Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. IRR11080220

Ár 2012, 10. apríl er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. IRR11080220

Þorkell Ingimarsson

gegn

Húnavatnshreppi

 

I.         Kröfur og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru dagsettri 19. ágúst 2011 kærði Valgeir Kristinsson hrl, f.h. Þorkels Ingimarssonar, (hér eftir nefndur ÞI) ráðningu nýs skólastjóra Húnavallaskóla í Austur-Húnavatnssýslu. Í kæru segir að krafa ÞI lúti að því að ráðuneytið skoði og meti verk og vinnubrögð hreppsnefndar Húnavatnshrepps (hér eftir nefnd H), um það hvort farið hafi verið að stjórnsýslulögum og leggi mat á hvort hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn í starfið.

Verður ráðið af kæru að þess sé krafist að ráðuneytið úrskurði að umrædd ráðning í starf skólastjóra Húnavallaskóla, sem tekin var á fundi H þann 9. maí 2011, verði úrskurðuð ólögmæt.

Kært er á grundvelli 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga (þ.e. lög nr. 45/1998).

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Í febrúar 2011 samþykkti H að stefnt skyldi að samrekstri grunn- og leikskóla á Húnavöllum frá og með haustinu 2011 undir stjórn eins skólastjóra. Skipaður var starfshópur til þess að kanna kosti og galla slíks samrekstrar. Niðurstaða starfshópsins var að mæla með sameiningu skólanna undir stjórn eins skólastjóra. Fræðslunefnd hreppsins fjallaði um álit starfshópsins og mælti einnig með sameiningu skólanna. Á fundi H þann 29. mars 2011 var samþykkt að skólarnir tveir yrðu sameinaðir frá og með 1. ágúst 2011 og að staða skólastjóra yrði auglýst. Auglýsingin birtist í landsmálablöðum þann 2. apríl 2011 og bárust fjórar umsóknir um starfið þ. á m. frá ÞI sem gegndi stöðu skólastjóra grunnskólans að Húnavöllum. Aðrir umsækjendur voru A, B og Sigríður Bjarney Aadnegard (hér eftir nefnd SBA) sem fékk stöðuna.

Umsóknirnar voru kynntar á fundi fræðslunefndar hreppsins þann 28. apríl 2011 þar sem samþykkt var að nefndin myndi fara betur yfir umsóknir áður en hún skilaði áliti til H og að umsækjendur yrðu boðaðir í viðtal. Jafnframt var samþykkt að ráða Trausta Þorsteinsson (hér eftir nefndur TÞ), lektor við Háskólann á Akureyri, til aðstoðar/ráðgjafar fræðslunefndinni við val á hæfasta umsækjandanum. Þá var ákveðið að þrír fulltrúar úr fræðslunefndinni skyldu taka viðtöl við umsækjendur ásamt TÞ. Var TÞ falið að taka saman stutta greinargerð um umsækjendurna og tala við meðmælendur þeirra. A dró umsókn sína til baka, þannig að einungis voru tekin viðtöl við þrjá umsækjendur, þ.e. B, SBA og ÞI. Þann 4. maí 2011 var haldinn símafundur með TÞ og þeim þremur fulltrúum úr fræðslunefndinni sem tóku viðtölin. Á fundinum kynnti TÞ greinargerð sína vegna málsins en niðurstaða hans um hæfni umsækjenda var sú að allir umsækjendurnir uppfylltu hæfisskilyrðin en sökum stuttrar starfsreynslu stæði B nokkuð að baki SBA og ÞI sem hann mat nokkuð til jafns. Taldi TÞ að SBA hefði reynslu af leikskólastarfi umfram ÞI, en menntunargrunnur ÞI væri hins vegar talsvert meiri en SBA. Þá tók TÞ fram að SBA hefði sótt fjölda námskeiða og af umsögnum mætti ráða að hún hefði umtalsverða samstarfshæfni.

Á fundi fræðslunefndar þann 5. maí 2011 var fjallað um val á skólastjóra og lá fyrrgreind greinargerð TÞ fyrir á fundinum. Þar var samþykkt með fjórum atkvæðum að leggja til við H að SBA yrði ráðin skólastjóri við sameinaða skólastofnun á Húnavöllum, einn nefndarmanna sat hjá. Rökstuðningur nefndarinnar var eftirfarandi:

„Við mælum með að Sigríður Bjarney Aadnegard verði ráðinn skólastjóri við sameinaða skólastofnun Húnavatnshrepps næsta skólaár.

Að okkar mati uppfyllir hún best umsækjenda þau skilyrði sem sett voru fram í auglýsingu um starfið.

Það sem vegur þyngst að okkar mati er mikil starfsreynsla á bæði leik- og grunnskólastigi og leyfisbréf á báðum skólastigum, sem mun nýtast vel við sameinaða skólastofnun á Húnavöllum.

Sigríður hefur sótt sér upplýsingar um nýjustu áherslur og leiðir í kennslu- og uppeldismálum, sem við teljum einnig afar mikilvægt.

Jafnframt teljum við vitnisburð um góða hæfileika Sigríðar í mannlegum samskiptum vega þungt.“

Þá deildu aðilar um vanhæfi Birgis Ingþórssonar, (hér eftir nefndur BI) fulltrúa í fræðslunefnd, en ÞI telur hann vanhæfan vegna aðkomu hans að deilumáli vegna tiltekins atviks sem upp kom í skólanum. Eiginkona BI var ein nokkurra foreldra sem ritaði fræðslunefnd bréf vegna atviksins. Með bréfi, dags. 2. maí 2011 til fræðslunefndar, mótmælti ÞI því að BI sæti í valnefnd á vegum H sem fjalla ætti um hæfi umsækjenda um stöðu skólastjóra við nýjan skóla hreppsins en í bréfinu sagði: „Birgir tengdist mjög rógsherferð sem beindist gegn mér og eiginkonu minni í vetur þar sem vegið var hart að starfsheiðri okkar og tel ég hann því algjörlega vanhæfan.“ Bréf ÞI var tekið fyrir við upphaf fundar þegar tekin voru viðtöl við umsækjendur þann 2. maí 2011. Á þeim fundi tók BI afstöðu til hæfis síns og taldi hann hugmyndir um meint vanhæfi sitt ekki eiga við nokkur rök að styðjast. Hann hafi ekki átt í neinum persónulegum deilum við ÞI og hafnaði hann því að hafa tengst einhvers konar „rógsherferð“ gegn ÞI. Tók BI því þátt í störfum fræðslunefndar vegna vals á skólastjóra.

Á fundi H þann 9. maí 2011 var samþykkt samhljóða að fara að tillögu fræðslunefndar og ráða SBA í stöðuna. ÞI vildi ekki una þessari niðurstöðu H og kærði ráðninguna til ráðuneytisins.

Stjórnsýslukæra ÞI barst ráðuneytinu þann 19. ágúst 2011.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 5. sept. 2011, var H gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna og bárust þau ráðuneytinu þann 19. október 2011 en ráðuneytið hafði áður samþykkt að veita H frest.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 21. október 2011, var ÞI gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum sveitarfélagsins og bárust þau andmæli þann 12. nóvember 2011.

Með bréfi, dags. 23. nóvember 2011, tilkynnti ráðuneytið aðilum máls að tafir yrðu á uppkvaðningu úrskurðar.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 25. janúar 2011, var þess farið á leit við ÞI að veittar yrðu frekari upplýsingar og bárust þær þann 2. febrúar 2012.

Með tölvubréfum, dags. 26. og 27. mars 2011, til lögmanns H óskaði ráðuneytið eftir afriti af umsókn ÞI og fylgigögnum hennar auk frekari upplýsinga. Bárust umbeðnar upplýsingar þann 26. og 28. mars 2012.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.      Málsástæður ÞI

ÞI telur að hæfasti umsækjandinn hafi ekki verið ráðinn í starf skólastjóra auk þess sem BI, fulltrúi í fræðslunefnd hafi verið vanhæfur til þess að taka þátt í vali á skólastjóra þar sem hann hafi komið að deilumáli gegn ÞI síðla árs 2010.

ÞI bendir á að í auglýsingu um stöðuna segi að umsækjandi skuli hafa kennsluréttindi og kennslureynslu á leik- og eða grunnskólastigi en í rökstuðningi fræðslunefndar þar sem mælt er með því að SBA verði ráðin sé sérstaklega vísað til þess að SBA hafi leyfisbréf á báðum skólastigum. Í því sambandi bendir ÞI á að hann hafi kennararéttindi bæði í leik- og grunnskóla og vísar til vottorðs sem útgefið var af mennta- og menningarmálaráðuneytinu þann 25. maí 2011. Réttindi hans séu áunnin og hafi hann einungis átt eftir að sækja leyfisbréfið til ráðuneytisins. Telur ÞI að fræðslunefndin hafi að þessu leyti ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína þar sem skilja megi umsögn fræðslunefndar sem svo að ÞI hafi ekki haft leikskólakennararéttindi heldur aðeins SBA en slík ályktun sé röng.

ÞI vísar jafnframt til kynningarfundar sem haldinn var í mars 2011 um fyrirhugaða sameiningu skólanna en þar héldu bæði sveitarstjóri og fræðslustjóri því fram að samkvæmt grunnskólalögum fengju grunnskólakennarar sjálfkrafa leikskólakennararéttindi og leikskólakennarar grunnskóla-kennararéttindi. Hafi þessu verið andmælt á fundinum án þess að fyrrgreindir aðilar tækju mark á því. ÞI segir að í samtölum við fræðslustjóra fyrr á árinu 2011 hafi þessi skilningur hans einnig komið fram en hann sé í hróplegu ósamræmi við þá skoðun sem síðar hafi verið haldið á lofti þess efnis að ÞI hefði ekki réttindi til að starfa í leikskóla. ÞI vekur hins vegar athygli á að á þessum tíma hafi hann og eiginkona hans verið einu kennararnir í báðum skólunum sem hafi verið með réttindi til kennslu á báðum skólastigum.

ÞI bendir á að hann hafi lokið Dipl.Ed. prófi í uppeldis- og menntunarfræði við framhaldsdeild Kennaraháskóla Íslands, með áherslu á stjórnun menntastofnana og útskrifast árið 2007. Hann hafi sótt allar námstefnur stjórnenda í grunnskólum sem haldnar séu árlega en þar sé lögð sérstök áhersla á allt það nýjasta er varðar áherslur og leiðir í kennslu og uppeldismálum. Hins vegar sé ekki vitað um þátttöku SBA á námstefnum grunnskólastjórnenda. ÞI bendir á að hann hafi ekki tölu á öllum þeim námskeiðum sem hann hafi sótt á sviði skóla- og menntamála á þeim árum sem hann hafi starfað sem kennari og skólastjórnandi. 

ÞI tekur fram varðandi þá fullyrðingu H að hann hafi ekki gert grein fyrir réttindum sínum til að starfa í leikskóla, að ekki verði fram hjá því að litið að H hafi verið þetta ljóst, a.m.k. hafi sveitarfélagið greitt honum laun í samræmi við það frá því að hann hafi lokið stjórnunarnáminu vorið 2007. Hvað TÞ varðar þá telur ÞI ljóst að honum, sem lektor við Háskólann á Akureyri, hljóti að hafa verið þetta ljóst þar sem útskriftarskírteini ÞI um stjórnunarnámið hafi fylgt umsókninni.

ÞI bendir á að það sé rangt sem komi fram í greinargerð TÞ um mat á umsækjendum að kennslureynsla hans í grunnskóla sé 20 ár. Samkvæmt þeirri ferilskrá sem H hafi fengið í hendur sé reynsla hans 21 ár, auk þess sem hann hafi kennt einn vetur eftir stúdentspróf sem leiðbeinandi en hann hafi ekki talið þörf á að tilgreina það sérstaklega, þar sem þess hafi verið getið í eldri gögnum, frá 2001, sem hafi átt að liggja fyrir hjá H. ÞI segir að sveitarstjóri hafi þann 2. maí 2011 upplýst hann um að þau gögn fyndust ekki og farið fram á að ÞI legði fram ný gögn sem hann hafi gert í miklum flýti. Þá sé í sömu greinargerð TÞ reynsla hans af stjórnun og rekstri talin 20 ár en sú reynsla sé hins vegar 25 ár og komi það skýrt fram í ferilskrá sem H hafi fengið með umsókn hans.

ÞI vísar til þess að í samanburðartöflu í fyrrnefndri greinargerð TÞ komi fram að SBA hafi lokið Dipl.Ed. prófi í uppeldis- og kennslufræði. ÞI bendir á enginn geti stundað framhaldsnám á háskólastigi á menntavísindasviði í Háskóla Íslands nema að hafa lokið B.Ed. prófi eða öðru sambærilegu háskólaprófi og það sama hafi gilt í Kennaraháskóla Íslands á þeim tíma sem SBA eigi að hafa lokið þessu prófi. Bendir ÞI á að SBA hafi ekki lagt fram gögn er sýni það að hún hafi B.Ed. próf né aðra háskólagráða sem veiti þessi réttindi.

Þá vísar ÞI til ferilskrár sinnar og fylgigagna en að hans mati sé það ljóst að í samanburði við SBA hafi hann yfirburði varðandi þá reynslu og menntun sem þýðingu hafi við hæfnismat á þeim tveimur.

Í kæru ÞI kemur fram að samkvæmt vitneskju hans þá sé menntun SBA ekki sambærileg við hans. SBA sé með próf frá Fóstruskóla Íslands og hafi hún aflað sér kennsluréttinda í grunnskóla eftir bréfaskóla í eitt ár, stjórnunarreynsla hennar hafi verið starf aðstoðarskólastjóra grunnskólans á Blönduósi í nokkur ár. Hún eigi hins vegar ættir og uppruna að rekja til Blönduóss og hafi það fram yfir ÞI og veltir hann þeirri spurningu upp hvort það kunni að hafa haft áhrif í máli þessu.

ÞI bendir á að Húnavallaskóli hafi ávallt komið vel út á samræmdum grunnskólaprófum í 10. bekk á meðan þeirra hafi notið við og segi það sína sögu um hæfni hans sem skólastjóra auk þess sem það bendi til þess að utanumhaldið um skólastarfið hafi verið gott. Niðurstöður úr síðustu Pisakönnun staðfesti þennan árangur en samkvæmt Pisa 2009 sé Húnavallaskóli í fremstu röð grunnskóla á Íslandi. Þá bendir ÞI einnig á að í úttekt mennta- og menningarmálaráðuneytisins á sjálfsmatsaðferðum skóla haustið 2009 hafi Húnavallaskóli komið mjög vel út en skólinn hafi verið sá eini í Húnavatnssýslum sem uppfyllti skilyrði ráðuneytisins um sjálfsmat.

Í andmælum sínum víkur ÞI einnig að samskiptum milli hans og fræðslustjóra en ÞI telur að ástæða sé til að ætla að þau hafi haft áhrif á afstöðu fræðslustjóra til hans en fræðslustjórinn hafi verið annar meðmælanda ÞI sem haft hafi verið samband við og telur ÞI að þessi samskipti hafi vegið þungt þegar fræðslustjórinn sem meðmælandi lýsti kostum og göllum hans fyrir TÞ. Þá bendir ÞI jafnframt á að fræðslustjórinn hafi einnig verið meðmælandi SBA og kunni það að orka tvímælis að vera meðmælandi tveggja umsækjenda um sömu stöðuna. Jafnframt veltir ÞI upp þeirri spurningu hvort fræðslustjórinn gæti hugsanlega hafa verið vanhæfur sem meðmælandi SBA þar sem hann sé heimilisvinur á heimili hennar.

ÞI telur að draga megi þá ályktun, sbr. eftirfarandi orðalag í auglýsingunni: ,,framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum“, að meirihluti fræðslunefndar hafi talið vanta upp á slíka hæfni hjá honum. Varðandi hæfni hans í mannlegum samskiptum vísi ÞI hins vegar til yfirlýsingar kennara og starfsmanna beggja skólanna, sem þeir hafi samið og undirritað án nokkurs atbeina hans, en þar sé skorað á H að ráða ÞI í starf sameinaðs leik- og grunnskóla Húnavatnshrepps.

ÞI telur BI vanhæfan í málinu vegna aðkomu hans að deilumáli er laut að kröfu þess efnis að ÞI vísaði ungum nemanda úr skóla vegna ákveðins atviks sem upp kom í skólanum. Segir ÞI að BI hafi beitt hann miklum þrýstingi um að vísa nemandanum úr skóla. Fræðslunefnd hafi fundað um málið og þar hafi verið lagt fram bréf frá nokkrum foreldrum, þ. á m. eiginkonu BI, en BI hafi vikið af þeim fundi sökum vanhæfis. ÞI segir að í bréfinu hafi hann og eiginkona hans verið borin þungum sökum og hann sakaður um að reyna að stinga málinu undir stól en það hafi ekki átt við nokkur rök að styðjast.

Þá vísar ÞI til samtals sem BI hafi átt við eiginkonu hans þar sem BI hafi lýst því yfir að tímabært væri að skipta um skólastjóra á Húnavöllum eins og í öðrum skólum í Húnavatnssýslum. Þrátt fyrir andmæli BI varðandi þetta atriði þá telji ÞI að BI hafi viðhaft þessi orð.

Þá bendir ÞI á að hann og eiginkona hans hafi síðan verið boðuð á fund fræðslustjóra vegna fyrrgreinds bréfs, en þann fund hafi BI einnig setið, þrátt fyrir að hafa lýst sig vanhæfan til þess að fjalla um málið á fundi fræðslunefndar einum og hálfum mánuði áður. Segir ÞI að hann hafi gert athugasemd við það að BI sæti fundinn en hann hafi þó látið sér það lynda, hins vegar hafi ekki verið rætt við eiginkonu hans um þetta og hafi hún verið afar ósátt við að BI sæti fundinn.

ÞI telur að með sameiningu skólanna hafi leikskólinn verið felldur inn í grunnskólann en ekki hafi verið stofnað til gjörbreyttrar skólastofnunar og það að sameina skólana hafi verið leið til þess að losna við hann úr starfi skólastjóra. ÞI heldur því fram að hann hafi í raun verið hrakinn úr starfi sínu sem skólastjóri Húnavallaskóla og því hafi ráðið persónuleg óvild í hans garð. Í kæru og andmælum gerir ÞI grein fyrir þeim atvikum sem hann telur að hafi valdið því að ákveðið hafi verið að segja honum upp störfum og auglýsa eftir nýjum skólastjóra en hann bendir á að hann hafi verið eini aðilinn sem hafi verið sagt upp störfum í þessu ferli. Ráðuneytið telur ekki tilefni til þess að rekja þessi atriði hér þar sem uppsögn ÞI er ekki kærð heldur lýtur kæruefnið eingöngu að lögmæti ráðningar hins nýja skólastjóra.

ÞI bendir á að kæra hans byggist á málefnalegum rökum. Hann hafi verið hrakinn á brott úr starfi sem hann reiknaði með að gegna meðan heilsa leyfði, auk þess sem brottreksturinn hafi leitt til lítillækkunar fyrir hann og hann geti ekki átt von á því að fá sambærilegt starf að nýju. ÞI telur að hann hafi verið ataður smánarbletti og eigi hann rétt til miskabóta vegna misneytingar og valdníðslu H og því hafi hann orðið að kæra ráðningu SBA í starf skólastjóra.

IV.       Málsástæður H

H vísar til þess að um ráðningu í hina umræddu stöðu skólastjóra hafi gilt lög nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Í 10. gr. laganna kemur fram að til þess að vera ráðinn leikskólastjóri skuli umsækjandi hafa starfsheitið leikskóla-kennari og viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á leikskólastigi og í 12. gr. kemur fram að til þess að vera ráðinn skólastjóri við grunnskóla skal umsækjandi hafa starfsheitið grunnskólakennari og viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á grunnskólastigi. Kemur fram hjá H að þar sem um hafi verið að ræða ráðningu skólastjóra við sameinaðan leik- og grunnskóla hafi verið höfð hliðsjón af báðum ákvæðunum við ákvörðun krafna til menntunar og hæfni umsækjenda. Þá hafi jafnframt verið ákveðið að setja fram tilteknar kröfur sem talið hafi verið mikilvægt að umsækjendur uppfylltu að teknu tilliti til eðlis þess starfs sem um var að ræða og í því skyni að velja hæfasta umsækjandann til að gegna stöðunni.

Í umsögn H kemur fram að með hliðsjón af framangreindu hafi kröfur um menntun og hæfni verið settar fram í auglýsingunni en þar hafi komið fram að kröfur vegna starfsins væru eftirfarandi:

„-Kennsluréttindi og kennslureynsla á leik- og/eða grunnskólastigi.

-Framhaldsmenntun á sviði stjórnunar og/eða uppeldis- og kennslufræði æskileg.

-Umsækjandi hafi sótt sér upplýsingar um nýjustu áherslur og leiðir í kennslu- og uppeldismálum.

-Reynsla af stjórnun, rekstri og þróunarstarfi.

-Framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum.

-Skipulagshæfni og sjálfstæði í starfi.“

Í umsögninni kemur jafnframt fram að farið hafi verið yfir allar umsóknir á fundi fræðslunefndar þann 28. apríl 2011 þar sem ákveðið hafi verið að boða umsækjendur til viðtals og ráða TÞ til að veita nefndinni liðsinni við mat á umsækjendum. Rætt hafi verið við umsækjendurna og teknar saman upplýsingar í samræmi við 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Hæfi þeirra hafi verið metið með tilliti til þess hvernig þeir uppfylltu þau skilyrði sem sett voru fram í auglýsingunni. Í því sambandi hafi verið litið til umsókna og fylgigagna, umsagna meðmælanda og viðtala við umsækjendur. Varðandi kröfur um hæfni í mannlegum samskiptum og um skipulagshæfni og sjálfstæði í starfi hafi eðli málsins samkvæmt einkum verið litið til viðtala við umsækjendur og umsagna meðmælenda.

Í umsögn H er gerð grein fyrir réttindum og reynslu umsækjenda auk þess sem greint er frá því að í viðtölum við umsækjendur hafi þeir verið beiðnir að gera grein fyrir áhuga sínum og hugmyndum um starfið og leggja mat á hvernig reynsla þeirra myndi nýtast í starfinu. Þá hafi þeir verið beðnir um að benda á dæmi um faglegt frumkvæði sitt í starfi, hvað þeir teldu að þeir hefðu fram að færa í starfinu, hvar þeir þyrftu að bæta sig o.fl. Þá hafi verið leitað til tveggja af þeim meðmælendum sem tilgreindir hafi verið í umsókn hvers umsækjanda varðandi þessi atriði. Segir H að leitað hafi verið svara við þessum atriðum vegna krafna um „framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum“ og „skipulagshæfni og sjálfstæði í starfi“ sem tilgreindar hafi verið í auglýsingunni. Gerð hafi verið grein fyrir niðurstöðu viðtalanna í sérstöku skjali. 

Umsagnir meðmælenda þeirra SBA og B hafi verið í samræmi við sjálfsmat þeirra og mjög jákvæðar. Varðandi ÞI hafi önnur umsögnin verið á þann veg að hann væri samviskusamur og reglufastur starfsmaður sem hefði verið trúr því sem honum hefði verið falið en í hinni hafi komið fram að honum hefði ekki farnast vel í samstarfi við ólíka aðila í skólastarfinu.

Á grundvelli þessa hafi það verið mat fræðslunefndar að B stæði þeim ÞI og SBA nokkuð að baki að teknu tilliti til kennslureynslu og reynslu af stjórnun og rekstri. Valið hafi því staðið á milli ÞI og SBA, en nefndin hafi lagt heildstætt mat á þessa tvo umsækjendur og leitast við að greina hvort þeirra uppfyllti betur þau skilyrði sem sett hafi verið fram í auglýsingu um starfið. Niðurstaða fræðslunefndar hafi verið sú að SBA væri hæfari til að gegna stöðunni og hafi rökstuðningur meirihluta nefndarinnar verið eftirfarandi, sbr. fundargerð nefndarinnar dags. 5. maí 2011:

„Við mælum með að Sigríður Bjarney Aadnegard verði ráðinn skólastjóri við sameinaða skólastofnun Húnavatnshrepps næsta skólaár.

Að okkar mati uppfyllir hún best umsækjenda þau skilyrði sem sett voru fram í auglýsingu um starfið.

Það sem vegur þyngst að okkar mati er mikil starfsreynsla á bæði leik- og grunnskólastigi og leyfisbréf á báðum skólastigum, sem mun nýtast vel við sameinaða skólastofnun á Húnavöllum.

Sigríður hefur sótt sér upplýsingar um nýjustu áherslur og leiðir í kennslu- og uppeldismálum, sem við teljum einnig afar mikilvægt.

Jafnframt teljum við vitnisburð um góða hæfileika Sigríðar í mannlegum samskiptum vega þungt.“

H vísar til þess að framangreind atriði hafi aðgreint SBA frá ÞI og hafi þau borið þess merki að SBA væri hæfari heldur ÞI til að gegna stöðunni. Því hafi nefndin talið að þó svo að ÞI hefði lengri reynslu af kennslu á grunnskólastigi en SBA og umfangsmeiri háskólamenntun leiddi heildstætt mat á þeim skilyrðum sem sett hafi verið til þess að SBA væri hæfari til þess að gegna stöðunni enda hefði hún starfsreynslu á báðum skólastigum. Hún hefði sótt sér endurmenntun í samræmi við þær kröfur sem tilgreindar hafi verið í auglýsingu auk þess sem umsagnir beggja meðmælenda sem leitað hafi verið til hafi borið með sér að hún hefði góða samskiptahæfileika. H hafi verið sammála mati fræðslunefndar og því samþykkt tillögu um að ráða SBA.

H bendir á að í kæru ÞI komi fram að hann hafi kennsluréttindi í leikskóla auk þess að hafa setið fjölda námskeiða er taki á nýjustu áherslum og leiðum í kennslu- og uppeldismálum. Þessar upplýsingar hafi ekki komið fram í umsókn ÞI né hafi hann vikið að þessu í viðtali sínu við TÞ og fulltrúa fræðslunefndar. Það sé mat H að fullt tilefni hafi verið til þess af hálfu ÞI að gera grein fyrir þessum atriðum í umsókn sinni enda hafi sérstaklega verið tilgreint í auglýsingu um starfið að umsækjendur skyldu hafa kennsluréttindi og kennslureynslu á leik- og grunnskólastigi og að umsækjendur skyldu  „hafa sótt sér upplýsingar um nýjustu áherslur og leiðir í kennslu- og uppeldismálum.“ H mótmælir því að sérstök rannsóknarskylda hafi hvílt á sveitarfélaginu hvað þetta varðaði enda hljóti það að standa hverjum umsækjanda næst að gera grein fyrir því hvernig þeir uppfylli þær menntunar- og hæfniskröfur sem gilda vegna auglýstra starfa. Þá tekur H fram að umræddar upplýsingar hafi ekki verið til þess fallnar að breyta því mati hreppsins að SBA hafi verið hæfari til að gegna stöðunni enda hafi hún eftir sem áður haft reynslu af leikskólastarfi sem ÞI hafi skort auk þess sem umsagnir meðmælenda hafi borið með sér að SBA hafi búið yfir ríkari hæfni í mannlegum samskiptum.

H hafnar því að BI hafi verið vanhæfur til þess að taka þátt í mati fræðslunefndar á umsækjendum um stöðu skólastjóra. ÞI hafi ritað bréf til oddvita og sveitarstjóra, dags. 2. maí 2011, þar sem hann hafi tilkynnt að hann teldi BI vanhæfan til þess að sitja í valnefnd á vegum H til þess að velja skólastjóra við nýjan skóla hreppsins. Bréf ÞI hafi verið tekið fyrir við upphaf fundar TÞ, BI og annarra fulltrúa úr fræðslunefnd sem tóku viðtöl við umsækjendur þann 2. maí 2011. Á þeim fundi hafi BI tekið afstöðu til hæfis síns og hafi hann talið hugmyndir um meint vanhæfi sitt ekki eiga við rök að styðjast. Hann hafi ekki átt í neinum persónulegum deilum við ÞI og hafi hann hafnað því hann hafi tengst einhvers konar „rógsherferð“ gegn ÞI. Afgreiðsla þess máls sem um ræðir hafi verið í eðlilegum farvegi og hafi hann ekki haft neitt við ÞI að sakast vegna þess. Í þessu sambandi bendir H einnig á að ákvörðun um ráðningu hafi alfarið verið í höndum hreppsnefndar H og hafi fræðslunefndin eingöngu lagt til að SBA yrði ráðin til starfsins.

H mótmælir því að ÞI hafi ekki fengið í hendur greinargerð TÞ varðandi hann og SBA en með tölvupósti þann 24. mars 2011 hafi lögmanni hans verið sendur hluti úr umræddri greinargerð þar sem fjallað hafi verið um viðtöl við SBA og ÞI auk þess sem niðurlag greinargerðarinnar hafi jafnframt verið sent.

H telur að staðið hafi verið rétt og með lögmætum hætti að ráðningu í stöðu skólastjóra hins sameinaða skóla og að öll málsmeðferð og ákvarðanataka hafi miðað að því að ráða hæfasta umsækjandann til að gegna stöðunni.

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

1.         Ráðuneytinu ber að eigin frumkvæði að kanna hvort kæra hafi borist innan kærufrests. Eins og áður segir er framkomin kæra sett fram á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 þar sem segir að ráðuneytið skuli úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunni að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerði þó eigi rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Ekki er í sveitarstjórnarlögum kveðið á um sérstakan kærufrest en ráðuneytið hefur í fyrri úrskurðum sínum litið svo á að um kærufrest gildi ákvæði 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiðir að kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæli á annan veg. Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að berist kæra að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. kemur svo fram að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Kæra barst ráðuneytinu þann 19. ágúst 2011, en bréf sveitarstjóra til ÞI þar sem honum var tilkynnt að hann yrði ekki ráðinn í stöðu skólastjóra var dags. 10. maí 2011. ÞI hefur lagt fram gögn sem styðja þá staðhæfingu hans að hann hafi ekki móttekið fyrrgreint bréf sveitarstjóra fyrr en 23. júní 2011. Þá liggur einnig fyrir að í fyrrgreindu bréfi sveitarstjóra til ÞI er hvorki leiðbeint um rétt til rökstuðnings vegna ákvörðunarinnar né um kærheimild, sbr. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, en slíkt kann að teljast afsakanleg ástæða í skilningi 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, sem heimilar að kæra verði tekin til meðferðar þó að hún berist að loknum hinum almenna þriggja mánaða kærufresti (sjá til hliðsjónar Páll Hreinsson, Stjórnsýslulögin – skýringarrit, 1994, bls. 272).

Á grundvelli framangreinds telur ráðuneytið að ekki sé tilefni til þess að vísa málinu frá og því beri að kveða upp úrskurð í málinu. 

2.         Í kæru og andmælum ÞI er oftsinnis vikið að því að sameining leik- og grunnskóla Húnavatnshrepps í eina stofnun hafi verið liður í því að koma honum frá sem skólastjóra grunnskólans. Af því tilefni telur ráðuneytið rétt að taka fram að kæra ÞI lýtur ekki að því hvernig staðið var að sameiningu skólanna og uppsögn ÞI sem skólastjóra Húnavallaskóla og þar af leiðandi tekur umfjöllun ráðuneytisins ekki til þeirra atriða heldur einungis til þess hvernig staðið var að ráðningu nýs skólastjóra sameinaðs leik- og grunnskóla Húnavatnshrepps.

Það hefur verið talin meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti að við veitingu opinberra starfa skuli leitast við að velja hæfasta umsækjandann um starf á grundvelli þeirra sjónarmiða sem handhafi veitingarvalds ákveður að byggja ákvörðun sína á. Þegar ekki er að finna í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum leiðbeiningar um hvaða hæfniskröfur umsækjandi um starf skuli uppfylla er almennt talið að meginreglan sé sú að viðkomandi stjórnvald ákveði á hvaða sjónarmiðum það byggir slíka ákvörðun. Slík sjónarmið þurfa þó sem endranær að vera málefnaleg og lögmæt svo sem sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórnvald telur máli skipta (sjá t.d. álit umboðsmanns Alþingis í málum nr. 382/1991, nr. 2701/1999, nr. 2793/1999, nr. 2862/1999). Þegar ekki er mælt fyrir um tiltekin hæfnisskilyrði í lögum eða öðrum reglum sem veitingarvaldshafi er bundinn af hefur hann því meira svigrúm en ella til að ákveða hvaða sjónarmiðum ákvörðun verður byggð á og hvert innbyrðis vægi þeirra skuli vera.

Í 10. og 12. gr laga nr. 87/2009 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er kveðið á um þau skilyrði sem viðkomandi þarf að uppfylla til þess að geta verið skólastjóri leikskóla og grunnskóla. Ákvæðin eru svohljóðandi:

10. gr. Ráðning skólastjóra í leikskólum.

Til þess að verða ráðinn leikskólastjóri eða aðstoðarleikskólastjóri við leikskóla skal umsækjandi hafa starfsheitið leikskólakennari og viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á leikskólastigi.

12. gr. Ráðning skólastjóra í grunnskólum.

Til þess að verða ráðinn skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri við grunnskóla skal umsækjandi hafa starfsheitið grunnskólakennari og viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu á grunnskólastigi.

Í auglýsingu um starf skólastjóra hins sameinaða skóla í Húnavatnshreppi kom m.a. fram að starfssvið skólastjóra væri:

,,Skipulagning og þróun nýrrar skólastofnunar.

Fagleg forysta á sviði kennslu og þróunar í skólastarfi.

Stjórnun og ábyrgð á rekstri skólans og gerð fjárhagsáætlunar.

Leiða samstarf nemenda, starfsmanna, foreldra og skólasamfélagsins í heild.“

Þá sagði í auglýsingunni að leitað væri ,,...að metnaðarfullum, hugmyndaríkum og framsýnum einstaklingi til að samþætta og leiða skólastarfið.“ Í auglýsingunni kom jafnframt fram að menntunar- og hæfniskröfur væru eftirfarandi:

,,Kennsluréttindi, og kennslureynsla á leik og/eða grunnskólastigi.

Framhaldsmenntun á sviði stjórnunar og /eða uppeldis- og kennslufræði æskileg.

Umsækjandi hafi sótt sér upplýsingar um nýjustu áherslur og leiðir í kennslu- og uppeldismálum.

Reynsla af stjórnun, rekstri og þróunarstarfi.

Framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum.

Skipulagshæfni og sjálfstæði í starfi.“

Í lögum nr. 87/2009 er aðeins sett skilyrði varðandi menntun skólastjórnenda. Að þeim skilyrðum fullnægðum er stjórnvaldi frjálst að ákveða á hvaða sjónarmiðum það byggir ákvörðun um ráðningu.  Ljóst er samkvæmt auglýsingunni sem vitnað er til hér að framan að Húnavatnshreppur kaus að leita eftir einstaklingi í starf skólastjóra sem byggi yfir ákveðnum tilgreindum eiginleikum. Ráðuneytið gerir ekki athugasemd við það enda verður að telja að viðkomandi ráðningarvaldshafi sé alla jafna í bestu aðstöðunni til þess að meta hvaða eiginleikum mikilvægast er að tilvonandi starfsmaður búi yfir. Hafa stjórnvöld því allnokkurt svigrúm við slíkt mat svo lengi sem það telst málefnalegt og byggist á lögmætum sjónarmiðum.

Að mati ráðuneytisins verður að telja það málefnalegt sjónarmið út af fyrir sig að velja umsækjanda eftir heildstætt mat og eftir atvikum að leggja áherslu á tiltekna þætti, svo sem ákveðna starfsreynslu eða persónulega eiginleika. Á hinn bóginn verður að líta svo á að við ráðningu í starf beri stjórnvaldi skylda til að tryggja að öll málsmeðferð og undirbúningur sé framkvæmd á forsvaranlegan hátt enda verður ekki talið að öðruvísi verði raunverulega upplýst um hver teljist hæfasti umsækjandinn að virtum þeim sjónarmiðum sem ákveðið er að leggja til grundvallar við ráðningu.

Í umsagnarbeiðni sinni til H dags. 5. september 2011, óskaði ráðuneytið sérstaklega eftir upplýsingum um ráðningarferlið og hvernig staðið hefði verið að ákvarðanatöku þar að lútandi, s.s. hver mat umsóknir og umsækjendur, annaðist starfsviðtöl, gerði tillögu um ráðningu og tók endanlega ákvörðun um hana auk upplýsinga sem komu fram munnlega og höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins, s.s. upplýsingar er komu fram í starfsviðtölum við umsækjendur og í umsögnum annarra aðila um þá. Minnti ráðuneytið á 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 í því sambandi en þar segir að við meðferð mála, þar sem taka á ákvörðun um rétt eða skyldu skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, beri stjórnvaldi að skrá upplýsingar um málsatvik sem því eru veittar munnlega ef þær hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins og þær er ekki að finna í öðrum gögnum þess. Við vinnslu málsins óskaði ráðuneytið svo einnig upplýsinga um hvaða gögn um umsækjendur H hefði haft undir höndum er hún tók endanlega ákvörðun um ráðninguna.

Af gögnum málsins verður ráðið að TÞ var ráðinn til aðstoðar fræðslunefndinni við val á umsækjendum. Þrír fulltrúar úr fræðslunefndinni ásamt TÞ tóku viðtöl við umsækjendur, en TÞ leiddi hópinn í viðræðunum. Þá var samþykkt að fela TÞ tiltekna þætti ráðningarferlisins, þ.e. að tala við meðmælendur og taka saman greinargerð um umsækjendur. Komst TÞ að þeirri meginniðurstöðu í greinargerð sinni að ÞI og SBA verði ,,...að meta nokkuð til jafns þó að bakgrunnur þeirra sé ólíkur. Bæði hafa þau mikla reynslu af kennslu og skólastjórnun,  Sigríður reynslu af skólastarfi leikskóla umfram Þorkel en menntunargrunnur Þorkels er hins vegar talsvert meiri en Sigríðar, þar á meðal menntun í stjórnun menntastofnana. Á hinn bóginn tilgreinir Sigríður fjölda námskeiða sem hún hefur sótt á starfsferli sínum og af umsögnum má ráða að Sigríður hafi umtalsverða samstarfshæfni.“

Stjórnvaldi er heimilt án sérstakrar lagaheimildar að leita sérfræðilegrar aðstoðar við ráðningu í opinbert starf kjósi það svo. Með hliðsjón af lögmæltu hlutverki stjórnvaldsins sem fer með ákvörðunarvald í málinu eru þó takmarkanir á því hversu langt er hægt að ganga í þeim efnum. Eru þar þrjú atriði sem skipta mestu máli. Í fyrsta lagi þurfa allar þær upplýsingar sem ætla verður að hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins að vera lagðar fyrir viðkomandi stjórnvald svo því sé unnt að ganga úr skugga um að tiltekin ákvörðun sé rétt. Þá ber stjórnvaldi í öðru lagi að tryggja að meðferð málsins sé þannig hagað hjá sérfræðingunum að réttarstaða málsaðila verði ekki lakari en mælt er fyrir um í stjórnsýslulögum og öðrum lögum. Í þriðja lagi verður að gæta þess að allar ákvarðanir sem teknar eru við vinnslu málsins og geta haft grundvallarþýðingu fyrir stöðu umsækjanda, svo sem ákvarðanir sem miða að því að þrengja hóp umsækjenda, verða í ljósi lögmælts hlutverks stjórnvaldsins að vera teknar af því sjálfu (sjá álit umboðsmanns Alþingis frá 11. júlí 2005 í máli nr. 4217/2004). Með öðrum orðum hvílir áfram sú skylda á stjórnvaldinu að sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og að skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttar sé fylgt við meðferð þess. Verður að telja að í því augnamiði sé stjórnvaldi rétt að gera viðkomandi sérfræðingi grein fyrir þeim skyldum sem á stjórnvaldinu hvíla samkvæmt stjórnsýslulögum og öðrum lögum og gæta þess að réttur málsaðila sé virtur.

Í fundargerð H þann 9. maí 2011, kemur fram að oddviti hafi lagt fram tillögu þess efnis að H færi að tillögu fræðslunefndar frá 5. maí 2011 um að ráða SBA í stöðu skólastjóra við sameinaða skólastofnun á Húnavöllum frá og með næsta skólaári og tillagan hafi verið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Í fundargerð kemur fram að gert hafi verið 20 mínútna hlé til þess að fundarmenn gætu kynnt sér greinargerð TÞ. Ekki kemur þar hins vegar fram hvort hreppsnefndarmenn hafi haft umsóknir og önnur gögn um umsækjendur undir höndum eða haft tækifæri til þess að kynna sér þau. Ráðuneytið óskaði eftir því sérstaklega að upplýst væri af hálfu H hvaða gögn um umsækjendur H hefði haft undir höndum er hún tók endanlega ákvörðun um ráðninguna. Samkvæmt upplýsingum H þá lágu öll gögn fyrir hreppsnefnd þegar hún tók hina kærðu ákvörðun um ráðningu skólastjóra Húnavallaskóla, þ.e. bæði umsóknargögn þeirra sem velja átti á milli og greinargerð TÞ.

Sú skylda hvílir á stjórnvaldi, sem þarf að taka afstöðu til þess hver skuli ráðinn til að gegna opinberu starfi, að sjá til þess að málsatvik séu nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Í þessu felst m.a. að tryggja verður að viðhlítandi upplýsingar liggi fyrir um þau atriði sem stjórnvaldið telur að eigi að hafa þýðingu við samanburð milli hæfra umsækjenda. Ekki er þannig nóg að sérfræðingur sem fenginn hefur verið til aðstoðar afli og meti gögn um umsækjendur heldur þarf stjórnvaldið sjálft að hafa gögnin undir höndum. Ekki verður séð hvernig stjórnvald getur að öðrum kosti fullyrt að ákvörðun sé rétt og í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og málsmeðferð í samræmi við aðrar réttarreglur stjórnsýsluréttar sem við kunna að eiga.

Ráðuneytið telur í ljós leitt að öll gögn málsins hafi verið til staðar þegar H tók hina kærðu ákvörðun og verður því ekki komist að annarri niðurstöðu en að hreppsnefnd hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

3.         Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að TÞ leitaði til meðmælenda umsækjanda og kemur fram að umsögn a.m.k. annars meðmælanda ÞI hafi að nokkru leyti verið neikvæð í hans garð.

Í 13. gr. stjórnsýslulaga segir að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun í því er tekin enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í athugasemdum við IV. kafla laganna segir að í reglunni felist að aðili máls skuli eiga þess kost að tryggja réttindi sín og hagsmuni með því að kynna sér gögn máls og málsástæður er ákvörðun mun byggjast á, leiðrétta framkomnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli hans. Kemur þar enn fremur fram að andmælareglan eigi ekki aðeins að tryggja hagsmuni aðila máls heldur sé tilgangur hennar einnig að stuðla að því að mál verði betur upplýst. Í athugasemdum við ákvæði það í frumvarpi til stjórnsýslulaga er síðar varð að 13. gr. laganna segir síðan orðrétt:

„Þegar aðili máls hefur sótt um tiltekin réttindi eða fyrirgreiðslu hjá stjórnvöldum og fyrir liggur afstaða hans í gögnum máls þarf almennt ekki að veita honum frekara færi á að tjá sig um málsefni eins og fyrr segir. Þegar aðila er hins vegar ókunnugt um að ný gögn og upplýsingar hafa bæst við í máli hans og telja verður að upplýsingarnar séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins er almennt óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær.“

Verður því að telja að handhafa ráðningarvalds beri almennt að gefa umsækjanda um opinbert starf kost á því að kynna sér nýjar upplýsingar sem aflað hefur verið og hafa verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins og eru honum í óhag (sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2787/1999). Skiptir í því sambandi ekki máli þó að umsækjandi um opinbert starf hafi sjálfur bent á tiltekna umsagnaraðila heldur fyrst og fremst hvort í slíkum umsögnum komi fram upplýsingar sem teljast, eins og atvikum er háttað, nýjar og umsækjandanum í óhag enda sé einnig fullnægt því skilyrði að þær hafi verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins (sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5466/2008).

Ráðuneytið telur ljóst að þær upplýsingar sem fram komu hjá umsagnaraðilum hafi haft þýðingu við val á umsækjanda í því máli sem hér er til umfjöllunar enda segir TÞ í niðurstöðu sinni að „...af umsögnum má ráða að Sigríður hafi umtalsverða samstarfshæfni.“ Verður því ekki annað séð en að umsagnir umsagnaraðila hafi verið þáttur í heildarmati á umsækjendum. Þannig er ljóst af gögnum málsins að fræðslunefnd horfði til umsagna við mat á hæfni í mannlegum samskiptum þegar hún mælti með því við H að SBA yrði ráðin í starfið. Þá segir jafnframt í umsögn H að varðandi kröfur um hæfni í mannlegum samskiptum og um skipulagshæfni og sjálfstæði í starfi hafi eðli málsins samkvæmt einkum verið litið til viðtala við umsækjendur og umsagna meðmælenda

Í ljósi framangreinds telur ráðuneytið að þær upplýsingar sem aflað var hjá umsagnaraðilum kunni að hafa haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins og þar af leiðandi bar að gefa ÞI færi á að tjá sig um þær upplýsingar sem þar komu fram og voru honum í óhag. Er því ljóst að undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar var ekki í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga að þessu leyti. Rétt er að taka fram að ráðuneytið telur ekki hafa sérstaka þýðingu í því sambandi við hvern var rætt í hinni óformlegu könnun enda verður að telja að framangreind skylda sé fyrir hendi óháð því hvaðan slík neikvæð umsögn kemur.

4.         Um hæfi sveitarstjórnarmanna og annarra þeirra er starfa við stjórnsýslu sveitarfélaga er fjallað í 1. mgr. 19. gr. eldri sveitarstjórnarlaga, en þar segir:

„Sveitarstjórnarmanni ber að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt má ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af.“

Í ákvæðinu felst að sérhver sveitarstjórnarmaður er vanhæfur við meðferð og afgreiðslu máls svo framarlega sem vanhæfisástæður séu fyrir hendi. Ljóst er að hugtakið mál verður í þessu sambandi skýrt svo að með því sé ekki eingöngu vísað til mála sem lokið verður af hálfu sveitarstjórnar með ákvörðun um réttindi eða skyldu manna, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, heldur ber að skilja það í samræmi við önnur ákvæði sveitarstjórnarlaga, sbr. 16. gr. og 2. mgr. 20. gr., þar sem hugtakið vísar til þeirra málefna sem tekin hafa verið á dagskrá sveitarstjórnarfundar. Fær fyrrgreindur skilningur stoð í álitum umboðsmanns Alþingis nr. 4572/2005 og 3521/2002.

Samkvæmt hinni matskenndu hæfisreglu í 1. mgr. 19. gr. ber sveitarstjórnarmanni að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Til þess að sveitarstjórnar-maður teljist vanhæfur á grundvelli fyrrgreindrar reglu hefur verið talið að hann verði að hafa einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins auk þess sem eðli og vægi hagsmunanna verður að vera þess háttar að almennt verði talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið geti haft áhrif á ákvörðunina. Þannig þarf að meta hversu verulegir hagsmunirnir eru og hversu náið þeir tengjast viðkomandi og úrlausnarefni málsins og hvort þátttaka hans í afgreiðslu máls geti valdið efasemdum út á við. Þá verða hagsmunirnir að vera sérstakir og/eða verulegir samanborið við hagsmuni annarra íbúa sveitarfélagsins, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2110/1997. 

ÞI dregur í efa hæfi BI til að taka þátt í mati fræðslunefndar á hæfasta umsækjanda um stöðu skólastjóra Húnavallaskóla, þar sem, að sögn ÞI, BI búi yfir óvild í hans garð. Til þess að óvinátta geti valdið vanhæfi þá verður að vera um að ræða einhverjar sannanlegar hlutlægar ástæður sem almennt verða taldar til þess fallnar að draga megi óhlutdrægni starfsmanns í efa. Órökstudd staðhæfing aðila máls um að viðkomandi sé sér fjandsamlegur nægir því ekki, sbr. Páll Hreinsson, Stjórnsýslulögin – skýringarrit, 1994, bls. 73.

Ráðuneytið telur að ÞI hafi hvorki sýnt fram á að BI hefði einstaklegra hagsmuna að gæta af því að ÞI yrði ekki valinn hæfasti umsækjandinn af fræðslunefnd né að þeir hagsmunir BI væru fyrir hendi sem leitt gætu til þess að hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hefðu áhrif á ákvarðanatöku hans í þessu máli. Þá telur ráðuneytið einnig að staðhæfingar ÞI um óvild BI í hans garð séu ekki studdar þeim rökum að unnt sé að fallast á það með honum að BI hafi verið vanhæfur til þess að taka þátt í mati fræðslunefndar á honum sem umsækjanda um stöðu skólastjóra Húnavallaskóla.

Með vísan til þess sem að framan er rakið um að undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga er það mat ráðuneytisins að svo verulegir annmarkar hafi verið á undirbúningi og málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að óhjákvæmilegt sé að lýsa hana ólögmæta af þeim sökum. Með tilliti til þess er starfið hlaut verður hin kærða ákvörðun þó ekki felld úr gildi.

Úrskurðarorð

Ákvörðun hreppsnefndar Húnavatnshrepps, dags. 9. maí 2011, um ráðningu í starf skólastjóra Húnavallaskóla er ólögmæt.

Fyrir hönd ráðherra

Bryndís Helgadóttir                                                                                                                                   Hjördís Stefánsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta