að ákveðnir óvissuþættir séu fyrir hendi í máli kæranda sem séu þess eðlis að ekki sé mögulegt að fá heildarmynd af fjárhag hennar. Þá hafi skort á að kærandi legði fram gögn sem óskað hafi verið eftir og skiptu máli við samningu frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun, svo sem gögn um kröfu í þrotabú X ehf. Í ljósi þessa verði háttsemi kæranda sem og aðstæður málsins í heild heimfærðar undir 15. gr. lge., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Samkvæmt upplýsingum sem fram komu við meðferð málsins hjá kærunefndinni lauk skiptum á þrotabúi X ehf. 6. maí 2014.

 

II. Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er gerð sú krafa að ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana kæranda verði felld úr gildi og að málið fari á ný til umsjónarmanns sem reyni að ná samkomulagi við kröfuhafa. Kærandi fer jafnframt fram á að fá greiddan málskostnað samkvæmt mati nefndarinnar.

Kærandi vísar í fyrsta lagi til þess að óumdeilt sé að verulegir gallar séu á íbúð hennar. Helstu rök þrotabús X ehf. hafi fram að þessu verið þau að kærandi þyrfti að höfða dómsmál gegn þrotabúinu til þess að eiga möguleika á að sækja bætur eða ná samkomulagi.

Kærandi hafi ekki haft þau fjárráð að hún treysti sér til að höfða dómsmál. Einnig væri það alls óvíst hvort hún fengi tjón sitt bætt jafnvel þótt hún myndi vinna slíkt dómsmál. Þá hafi kærandi heldur ekki haft fjárráð til þess að fá dómkvadda matsmenn til þess að meta tjón sitt en hún hafi þó látið gera ástandsskoðun á fasteigninni. Þessa ástandsskoðun hafi hún lagt fram í málinu, bæði til umsjónarmanns sem og til skiptastjóra þrotabús X ehf. Auk þess hafi hún, þrátt fyrir fullyrðingar um annað í ákvörðun umboðsmanns skuldara, lýst kröfu í þrotabúið.

Í öðru lagi hafi kærandi talið að við það að fá samþykkta heimild til að leita greiðsluaðlögunar og fá sér skipaðan umsjónarmann myndi hann gæta hagsmuna hennar gagnvart kröfuhöfum og reyna að ná samkomulagi við þrotabú X ehf., en það hafi umsjónarmaðurinn ekki gert.

Þá hafi kærandi í þriðja lagi verið í miklum samskiptum við skiptastjóra þrotabús X ehf. Hafi umboðsmaður skuldara veitt kæranda frest í einn til tvo daga til þess að ljúka samningaviðræðum við þrotabúið, en kærandi hafi talið þann frest óraunhæfan. Kærandi hafi þó náð samkomulagi við þrotabúið vegna málsins en það feli í sér að kærandi greiði þrotabúinu 3.510.000 krónur og náist samningar við aðra kröfuhafa muni þrotabúið afsala fasteigninni til kæranda.

Kærandi kveður málið snúast um það að gera henni kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að hún geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Þetta ætti að vera hægt þegar yfirlýsing frá skiptastjóra þrotabús X ehf. liggi fyrir.

Þrátt fyrir markmið lge. og hlutverk umboðsmanns skuldara sé ekki að sjá að umboðsmaður hafi gætt hagsmuna kæranda með því að synja henni um greiðsluaðlögun á þeim forsendum að á tilteknum tíma hafi ekki legið fyrir samkomulag við skiptastjóra þrotabúsins. Að auki verði hvorki séð að umboðsmaður skuldara né skipaður umsjónarmaður hafi á nokkru stigi málsins reynt að hafa samband við skiptastjóra þrotabús X ehf.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að kæranda hafi verið veitt heimild til greiðsluaðlögunar 29. júlí 2011. Í kjölfarið hafi umsjónarmaður verið skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Með bréfi umsjónarmanns 6. mars 2012 hafi verið lagt til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrði felldar niður. Í bréfi umsjónarmanns hafi komið fram að mikil óvissa ríkti um framhald greiðsluaðlögunarumleitana.

Í 6. gr. lge. séu tilteknar þær aðstæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. laganna segi að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Ljóst þyki að krafa þrotabús X ehf. hvíli á kæranda. Að mati umsjónarmanns sé ekki unnt að gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun fyrr en kærandi hafi útkljáð ágreining við þrotabúið. Kærandi hafi þó ekki haft frumkvæði að slíkum samningaviðræðum meðan á frestun greiðslna hafi staðið.

Umsjónarmaður hafi lagt til niðurfellingu málsins á grundvelli 18. gr. lge. Umboðsmaður skuldara telji að ekki sé unnt að fella málið undir það lagaákvæði, enda hafi umsjónarmaður hvorki tekið afstöðu til nauðasamnings með rökstuddum hætti né liggi fyrir að umsækjandi hafi óskað eftir því að nauðasamnings verði leitað.

Í máli kæranda verði ákveðnir óvissuþættir taldir vera fyrir hendi sem séu þess eðlis að ekki sé mögulegt að fá heildarmynd af fjárhag hennar, sér í lagi eignastöðu. Verði einnig að gera þá kröfu til kæranda að hún sýni samstarfsvilja og leggi fram þau gögn sem óskað sé eftir og skipti máli við samningu frumvarps til greiðsluaðlögunar, svo sem gögn um kröfu í þrotabú X ehf. vegna meintrar gallakröfu. Í ljósi þessa verði háttsemi kæranda sem og aðstæður málsins í heild heimfærð undir 15. gr. lge., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Umboðsmanni skuldara hafi ekki borist gögn sem varpað geti nánara ljósi á þau óljósu atriði sem að ofan hafi verið rakin.

Umboðsmaður skuldara vísar til 15. gr. lge. þar sem segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Með bréfi 6. mars 2012 hafi umsjónarmaður tilkynnt umboðsmanni skuldara að verulegir óvissuþættir væru varðandi framhald greiðsluaðlögunarumleitana kæranda. Af hinni kærðu ákvörðun verði ráðið að óvissan sé einna helst sprottin af því að eignastaða kæranda sé óljós. Fyrir liggi að kærandi sé ekki afsalshafi eignarinnar sem hún búi í og ljóst þyki að hún hafi ekki greitt lokagreiðslu samkvæmt kaupsamningi, en hún haldi því fram að hún eigi gagnkröfu á hendur seljanda, þrotabúi X ehf., vegna galla á eigninni. Af gögnum málsins verði ráðið að umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hafi af þessum sökum ekki getað öðlast heildarmynd af fjárhag kæranda. Umsjónarmaður og umboðsmaður skuldara hafi ítrekað óskað eftir frekari upplýsingum og gögnum um stöðu deilunnar, en ekki hafi verið brugðist við því með viðhlítandi hætti. Kærandi hafi lagt fram yfirlýsingu skiptastjóra þrotabús X ehf. um að eftirstöðvar kaupverðs fasteignarinnar nemi 3.510.000 krónum og þegar það hafi verið greitt verði gefið út afsal. Ekki verði séð að umrædd yfirlýsing breyti neinu um efni málsins, enda hafi legið fyrir að krafa þrotabús X ehf. væri a.m.k. 3.500.000 krónur þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Hvorki verði séð að fallist hafi verið á afslátt vegna meints galla né liggi fyrir frekari gögn sem sýni fram á að kærandi eigi eða geti átt gagnkröfu á hendur þrotabúi X ehf. Ekki verði séð að rökstuðningur kæranda í greinargerð með kæru bendi til þess að kærandi geti átt von á að gagnkrafa hennar verði viðurkennd, og skuld kæranda við þrotabú X ehf. muni af þeim sökum lækka. Umboðsmaður skuldara hafi ekki undir höndum ástandsskoðun þá sem kærandi nefni í rökstuðningi sínum, en ekki verði séð að hún geti verið stoð undir gagnkröfu kæranda enda liggi ekki fyrir að kærandi hafi gripið til aðgerða sem væru til þess fallnar að lækka kröfu þrotabúsins. Af yfirlýsingu skiptastjóra þrotabús X ehf. verði ekki ráðið að gagnkrafa kæranda hafi verið viðurkennd með neinu móti.

Kærandi hafi talið að umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hefði ekki gætt hagsmuna sinna og að hann hefði ekki reynt að ná samkomulagi við þrotabú X ehf. Af gögnum málsins verði þó ráðið að umsjónarmaður hafi lagt sig fram um að leita niðurstöðu vegna kröfu þrotabúsins á hendur kæranda en án árangurs. Ljóst þyki að enginn grundvöllur hafi verið til þess að umsjónarmanni hafi verið heimilt að líta svo á að krafa þrotabús X ehf. hafi verið lægri en þrotabúið hafi lýst.

Kærandi hafi einnig talið að frestur sá sem henni hafi verið veittur til að ná samkomulagi við þrotabú X ehf. hafi verið „algjörlega óraunhæfur“. Af gögnum málsins verði þó ráðið að kærandi hafi beðið um tveggja til þriggja daga frest. Þegar hin kærða ákvörðun var tekin hafi engin gögn borist og raunar hafi ekki náðst í umboðsmann kæranda vegna málsins eftir umrædda beiðni um frest. Þannig hafi liðið tveir mánuðir frá því að beiðni kæranda um frest barst umboðsmanni skuldara þar til ákvörðun var tekin. Telja verði að kæranda hafi þannig gefist nægur tími til að sinna málinu. Yfirlýsing skiptastjóra þrotabús X ehf., sem kærandi hafi lagt fram hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, sé dagsett tveimur dögum eftir að kæranda barst hin kærða ákvörðun. Eins og áður hafi verið rakið verði ekki séð að yfirlýsingin breyti neinu um skuld kæranda við þrotabúið. Ekki verði ráðið af rökstuðningi kæranda og gögnum málsins hvers vegna það hafi dregist svo að komast að niðurstöðu. Þannig verði ekki séð að nein ástæða hafi verið fyrir umboðsmann skuldara að draga það að taka ákvörðun í málinu. Þá verði ekki séð að gögnin sem kærandi hafi lagt fram hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála séu til þess fallin að varpa frekara ljósi á eignastöðu kæranda.

Af gögnum málsins verði ráða að þrotabú X ehf. telji að kærandi eigi ekki aðra kröfu á hendur búinu en kröfu um útgáfu afsals gegn greiðslu eftirstöðva kaupverðs. Ekki verði séð að kærandi hafi fylgt eftir meintri kröfu sinni vegna galla á eigninni með þeim hætti að möguleiki væri á því að slík krafa yrði viðurkennd. Þannig liggi hvorki fyrir gögn í málinu sem gætu stutt kröfuna í dómsmáli né liggi fyrir að kærandi hafi lýst kröfu sinni í þrotabú X ehf.

Hin kærða ákvörðun byggist á 15. gr. lge., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. laganna. Við meðferð málsins hjá umsjónarmanni hafi verið uppi veruleg óvissa um eignastöðu kæranda. Þar sem fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun fjárhags hennar á tímabili greiðsluaðlögunar hafi ekki þótt hjá því komist að fella niður heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. laganna.

Ákvæði 15. gr. lge. nær samkvæmt orðanna hljóðan yfir skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum og á við þegar fram koma upplýsingar við greiðsluaðlögunarumleitanir sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna. Í skýringum við frumvarp til lge. segir um ákvæði 15. gr. að þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Er hér gert ráð fyrir að skuldari taki virkan þátt og sýni viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Í skýringum við 6. gr. í athugasemdum við frumvarp til laganna er áréttað mikilvægi þess að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans og að hann verði við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem skuldara einum er unnt að afla eða gefa.

Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Þar er talið upp í ellefu töluliðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókn skuldara um greiðsluaðlögun. Í 2. og 3. tölul. 1. mgr. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar séu eignir og skuldir umsækjenda. Í athugasemdum með 4. gr. lge. kemur fram að upptalning 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

 Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Vísar umboðsmaður skuldara í fyrsta lagi til þess að þar sem kærandi er ekki afsalshafi fasteignar sinnar sé ekki hægt að fá heildarmynd af fjárhag hennar, sér í lagi eignastöðu. Í öðru lagi vísar umboðsmaður til þess að kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem óskað hafi verið eftir og skipti máli við samningu frumvarps til greiðsluaðlögunarsamnings. Í þessu samhengi hafi kærandi ekki lagt fram kröfu í þrotabú X ehf. Háttsemi kæranda sem og aðstæður eru heimfærðar undir 15. gr. lge., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi fullnægt áskilnaði 2. og 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. og veitt umboðsmanni skuldara upplýsingar um skuldir sínar og eignir. Óumdeilt er að meðal skulda kæranda er lokagreiðsla samkvæmt kaupsamningi um fasteign að B götu nr. 1–3, upphaflega að fjárhæð 3.500.000 krónur. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að hún eigi gagnkröfu á þrotabú X ehf. vegna meints galla á eigninni. Er því mat kærunefndarinnar að ekki sé unnt að líta öðruvísi á en að kærandi eigi ekki slíka kröfu.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að kærandi hafi ekki lagt fram öll gögn sem máli skipta. Fram kemur í greinargerð umboðsmanns skuldara að ítrekað hafi verið óskað eftir gögnum og upplýsingum um stöðu ágreinings við þrotabú X ehf. Samkvæmt gögnum málsins lagði kærandi fram yfirlýsingu frá skiptastjóra þess efnis að þegar kaupsamningsgreiðsla yrði innt af hendi myndi þrotabúið gefa út afsal til kæranda. Eins og mál þetta er vaxið og með vísan til þess sem þegar hefur komið fram telur kærunefndin að kærandi hafi látið umboðsmanni skuldara í té þau gögn sem hún hafði undir höndum og voru embættinu nauðsynleg til að upplýsa fjárhagsstöðu sína.

Með vísan til þess er því að mati kærunefndarinnar ljóst hver fjárhagsstaða kæranda er í þessu tilliti, þrátt fyrir að þrotabú X ehf. hafi ekki gefið út afsal og skuld kæranda samkvæmt kaupsamningnum vegna lokagreiðslu sé enn ógreidd.

Í greinargerð frumvarps til lge. kemur fram að hlutverk umsjónarmanns sé meðal annars að leggja fram útfærða tillögu að frumvarpi til greiðsluaðlögunar fyrir skuldara. Í 2. mgr. 16. gr. lge. segir að í frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun skuli tiltaka viðeigandi upplýsingar sem gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu skuldara, meðal annars upplýsingar um tekjur, skuldir, eignir og mánaðarleg útgjöld. Samþykki allir kröfuhafar sem málið snerti frumvarpið telst það samþykkt, sbr. 4. mgr. 17. gr. lge. Takist samningar ekki ber umsjónarmanni að upplýsa skuldara um möguleika þess að leita nauðasamnings og greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna, sbr. 18. gr. lge. Ekki liggur fyrir að umsjónarmaður hafi gert það.

Ljóst er af málavöxtum að ágreiningur um eignarheimild fyrir fasteign kæranda hefur valdið erfiðleikum við meðferð málsins, sér í lagi hjá umsjónarmanni sem vísaði málinu til umboðsmanns skuldara á grundvelli 15. gr. lge. vegna þess að ómögulegt hafi verið að leysa úr málinu nema afsal fasteignar kæranda lægi fyrir. Í lge. er lagt fyrir umsjónarmann hvernig fara skuli með mál skuldara. Er þar kveðið á um að ef tilteknar upplýsingar liggi fyrir og ekki sé tilefni til að fella greiðsluaðlögunarumleitanir niður skuli frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings lagt fyrir kröfuhafa. Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki fengið afsal fyrir fasteign sinni er það álit kærunefndarinnar að fjárhagsstaða kæranda liggi í sjálfu sér fyrir. Bar því umsjónarmanni að vinna áfram að greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda enda ljóst að kærandi getur þrátt fyrir að hún sé ekki afsalshafi eignarinnar ráðstafað þeim réttindum sem hún hefur öðlast með kaupsamningi.

Að þessu virtu telur kærunefndin að greiðsluaðlögunarumleitanir A hafi með hinni kærðu ákvörðun verið felldar niður án þess að fyrir því væru viðhlítandi lagarök samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Kröfuna um greiðslu málskostnaðar verður að mati kærunefndarinnar að skilja svo að verið sé að fara fram á greiðslu þóknunar til lögfræðings kæranda sem hefur komið fram fyrir hana gagnvart kærunefndinni.

Í 30. gr. lge. kemur fram hvernig háttað skuli greiðslu kostnaðar við málsmeðferð samkvæmt lögunum. Segir þar að umboðsmaður skuldara beri kostnað við meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og störf umsjónarmanna. Lánardrottnar beri þann kostnað sem á þá falli af meðferð umsóknar um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar. Kostnaður af sölu eignar greiðist af söluandvirði hennar. Í lge. er ekki að finna ákvæði er lúta að kostnaði við málsmeðferð fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála. Þannig greina lge. ekki frá því hver beri sérfræðikostnað kæranda, kjósi hann að leita sér aðstoðar utanaðkomandi aðila við málarekstur sinn fyrir kærunefndinni. Þá eru engin ákvæði í lge. er heimila kærunefndinni að ákvarða kæranda kostnað úr hendi þriðja aðila vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni. Samkvæmt þessu standa lög ekki til annars en að kærandi verði sjálf að bera þann kostnað sem hún kann að hafa stofnað til við málsmeðferð fyrir kærunefndinni. Beiðni kæranda um greiðslu málskostnaðar er því hafnað.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Eggert Óskarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta