Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Greiðsluaðlögunarmál

Mál nr. 48/2011

 Mánudaginn 23. september 2013

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Kristrún Heimisdóttir.

Kærunefnd greiðsluaðlögunar hefur borist kæra A og B, vegna synjunar umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun. Þetta er önnur kæran vegna sömu atvika en umboðsmaður skuldara afturkallaði ákvörðun og úrskurðaði að nýju á grundvelli fyllri gagna. hvo﷽﷽﷽﷽﷽﷽ggja sinið luaðlögun í  atvika en umboðsmaður skuldara afturkallaði

Fyrst barst kæra 30. ágúst 2011 vegna ákvörðunar umboðsmanns frá 17. ágúst það ár en umboðsmaður ákvað með bréfi til kærenda 7. nóvember 2011 endurupptöku málsins vegna framkominna skýringa kærenda. Var eldri ákvörðun umboðsmanns felld úr gildi og málið tekið til efnislegrar meðferðar hjá embættinu á ný eins og segir í bréfi umboðsmanns.

Þá barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála aftur, þann 6. desember 2011 með tölvubréfi, kæra vegna nýrrar ákvörðunar umboðsmanns skuldara frá 1. desember 2011 um að synja um heimild til greiðsluaðlögunar.

Með bréfi kærunefndar greiðsluaðlögunarmála 9. september 2011 óskaði nefndin eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 3. október 2011. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 7. október 2011 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Seinni greinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 29. mars 2012. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 30. mars 2012 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Frekari athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi 16. apríl 2012. Með bréfi 26. apríl 2012 var óskað eftir afstöðu umboðsmanns skuldara vegna athugasemda kærenda. Framhaldsgreinargerð barst frá umboðsmanni með bréfi 7. maí 2012. Framhaldsgreinagerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 14. maí 2012 og var þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi 18. maí 2012.

Þar eð kærendur ítrekuðu í bréfum til kærunefndar efnisatriði greinargerðar sinnar um hina ógiltu ákvörðun, sem barst nefndinni í september 2011, eru þau sjónarmið einnig virt og til þeirra vísað í úrskurðinum enda er það kærendum í hag.

I. Málsatvik

Kærendur eru gift og búa í eign sinni á C götu nr. 80 í sveitarfélaginu D. Hjá þeim býr yngsta dóttir þeirra. A er með meistaragráðu frá verkfræðideild Háskóla Íslands, en er atvinnulaus sem stendur. B er snyrtifræðingur og vinnur við það í 75% starfshlutfalli.

Að sögn kærenda má aðallega rekja fjárhagserfiðleika þeirra til atvinnumissis og mjög mikils samdráttar í tekjum. Í greinargerð með umsókn kemur fram að kærandinn A hafi árið 2006 verið neyddur til að selja eignarhlut sinn í X hf. til SPRON. Honum hafi verið boðnar 400.000.000 krónur fyrir meirihlutaeign sína í félaginu. SPRON var þá næststærsti hluthafinn í X hf. og hafi litið á kauptilboðið sem ógn við hagsmuni sína í félaginu. Framkvæmdastjórar SPRON hafi því gjaldfellt lán sem kæranda A hafi verið veitt í tengslum við hlutafjáraukningu hans í félaginu og krafðist bankinn þess að lánin yrðu greidd með yfirtöku á hlutabréfum í eigu kæranda A, á undirverði. Í kjölfarið hafi SPRON ráðið tæknimenn og forritara X hf. til sín og hafi með því komið í veg fyrir sölu á eignarhlut kæranda A í félaginu. Ásamt þessu hafi hækkandi greiðslubyrði lána og kostnaður vegna byggingu nýs húsnæðis fyrir fjölskylduna að E götu nr. 2 í svietarfélaginu D verið samverkandi ástæður greiðsluerfiðleika kærenda.

Heildarskuldir kærenda eru, samkvæmt skuldayfirliti frá umboðsmanni skuldara, 272.727.511 krónur. Til verðtryggðra krafna teljast kröfur að fjárhæð 164.451.628 krónur, til óverðtryggðra krafna teljast kröfur að fjárhæð 98.062.533 krónur og til krafna utan samnings teljast kröfur að fjárhæð 10.203.350 krónur. Helstu skuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara skiptast þannig:

Kröfuhafi Tegund Ár   Höfuðstóll Staða 2011
Íbúðalánasjóður Veðkrafa 1991   4.940.000 kr. 5.847.897 kr.
LÍN Námslán 1992   4.284.182 kr. 6.123.308 kr.
Íslandsbanki Skuldabréf 1997   1.588.850 kr. 374.852 kr.
Arion banki Veðkrafa 2005   8.001.828 kr. 9.408.885 kr.
Íslandbanki Veðkrafa 2005   39.000.000 kr. 92.239.250 kr.
Byr Veðkrafa 2007   8.200.000 kr. 24.717.327 kr.
LÍN Námslán 2007     4.080.042 kr.
SPRON Veðkrafa 2007   30.270.000 kr. 98.746.626 kr.
Íbúðalánasjóður Veðkrafa 2008   18.000.000 kr. 25.730.893 kr.
Avant Bílasamningur 2010   1.113.453 kr. 1.232.084 kr.
Avant Bílasamningur 2010   1.258.929 kr. 1.337.780 kr.
Íslandsbanki Yfirdráttur       2.500.766 kr.
Aðrir Aðrar skuldir       377.801 kr.
Samtals: 272.717.511 kr.

Samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara eru ábyrgðarskuldbindingar kærenda eftirfarandi:

Kröfuhafi Lántaki Ár Höfuðstóll. Staða 2011
SPRON Y 2006 JPY 6.052.089 og CHF 66.611,67 14.061.629 kr.
Byr Z 2005 JPY 6.750.000 og CHF 74.500 10.000.000 kr.
Avant V 2010 972.844 kr. 1.208.239 kr.
Íslandsbanki U 2002 3.000.000 kr. 1.671.100 kr.
Íslandsbanki Þ 2007 1.300.000 kr. 1.122.800 kr.
Samtals: 28.063.768 kr.

Mánaðarlegar nettótekjur kæranda A eru 129.439 krónur frá Atvinnuleysistryggingasjóði. Mánaðarlegar tekjur kæranda B eru nettó 249.591 króna. Auk þess fá þau greiddar vaxtabætur að fjárhæð 34.031 króna á mánuði. Tekjur kærenda undanfarin ár hafa verið eftirfarandi:

Ár Meðaltekjur á mánuði
2010 348.422 kr.
2009 375.578 kr.
2008 174.743 kr.
2007 269.960 kr.
2006 1.465.911 kr.

Eignir kæranda samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara eru þessar:

Tegund Eign 2011
Fasteign 33.400.000 kr.
Fasteign 44.600.000 kr.
Bifreið 1.843.641 kr.
Bifreið 1.307.826 kr.
Bankainnistæður 616 kr.
Samtals: 81.152.083 kr.

Þann 21. nóvember 2011 lá umsókn kærenda fyrir fullbúin, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Var umsókn þeirra synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 1. desember 2011 með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Sjónarmið kærenda koma fram bæði í rökstuðningi við kærur 30. ágúst 2011 og 6. desember 2011. Kærendur telja að sú niðurstaða sem þeim var birt með bréfi kærunefndar greiðsluaðlögunarmála 9. nóvember 2011, að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt, sé bindandi stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Telja kærendur að skilyrði til afturköllunar slíkrar ákvörðunar séu ekki uppfyllt. Vísa kærendur til þess að umboðsmanni skuldara hafi ekki verið heimilt að endurupptaka fyrri ákvörðun sína um að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar enda sé það val aðila hvort hann kæri ákvörðun eða óski eftir endurupptöku máls. Umboðsmaður geti því ekki einhliða ákveðið að endurupptaka mál og hafi kærendur verið í góðri trú um að kærunefndin tæki endanlega ákvörðun í máli þeirra.

Kærendur benda jafnframt á að heildstætt mat á aðstæðum hafi ekki farið fram áður en umboðsmaður tók hina kærðu ákvörðun. Telja kærendur að umboðsmaður hafi ekki tekið nægilegt tillit til þess að krafa Íslandsbanka sem tryggð er með ábyrgð F hf. og veði í G sé umdeild og geti varla ráðið úrslitum við ákvörðun um hvort synja eigi umsókn þeirra um heimild til að leita samninga um greiðsluaðlögun. Auk þess tengdist sú lántaka ákveðnu fjárfestingarverkefni og þannig atvinnurekstri annars kærenda. Lántaka tengd atvinnurekstri feli ávallt í sér áhættu en kærendur vísa í mál kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 9/2011 og benda á að í því máli hafi kærunefndin tekið fram að það sé „matsatriði í hverju tilviki fyrir sig hvort sú áhætta skuli leiða til þess að viðkomandi sé synjað um heimild til að leita samninga um greiðsluaðlögun“. Telja kærendur að þessi umdeilda krafa eigi ekki ein og sér að leiða til synjunar um heimild til að leita samnings um greiðsluaðlögun. Örugg trygging standi að baki kröfunni, veð í G. Það sama megi auk þess segja um margar aðrar kröfur á hendur kærendum sem tryggðar séu með veði í ýmsum eignum. Jafnframt séu in solidum meðskuldarar að einni kröfunni sem fram komi á skuldayfirliti umboðsmanns. Eins hafi gengistryggt lán þar sem Byr var upprunalegur kröfuhafi ekki verið leiðrétt í ljósi nýlegrar dómaframkvæmdar Hæstaréttar Íslands.

Kærendur benda á að niðurstaða umboðsmanns varðandi fasteignina að E götu nr. 2, sem virtist vera helsta ástæða synjunar, byggi að þeirra mati á röngum forsendum. Í niðurstöðu umboðsmanns sé að engu leyti tekið tillit til aðkomu félagsins T ehf. að málinu og þeirrar staðreyndar að niðurstaða lánanefndar Byrs á þessum tíma hafi verið sú að T ehf. hefði haft fulla fjárhagslega burði til að standa að byggingu fasteignarinnar. Tryggingin fyrir viðskiptunum hafi verið umrædd lóð og síðar fasteignin. Við mat á þeim fjárfestingum sem kærendur réðust í sé nauðsynlegt að líta til markaðsaðstæðna á þeim tíma er framkvæmdin fór fram og raunverulegs verðmætis fasteignarinnar. Kærendur hafi staðist greiðslumat Íbúðalánasjóðs þegar til lánveitinganna kom og krafa Íbúðalánasjóðs sé eina skuldbinding kærenda vegna þessarar fasteignar. Hún hvíli á fyrsta veðrétti og sé réttur viðkomandi kröfuhafa því ætíð tryggður, miðað við verðmæti fasteignarinnar, en krafa sjóðsins standi í 25.730.893 krónum samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns. Í gögnum málsins liggi fyrir verðmat fasteignasala sem telji heildarverðmæti umræddrar eignar 55.000.000 króna. Hún standi því vel undir þeim skuldbindingum sem kærendur tóku á sig vegna þessara framkvæmda. Lántakan verði því að teljast hófleg miðað við verðmæti fasteignarinnar í dag.

Kærendur benda jafnframt á að ákvörðun umboðsmanns byggi á þeim röngu forsendum að framkvæmdir við Fagraþing hafi hafist árið 2007. Framkvæmdir hafi hafist árið 2005 og kærendur hafi áður bent á þetta. Á þeim tíma hafi kærendur haft ágætar tekjur og átt arðsvon vegna félagsins X hf. Atvinnuleysi annars þeirra, sem engar forsendur hafi verið til að ætla að væri annað en tímabundið, hafi ekki kallað á að framkvæmdum yrði slegið á frest. Mikil verðmæti hafi þannig verið fólgin í lóðinni sem var úthlutað 2003 og á þessum tíma hafi húsbygging þótt örugg fjárfesting. Aldrei hafi staðið til að halda báðum fasteignum, C gata nr. 80 hafi átt að selja og halda heimili í E götu nr. 2. Þau hafi hins vegar setið uppi með báðar fasteignir.

Í framhaldsgreinagerð kærenda er áréttað að krafa Íbúðalánasjóðs, sem umboðsmaður skuldara vísar til og virðist helsti grundvöllur synjunar umsóknarinnar, sé að fullu tryggð með veði í fasteign þeirra. Þá hafi kærendur staðist greiðslumat hjá sjóðnum þegar til skuldbindingarinnar var stofnað og hljóti að gefa vísbendingu um að ráðstöfunin hafi verið eðlileg á þeim tíma. Ekki sé hægt að gera ráð fyrir að einstaklingar meti greiðslugetu sína með öðrum hætti heldur en sjálfstæð ríkisstofnun sem hafi það helsta hlutverk að standa að lánveitingum. Samfélagslegar ástæður hafi átt stóran þátt í að fjárhagur kærenda þróaðist á annan veg næstu fjögur árin.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður vísar til umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem synjað var með ákvörðun umboðsmanns sem tilkynnt var með bréfi 1. desember 2011 með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður bendir á að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skuli meðal annars taka sérstakt tillit til þess hvort stofnað hafi verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Jafnframt skuli við matið taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður bendir á að stærsta einstaka lánið sem kærandinn A er skuldari að sé lán frá Íslandsbanka hf., upphaflega að fjárhæð 39.000.000 króna, tekið þann 16. desember 2005. Krafan sé tryggð með veði í skipinu G, í eigu Útgerðarfélagsins F. Kærandi A telji sig ekki í persónulegum ábyrgðum fyrir umræddu láni. Sé hann persónulega ábyrgur þá hafi hann verið blekktur til þess. Bæði lögmaður útgerðarfélagsins og Íslandsbanki hf. telji að kærandi A sé í persónulegri ábyrgð fyrir láninu.

Vísar umboðsmaður síðan til þess að kærandi A undirritaði lánasamninginn sem lántaki og undirritaði einnig skilmálabreytingu vegna lánsins síðar, einnig sem lántaki. Engin annar hafi tekið á sig persónulega ábyrgð vegna lánsins, en tryggingabréf tryggt með veði í G hafi verið afhent til tryggingar greiðslu lánsins. Af gögnum málsins sé ljóst að árið 2009 hafi foreldrar kærandans B lagt til lánsveð í eign sinni að H götu nr. 39, sveitarfélaginu D, sem frekari tryggingu fyrir skuldinni. Kærandi A hafi einnig undirritað umrætt tryggingarbréf sem lántaki skuldarinnar.

Umboðsmaður telur að það sé ekki á hans færi sem handhafa framkvæmdavalds að meta hvort samningur sé ógildur, löggerningur verði aðeins ógiltur með dómi. Umboðsmaður hafi af þessum sökum engan annan kost en að telja þessa kröfu til skulda kæranda A.

Samkvæmt skýringum kærenda hafi þau hafið framkvæmdir við E götu nr. 2 á vormánuðum 2007. Framkvæmdirnar hafi verið fjármagnaðar með þeim hætti að T ehf., félag í eigu föður kærandans B, hafi fengið yfirdráttarheimild hjá Byr. Félagið hafi síðan notað yfirdráttarheimildina til að lána kærendum fyrir byggingarframkvæmdum. Þegar kærendur fengu lán hjá Íbúðalánasjóði 20. maí 2008 að fjárhæð 18.000.000 króna hafi sú fjárhæð gengið til greiðslu lánsins frá T ehf. Skuld kærenda við T ehf. komi fram á skattframtali ársins 2011 vegna tekjuársins 2010, en samkvæmt skýringum kærenda hafi láðst að taka skuldina af framtalinu áður en því var skilað.

Þegar húsbygging hófst, á vormánuðum 2007, hafi kærandinn A verið búinn að vera atvinnulaus frá því í júní 2006 og höfðu því tekjur kærenda lækkað verulega. Í mars 2007 hafi fyrsta afborgun áðurnefnds lánasamnings við Íslandsbanka fallið í gjalddaga. Um hafi verið að ræða afborgun eins fertugasta hluta af lánsfjárhæðinni auk vaxta. Ekki verði séð af gögnum máls að kærendur hafi átt von á tekjum til þess að mæta þessari afborgun og ekkert hafi verið greitt af samningnum samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka.

Í janúar 2007 hafi kærandinn A undirritað lánasamning við SPRON, þar sem hann sé samskuldari in solidum ásamt tveimur öðrum að fjárhæð 30.270.000 krónur. Af skýringum kærenda megi ráða að um endurnýjun á eldra láni hafi verið að ræða, en lánið hafi í upphafi verið tekið í tengslum við fjárfestingar í Íslandssíma hf., undir lok síðustu aldar, og hafi verið í vanskilum. Kærandinn A hafi þó ekki verið í persónulegum ábyrgðum fyrir hinu upprunalega láni. Kærandinn A segi í skýringum sínum að lánið hafi reynt verulega á fjárhag hans og telur umboðsmaður að það hljóti þá einnig að eiga við um þann tíma sem kærendur réðust í framkvæmdir að E-götu nr. 2, enda hafi lánið verið í vanskilum á þeim tíma.

Sú fjárfesting að ráðast í byggingu íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hafi talist tiltölulega örugg á umræddum tíma, þ.e. á vormánuðum 2007. Engu að síður fylgi slíku alltaf einhver áhætta. Telur umboðsmaður að þegar kærendur hófu framkvæmdir hafi skuldastaða þeirra verið verri og greiðslubyrði af lánum hærri en þau réðu við og sé þá litið til persónulegra skuldbindinga kærenda, til þeirra skuldbindinga kærandans A þar sem hann er samskuldari með öðrum og ábyrgðarskuldbindinga kærenda. Bendir umboðsmaður sérstaklega á lán frá Íbúðalánasjóði frá 20. maí 2008, á þeim tíma hafi kærendur greinilega verið ófær um að standa skil á skuldbindingum sínum.

Kærandinn A byggi á því að hann hafi verið hlunnfarinn um talsverða fjárhæð vegna viðskipta með hlutabréf í X hf. Af gögnum máls verði ráðið að væntingar kærandans A um verulegan hagnað af viðskiptunum hafi hlotið að vera liðnar hjá á þeim tíma er byggingarframkvæmdir á íbúðarhúsnæði kærenda hófust. Því hafi það ekki áhrif á mat umboðsmanns á þeirri áhættu sem falist hafi í þeirri ákvörðun kærenda að stofna til nýrra skuldbindinga í þeim tilgangi að ráðast í framkvæmdir að E götu nr. 2 nokkru síðar, svo og þeim skuldbindingum sem að framan eru raktar eftir að ljóst var að ekki yrði um frekari arð að ræða vegna hlutabréfaeignar kæranda A.

Umboðsmaður tekur fyrir það að bréf til kærenda 7. nóvember 2011 hafi gefið þeim tilefni til að ætla að umsókn þeirra hafi verið samþykkt. Í bréfinu sé sérstaklega áréttað að ætlunin sé að taka umsókn kærenda til nýrrar efnismeðferðar í ljósi nýrra upplýsinga. Telur umboðsmaður að honum hafi verið heimilt að afturkalla ákvörðun sína við þær aðstæður sem uppi voru í málinu enda nýjar upplýsingar komnar fram. Auk þess verði ekki séð að afturköllun synjunar um greiðsluaðlögun sé til tjóns fyrir aðila máls. Umboðsmaður bendir einnig á að upplýsingar um veðtryggingar og samskuldara að lántökum kærenda sé að finna í skuldayfirliti kærenda og yfirliti yfir ábyrgðarskuldbindingar og hafi þessi yfirlit legið til grundvallar ákvörðuninni. Jafnframt áréttar umboðsmaður að jafnvel þótt kærendur hafi hafið framkvæmdir á árinu 2005 sé ljóst að skuldasöfnun þeirra vegna húsbyggingarinnar hafi að miklu leyti átt sér stað á árunum 2007 og 2008. Meðal annars 18.000.000 króna lán frá Íbúðalánasjóði sem kærendur hafi tekið 20. maí 2008 þegar fjárhagsstaða þeirra var töluvert þröng.

Að öllu þessu virtu fer umboðsmaður fram á að hin kærða ákvörðun sem tekin var á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærendur halda því fram að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt með vísan til bréfs kærunefndar greiðsluaðlögunarmála 9. nóvember 2011. Verður að taka undir með umboðsmanni skuldara að hér hafi verið um misskilning að ræða. Hvað sem líður þeim misskilningi er ljóst að engin ákvörðun um að samþykkja umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið tekin í málinu.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 1. desember 2012 byggir á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri vísan til b- og c-liða. Í b-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Í c-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Kærunefndin telur að ákvæði b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. vísi til þeirrar almennu ábyrgðar að takmarka skuldir sínar en auka þær ekki frá og með tekjufalli og atvinnumissi og haga útgjöldum og skuldbindingum þannig að mið sé tekið af breyttum persónulegum aðstæðum en ekki þeim sem áður voru.

Kærendur urðu fyrir tekjufalli og atvinnumissi árið 2006 sem breytti greiðslugetu þeirra um ófyrirséða framtíð. Eftir þann tíma tóku kærendur engu að síður viðbótarlán sem juku heildarskuldbindingar og þyngdu greiðslubyrði þannig að ógreiðslufært ástand versnaði enn. 

Heildarskuldastaða kærenda í máli þessu eru 272.757.511 krónur. Kærunefndin telur sýnt fram á í málinu að kærendur hafi efnt til nýrra skuldbindinga árið 2007 sem verða að teljast verulegar og varða ekki rekstur heimilis eða lífsafkomu fjölskyldu heldur voru frá öndverðu skuldsett fjárfesting í auknum eignum. Efnt var til þessa þótt kærendur væru greinilega ófærir um að standa við fjárhagsskuldbindingar í skilningi b-liðar og eignamyndunin væri fjárhagsleg áhætta í ósamræmi við fjárhagsstöðu á stofntíma skuldbindinganna í skilningi c-liðar. 

Samkvæmt 1. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, getur stjórnvald afturkallað ákvörðun sína ef það er ekki til skaða fyrir aðila málsins, til dæmis ef nýjar upplýsingar hafa borist til stjórnvalds. Í þessu máli afturkallaði umboðsmaður skuldara í raun ákvörðun sína vegna upplýsinga um að kærendur hefðu ekki fengið lán hjá fyrirtækinu T ehf. 2007 heldur hafi T ehf. fengið yfirdrátt til að hefja framkvæmdir á eign kærenda á E götu og kærendur endurgreitt nefndan yfirdrátt að hluta með því að taka lán hjá Íbúðalánasjóði og þá fyrst skuldbundið sig vegna E götu. Ekki er hægt að telja að umræddar upplýsingar hafi verið kærenda í óhag eða haft verulega þýðingu við úrlausn málsins. Að mati kærunefndar var umboðsmanni skuldara augljóslega óþarft að veita kærendum færi á að tjá sig um hinar nýju upplýsingar sem bárust frá kærendum sjálfum. Því verður að telja að afturköllun umboðsmanns á fyrri ákvörðun hafi verið lögmæt samkvæmt ofangreindu lagaákvæði.

Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta