Húsavíkurkaupstaður - Hlutverk varaforseta bæjarstjórnar á fundi þegar forseti er viðstaddur
Sveinbjörn Lund bæjarfulltrúi 18. desember 1996 96120026
Brúnagerði 14 16-6100
640 Húsavík
Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 4. desember 1996, varðandi hlutverk varaforseta bæjarstjórnar á fundi þegar forseti bæjarstjórnar er viðstaddur.
I. Málavextir.
Málavextir samkvæmt erindinu eru þeir að á fundi bæjarstjórnar Húsavíkurkaupstaðar þann 22. október 1996 lögðu bæjarfulltrúar G-lista fram bókun varðandi sölu hluta af hlutabréfum Framkvæmdalánasjóðs Húsavíkurkaupstaðar til sameinaðs félags Fiskiðjusamlags Húsavíkur hf. og Höfða hf. Einn fulltrúi G-listans las upp bókunina eftir að umræðum um málið var lokið. Búið var þá að fella tvær breytingartillögur í málinu, en eftir var að greiða atkvæði um aðaltillöguna.
Þáverandi forseti bæjarstjórnar, Valgerður Gunnarsdóttir, var jafnframt fulltrúi G-listans í bæjarstjórn og undirritaði umrædda bókun. Forseti stjórnaði fundi meðan bókunin var lesin og gekk beint til atkvæðagreiðslu um aðaltillögu eftir að bókunin hafði verið lesin og lauk síðan fundi. Því hafi verið haldið fram að forsetinn hafi varðandi bókunina komið fram sem almennur bæjarfulltrúi “og því hafi það verið á ábyrgð varaforseta að víta þá bæjarfulltrúa sem að bókuninni stóðu ef til þess hafi verið ástæða sbr. 28. gr. bæjarmálasamþykktarinnar.”
II. Niðurstaða ráðuneytisins.
Ákvæði um fundarsköp bæjarstjórnar er að finna í III. kafla samþykktar um stjórn Húsavíkurkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 552/1987. Um kjör forseta og tveggja varaforseta bæjarstjórnar er fjallað í 18. gr. samþykktarinnar.
Um hlutverk forseta er fyrst og fremst fjallað í 22. gr. samþykktarinnar og skal hann m.a. stjórna fundi, úrskurða um skilning á fundarsköpum og sjá um að allt fari skipulega og löglega fram á bæjarstjórnarfundum. Sérstaklega er tekið fram að skjóta megi úrskurði forseta um skilning á fundarsköpum til bæjarstjórnar.
Varaforseti bæjarstjórnar er kjörinn til þess að leysa af forseta ef hann er forfallaður af einhverjum ástæðum. Því verður ekki talið að varaforseti hafi heimild til að grípa fram fyrir hendur forseta bæjarstjórnar á fundi sem forseti stýrir, nema bæjarstjórn geri um slíkt sérstaka samþykkt eða forseti óski sérstaklega eftir því við varaforseta.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)