Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. IRR11030058

Ár 2012, 8. febrúar, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli IRR 11030058

Sigurður H. Magnússon

gegn

Orkuveitu Reykjavíkur

I.         Kröfur, kæruheimild, og kærufrestur

Með stjórnsýslukæru er barst ráðuneytinu þann 4. mars 2011, kærði Sigurður H. Magnússon, kt. 240361-3619 (hér eftir nefndur SHM), ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur (hér eftir nefnd OR) um álagningu vatnsgjalds fyrir árið 2011 fyrir fasteignina Hvassaleiti 22, Reykjavík, fastanr. 203-1650.

Verður ráðið af kæru að gerð sé krafa um að ráðuneytið úrskurði að fella bera niður álagningu vatnsgjalds fyrir fasteignina því að nemur stærð bílskúrs er henni tilheyrir. Til vara er þess krafist að málinu verði vísað til baka til OR með ósk um að fyrirtækið taki málið til efnislegrar meðferðar og rökstyðji ákvörðun sína í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga.

Álagningin er kærð á grundvelli 1. mgr. 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og barst kæra innan kærufrests samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Í janúar 2011 barst SHM álagningarseðill frá OR vegna álagningar vatns- og fráveitugjalda fyrir fasteign hans að Hvassaleiti 22, fastanr. 203-1650. Gerði SHM athugasemd til OR vegna álagningarinnar og þá fyrst og fremst vegna þess að hann var ósáttur við að lagt væri á fermetragjald vatns vegna sérstæðs bílskúrs, 20,3 m2 að stærð.

Með bréfi, dags. 8. febrúar 2011, svaraði OR athugasemd SHM. Í svari OR kom fram að farið hefði verið yfir athugasemdirnar og niðurstaðan væri sú að álagningin væri í samræmi við lög um vatnsveitur sveitarfélaga 32/2004 og var sérstaklega vísað til 6. gr., 9. gr. og 10. gr. laganna því til stuðnings. Með erindi sínu, dags. 3. mars 2011, kærði SHM svo framangreinda ákvörðun OR til ráðuneytisins.

Með bréfi, dags. 8. mars 2011, óskaði ráðuneytið eftir umsögn OR um kæruna og afriti af gögnum málsins. Barst umbeðin umsögn og gögn ráðuneytinu með bréfi, dags. 21. mars 2011.

Með bréfi, dags. 22. mars 2011, gaf ráðuneytið SHM færi á að gæta andmælaréttar vegna umsagnar OR um kæru hans. Bárust slík andmæli ráðuneytinu með bréfi, dags. 4. apríl 2011.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.      Málsástæður og rök SHM

Í kæru sinni til ráðuneytisins tekur SHM fram að í janúar 2011 hafi hann gert athugasemd við umrædda álagningu til OR, en á álagningarseðli hafi komið fram að stofn til vatnsgjalds væri 113,8 m2, þar af húsnæði 93,5 m2 og bílskúr 20,3 m2.

Aðstæður séu hins vegar svo í hans tilfelli að á móti blokkinni sem hann býr í séu sérstæðir bílskúrar, alls 18 bílskúrar í einni lengju. Tekur SHM fram að í athugasemdum sínum til OR hafi hann greint frá því að ekkert vatn væri tengt í bílskúrana og því teldi hann sérkennilegt að þurfa að borga vatnsgjald fyrir rými þar sem enginn aðgangur væri að vatni.

SHM greinir frá því að OR hafi svarað athugasemdinni með bréfi, dags. 8. febrúar 2011. Í svarinu komi fram að farið hefði verið yfir athugasemdirnar og niðurstaðan væri sú að álagningin væri í samræmi við lög um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004 og sérstaklega vísað til 6. gr., 9. gr. og 10. gr. laganna því til stuðnings. Telur SHM það vekja athygli að svar OR sé án rökstuðnings og í engu svarað þeirri athugasemd að bílskúrsrýmið sé ekki tengt vatni og ljóst að svar OR sé staðlað og eingöngu með tilvísun til laga nr. 32/2004 en í engu tekið efnislega á athugasemdinni með rökstuðningi eins og eðlilegt megi teljast og í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings.

Í hinu staðlaða svari OR sé vísað í þrjár lagagreinar í lögum nr. 32/2004, en SHM telur að 9. gr. laganna geti ekki átt við í málinu né heldur 10. gr.  Í 6. gr. laganna komi hins vegar fram skilgreining á því hvaða skilyrði séu fyrir innheimtu vatnsgjalds. Þar komi skýrt fram að heimilt sé að innheimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatns geta notið.

Telur SHM ljóst af þessu að ekki eigi að leggja vatnsgjald á rými sem ekki geti notið vatns eins og klárlega eigi við um bílskúra sem ekki séu tengdir vatnslögn, en kæru SHM fylgir útprentun úr Borgarvefsjá sem hann kveður sýna að umræddir bílskúrar séu ekki tengdir neinum vatnslögnum, hvorki kalda- né heitavatnslögnum.

SHM telur að ljóst megi vera að OR geti séð í gögnum sínum hvaða fasteignir geti notið vatns. Þannig geti skortur á upplýsingum ekki valdið OR vandræðum við að taka efnislega á málinu og miða innheimtu vatnsgjalds í samræmi við þær upplýsingar.

Er þess því krafist af hálfu SHM að ráðuneytið taki kæruna til efnislegrar meðferðar og úrskurði að ekki sé heimilt að leggja vatnsgjald á 20,3 fm2 sérstæðan bílskúr sem ekki er tengdur neinum vatnslögnum. Til vara krefst SHM þess að málinu sé vísað til baka til OR með ósk um að fyrirtækið taki málið efnislegrar meðferðar og rökstyðji ákvörðun sína í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaganr. 37/1993.

Þá áréttar SHM, í tilefni umsagnar OR, að bílskúr í hans eigu sé í sérstæðri lengju, sem í séu alls 18 bílskúrar, og tengist ekki vatni. Því sé um að ræða sjálfstæða byggingu sem ekki tengist íbúðarhúsi/blokkinni með neinum hætti. Bílskúrarnir séu fyrir austan íbúðarhúsið.

Með umsögn OR fylgi uppdráttur þar sem fram komi tenging kaldavatnslagnar. Þar sjáist að lögnin komi í gegnum garðinn og sé tengd hverjum stigagangi með lögn sem liggi í hjólageymslu að vestanverðu, sem sé bakhlið hússins og snúi alls ekki að bílskúrunum. Rök OR lúti því aðeins að því að einungis sé lögð sú skylda á OR að tengja hverja lóð/fasteign á hverjum stað.

Á heimasíðu OR megi finna gjaldskrá varðandi heimalagnir bæði á köldu og heitu vatni. Einnig sé þar að finna tengiskilmála og þar komi fram þau skilyrði sem OR setur til að hægt sé að tengja heimtaugar bæði fyrir heitt og kalt vatn og megi þar nefna frágang á inntaksvegg, ídráttarrör, skurði o.fl.

Eins og fram komi í umsögn OR séu helstu rök vatnsveitunar að eingöngu sé skylda að tengja lóð/fasteign á einum stað. Það sem gleymist sé, að í þessu tilviki sé um sérstæða bílskúra að ræða. Komi til tengingar hljóti hún að verða framkvæmd af OR og þá þarf fasteign að uppfylla tiltekin skilyrði. Varla geti OR verið alvara með því að eigendur bílskúra eigi að nota heimtaugar íbúðarhúsnæðisins þar sem vatn sé leitt inn á bakhlið hússins, í vestur, og því fráleitt að tengja bílskúra við heimæðar íbúðarhúsnæðisins, ef það sé þá mögulegt. Einnig sé hæpið að löglegt væri að aðrir en starfsmenn OR sæu um að leggja lagnir að bílskúrunum.

Umræddir bílskúrar sé byggðir síðar en blokkin, um 1970, og af einhverjum ástæðum hafi ekki verið gert ráð fyrir að leggja vatn í bílskúrana. Þar sem um 18 bílskúra sé að ræða sé ómögulegt að fara í slíka aðgerð nema samþykki allra sé fyrir hendi, enda um töluverða vinnu og kostnað að ræða.

Í tengimynd OR séu ekki sýndar teikningar við heitt vatn né tengingar við aðrar samskonar bílskúrslengjur en sambærilegar bílskúrslengjur séu bæði fyrir ofan og neðan þá blokk sem SHM búi í. Á útprentun hans úr Borgarvefsjá sjáist tengimyndir fyrir þessa bílskúra, þ.á.m. Hvassaleiti 6-10, 12-16 og 24-26 og sé augljóst að þessir skúrar séu tengdir vatni á bakhlið þeirra og í gegnum lagnir sem liggi að húsunum að ofan. Því ætti að vera sértengigrind og heitavatnsmælir fyrir þessar bílskúrslengjur og þær þannig skráðar hjá OR.

Tekur SHM fram að í máli þessu sé tekist á um gjaldtöku vegna fasteigna sem geti notið vatns. Það sjáist m.a. af uppdrætti er fylgi kæru hans að um tvö sérstæð hús sé að ræða, þ.e. íbúðarhús og svo sérstæð bílskúrslengja með 18 bílskúrum. Einnig ætti að sjást að sértengingu þurfi til að tengja bílskúrana vatni þar sem núverandi heimæð liggi bak við íbúðarhúsið og nær ómögulegt að tengja skúrana við þær lagnir. Einnig megi telja að nýtingu heitavatns þurfi að deila jafnt á milli skúranna og innheimta kostnað jafnt, fremur en að hver og einn hafi sinn heitavatnsrennslimæli.

Einnig bendir SHM á að í 14. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009 komi fram að heimilt sé að innheimta fráveitugjöld af öllum fasteignum sem tengdar séu eða tengjast munu fráveitu sveitarfélags. Þar komi fram heimild en alls ekki skylda en í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögunum komi fram að ekki sé gert ráð fyrir því að hús þar sem engu vatni sé veitt inn og ekkert frárennsli, svo sem hjallar sem svo um háttar, greiði fráveitugjald. Telur SHM að með því komi skýrt fram vilji löggjafans og að þessi túlkun eigi einnig við í þessu tilviki, ekkert vatn renni inn í skúrana og ekkert vatn renni út.

Telur SHM því, með vísan til framangreinds, að ljóst sé að umræddur bílskúr njóti ekki vatns enda sé hann ekki tengdur vatni og verði ekki nema farið sé í viðeigandi framkvæmdir. Ekki sé nægjanlegt að vísa í heimæðar tengdar íbúðarhúsnæði. Þess vegna beri OR að fella niður vatnsgjalds sem nemur 20,3 m2.

IV.       Málsástæður og rök Orkuveitu Reykjavíkur

Í umsögn sinni tekur OR fram að samkvæmt 6. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004 sé heimilt að heimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatns geti notið og megi gjaldið nema allt að 0,5 hundraðshlutum af fasteignamati. Ennfremur sé heimilt að miða vatnsgjaldið við fast gjald auk álags vegna stærðar fasteignar. Samkvæmt álagningarseðli fasteignagjalda 2011 sé íbúðareign SHM að Hvassaleiti 22, fastanr. 203-1650, 113,8 m2 með tiltekið fasteignamat. Eins og sjáist af álagningarseðli vatns- og fráveitugjalda fyrir umrædda fasteigna fyrir árið 2011 sé álagning gjalda miðuð við sama fermetrafjölda eða 113,8 fm2.

Hús sem standi við veg/götu þar sem götuæð vatns sé, geti notið vatns. Samkvæmt      2. mgr. 5. gr.  laga nr. 32/2004 eigi eigandi eða rétthafi lóðar eða rétthafi lóðar við veg eða opið svæði, þar sem dreifiæð liggur, rétt á að fá eina heimæð lagða frá vatnsveitulögn. Í tilviki lóðarinnar Hvassaleitis 18-22, landnr. 107923, sé heimæð frá kerfi OR inn á lóðina eins og sjáist af uppdrætti er fylgi umsögninni. Með lögum      nr. 32/2004 sé ekki lögð sú skylda á vatnsveitu að fylgjast með því hvort einstakar eignir eða matshlutar innan lóðar/fasteignar séu tengdar vatni, enda í lögunum aðeins lögð sú skylda á vatnsveitu að tengja hverja lóð/fasteign á einum stað. Ekki sé heldur að finna í lögunum undanþágu frá greiðsluskyldu. Telur OR því að hafna beri kröfu SHM og staðfesta álagningu á vatnsgjalds á fasteign hans fyrir árið 2011.

V.        Álit og niðurstaða ráðuneytisins

1.         Í upphafi telur ráðuneytið rétt að víkja stuttlega að stöðu OR og hlutverki hennar þegar kemur að álagningu vatnsgjalds.

Í 1. mgr. 1. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004 segir að í þéttbýli skuli sveitarfélög starfrækja vatnsveitu í þeim tilgangi að fullnægja vatnsþörf almennings, heimila og atvinnufyrirtækja, þar á meðal hafna, eftir því sem kostur er, nema við nánar tilgreindar aðstæður er lýst er í 2. mgr. og 4. mgr. 1. gr. og ekki hafa þýðingu fyrir mál þetta. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna er sveitarfélögum svo heimilt að starfrækja vatnsveitu í dreifbýli og leggja í framkvæmdir við gerð hennar enda sýni rannsóknir og kostnaðaráætlanir að hagkvæmt sé að leggja veituna og reka hana.

Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2004 segir að sveitarstjórn fari með stjórn vatnsveitu í sveitarfélaginu nema annað rekstrarform hafi sérstaklega verið ákveðið og samkvæmt 2. mgr. 2. gr. er sveitarstjórn heimilt að kjósa sérstaka stjórn til að hafa yfirumsjón með starfsemi vatnsveitunnar og fara með þau verkefni sem sveitarstjórn eru falin með lögunum en með orðunum ,,stjórn vatnsveitu“ er  í lögunum átt við þann aðila sem ber ábyrgð á daglegri stjórn vatnsveitunnar hvort sem um er að ræða sveitarstjórn, sérstaka stjórn vatnsveitu eða annan þann aðila sem fer með málefni vatnsveitu.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 32/2004 er sveitarstjórnum heimilt að leggja og reka sameiginlega vatnsveitu. Sveitarstjórnir skulu þá gera með sér samkomulag um með hvaða hætti veitan skuli lögð og rekin. Ákvæði sveitarstjórnarlaga um samvinnu sveitarfélaga gilda um samvinnu sveitarfélaga á þessu sviði nema um annað sé sérstaklega samið. Í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur svo að lokum fram að sveitarfélag hafi einkarétt á rekstri vatnsveitu og sölu vatns sem hún getur fullnægt innan staðarmarka sveitarfélags, sbr. þó ákvæði 3. mgr. og 4. mgr. 1. gr. Sveitarstjórn er heimilt að fela stofnun eða félagi, sem að meiri hluta er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga, skyldur sínar og réttindi samkvæmt lögunum.

Með 1. gr. laga um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur nr. 139/2001 var Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað, Hafnarfjarðarkaupstað, Borgarbyggð, Garðabæ og Borgarfjarðarsveit heimilað að stofna sameignarfyrirtæki um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur, Akranesveitu, Andakílsárvirkjunar og Hitaveitu Borgarness er nefnist Orkuveita Reykjavíkur. Var slíku sameignarfyrirtæki svo komið á fót með sameignarsamningi OR þann 29. janúar 2004 og er OR nú í eigu þriggja sveitarfélaga; Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar.

Samkvæmt 2. gr. laganna er tilgangur OR vinnsla og framleiðsla raforku, varma og vatns, dreifing og sala afurða fyrirtækisins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækisins, sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi, ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni. Í 1. mgr. 5. gr. laganna segir svo að OR taki við einkarétti Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur, Akraneskaupstaðar, Akranesveitu, Borgarbyggðar, Borgarfjarðarsveitar og Hitaveitu Borgarness til starfrækslu hita-, vatns- og/eða rafveitu. Þá segir í 6. mgr. 5. gr. reglugerðar um Orkuveitu Reykjavíkur nr. 297/2006 að OR beri skyldur Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar, Álftaness, Stykkishólms og Grundarfjarðar til starfrækslu vatnsveitna í sveitarfélögunum og yfirtaki þá samninga sem sveitarfélögin hafi gert um vatnssölu til annarra sveitarfélaga. Ennfremur ber OR skyldur Borgarbyggðar til starfrækslu vatnsveitna í Borgarnesi og á Bifröst.

Með vísan til framangreinds er því ljóst að Reykjavíkurborg hefur falið OR skyldur sínar og réttindi samkvæmt lögum um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004 og telst OR sá aðili sem fer með stjórn vatnsveitu í Reykjavík, og raunar víðar, í skilningi þeirra laga. Telst OR því réttur aðili þess máls er hér er til umfjöllunar enda annast fyrirtækið álagningu vatnsgjalds í þeim sveitarfélögum er starfsemi fyrirtækisins nær til.

2.         Í 1. mgr. 6. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004 segir að heimilt sé að heimta vatnsgjald af öllum fasteignum er vatns geta notið og má gjaldið nema allt að 0,5 hundraðshlutum af fasteignamati. Í þeim tilvikum þegar matsverð fasteignar liggur ekki fyrir við álagningu vatnsgjalds, en fasteign getur þó notið vatns frá vatnsveitu, er heimilt að ákveða upphæð vatnsgjalds með hliðsjón af áætluðu fasteignamati fullfrágenginnar eignar, og ber þá að taka mið af fasteignamati sambærilegra fasteigna í sveitarfélaginu. Er samhljóða ákvæði að finna í 1. mgr. 12. gr. reglugerðar um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 401/2005.

Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð við frumvarp það er varð að lögum nr. 32/2004 segir um 6. gr. að hún sé efnislega að mestu samhljóða 7. gr. gildandi laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 81/1991. Er í báðum ákvæðunum vísað til þeirra fasteigna sem vatns geta notið. Í athugasemdum þeim er fylgdu hinu eldra frumvarpi segir að eðli þess gjalds sé að vera ,,endurgjald fyrir þá þjónustu sveitarfélagsins að láta íbúum þess á hagkvæman hátt í té kalt vatn til heimilisþarfa.” Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 32/2004 segir svo að stjórn vatnsveitu skuli semja gjaldskrá þar sem kveðið sé nánar á um greiðslu og innheimtu skv. 5.-7. gr. laganna. Miða skal við að vatnsgjald ásamt öðrum tekjum vatnsveitu standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði, og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar.

Vatnsgjald telst þannig vera þjónustugjald en það hefur verið skilgreint sem svo að með þjónustugjaldi sé átt við greiðslu, venjulega peningagreiðslu, sem tilteknir hópar einstaklinga eða lögaðila verða að gjalda hinu opinbera eða öðrum sem hafa heimild til að taka við henni fyrir sérgreint endurgjald sem látið er í té og er greiðslunni ætla að standa að hluta að öllu leyti undir kostnaði við endurgjaldið. Í samræmi við þá grundvallarreglu að stjórnsýslan sé lögbundin verður slíkt gjald ekki innheimt án heimildar í lögum og þá eingöngu til að standa straum af þeim kostnaði sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu sem gjaldtökuheimildin nær til (sjá t.a.m. álit umboðsmanns Alþingis frá 29. apríl 2011 í máli nr. 5796/2009). Þjónustugjöld eru hins vegar ekki tengd notkun hvers og eins heldur er heimilt að innheimta þau óháð því hversu mikið hver notandi raunverulega nýtir sér þjónustuna. 

3.         Ráðuneytið telur ljóst að mál þetta snúi einkum af því hvernig túlka beri orðlagið ,,er vatns geta notið“ eins og það birtist í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2004, en það er hvorki útskýrt nánar í lögunum né í lögskýringargögnum.

Af hálfu SHM er byggt á því að umræddur bílskúr fasteignarinnar nr. 203-1650 sé ekki tengdur við vatnsveitukerfi OR og geti þannig ekki notið vatns, en af hálfu OR er á því byggt að heimæð liggi inn á lóðina Hvassaleiti 18-22 og því geti fasteignin notið vatns en ekki lögð sú skylda á vatnsveitu að fylgjast með því hvort einstakar eignir eða matshlutar innan lóðar/fasteignar séu tengdar vatni, heldur einungis að tengja hverja lóð/fasteign á einum stað.

Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, er fasteignin Hvassaleiti 22, fastanr. 203-1650, íbúðarhúsnæði, alls 113,8 m2 að stærð, sem samanstendur af 93,5 m2 íbúð með auðkennið 203-1650 og bílskúr, 20,3 fm2 að stærð, með auðkennið 203-1669. Ágreiningslaust er í málinu að umræddur bílskúr er ekki tengdur beint við vatnsveitukerfi OR. Hins vegar hefur OR lagt fram uppdrátt sem sýnir hvar heimæð liggur inn á lóðina Hvassaleiti 22-24. Rétt er að taka fram að eins og SHM lýsir í kæru, þá sést á umræddum uppdrætti að vatnsinntak Hvassaleitis 22 er aftan til á byggingunni en á móti henni stendur sérstæð bílskúrlengja sem bílskúr SHM tilheyrir.

Ráðuneytið getur ekki fallist á það með OR að þar sem vatnsæðar liggi inn á lóð þá geti fasteign þá þegar notið vatns í skilningi 1. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2004. Til þess skortir enn nauðsynlegar tengingar við vatnsveitukerfi vatnsveitu en ráðuneytið telur slíkt nauðsynlegt skilyrði álagningar vatnsgjaldsins og að vatnsgjald verði þannig ekki gjaldkræft fyrr en raunverulegur möguleiki er á því að hefja notkun. Hefur ráðuneytið áður fjallað um þetta álitaefni í úrskurði sínum frá 28. júlí 2009, en þar komst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að fasteign teldist ekki geta notið vatns í skilningi 1. mgr. 6. gr. laga nr. 32/2004 nema hvoru tveggja væri uppfyllt; að til komi lagning heimæðar annars vegar og í kjölfarið tenging við vatnveitukerfið vatnveitunnar hins vegar. Telur ráðuneytið það sama eiga við jafnvel þó fleiri en ein húsbygging sé skráð með sama fastanúmeri, enda verði þá hver sérstæð bygging að vera tengd við vatnsveitukerfi svo heimilt sé að innheimta af henni vatnsgjald. Hefur ráðuneytið þar ekki síst í huga að við álagningu þjónustugjalda skal tryggja að gjaldtaka sé í sem bestu samræmi við þá þjónustu sem veitt er.

Er það því niðurstaða ráðuneytisins að ekki standi lagaheimild til hinnar kærðu álagningu og að fella beri niður álagningu vatnsgjalds að hluta fyrir fasteignina Hvassaleiti 22, fastanr. 203-1650, eða því sem nemur álagningu fermetragjalds fyrir umræddan bílskúr, alls 20,3 m2.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð í málinu og er beðist velvirðingar á því.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur um álagningu vatsngjalds á fasteignina nr. 203-1650 er felld úr gildi að hluta, eða sem nemur fermetragjaldi vatns á bílskúr með auðkennið 203-1669.

Bryndís Helgadóttir

Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta