Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði samgöngumála

Mál nr. IRR15040241

      Ár 2015, þann 30. nóvember, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. IRR15040241

 

Kæra [X]

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

 

I.      Kröfur og kæruheimild

 

Þann 27. apríl 2015 barst ráðuneytinu kæra [X], kt. […](hér eftir nefndur X) vegna ákvörðunar Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) í máli nr. 21/2015 frá 24. mars 2015 vegna kvörtunar um neitun á fari með WOW þann 22. október 2014. Með ákvörðun Samgöngustofu var kröfu [X] um skaðabætur vegna neitunarinnar hafnað auk þess sem hafnað var kröfu [X] um endurgreiðslu farseðils með WOW og greiðslu á nýjum farseðli með Icelandair. Krefst [X] þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og orðið verði við kröfum hans um skaðabætur og endurgreiðslu farseðla.

 

Ákvörðun SGS er kærð til ráðuneytisins á grundvelli 3. mgr. 126. gr. c laga um loftferðir nr. 60/1998.

 

II.        Kæruefni og ákvörðun SGS

 

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að [X] átti bókað far með WOW með flugi WW303 frá Keflavík til Kaupmannahafnar kl. 7.00 þann 22. október 2014. Við innritun var [X] tjáð að þar sem vegabréf hans væri útrunnið væru ferðaskilríki hans ekki gild og var honum neitað um far. Fer [X] fram á skaðabætur vegna neitunar um far þar sem ekki verði gerð krafa um framvísun vegabréfs í ferðum milli ríkja sem starfi innan Schengen samstarfsins.

 

Hinn kærði úrskurður er svohljóðandi:

 

I.                    Erindi

Þann 10. nóvember 2014 bars samgöngustofu kvörtun frá A, (kvartandi). Kvartandi átti bókað far með WOW Air (WOW) WW303 frá Keflavík til Kaupmannahafnar kl. 07:00 þann 22. október 2014. Þegar kvartandi mætti að innritunarborðinu á Keflavíkurflugvelli um morguninn 22. október var honum tjáð að þar sem vegabréf hans væri útrunnið væru ferðaskílríki hans ekki gild og var honum neitað um farið.

Í kvörtuninni kemur fram að kvartandi hafi einnig haft meðferðis gild dönsk persónuskilríki og kreditkort sem hann hafði að sögn ítrekað ferðast með, enda sé ekki gerð krafa um framvísun vegabréfs í ferðum milli ríkja sem starfa innan Schengen samstarfsins, þar með talin Ísland og Danmörk.

Kvartandi fer fram á skaðabætur vegna neitunarinnar samkvæmt reglugerð EB nr. 261/2004 sbvr. reglugerð nr. 1048/2012, auk þess sem hann fer fram á fulla endurgreiðslu farseðils hans með WOW auk endurgreiðslu á nýjum farseðli sem kvartandi keypti hjá Icelandair.

 

II.                  Málavextir og bréfaskipti

Samgöngustofa sendi WOW kvörtunina til umsagnar með tölvupósti þann 10. nóvember 2014. Svar WOW barst þann 15. desember 2014. Í svarbréfi WOW kemur fram að líkt og kvartandi reki í frásögn sinni þá hafi hann komið til innritunar án þeirra skilríkja sem krafist er af WOW og hafi því verið neitað um far. Þá kemur fram í umsögninni að stöðvarstjóri WOW á Keflavíkurflugvelli hafi sent frá sér tölvupóst þann 22. október 2014 þar sem fram hafi komið að íslenskur farþegi sem átt hafi flug til Kaupmannahafnar hafi verið með útrunnið vegabréf (sem búið var að framlengja og það hafi líka verið útrunnið) og einungis danskt kreditkort í höndum. Farþeganum hafi verið sagt að reglurnar væru þannig að hann yrði að vera með gilt vegabréf eða ökuskírteini.

Þá segir ennfremur í umsögn WOW:

Reglur WOW air eru skýrar þegar kemur að ferðaskilríkjum sem teljast fullnægjandi. Þar á meðal má annars finna eftirfarandi texta. „Við viljum benda á að það á að hafa gilt vegabréfið meðferðis til útlanda. Þetta gildir um hvaða utanlandsferð sem er, þar með talið ferðir innan Schengen-svæðisins. Jafnvel þó það sé ekki alltaf landamæraeftirlit á innri landamærum Schengen-ríkjanna þá geta yfirvöld hvenær sem er krafist þess að fólk geri grein fyrir sér. Vegabréfið er eina ferðaskilríkið sem gefið er út á Íslandi og þess vegna ætti fólk að hafa það tiltækt og kanna gildistíma þess tímanlega fyrir brottför.

Þá kemur fram í umsögn WOW að það sé á ábyrgð farþega að hafa fullnægjandi skilríki meðferðis við innritun og líkt og fram komi á vefsíðu innanríkisráðuneytis fari það eftir reglum hvers flugfélags hvaða kröfur eru gerðar um auðkenningu. Vísar WOW í þessu sambandi á vefslóð innanríkisráðuneytis þar sem fjallað er um þau skilríki sem Íslendingur skal hafa meðferðis á ferðum innan Evrópu.

http://www.innanrikisraduneyti.is/raduneyti/starfssvid/schengen/upplysingar/nr/831

Kvartanda var send umsögn WOW til umsagnar þann 17. desember 2014, og barst svar frá kvartanda sama dag. Þar kemur meðal annars fram:

Einnig eins og fram kom þá var ég með fleiri skilríki sem wow air neitaði að taka gild. Einnig vil ég  ítreka að ég hafði samband við landamæralögreglu sem átti mjög auðvelt með að sannreyna að ég væri sá sem ég væri. Það er jú væntanlega það sem málið snýst um. Enn frekar get ég sýnt fram á 6 flug með wowair eftir að vegabréf mitt rann út, aldrei var sett út á það að ég ferðaðist á sömu skilríkjum þá og í umræddu flugi. Wowair bendir ennfremur á reglur á heimasíðu þeirra en þar kemur hvergi fram hvaða skilríki eru talin gild annað en vegabréf. Og þar sem reglur um flug innan schengen kveða á um að vegabréf sé ekki nauðsynlegt þá er það sérstaklega aðfinnsluvert að wowair ljúgi blákalt og vísi í reglur sem hvergi eru til.

Kvartandi sendi Samgöngustofu tölvupóst sama dag þar sem hann ítrekar að hann hafi sex sinnum áður       flogið með WOW án þess að sýna vegabréf. Þá sendi kvartandi Samgöngustofu fleiri tölvupósta þar sem hann lýsir nánar þeim atvikum þar sem honum hafi verið hleypt um borð í flug með WOW án þess að sýna vegabréf.

Þann 9. mars sendi kvartandi Samgöngustofu tölvupóst þar sem fram kemur að hann hafi innritað sig í flug með WOW með því einungis að sýna debetkort sitt. Þann sama dag barst svar frá WOW þar sem fram kemur að í umræddu tilfelli hafi kvartandi verið stöðvaður þegar hann var að reyna að komast í „gegnum boardingu á debetkortinu“.

 

III.               Forsendur og niðurstaða Samgöngustofu

Neytendur flugþjónustu eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta sem telja að flugrekandi, flytjandi, ferðaskrifstofa eða umboðsmaður framangreindra aðila hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um loftferðir nr. 60/1998 (loftferðalög) eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra geta beint kvörtun til Samgöngustofu, sbr. 1. mgr. 126. gr. c loftferðalaga. Stofnunin tekur málið til skoðunar í samræmi við ákvæði laganna og stjórnsýslulaga og sker úr ágreiningi með ákvörðun, sbr. 3. mgr. 126. gr. c og 140. gr. loftferðalaga, ef hann verður ekki jafnaður með öðrum hætti. Sú ákvörðun er bindandi.

Um réttindi flugfarþega er fjallað í reglugerð EB nr. 261/2004, um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður, sem var innleidd hér á landi með reglugerð nr. 1048/2012. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 1048/2012 er Flugmálastjórn Íslands (nú Samgöngustofa) sá aðili sem ber ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar samanber 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004.

Á grundvelli reglugerðar EB nr. 261/2004 geta farþegar sem er neitað um far á óréttmætum grundvelli átt rétt á bótum. Í þessu sambandi ber að skoða 4. mgr. 125. gr. loftferðalaga þar sem fram kemur að ferða- og samningsskilmálar skuli ávallt vera farþegum til reiðu á einfaldan og skýran hátt, m.a. á vefsíðu og söluskrifstofum flytjanda.

Álitamálið hér snýst um það hvort að þeir samningsskilmálar sem WOW heldur fram í málinu, þar sem gerð er sú krafa að flugfarþegar sýni vegabréf við innritun, hafi verið nægjanlega skýrir og aðgengilegir fyrir kvartanda. Eins og að framan greinir heldur kvartandi því fram að þeir samningsskilmálar sem fram koma á heimsíðu WOW um að gilt vegabréf sé nauðsynlegt, séu í raun ekki þeir sem gilda, heldur sé einnig heimilt að framvísa öðrum skilríkjum. Kvartandi telur sig hafa mörg dæmi um það og telur sig því hafa verið með fullnægjandi ferðaskilríki í það skipti sem að kvörtuninni lýtur.

Það er mat Samgöngustofu að sá texti sem fram kemur á heimasíðu WOW um að nauðsynlegt sé að framvísa gildu vegabréfi, verði að teljast nægilega skýr, til þess að kvartanda hafi mátt vera ljóst að slík skilríki væru nauðsynleg. Þótt kvartandi hafi í nokkur skipti komist um borð í flug með WOW án þess að framvísa gildu vegabréfi, sér Samgöngustofa ekki að kvartandi hafi mátt gera ráð fyrir því að þeirri kröfu, sem kemur skýrt fram á heimasíðu WOW um að gilt vegabréf sé nauðsynlegt, yrði ekki beitt. Samgöngustofa telur að kvartandi verði að bera hallann af því að taka þá áhættu.

Að því er varðar það álitaefni hvort sú krafa WOW air að gera kröfu um vegabréf í flugi er í samræmi við Schengen samninginn, ber að líta til 26. gr. reglugerðar nr. 1212/2007 um för yfir landamæri. Í þeirri grein kemur fram að stjórnendur skipa og loftfara skuli ganga úr skugga um að farþegar þeirra hafi gild ferðaskilríki. Í 2. mgr. 26. gr. reglugerðarinnar kemur fram að skylda skv. 1. mgr. eigi ekki við um för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins „en gengið skal þó úr skugga um að skráður farþegi sé sá sem hann segist vera.“

Umrætt ákvæði fjallar ekki um landamæraeftirlit, enda eru kröfur ákvæðisins lagðar á stjórnendur loftfara en ekki yfirvöld sem fara með framkvæmd landmæareftirlits. Telji WOW að gilt vegabréf sé það skilríki sem nauðsynlegt er til þess að hægt sé að sanna að farþegi sé sá sem hann segist vera, verður að telja að WOW sé frjálst að gera þær kröfur.

Að mat Samgöngustofu hefur WOW ekki aðhafst neitt í þessu máli sem leiða ætti til bótaskyldu þess.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kvartanda um skaðabætur vegna neitunarinnar samkvæmt reglugerð EB nr. 26172004 sbr. reglugerð nr. 1048/2012, auk fullrar endurgreiðslu farseðils hans með WOW sem og endurgreiðslu á nýjum farseðli hjá Icelandair, er hafnað.

 

III.       Málsástæður [X], umsögn SGS og meðferð málsins í ráðuneytinu

 

Kæra [X] barst ráðuneytinu með tölvubréfi þann 21. apríl 2015. Krefst [X] þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og krafa hans um skaðabætur og endurgreiðslu farseðla verði tekin til greina.

[X] vísar til þess að hann hafi framvísað fullgildum farseðli og fullnægjandi skilríkjum við innritun. Um hafi verið að ræða vegabréf, dönsk persónuskilríki og kreditkort sem hafi verið fullnægjandi til að staðreyna að handhafi farseðilsins hafi verið sá sem hann sagðist vera. Þá hafi [X] ítrekað ferðast með sömu skilríki með WOW án þess að athugasemdir hafi verið gerðar. Ekki verði gerð krafa um framvísun vegabréfs í ferðum milli ríkja sem starfa innan Schengen svæðisins. Telur [X] að WOW hafi brotið gegn rétti hans samkvæmt loftferðalögum með því að synja honum um far. Telur [X] að WOW mismuni farþegum eftir búsetu við mat á skilríkjum þar sem annað mat sé lagt til grundvallar ef erlendir ríkisborgarar eigi hlut að máli. Auk þess beiti WOW reglum eftir hentisemi þar sem [X] hafi ferðast með félaginu á sömu skilríkjum áður. Varði þetta við 126. gr. sbr. 106. gr. loftferðalaga sem og reglugerð nr. 1048/2012. Þá hafi WOW ekki kynnt [X] rétt sinn eins og félaginu hafi borið samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar.

Kæran var send SGS til umsagnar með bréfi ráðuneytisins dags. 8. maí 2015.

Umsögn SGS barst ráðuneytinu með bréfi dags. 4. júní 2015. Í umsögninni kemur fram að málið snúist einkum um tvennt. Í fyrsta lagi hvort krafa WOW um að farþegar þurfi að vera með gilt vegabréf sé nægjanlega skýr og aðgengileg farþegum og í öðru lagi hvort sú krafa flugfélags að farþegar séu með gilt vegabréf við innritun sé andstæð Schengen samningnum eða 26. gr. reglugerðar nr. 1212/2007. Hvað varðar skýrleika kröfunnar  um vegabréf telur SGS að samningsskilmálar þeir sem fram koma á heimasíðu WOW séu nægjanlega skýrir og aðgengilegir. Birtist þeir bæði á íslensku og ensku. Þótt starfsmaður WOW hafi sagt í tölvubréfi að ökuskírteini væru gild liggi ekkert fyrir um að svo sé enda fari það gegn skýrum kröfum WOW. Þá fallist SGS ekki á að þótt [X] hafi áður komist með flugi WOW án þess að sýna gilt vegabréf leiði slíkt til þess að hann eigi rétt til þess í næstu skipti. Hvað það varðar að krafan sé andstæð Schengen samningnum vísar SGS til þess að ekki sé um að ræða landamæraeftirlit í skilningi Schengen samningins heldur byggist krafan á ákvæði 26. gr. reglugerðar nr. 1212/2007. Sömu kröfu sé einnig að finna í 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003. Á grundvelli 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 1212/2007 beri flutningsaðila að ganga úr skugga um að farþegi sé sá sem hann segist vera. Telja verði að flugrekanda sé heimilt að ákveða hvers konar skilríki hann taki gild til að fullnægja umræddu ákvæði. Sé það mat SGS að það sé ekkert sem banni flugrekanda að krefjast þess að farþegi framvísi gildu vegabréfi þegar ferðast er. Sé það almennt þekkt að mismundandi flugrekendur geti haft mismunandi samningsskilmála sem viðsemjanda beri að kynna sér. Í umræddu tilviki lúti samningsskilmálarnir að því að farþegi þurfi að framvísa gildu vegabréfi.

Með tölvubréfi ráðuneytisins dags. 12. júní 2015 var [X] gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum SGS. Bárust þau ráðuneytinu með tölvubréfi [X] dags. 23. júní 2015.

Í andmælum sínum bendir [X] á að krafa um framvísun vegabréfs gangi lengra en heimilt er þar sem krafa reglugerðar um för yfir landamæri nr. 1212/2007 lúti að framvísun vegabréfs eða annars kennivottorðs. Geti einkafyrirtæki ekki lagt ríkari kröfur á einstaklinga vegna ferða milli ríkja en stjórnvöld. Bendir [X] á að þau skilríki sem hann framvísaði séu fullgild í Danmörku. Um hafi verið að ræða gild dönsk skilríki sem WOW hafi neitað að skoða og meta sem gild. Sé synjun um að meta hin dönsku skilríki brot á EES- samningnum. Vekur [X] athygli á 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 1212/2007 þar sem fram kemur að skylda samkvæmt 1. mgr. um gild skilríki eigi ekki við för yfir innri landamæri Schengen svæðisins. Aðeins skuli ganga úr skugga um að skráður farþegi sé sá sem hann segist vera. Hafi [X] því ekki borið skylda til að framvísa gildum ferðaskilríkjum til að sýna fram á hver hann væri. Til þess hafi [X] framvísað ófölsuðu vegabréfi, þótt það hafi verið útrunnið, sem og dönskum skilríkjum. Hafi WOW sniðgengið reglu 2. mgr. 26. gr. og SGS líti framhjá henni. Sé ekki hægt að una því að flugfélag setji för yfir landamæri þrengri skorður en yfirvöld.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 8. maí 2015 var WOW gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum vegna málsins. Engar athugasemdir bárust.

Með tölvubréfi til [X] þann 26. júní 2015 var tilkynnt að málið væri tekið til úrskurðar.

 

IV.       Niðurstaða ráðuneytisins

Krafa [X] lýtur að því WOW verði gert að greiða honum skaðabætur þar sem honum hafi með ólögmætum hætti verið synjað um far með flugi WOW frá Keflavík til Kaupmannahafnar kl. 7.00 þann 22. október 2014. Þá verði WOW gert að endurgreiða honum farseðilinn sem og kaup á nýjum farseðli með Icelandair.

Líkt og fram kemur í ákvörðun SGS geta farþegar sem neitað er um far á óréttmætum grundvelli átt rétt á bótum á grundvelli reglugerðar EB nr. 261/2004, sbr. reglugerð nr. 1048/2012. Ber SGS ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar, sbr. 16. gr. reglugerðar EB nr. 261/2004 sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1048/2012. Geta neytendur flugþjónustu beint kvörtun til SGS telji þeir að flugrekandi, flytjandi, ferðaskrifstofa eða umboðsmaður framagreindra aðila hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt loftferðalögum nr. 60/1998 eða reglugerðum settum á grundvelli laganna. Sker SGS úr ágreiningi með ákvörðun, sbr. 3. mgr. 126. gr. c og 140. gr. loftferðalaga.

Um eftirlit flutningsaðila með ferðaskilríkjum er fjallað í 26. gr. reglugerðar um för yfir landamæri nr. 1212/2007. Kemur þar fram í 1. mgr. að stjórnendur skipa og loftfara skuli ganga úr skugga um að farþegar þeirra hafi gild ferðaskilríki. Áður en farþegi stígur um borð skal kanna hvort hann hafi vegabréf eða annað kennivottorð sem viðurkennt er sem ferðaskilríki og hvort þeir farþegar sem eru áritunarskyldir hafi gilda vegabréfsáritun til landsins. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur síðan fram að skylda samkvæmt 1. mgr. eigi ekki við um för yfir innri landamæri Schengen-svæðisins en þó skuli gengið úr skugga um að skráður farþegi sé sá sem hann segist vera.

Ráðuneytið tekur fram að það gerir ekki athugasemdir við að flutningsaðili kveði svo á í skilmálum sínum að skráður farþegi framvísi gildum ferðaskilríkjum í þeim tilgangi að ganga úr skugga um hann sé sá sem hann segist vera. Hins vegar telur ráðuneytið að það skilyrði verði ekki sett að aðeins vegabréf verði talið gilt sem ferðaskilríki, sbr. ákvæði 1. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 1212/2007. Kjósi flutningsaðili að setja slík skilyrði beri að leggja að jöfnu vegabréf og önnur kennivottorð sem viðurkennd eru sem ferðaskilríki. Telur ráðuneytið að tilvitnaðir skilmálar WOW sem raktir eru í hinni kærðu ákvörðun séu ekki í samræmi við tilgreint reglugerðarákvæði.

Fyrir liggur að þegar [X] mætti í flug að morgni þess 22. október 2014 var vegabréf hans útrunnið. Þá var einnig útrunnin framlenging gildistíma vegabréfsins til 16. júní 2014. Af hálfu [X] er hins vegar vísað til þess að hann hafi við innritun framvísað dönskum skilríkjum og kreditkorti sem teljist fullnægjandi.

Meðal gagna málsins er ljósrit af kreditkorti og ljósrit af dönsku sjúkratryggingaskírteini [X]. Er þar ekki um að ræða kennivottorð sem viðurkennd eru sem ferðaskilríki samkvæmt 1. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 1212/2007. Í því ljósi og þar sem vegabréf [X] var útrunnið verður ekki séð að [X] hafi framvísað gildum ferðaskilríkjum í umrætt skipti. Hvað varðar þá málsástæðu [X] að hann hafi áður ferðast með WOW á tilgreindum skilríkjum bendir ráðuneytið á að slíkt geti á engan hátt talist leiða til þess að hann hafi átt rétt á því áfram, sbr. það sem rakið hefur verið. Í ljósi þess verður hin kærða ákvörðun staðfest.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta