Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. IRR11120389

Ár 2012, 21. mars er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. IRR11120389

Veiðihús ehf.

gegn

Orkuveitu Reykjavíkur

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru dagsettri 21. desember 2011 kærði Ásgeir Þór Árnason hrl, f.h. Veiðihúsa ehf., Akurhvarfi 16, Kópavogi, rekstraraðila veiðihúsa við Eystri-Rangá, Rangárþingi eystra, en félagið er dótturfélag Lax-ár ehf., (hér eftir nefntV) þá ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur (hér eftir nefnd OR) er fram kemur í bréfi til lögmannsins dags. 25. nóvember 2011 að hafna kröfu V um að OR efni samning milli Lax-ár ehf. og Hitaveitu Rangæinga dags. 18. maí 2001.

Er þess krafist að ákvörðun OR um synjunina verði ógilt, en auk þess verður orðalag kæru ekki skilið á annan veg en þann að þess sé jafnframt krafist að ráðuneytið leggi fyrir OR að efna fyrrgreindan samning.

Kæran er sett fram á grundvelli 1. mgr. 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og barst hún ráðuneytinu innan hins lögmælta þriggja mánaða kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.      Málsatvik, rök og meðferð máls

Í kæru kemur fram að þann 18. maí 2001 gerðu Hitaveita Rangæinga og Lax-á ehf. samning vegna afhendingar á heitu vatni til veiðihúsanna við Eystri-Rangá þar sem kveðið var á um að notanda væri veittur 30% afsláttur frá gildandi gjaldskrá vegna hitafalls í dreifikerfi og þess að notandi kostaði lagningu heimaæðar og viðhald hennar. Telur V að Veiðihús ehf., sem öðlaðist réttindi Lax-ár ehf. samkvæmt samningum, hafi ekki notið umsamins afsláttar eftir að OR yfirtók Hitaveitu Rangæinga.

V telur að við það að OR tók yfir Hitaveitu Rangæinga þá hafi hún einnig tekið yfir samning Hitaveitu Rangæinga við V og því beri OR að efna samninginn samkvæmt efni hans. Ef undanskilja hefði átt samninginn hefði þurft að taka það sérstaklega fram.  Vísar V um þetta til meginreglna kröfuréttar um efndir skuldbindinga, sem fær meðal annars lagastoð í 45. gr. og 51. gr. laga nr. 50/2000.

Í bréfi OR til lögmanns V, dags. 25. nóvember 2011 og fylgdi kæru þessari, er kröfu V hafnað á þeim grundvelli að þegar OR keypti Hitaveitu Rangæinga þann 25. janúar 2005, hafi OR ekki yfirtekið fyrrgreindan samning við Lax-á ehf. Þá hefur OR bent á það í bréfi sínu til V að í fyrrgreindum samningi felist ekki annar afsláttur en tíðkaðist almennt samkvæmt gjaldskrá Hitaveitu Rangæinga vegna svokallaðra hitastigsleiðréttinga auk þess sem fyrirtækið tilkynnti skriflega í ársbyrjun 2005 að hitastigsleiðréttingar yrðu felldar niður, en gjaldskrá þess í stað lækkuð verulega.

OR telur að V eigi að beina kröfu sinni að iðnaðarráðuneytinu þar sem það ráðuneyti fari með málefni hitaveitna og því beri innanríkisráðuneytinu í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga að framsenda kröfuna til iðnaðarráðuneytisins.

Stjórnsýslukæra V barst ráðuneytinu þann 23. desember 2011.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 13. janúar 2012 sem ítrekað var þann 29. febrúar var OR gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau ráðuneytinu þann 8. mars 2012. Ráðuneytið taldi ekki þörf á að óska eftir frekari gögnum eða sjónarmiðum og er málið er því tekið til úrskurðar.

III.      Niðurstaða ráðuneytisins

Ráðuneytið telur að því beri ekki að framsenda mál þetta til iðnaðarráðuneytisins enda hefur það áður fjallað um ákvarðanir sveitarstjórna er varða gjaldskrá hitaveitna, sbr. úrskurð kveðinn upp 16. febrúar 2011 í máli IRR10121739, er varðaði breytingu á gjaldskrá og úrskurð í máli IRR11090091, kveðinn upp 6. janúar 2012 en í því máli var kærð ákvörðun sveitarfélags er varðaði synjun á beiðni um lækkun á gjaldi fyrir heitt vatn. Var málinu vísað frá þar sem kæra barst að liðnum kærufrestum. Telur ráðuneytið ekki tilefni til að fallast á röksemdir OR þess efnis að innanríkisráðuneytið sé ekki bært stjórnvald til þess að taka ákvörðun í málinu. 

Jafnframt er þess að geta að í orkulögum nr. 58/1967 er ekki sérstök kærheimild er gengur framar hinni almennu kæruheimild í 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga.

Ágreiningsefni máls þessa lýtur að því hvort samningur sá sem gerður var þann 18. maí 2001 milli Hitaveitu Rangæinga og Lax-ár ehf. sé bindandi fyrir OR en í janúar 2005 keypti OR Hitaveitu Rangæinga. Í 2. gr. samnings OR og Hitaveitu Rangæinga eru taldir upp þeir samningar sem í gildi voru milli hitaveitunnar, eigenda hennar og landeigenda, en fyrrgreindur samningur milli Hitaveitu Rangæinga og Lax-á er ekki þar á meðal.

Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, skal ráðuneytið úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Þannig er það lögbundið hlutverk ráðuneytisins að úrskurða um lögmæti ákvarðana sveitarfélaga á grundvelli kæru frá þeim sem nægjanlegra hagsmuna eiga að gæta nema annað verði leitt af lögum. Eftirlit þetta er svonefnt lögmætiseftirlit, þ.e. eftirlit með því að fylgt sé ákvæðum laga og stjórnvaldsfyrirmæla í stjórnsýslu sveitarfélaga. Í því felst ekki endurskoðun á efni ákvarðana sveitarstjórna að því leyti sem þær eru byggðar á frjálsu mati og því svigrúmi sem sveitarfélög hafa til ákvarðana innan ramma laganna. Þá hefur verið litið svo á að eftirlitsheimild ráðuneytisins samkvæmt fyrrgreindu ákvæði taki ekki aðeins til stjórnvaldsákvarðana enda hefur umboðsmaður Alþingis komist að þeirri niðurstöðu í álitum sínum að þótt ákvörðun sú sem er grundvöllur ágreinings aðila teljist ekki hafa verið stjórnvaldsákvörðun í merkingu 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, heldur hafi falið í sér samning einkaréttarlegs eðlis, þá gildi um meðferð málsins óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar. Slíkar reglur geta m.a. snert undirbúning og rannsókn máls og skyldu stjórnvalds til að byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum og gæta jafnræðis milli borgaranna. Við meðferð stjórnsýsluvalds er stjórnvald þannig ávallt bundið af málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar.

Ráðuneytið telur ljóst, miðað við málatilbúnað V, að í reynd sé um að ræða ágreining milli V og OR er lýtur að efndum og túlkun á einkaréttarlegum samningum. Ágreiningsefni er varðar túlkun og efndir slíkra samninga verður ekki skotið til úrskurðar ráðuneytisins, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4478/2005. Stjórnsýslueftirlit ráðherra nær því almennt ekki til einkaréttarlegra gerninga sem sveitarfélögin kunna að gera nema með þeim undantekningum sem vikið er að hér að framan. Eins og áður segir þá lýtur ágreiningur máls þessa, miðað við málatilbúnað V, að efndum og túlkun á einkaréttarlegum samningum, en ekki því hvernig staðið var að gerð samninganna eða meðferð málsins, enda langt um liðið frá gerð þeirra.

Ágreiningur aðila lítur að efndum á samningi þeim sem Hitaveita Rangæinga gerði við Lax-á ehf., árið 2001 en niðurstaða þess ágreinings veltur að nokkru á túlkun samnings OR og Hitaveitu Rangæinga frá árinu 2005. Það er því mat ráðuneytisins að um réttarágreining sé að ræða sem eigi undir dómstóla en falli ekki undir stjórnsýslueftirlit og úrskurðarvald innanríkisráðherra. Fær þessi niðurstaða ráðuneytisins jafnframt stoð í niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6597/2011.

Af framangreindu leiðir að vísa verður frá kröfu V um að synjun OR um að OR efni samning milli Lax-ár ehf. og Hitaveitu Rangæinga, dags. 18. maí 2001 verði ógilt. Jafnframt er vísað frá kröfu V um að ráðuneytið leggi fyrir OR að efna fyrrgreindan samning.

Úrskurðarorð

Kæru Ásgeirs Þórs Árnasonar hrl, f.h. Veiðihúsa ehf., Akurhvarfi 16, Kópavogi, rekstraraðila veiðihúsa við Eystri-Rangá, Rangárþingi eystra, en félagið er dótturfélag Lax-ár ehf., um að ógilt verði ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur frá 25. nóvember 2011 þess efnis að hafna kröfu Veiðihúsa ehf. um að Orkuveita Reykjavíkur efni samning milli Lax-ár ehf. og Hitaveitu Rangæinga, dags. 18. maí 2001, er vísað frá ráðuneytinu. Kröfu um að ráðuneytið leggi fyrir Orkuveitu Reykjavíkur að efna fyrrgreindan samning er einnig vísað frá ráðuneytinu.

Fyrir hönd ráðherra

Bryndís Helgadóttir                                                                                                                              Hjördís Stefánsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta