Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Húnavatnshreppur: Ágreiningur um skólaakstur

Ár 2011, 15. ágúst er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. IRR11060208

Sólveig Inga Friðriksdóttir og Kolbeinn Erlendsson

gegn

Húnavatnshreppi

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru dagsettri 10. júní 2011 kærðu Sólveig Inga Friðriksdóttir (hér eftir nefnd S) og Kolbeinn Erlendsson (hér eftir nefndur K) bæði til heimilis að Bólstaðarhlíð 2, Húnavatnshreppi, þá málsmeðferð og ákvörðun undirbúningsnefndar vegna útboðs á skólaakstri við Húnavallaskóla að binda samþykki tilboðs við það að S hefði ekki með höndum neinn skólaakstur og K einungis á einni tilgreindri akstursleið en tillaga nefndarinnar var samþykkt á fundi hreppsnefndar þann 27. apríl 2011.  Er þess krafist að ákvörðun hreppsnefndar verði felld úr gildi.

Húnavatnshreppur gerir aðallega kröfu um frávísun en til vara að ákvörðunin verði staðfest.

Kæra er borin fram innan kærufrests.

Kært er á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

II.      Málsatvik, rök og meðferð máls þessa í ráðuneytinu

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Á fundi sínum þann 2. febrúar 2011 samþykkti hreppsnefnd Húnavatnshrepps að bjóða út akstur skólabarna við Húnavallaskóla frá og með skólaárinu 2011-2012 og samþykkti jafnframt að setja á laggirnar nefnd til að undirbúa útboðið.  Í mars 2011 var efnt til útboðs og bárust sex tilboð í mismunandi leiðir skólaakstursins.

Á fundi hreppsnefndar þann 27. apríl 2011 var fjallað um útboð skólaakstur við Húnavallaskóla. Í bókun segir m.a.

„Meirihluti nefndarinnar leggur til við hreppsnefnd að tilboði Egils Herbertssonar í skólaakstur fyrir Húnavallaskóla verði tekið. Rökin eru þau að Egill var eini aðilinn sem bauð í allar akstursleiðir og engin önnur tilboð bárust í tvær akstursleiðir. Einnig hefur Egill gert þá breytingu á hópi bílstjóra sem nefndin sættir sig við.“ 

Var tillagan samþykkt með fjórum atkvæðum en þrír sátu hjá.

Var það niðurstaða undirbúningsnefndarinnar að ganga ætti til samninga við Egil Herbertsson á þeim grundvelli að hann var eini aðilinn sem bauð í allar leiðirnar. Það var þó háð því skilyrði að Egill myndi gera breytingar varðandi bifreiðastjóra skólabifreiðanna á ákveðnum akstursleiðum þannig að K myndi aka leið nr. 1 í stað leiðar nr. 3 og S yrði ekki bifreiðastjóri á neinni leið. Samþykkti Egill þessi skilyrði og var ákveðið að ganga að tilboði hans.

Byggja S og K kæru sína á því að það hafi verið ólögmætt af undirbúningsnefndinni að setja þessi skilyrði fyrir undirritun samningsins við Egil og telja málsmeðferðina í andstöðu við rannsóknar- og jafnræðisreglu, reglur stjórnsýslunnar um meðalhóf og andmæli og eðlileg vinnubrögð við töku stjórnvaldsákvarðana almennt.

Tveir tilboðsgjafar, sem fengu ekki tilboð sín samþykkt, kvörtuðu til kærunefndar útboðsmála vegna útboðsins. Úrskurður kærunefndar var kveðinn upp þann 26. júlí 2011 og var þar felld úr gildi sú ákvörðun Húnavatnshrepps að ganga til samninga við Egil Herbertsson um skólaakstur fyrir Húnavallaskóla skólaárin 2011/2012 til 2013/2014.

Húnavatnshreppur krefst frávísunar og byggir þá kröfu í fyrsta lagi á því að S og K séu ekki aðilar máls í skilningi 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í öðru lagi þá liggur fyrir úrskurður kærunefndar útboðsmála þar sem sú ákvörðun Húnavatnshrepps að ganga til samninga við Egil Herbertsson er felld úr gildi. Þar af leiðandi hafi S og K ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, enda ómögulegt fyrir þau að verða bílstjórar á þeim leiðum sem upphaflega var gert ráð fyrir í tilboði Egils að þau ækju á. Loks byggir sveitarfélagið frávísunarkröfu sína á því að mál þetta heyri frekar undir lögsögu kærunefndar útboðsmála, í samræmi við XIV. og XV. kafla laga nr. 84/2001 um opinber innkaup, eða fjármálaráðherra, sbr. 84. gr. sömu laga, heldur en innanríkisráðuneytið.

Í umsögn Húnavatnshrepps um efnisþátt málsins kemur fram að undirbúningsnefndin hafi strax gert athugasemd við að S og K væru á lista yfir ökumenn skólabifreiða í tilboði Egils og er gerð grein fyrir því á hverju sú afstaða byggði, en ráðuneytið telur óþarft að rekja það hér. Telur sveitarfélagið að ómálefnaleg sjónarmið hafi ekki ráðið för og að undirbúningsnefndin hafi farið eftir góðum stjórnsýsluháttum og öllum meginreglum stjórnsýsluréttar.

Stjórnsýslukæra þeirra S og K barst ráðuneytinu þann 20. júní 2011. Með bréfi ráðuneytisins dags. 23. júní 2011 var Húnavatnshreppi gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau ráðuneytinu þann 8. ágúst 2011.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.    Niðurstaða ráðuneytisins

Óumdeilt er að kærunefnd útboðsmála hefur með úrskurði sínum, uppkveðnum þann 26. júlí 2011, fellt úr gildi þá ákvörðun Húnavatnshrepps að ganga að tilboði Egils Herbertssonar um skólaakstur fyrir Húnavallaskóla skólaárin 2011/2012 til 2013/2014.

Það er meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti, sem meðal annars birtist í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er ekki sérstaklega fjallað um hverjir geti kært mál til ráðuneytisins. Sú meginregla gildir hins vegar að til þess að fá leyst úr máli verður aðili að eiga lögvarða hagsmuni af úrlausn þess, en með því er átt við að hann eigi einstakra hagsmuna að gæta umfram aðra. Þá er oftast gerð sú krafa að hagsmunir séu verulegir.

Í máli þessu liggur fyrir að sú ákvörðun sveitarstjórnar Húnavatnshrepps að ganga að tilboði Egils Herbertssonar um skólaakstur við Húnavallaskóla hefur verið felld úr gildi, og getur ráðuneytið því ekki lengur komið við neinum af þeim úrræðum sem fram koma í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, né lýst hana ólögmæta. Verður þar af leiðandi ekki séð að þau S og K hafi lengur lögvarða hagsmuni af því að fá efnislegan úrskurð um kröfu sína. Krafa þeirra lýtur að því að fyrrgreind ákvörðun sveitarstjórnar verði felld úr gildi, en eins og fyrr segir þá hefur það þegar verið gert með úrskurði kærunefndar útboðsmála. Þegar af þeirri ástæðu ber að vísa kærunni frá ráðuneytinu.

Rétt er að taka fram að ráðuneytið kynnti umsögn sveitarfélagsins, sem barst ráðuneytinu þann 8. ágúst sl., ekki fyrir þeim S og K, en það taldi slíkt bersýnilega óþarft og einungis til þess fallið að hafa áhrif á málshraða.

Úrskurðarorð

Kæru Sólveigar Ingu Friðriksdóttur og Kolbeins Erlendssonar, er varðar málsmeðferð og þá ákvörðun undirbúningsnefndar vegna útboðs á skólaakstri við Húnavallaskóla að binda samþykki tilboðs við það að Sólveig hefði ekki með höndum neinn skólaakstur og Kolbeinn einungis á einni tilgreindri akstursleið og samþykkt var á fundi sveitarstjórnar Húnavatnshrepps þann 27. apríl 2011, er vísað frá ráðuneytinu.  

Fyrir hönd ráðherra

 

Bryndís Helgadóttir                                                                  Hjördís Stefánsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta